Hitahógvær mars á síðari árum

Það hefur komið gömlum veðurnördum nokkuð á óvart hvað mars hefur verið hógvær á hitaöfgar síðustu árin - þó oft hafi hins vegar blásið nokkuð. Í barns- og unglingsminningu var mars landnyrðingsnæðingamánuður hinn mesti - eða þá í undantekningartilvikum vorboði (raunar þá oftar en ekki með falsfréttir). 

w-blogg030322a

Línuritið sýnir ágiskaðan landsmeðalhita í mars - síðustu 200 árin eða svo. Ekki eru reikningar þó nákvæmir lengi framan af. Það hefur hlýnað heil ósköp í mars frá 19.öld - þrátt fyrir allgóðan hlýindakafla um miðja þá öld. Á hlýindaskeiði 20. aldar komu líka margir mjög hlýir marsmánuðir - en líka allmargir töluvert kaldir. Enginn verulega kaldur mars hefur sýnt sig frá 1979 að telja og enginn kaldur frá því rétt eftir síðustu aldamót. 

En það hefur líka verið skortur á mjög hlýjum marsmánuðum. Það var hlýtt í mars 2012 (en síðan eru - flestum að óvörum - liðin 10 ár). Síðan var mjög hlýtt í mars 2003 og 2004 - en þá hafði lítið borið á hlýjum marsmánuðum í 30 ár - allt frá þeim ofurhlýja 1974. Á hlýskeiðinu áðurnefnda voru hins vegar hátt í 10 marsmánuðir svo hlýir að við höfum ekki séð slíkt næstliðinn áratug (en líka fjöldi kaldra). 

Hvenær skiptir svo um? Engin ástæða er til að halda að hógværð síðasta áratugar sé eins konar varanlegt ástand - það hefur bara ekki hitt í - mikil vindáttavik hefur „skort“. Því það er eins með mars og við minntumst á með febrúar á dögunum að „skýra“ má meðalhita mánaðarins með einföldum stikum vindátta í háloftunum. 

w-blogg030322c

Tíðni sunnanátta og hæð 500 hPa-flatarins ráða meiru en styrkur vestanáttanna. Lárétti ásinn sýnir ágiskaðan hita, en sá lóðrétti þann sem við höfum mælt. Samræmið er nánast undragott (fylgnistuðull 0,88). Hér eru háloftavísar úr evrópsku endurgreiningunni notaðir. Ritstjórinn hefur líka reiknað sams konar samband fyrir bandarísku greininguna. Efnislega munar engu (fylgnistuðull sá sami) - en þó er nokkur munur á giski í einstökum marsmánuðum, sérstaklega fyrir upphaf háloftaathugana - er við slíku að búast. Svo er líka nokkur óvissa í reikningi á landsmeðalhitanum. 

Það er kaldast neðst til vinstri á myndinni - þar er ekki nokkurn nýlegan marsmánuð að finna - og svipað má segja um hlýindin efst til hægri - við borð liggur að hlýjasti mars þessarar aldar (2004) liggi inni í þéttu skýi með öðrum - 1929 og 1964 langt þar fyrir ofan. 

Við megum taka eftir því að nýlegir mánuðir eru fleiri ofan aðfallslínunnar heldur en neðan hennar. Þetta bendir til almennrar hlýnunar - einhvers sem þessi einfalda tölfræðiaðferð nær ekki til. Norðanáttir eru t.d. orðnar töluvert hlýrri heldur en lengst af hefur verið. 

Nú ber svo við að evrópureiknimiðstöðin spáir hita yfir meðallagi næstu vikur - við getum að sjálfsögðu ekki treyst því að rétt reynist. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 49
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 1970
  • Frá upphafi: 2412634

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 1723
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband