Skörp skil - mikil úrkoma og leysing?

Þeir sem hafa fylgst með veðri í Evrópu undanfarna daga hafa vafalítið veitt athygli miklum strók sem borið hefur sand og hlýtt loft sunnan frá Afríku norður um Evrópu. Þar hefur nú byggst upp feiknaöflug hlý hæð og hefur hún orðið til þess að loft úr suðri sækir nú hingað til lands. Þótt í meginatriðum sé það ekki frá Afríku komið gera spár samt ráð fyrir því að ryk nái yfir Austurland - mjög hátt í lofti síðdegis á laugardag. 

Hæðin er óvenjuleg - hugsanlegt að marsþrýstimet Danmerkur sem staðið hefur af sér alla ásókn síðan 1880 falli. Þá mældist þrýstingur að sögn heimildamanna hungurdiska 1049,4 hPa, en gæti farið í 1050 hPa í nótt eða í fyrramálið.

Síðdegis hefur aðeins slaknað - rætist spáin á kortinu hér að neðan.

w-blogg180322a

Yfirlitskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 á morgun sýnir aðalatriðin. Hæðin mikla er nærri Danmörku - mjög hlýtt loft streymir til norðurs fyrir vestan hana - allt til Norður-Noregs. Við Ísland er lægð - ekki mjög djúp - en vegna þess að hæðin er svona mikil er mikill vindstrengur austan hennar allt vestur að skörpum skilum sem liggja yfir landinu. 

Þessi skil hafa verið í spánum í nokkra daga - en þar til í gær voru þær allar sammála um að þau kæmust aldrei inn á landið - hlýindin færu alveg hjá fyrir suðaustan land og úrkoma yrði einskorðuð við landið suðaustanvert. Síðan var það í gær að spárnar fóru að fara með skilin vestar og vestar. Svo virðist sem ekki hafi enn tekist að negla nákvæmlega niður hversu vestarlega skilin - og þar með úrkoman - úrkomutegund og ákefð - ásamt vindátt og vindstyrk raðast á landið. 

Loftið er mjög stöðugt - ýtir undir bæði skila- og fjallaþátt úrkomunnar. Fjallaþáttarins gætir langmest austan skilanna í hlýrri sunnanáttinni - en úrkoma er einnig umtalsverð í skilunum sjálfum og undir þeim að vestanverðu. Þar getur úrkoman orðið snjór - en annars rigning. 

Öfgaúrkomuvísar evrópureiknimiðstöðvarinnar eru háir á morgun, laugardag - sérstaklega yfir hálendinu og harmonie-reiknilíkanið sýnir líka nokkuð óvenjulega stöðu. Myndasafnið hér að neðan sýnir nokkur atriði. - Myndin skýrist talsvert sé hún stækkuð - en aðalatriðin eru ljós jafnvel í lítilli upplausn vegna þess hversu munur milli landshluta er mikill.

w-blogg180322b

Efst til vinstri má sjá breytingu í vatnsgildi snævar milli kl. 12 og 24 á laugardag (12 klukkustundir). Hún er jákvæð (bætir á snjó) á gráu svæðum myndarinnar, en neikvæð - snjór bráðnar - á bláu svæðunum. Tölur sýna að þá eiga um 9 cm að bætast við á Reykjanesi og allt upp í meir en 30 cm vestur í Dalasýslu. Aftur á móti á mikið að leysa á Suðurlandsundirlendinu öllu. 

Efst til hægri er síðan uppsöfnum tveggja sólarhringa úrkoma, frá hádegi í dag, föstudag, fram til hádegis á sunnudag. Mest af úrkomunni á reyndar að falla á laugardeginum. Hæsta talan, yfir 500 mm er á Eyjafjallajökli og 300 til 400 mm á stórum svæðum á Vatnajökli og þar í kring. Efst á jöklunum fellur þetta sem snjór - (allt það því 2 metrar á 12 klst á Mýrdalsjökli). Hvort þessar tölur raungerast er auðvitað öldungis óvíst.

Kortið neðst til vinstri sýnir „afrennsli“ - hér í 36 klst. Það er samsett úr rigningarhlut úrkomunnar og leysingunni. Þar eru tölur líka mjög háar. Hæsta talan er í Þórsmörk, rúmlega 300 mm, en einnig mjög mikið á hálendisbrúninni ofan Suðurlandsundirlendisins, allt að 100 mm. Við sjáum líka að einhver hluti úrkomunnar á snjókomusvæðinu verður í fljótandi formi (að mati líkansins) - sennilega þá blaut slydda. Boðar þá krapaelg - eins og hann er nú skemmtilegur eða hitt þó heldur - en hann bindur þó afrennslið og dregur úr líkum á miklum vatnavöxtum. 

Kortið neðst til hægri sýnir hitaspá sem gildir kl.16 síðdegis á laugardag. Vel sést hversu skörp skilin eru í nágrenni höfuðborgarinnar. Óvissa í legu þeirra er þó umtalsverð eins og kom fram hér að ofan. Hiti fer trúlega í tveggja stafa tölu víða norðan- og austanlands - en verður nærri frostmarki vestan skilanna - lengst af. 

w-blogg180322c

Síðasta mynd þessa pistils sýnir síðan vind- og mættishitasnið um landið þvert, frá vestri (til vinstri) til austurs (til hægri) og gildir kl. 17 síðdegis á morgun, laugardag. Hes heimskautarastarinnar liggur niður undir austanvert landið, vindhraði í 4 km hæð er um 50 m/s og fárviðrisstyrkur (brúnt) nær alveg niður undir hæstu fjöll - kannski neðar þar sem þannig hagar til. Rétt austan við 22 gráður vestur dettur vindur alveg niður, er nær enginn yfir norðanverðu Snæfellsnesi - og hæg norðanátt er þar útifyrir.

Við skulum líka taka eftir miklum halla á jafnmættishitalínunum - þar sjáum við hitamuninn þvert í gegnum skilin. 

Skilin verða í sinni vestustu stöðu síðdegis á morgun, laugardag. Síðan fara þau aftur til austurs og verða komin austur fyrir land um hádegi á sunnudag. Önnur skil - einnig skörp eiga síðan að fara yfir land á mánudag. 

Þess má geta að angi úr þessu sama kerfi á að valda gríðarlegri úrkomu í Norður-Noregi á laugardag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband