16.4.2021 | 13:50
Af árinu 1804
Árið 1804 var tiltölulega hagstætt. Engir samfelldir kulda- eða illviðrakaflar. Hlýtt var í febrúar og desember og talað um gæðatíð. Nokkuð hart var seint í mars og þó veður væru ekki ill um sumarið var suddasamt fyrir norðan og heyskapur gekk ekki vel framan af. Hafís var kennt um. Hann var talsverður fyrir landi. Giskað er á að meðalhiti í Reykjavík hafi verið 4,8 stig og 4,2 í Stykkishólmi. Hlýtt var í febrúar, en fremur kalt í mars. Svalt var framan af sumri, en hlýrra í ágúst og óvenjuhlýtt virðist hafa verið í desember.
Heldur lítið er um mælingar. Sveinn Pálsson var settur landlæknir um það bil hálft árið og mældi þá hita við Reykjavíkurskóla - væntanlega á Hólavöllum, en fyrstu mánuðina var einnig mælt í Kotmúla - hver gerði það er ekki læsilegt. Línuritið sýnir mælingar frá báðum stöðum og má sjá að vetrarmánuðina ber þeim vel saman, kuldaköst og hlýir kaflar samtímis eins og vera ber. Eykur það trú á mælingunum. Sveinn nefnir að hann hafi 12.mars flutt Reykjavíkurmælinn af austur- á suðurvegg - til að mæla hita í sól um miðjan dag skiljist athugasemd hans rétt. Þetta veldur villum í athugunum - við getum séð þær flestar á myndinni. Í júní var oftast annað hvort skýjað eða þá þoka - og því sólarlaust á mæli.
Hér að neðan eru helstu ritaðar heimildir um tíðarfar og veður á árinu tíundaðar. Þær eru óvenjurýrar. Ítarlegust er samantekt Brandstaðaannáls. Ekki mjög mikið að hafa hjá Espólin, en tíðavísur Jóns Hjaltalín og Þórarins í Múla mjög gagnlegar - eins og oft er. Jón Jónsson á Möðrufelli hélt veðurdagbók og dró saman oftast viku- og mánaðarlega. Mjög erfitt er hins vegar að lesa handrit hans - og ekki víst að þau brot sem hér birtast séu rétt eftir höfð. Þó góðar upplýsingar séu hjá Sveini Pálssyni um veður frá degi til dags eru atahugasemdir og samantektir öllu færri þetta ár en oftast annars. Trúlega voru miklar annir hjá honum.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Sama mild og stillt, mest sunnanátt hélst með þíðum og smáblotum, en litlum snjó á milli, fram til góu. Var síðast á þorra stöðug hlákuvika. Voru þá heiðar auðar. Sunnudag 1. í góu kom fönn, en brátt tók af með blotum og var hún nokkuð óstöðugri. 23.-25 mars gjörði norðanhríð og snjóaskorpu. Var þá farið að gefa fé. Aftur á skírdag 29. mars hríð mikil. Ís var nú enn með landi og frostamikið þennan tíma.
Brandsstaðaannáll [vor og sumar]:
Aldrei varð jarð- (s46) laust og góður bati kom 8. apríl. Eftir það var gott. Gróður kom með maí og heiðar snemma færar. Um fardaga frostasamt og þurrkar allt vorið. Lestir voru almennt aftur komnar fyrir fráfærur að vestan og fengu góð kaup. 19.-20. júní gerði stórt fráfærnahret svo ám var inni gefið. Eftir það héldust enn frost á nætur og þurrkar, svo grasbrestur varð mikill. Í 14. viku sumars tekið til að slá. Var þá skipt um veður með þoku, vætu og rigningum, þar með staklegu þerrileysi. 6. ágúst mesta rigning, svo jörð flóði mjög. ... 11, ágúst náðust töður fyrst inn, en 15.-18. kom góður þerrir. Var þá mikið af töðu ónýtt orðið til nytjar, en almenn fangageymsla var þó orsök til ónýtingar, því hægt var að flæsa ljá eða þunnt hey í flekkjum, svo vel mætti geyma í baggasæti og meðfram hirða. Ennþá var úrfella- og rosasamt til 31. ágúst, svo þerrikafli góður. Í miðjum september hirtu menn hey, þó illa þurrt.
Sveinn Pálsson getur um éljagang í Reykjavík 25.maí. Sláttur hófst í Kotmúla 19.júlí. Næturfrost gerði þar bæði 25. og 28.júlí - en við vitum ekki hvort það var aðeins á jörð. Tún voru síðast hirt á Kotmúla 14. og 15.ágúst. Alhvítt varð fyrst í byggð í Fljótshlíð þann 12.október.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Um jafndægur mikið hret og tvö nokkru síðar, en gott aukavikuna. Þaðan til nýárs besta vetrartíð. Jólafastan einstakleg: Aldrei kom snjókorn né skarpt frost, heldur hægar þíður og staðviðri. 30.-31. des, kom mikil vestanrigning. (s47)
Espólin segir ekki margt um árið 1804:
C. Kap. Landfarsótt gekk þá yfir, og dóu allmargir í henni, en nokkrir af harðrétti. (s 135). CII. Kap. var þá heyskapur góður og svo nýting sunnanlands, en meðallagi nyrðra, og betri en hið fyrra árið hafði verið. Veturinn eftir gjörði allgóðan. (s 137).
Reynt að komast fram úr dagbókum Jóns á Möðrufelli:
Janúar var yfir höfuð mikið staðviðrasamur og úrkomulítill en frost voru ærið hörð oft og tíðum. Febrúar eins gæða góður. Gjörði þá fyrstu hláku þann 11. Mars fyrra part sæmilegur, en þann síðari býsna harður, æði snjór kominn og mikill hafís. Grimmasta stórhríð á skírdag (29.mars). Apríl var með miklum kuldum sífelldum og frostum, nema eina viku, fullt af hafís fyrir utan. Maí segir Jón í meðallagi. Kalt fyrstu dagana, en síðan mildara. Þann 12. segir hann undangengna viku ei kalda og að gróðri fari nokkuð fram og þann 19. segir hann vikuna hafa verið kalda nema 3 daga, þann 26. segir hann frá rétt góðri viku. Síðan tók við öllu kaldari kafli, vikan sem endar 2.júní var æði andköld og sú sem endaði þann 9. sárlega köld. Þann 16. er betra, gæða góð og hlý vika og grasvexti fer fram og þann 23. segir hann frá rétt hlýrri viku og ei óhagkvæmri. Hafís sagður útifyrir. Júlí spillti þurrkleysi þó veður væru góð. Þann 22. segir hann frá æði þokusuddasamri, andsvalri og þurrklítilli viku. Svipað er þann 29., veðrátta að sönnu góð, ei mjög köld en óþurrkasöm. Svipað var í ágúst, þann 4. segir hann vikuna mikið hlýja, en ofur votsama og þar með óþæga fyrir heyverkun. Viku síðar er enn sára þurrkleysa og bág tíð að því leyti. Síðari hluti mánaðarins virðist hafa verið hagstæðari, meiri hlýindi og hagkvæm heyskapartíð. September var eitthvað skiptari en síðustu vikuna segir hann (29.) mikið hlýja að veðráttu en æði stormasama. Október telur hann yfir höfuð góðan að veðráttu þó æði skorpu hafi gert fyrri partinn. Nóvember allur gæða góður, snjólaust fyrst en svo kom fönn æðimikil á jörðu (sé rétt lesið).
Desember var ágætur að veðráttufari.
Úr tíðavísu Jóns Hjaltalíns yfir árið 1804
Bestu vetur sveitti síst
sveit með önnum hörðu
festi letur vottar víst
varla fönn um jörðu.
Einmánaðar reif upp röst,
réði kyrrðum enda,
meina hraður kulda köst
kunni firðum senda.
Frosti hætti uppheims örn
yl þá glæddist vænum
lofti bætti föl því fjörn
feldi klæddist grænum.
Miður sprottið frón var frítt
foldar langs við blakið
fiður dottið nær þó nýtt
náðist vangs óhrakið.
Veður bestu hér gaf haust
hríðir bágar sefast
gleður hesta nera naust
nógir hagar gefast.
Úr tíðavísum Þórarins í Múla:
Skjótt þá nýárs skein fram sól um skýja brautir
gaf oss einkar góðan vetur
að góu fram og jafnvel betur.
Fögnuðu menn að fá nú vetur fagra´ og milda
eftir hina áðurtöldu
er ákaft skepnur drápu´ og kvöldu.
Góe þótti geysi hörð í geði´ og fasi
storð um braust með storma vési
stundum æði kalt þó blési.
Vinda barði viðblinds kvinnu vængjum dreki
hríðir jóku hrelling kviku
hröktu´ og skóku´ um dymbilviku.
Grænlands norðan greypti landið grimmur ísa
alinn hörku ærinn klasi
áttar hafs í storma þrasi.
Eftir páska aftur stilltust áhlaups veður
himins urðu úr hörkum þíður
hagkvæmar á allar síður.
Sumars heilsun sárköld þótti' á sumum stöðum
varðist þó samt vonsku hríðum
vægar hörkur oft og tíðum.
Virðast mátti vorið þó með vægra móti
græna sáum gróður feiti
græða sig um túna reiti.
Grasvöxtur þó grannvaxinn á grund að lokum
hrjáðist mjög af súldi, svækjum
og sára köldum daggar lækjum.
Hafíss-stanglið hörkur jók og hríðar norðan
utan hverjum fyrir firði
fannar storðar yfir gyrði.
Volkuðust heyin víða hvar en vart til skaða
sumir blautum saman hlóðu
sjóðheit nærri bruna stóðu.
Haustið allt var hörku blandið hríðar flögrum
út að messu allr´heilagara
upp þá rann oss veðrið fagra.
Allt til nýárs æskilega entist tíðin
gladdist mjög við þetta þjóðin
þróast mundi vonar gróðinn.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1804. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:53 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 322
- Sl. sólarhring: 516
- Sl. viku: 2117
- Frá upphafi: 2413137
Annað
- Innlit í dag: 306
- Innlit sl. viku: 1906
- Gestir í dag: 304
- IP-tölur í dag: 302
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.