Landafræði lofthjúpsins - meðalhiti og breiddarstig

Fyrir 11 árum (19.nóvember 2010) birtist hér á hungurdiskum stuttur pistill sem bar yfirskriftina „Hlýtt er á Íslandi - miðað við landfræðilega breidd“. Þar segir m.a.: „Flestir vita að hér á landi er mjög hlýtt miðað við það að landið er á 65° norðlægrar breiddar, rétt við heimskautsbauginn nyrðri. Ein ástæðan er sú að landið er umkringt sjó sem geymir í sér varma sumarsins og mildar veturinn“. Fleiri ástæður koma við sögu - t.d. móta bæði Grænland og fjarlægir fjallgarðar tíðni vindátta - suðlægar áttir eru mun tíðari hér í háloftunum heldur en norðlægar (þó suðaustan-, austan- og norðaustanáttir séu algengastar við jörð). Í pistlinum var einnig að finna lítillega einfaldari gerð myndarinnar hér að neðan.

w-blogg261021b

Á láréttum ás myndarinnar má sjá breiddarstig, 20 gráður norður eru lengst til vinstri, en norðurpóllinn lengst til hægri. Lóðrétti ásinn sýnir ársmeðalhita. Svörtu punktarnir sýna ársmeðalhita á 87 veðurstöðvum víða um norðurhvel jarðar. Gögnin eru úr meðaltalssafni Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) fyrir tímabilið 1961-1990. Þó hlýnað hafi síðan breytist halli línunnar nánast ekki neitt og hreyfing hennar upp á við svo lítil að varla sæist. Við tökum strax eftir því að mjög gott samband er á milli breiddarstigs stöðvanna og ársmeðalhitans. Ef við reiknum bestu línu gegnum punktasafnið kemur í ljós að hiti fellur um 0,7 stig á hvert breiddarstig norður á bóginn.

Það má taka eftir því að á köldustu stöðinni er ársmeðalhitinn nærri mínus 20 stigum, ívið kaldara en hér er talið hafa verið á ísöld. Á þeirri hlýjustu er meðalhitinn um 27°C. Spönnin er um 47 stig. Hver skyldi hafa verið halli línunnar á ísöld? - Breytist hann eitthvað í framtíðinni vegna enn ákafari hlýnunar?

Punktarnir ofan línunnar eru staðir þar sem hlýrra er en breiddarstigið eitt segir til um. Reykjavík er meðal þeirra. Sjá má að ársmeðalhitinn er um 6°C hærri en vænta má og svipaður og er að jafnaði á 55°N. Haf - og landfræðilegar aðstæður aðrar valda þessum mun eins og áður sagði.

En höldum nú aðeins áfram með smjörið og lítum til austurs og vesturs - innan bilsins sem lóðréttu línurnar á myndinni marka, 59 til 66 gráður norðurbreiddar.

w-blogg261021

Hádegisbaugur Greenwich er merktur sem núll (0°), austurlengd er jákvæð á myndinni - allt austur að 180°A og vesturlengd neikvæð vestur á 180°V. Allra austasti hluti Síberíu er handan 180° baugsins „vestast“ á þessari mynd. Lóðrétti ásinn sýnir meðalhita. 

En hér eru mislitar punktadreifar, sú græna táknar ársmeðalhitann - sú bláa er janúarhiti, en sú rauða júlíhiti. Ársmeðalhiti er óvíða hærri á þessu breiddarbili (59 til 66°N) heldur en hér á landi - Noregsströnd hefur örlítið betur. 

Í janúar er munur á meginlöndunum og hafi enn meiri, hiti hér á landi er ekki fjarri frostmarki við ströndina, en frostið meira en -40 stig að meðaltali austur í Síberíu og í kringum -30 stig á okkar breiddarstigi vestur í Kanada. Mun hlýrra er í janúar við norðanvert Atlantshaf heldur en á sama breiddarstigi við Kyrrahaf - enda er oft hafís í Beringshafi vestan Alaska og norðan Aljúteyja. 

Í júlímánuði ber svo við að óvíða er kaldara á sama breiddarstigi heldur en hér - á Grænlandi reyndar og austast í Kanada - og við Beringshaf - en annars staðar er hlýrra í júlí heldur en hér. 

w-blogg261021c

Myndin sýnir samband breiddarstigs og meðalhita júlímánaðar. Hér fellur hiti um um það bil 0,5 stig á hvert breiddarstig - heldur minna en í ársmeðaltalinu. Þó Ísland (hér Reykjavík) sé með kaldari stöðum á sama breiddarstigi er hiti hér samt ekki langt frá því sem almennt samband segir - punkturinn liggur mjög nærri aðfallslínunni. Við megum taka eftir því að flestar stöðvar norðan við 70. breiddarstig eru marktækt neðan hennar - bein áhrif frá þeirri vinnu sem fer í að bræða hafísinn í Íshafinu og vetrarsnjó á landi. Haldi hnattræn hlýnun sínu striki munu þeir staðir sem nú eru á jaðri hafíssvæðanna hlýna mest - færast nær aðfallslínunni - og sömuleiðis þeir staðir þar sem vetrarsnjór minnkar. Jan Mayen er t.d. hér meir en 5 stigum neðan aðfallslínunnar - Ammasalik á Grænlandi sömuleiðis. 

Sunnar er slæðingur af punktum langt neðan aðfallslínunnar - þar er talsvert kaldara heldur en breiddarstigið eitt greinir frá. Þar eru t.d. bæði Madeira og Kanaríeyjar. Á þessum eyjum er stöðug norðan- og norðaustanátt á sumrin og veldur því að kaldur sjór vellur upp undan ströndum meginlandanna og umlykur eyjarnar. Þannig hagar til víðar. Hlýjastar á línuritinu eru stöðvar við Persaflóa - og stöðvar á láglendum svæðum í Mið-Asíu eru líka langt ofan aðfallslínunnar. 

w-blogg261021d

Á janúarmyndinni er halli aðfallslínunnar 0,8 stig á breiddargráðu. Reykjavík er langt ofan línunnar - hér „ætti“ meðalhiti í janúar samkvæmt henni að vera um -15 stig. Janúarmeðalhiti í Reykjavík er svipaður og á 48. breiddarstigi aðfallslínunnar. Það eru stöðvar í Síberíu og Kanada sem lengst liggja neðan línunnar. 

Það er freistandi að halda áfram - reikna fleira og smjatta meira - en ritstjórinn lætur það ekki eftir sér að sinni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Fínt hvíla og geyma,á meðan geta ,fávísir, nýtt það helsta í partýi fjölskyldunnar.

Helga Kristjánsdóttir, 27.10.2021 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband