Enn af órólegri stöðu

Spurt var hvort óvenjuvindasamt hafi verið það sem af er janúarmánuði. Eins og venjulega fer svarið eftir því hversu kröfuharður sá sem svarar er á það hvað telst óvenjulegt og hvað ekki. Meðalvindhraði hefur verið í meira lagi fyrstu 24 daga mánaðarins, reiknast 7,7 m/s í byggðum landsins. Það er að vísu minna en í hitteðfyrra (2020) þegar meðalvindhraði sömu daga var 8,5 m/s, en það var líka það mesta á öldinni - og var þá sá mesti þessa sömu daga frá 1975 að telja. Vindhraði nú er sá næstmesti þessa daga á öldinni, en á því tímabili sem við getum auðveldlega reiknað (aftur til 1949) var hann meiri en nú 1998, 1995, 1994, 1991, 1983, 1975, 1969 og 1952. Við skulum þó hafa í huga að nokkur óvissa fylgir meðaltölum sem þessum. 

Meðalvindhraði og illviðrafjöldi haldast nokkuð í hendur - og teljum við aðeins þau tilvik þegar vindhraði er meiri en 20 m/s - og berum saman við önnur ár - er útkoman svipuð í keppnisröðinni, miðað við sömu daga (1. til 24. janúar) erum við að upplifa þá næststormasömustu á öldinni - en samt talsvert á eftir 2020.

En mánuðurinn er alls ekki búinn, heil vika, 7 dagar, eftir og illviðrin ekki búin. Þegar þetta er skrifað stefnir snörp lægð til landsins. Hún er ekki sérlega djúp, en nokkuð kröpp og spáð er töluverðu illviðri að minnsta kosti á hluta landsins á morgun (þriðjudag). Við látum Veðurstofuna auðvitað alveg um aðvaranir, tímasetningar og smáatriði öll - hungurdiskar eru ekki spámiðill. 

w-blogg240122a

Megi trúa spám verður lægðin einna snörpust rétt fyrir hádegi á morgun - evrópureiknmiðstöðin kemur henni fyrir á Breiðafirði um kl.9 á nokkuð hraðri leið til austurs eða austnorðausturs. Landsynningurinn á undan lægðinni kemur strax í kvöld og nótt - verður að sögn ekki mjög hvass - en hins vegar gæti vestanáttin í kjölfar lægðarinnar orðið það og rétt að gefa henni gaum. Litirnir á þessu korti sýna þrýstibrigði - þriggja stunda breytingu á sjávarmálsþrýstingi. Risið á Grænlandshafi sprengir litakvarðann - þar á loftvog að rísa um meir en 16 hPa milli kl. 6 og 9. 

Eftir þetta fer lægðin að grynnast - en sennilega ekki nægilega hratt til þess að við sleppum við storminn. Það er svo annað mál að norðvestanátt á erfitt uppdráttar við Faxaflóa - sérstaklega hann norðanverðan og verður oftast að þvervestri. Fólk á vegum úti, sjófarendur og aðrir sem eru nærri sjó ættu að huga vel að og fylgjast með veðri og spám. 

Svo er gert ráð fyrir því að einhvers konar skak haldi áfram svo langt sem séð verður. Ívið kaldara í fáeina daga - þá gæti eitthvað snjóað - en síðan fljótlega aftur hvass og blautur. 

Nóg að gera á vaktinni - sem og hjá veðurnördum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti,
Hef ekki fundið skilgreiningu á "þvervestur", "þvervestan" sem kemur fyrir í pistli þínum. Gætirðu skýrt?

kv. Sverrir

Sverrir Konráðsson (IP-tala skráð) 24.1.2022 kl. 21:49

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Sverrir - þvervestur - nánast samheiti fyrir hávestur. Leit að þvervestan á timarit.is skilar 15 dæmum - elsta frá 1889 - yngsta frá 1992. Reyndar algengast í Skagafirði og Eyjafirði þar sem vestanáttin er þvert á megindalstefnur. 

Trausti Jónsson, 24.1.2022 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 20
  • Sl. sólarhring: 221
  • Sl. viku: 2318
  • Frá upphafi: 2413982

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 2133
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband