4.4.2021 | 22:01
Af árinu 1801
Tíð var erfið á árinu 1801. Veturinn var snjóþungur og jarðbönn mikil. Mars var illviðrasamur. Sumarið var mjög óþurrkasamt syðra, en nýting góð norðanlands og austan. Hitamælingar Sveins Pálssonar í Kotmúla eru þær einu sem vitað er um að hafi varðveist, en mælir hans brotnaði í maí og féllu mælingar niður eftir það. Hann getur þó sérlega kaldra og hlýrra daga. Við giskum á að ársmeðalhiti í Stykkishólmi hafi verið um 2,4 stig. Mars var mjög kaldur, og janúar og apríl einnig fremur kaldir, febrúar hlýrri.
Hér að neðan eru helstu heimildir um tíðarfar og veður á árinu. Ítarlegust er frásögn Minnisverðra tíðinda (nokkuð ruglingsleg þó á köflum), samantekt Brandstaðaannáls er einnig góð, en Espólin tyggur að mestu eftir Tíðindunum. Jón Jónsson á Möðrufelli og Sveinn Pálsson skráðu veður daglega auk þess að draga það saman viku- og mánaðarlega. Mjög erfitt er hins vegar að lesa þessi handrit - og ekki víst að þau brot sem hér birtast séu rétt eftir höfð.
Minnisverð tíðindi: (1801, s414-417) rekja tíðarfar ársins:
Vetrarfarið frá nýári 1801. mátti heita, eins og ég umgat bls. 417. víðast um landið allgott heita til miðgóu, en með þeim 11.mars lagðist vetrarríkið algjörlega að með ofsa kafalds-kyngjum og uppfrá því sífelldum ofviðrum, ísalögum og fjúkbyljum, allt til þess 13. apríl, svo varla mátti kafalds-hríða upprof kalla, eða gegnt bæja á milli, án lífsháska. Margan skaðræðis-byl , mátti þá telja hér og hvar um landið um seinni hluta marsmánaðar, þó eru hvað orðlagðastir þeir, sem tilféllu fyrrgreindan 11.mars og á góuþrælinn [23.mars]. Fyrra daginn fylltust allar Norðurlands og Vestfjarðahafnir, firðir og sjáarstrendur með grænlenskum hafís, sem loks umspennti allt landið norðanvert, jafnvel frá Barðastrandasýslu vestra allt suðaustur á Reyðarfjörð í Suður-Múlasýslu, langt fram á vor, allt undir Jónsmessu og sumstaðar lengur. Þá varð úti í geysilegu kafalds-áhlaupi fjársmali í Hítardal með 161 af rosknu fé, af hverju hér um 30 alls fundust með litlu lífi á 3ja degi, ásamt smalamanni tórandi. Um hann get ég framar þegar slysfarir nefni. Þá hrakti í sjóinn og fórust 40 fjár frá Hamraendum í Hraunhrepp í Mýrasýslu, á Svarfhóli þar misstust um 30 fjár, á Staðarhrauni 17, mestallt fé á Litla-Fjalli í Borgarhrepp, og nokkuð í Þverárhlíð, allt í sömu sýslu. Hvort heldur þessi sami kafaldsbylur, eða góuþrælsbylurinn, ellegar aðrir þar á milli, ellegar Allraheilagra-messu kastið þann sama vetur [haustið 1800], orsakað hefir hið mikla fjártjón, er varð á Vatnsnesi, á Torfalæk, á Hjaltabakka, en einkum í Vatnsdal á Haukagili (allt í Húnavatnssýslu) hvar allt sauðfé efnugs sauða-bónda Jóns Ísakssonar, að sögn hérum bil 200 fjár, eður fleira, varð úti, áfram hirðinum Sæmundi Guðmundssyni, efnilegum ungum manni giftum, er mér ekki tilnefnt; hann minnist ég síðar ásamt öðrum slysförum, en ef sauðkindunum er mælt, að einar 9 hafi lifandi fundist. Góuþrælsbylurinn varð víða um landið skaðvænn, en þó einkanlegast, á sjó, hvers ég síðar mun geta undir eins og slysfaranna.
Vorbati náttúrunnar kom ekki fyrr en að liðnum fardögum sunnan- og vestanlands, og þó var vorið sárkalt og gróðurlítið, en norðan- og austanlands kom hann ekki fyrr enn eftir Jónsmessu, þegar hafísinn var þar loksins viðskilinn. Vetrarfarið hafði í Múlasýslunum verið áþekkt því, sem sagt er um Norðurland, og varð því fyrir norðan og austan, hvar jarðbönn lengst af haldið hefðu við frá allraheilagramessu, stórfellir penings bæði á hestum og kúm, en þótt vægari enn sauðfénaðarins, af hverjum hr. Amtmaður Stephán Þórarinsson telur að þá hafi fallið í sínu amti hérum 50 þúsund fjár. Í Skagafjarðar-sýslu varð hrossafellirinn einna mestur, jafnvel í vornæðingunum 1801. En Norður-og Austurland þarf ekki til að taka í þessu tilliti, því fellirinn varð því nær eins stórkostlegur á sauðfé og hrossum víða um Suður- og Vesturland, þó vægur og lítill til margra dala, eins og á Norðurlandi. Nokkrar sveitir misstu alls ekkert, aðrar mikið og þannig reyndist það í Skaftafells- og Rangárvallasýslum, í efra parti Árnessýslu féll lítið, í öllum neðra eður fyrri hluta hennar stórmikið, eins og um Mosfellssveit og Kjalarnes, Borgarfjörð, Mýrar og allt Vesturland, þó féll þetta ár lítið í Strandasýslu, og Vestmannaeyjar kenndu ekki á fellinum. Köldu, næðingasömu og kafaldskastasömu vori 1801, fylgdi, að líkindum, lélegur og lítill gróður allvíða, þó náði hann um Norður- og Vesturland sumstaðar meðallagi, nýting heyja varð þar og betri, en á Suðurlandi og eystra víðast hvar aumur gróður, einkum á útengi, og nýting hálfu verri. ...
Þess gat ég, bls. 421, að Grænlandshafís hafi þann 11.mars 1801 fyllt upp Norðurland og Vestfjarðahafnir og firði. Af því hlutu margir í Bolungarvík þeirri ystu og helstu verstöðu við Ísafjarðardjúp ærinn baga. Þann 21.apríl eður mánudag síðastan í vetri 1800, rauk á mesta ofsaveður af norðri. Þá týndust 3 skip úr Staðarsveit nálægt Jökli, 2 þaðan hröktust, og öll önnur náðu báglega lendingu. Úr þeim þremur, sem týndust voru 2 áttæringar og 1 feræringur, og á þeim 22 manns, flestir úr Dalasýslu. Góuþrællinn hefur oftar en einu sinni á Suðurlandi orðið mannskæður sjófarendum og svo varð hann árið 1801. Fullgreinilega eru mér ekki tilkynnt hans skaða tilfelli, því set ég hér, hvað mér hefir eftir ýmsum um þau borist, nefnilega: að þá hafi 3 skip farist í Höfnum, með 15 manns á, bátur með tveimur mönnum í Garði, og annar með jafnmörgum á Strönd, allt í Gullbringusýslu. Þann 3.apríl drukknaði skip frá Keflavík undir Jökli nálægt Eyrarsveit, með 7 (önnur fregn telur 9) mönnum á, er ætluðu heim til sveita í Dala- og Snæfellsness-sýslum.
(1803, s108 ...) Seinni hluta sumars 1801 var á Suðurlandi sérdeilis votviðrasamur, svo heynýting varð mjög bág; annars var grasvöxtur hér um pláss, sem víðast um landið, í betra meðallagi. Í Norðurlandi þar á móti var allvíðast þurrari veðrátta þá áleið, en bæði grasvöxtur og nýting rétt góð. Um haustið voru bæði hér og á Suðurlandi mjög slæmar heimtur á fé af afréttum. Á Austfjörðum var hin besta og blíðasta sumartíð með sífeldu hægviðri, þurrkum og og hitum, sem að sönnu gjörðu góða nýting á grasi, en þarhjá skemmdu stórum hálend tún, er fyrir þá orsök sumstaðar skrælnuðu og brunnu til stórskemmda; urðu helst uppsveitir, einkum Fljótsdalshérað fyrir þessum skaða; Í Tungusveit hafði téð veðrátta betri afleiðingar, þar útengi spratt í betra lagi, og nýting var rétt góð. Á Vestfjörðum var víðast hvar sumarið allnotalegt og bærilegur heyskapur, en bágari var tíðin kringum Jökul vegna óþerra þegar áleið. Um haustið var í Barðastrandarsýslu eins og víðast hvar annarsstaðar, allbærileg veðrátta, þó nokkuð vindasöm og óstöðug, en um nýárs-leytið 1802 umbreyttist hún til kafalda og blota.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Viku fyrir jólaföstu hleypti bloti fönn í gadd, svo hestar voru innteknir í Svínadal, en mót austri í dölum, á Ásum og Þingi var snöp og næg jörð frá jólum fram yfir miðþorra. Um jólatímann blotar og einkum 3 vikur síðast í janúar, þess á milli frost mikil og köföld. Fór þá flatlendi i ófær svell, svo lítt varð beit notuð. Skepnur komust frá húsum aðeins á tilbúnum brautum. Með góu versnaði veður. Jörð þraut í flestum stöðum, og harðviðri börðu á gaddi, en ei blotar. [Öskudaginn] 18. febr. var hleypt út fé á Haukagili. Brast á bylur mikill. Hrakti og tapaðist þá um 200 fjár bónda Jóns Ísakssonar. 9 kindur náðust, (s37) en Sæmundur Guðmundsson, fyrirvinna og sonarsonur Jóns, varð úti fram á Skútaeyrum [í athugasemd útgefanda segir að Sæmundur hafi orðið úti 4. mars samkvæmt kirkjubók]. ... Á góu kom hafís og umkringdi landið frá Breiðafirði og að Reyðarfirði. Lá hann á fram yfir fardaga. 5 vikna skorpa varð hin harðasta, með hörkum og hríðum yfir allt land, en í Svínadal stóðu hross við gjöf 17 vikur. 3 vikur voru þau úti um miðjan vetur. ... skaði mikill í Bolungarvík á veiðarfærum, þá ísinn rak að 11. mars. (s39).
Espólín [vetur] (að miklu leyti endurtekning á texta Minnisverðra tíðinda):
Espólín: LXXXVI. Kap. Vetrarfar var allgott víða frá nýári til miðgóu, en hinn 11. dag mars lagðist að mikið vetrarríki með hríðum og stórviðrum, frostum og ísalögum; gjörði varla upprof til hins 13da apríl, svo að fært væri á milli bæja hættulaust; gjörði þá bylji marga skaðvæna, en þó má helst telja þann hinn 11. mars, og á góuþrælinn [23.mara]. Í hinum fyrra rak inn hafísa fyrir Norðurlandi öllu, og tóku frá Barðaströnd til Reyðarfjarðar austur, umhverfis land; varð þá úti smalamaður í Hítardal með 160 fjár, og fannst 30 af því á þriðja degi með litlu lífi, og maðurinn mjög skemmdur, svo að af honum voru sagaðar síðan hendur og fætur, gjörði það ólærður læknir, og þótti þeim sumum miður takast, er lærðir voru til þess. (s 115). Í byljum týndist einnig sauðfé að Vatnsnesi í Húnavatnsþingi, að Torfalæk og Hjaltabakka, en að Haukagili í Vatnsdal, ..., varð tjón mikið á öskudaginn; þar var sauðamaður Sæmundur, hann las húslestur um daginn, og er honum lauk, hljóp hann út, því að brast á hríðin; var forráðsveður hið mesta, fann hann 7 eða 8 kindur, og hafði látið inn; en eftir á föstudaginn fannst Sæmundur fram á Skútueyrum, nær hálfri þingmannaleið frá Haukagili, frosinn við svell niður, með litlu lífsmarki, og andaðist síðan, er hann var fluttur heim, en féð fannst aldrei, nema ein eða tvær kindur um vorið, og týndust 200. (s 115). Það varð enn á góuþrælinn, at fórust 3 skip í Höfnum með 15 mönnum, bátur með tveimur mönnum í Garði, og annar á Strönd, en hinn þriðja apríl týndist skip fyrir Keflavík vestra, með 8 mönnum eða 9, er voru á heimleið til Dala. (s 115).
Brandsstaðaannáll [vor]:
Fyrsta sunnudag eftir páska, 12. apríl, kom góður bati, þann 18. harður bylur. Varð þá mikill fjárskaði í Sauðadal. Vorið var kalt og þurrt, síðgróið, en eftir fardaga góð tíð, og varð grasvöxtur í betra lagi.
Espólín [vor]:
Var þá kalt vor og batnaði seint, og féll mikill fjöldi kvikfjár um Austurland, svo at Stephán amtmaður sagði, að verið mundi hafa um 50 þúsundir í hans amti. Var sú hin fyrsta hnekking, er þessi vetur ofanverður og vorið gjörði á velgengni manna, er þá var áður orðin allgóð víða í sveitum, því að allir lifðu í þann tíma sæmilega. (s 116). LXXXVII. Kap. Þá var mislægur fiskafli og ógæftir stórar, þó var vorfengur mikill á Innnesjum þegar gaf, og þegar varð fyrir lagnaðarísum, jafnvel meira en 9 hundruð stór; fiskaðist og allvel umhverfis Jökul; en af því varð mörgum manni bagi í Bolungarvík við Ísafjörð, að fyllti alla fjörðu af ísi, þar sem veiðarfærin höfðu lögð verið, og misstust þau öll af 30 skipum, og varð lítið eitt upp slætt af seinna, en menn urðu at yfirgefa skipin og brjótast heim með allmiklu vosi, og voru þó áður máttþrota mjög af hallæri, því er þar var. (s 116). Hvalur braust þar upp um ís á föstudaginn langa [3.apríl] og nýttu menn það eftir því sem við varð komist en örðugt var um aðfærslu alla, því ófærðir voru miklar, en hestar illa orðnir undan vetri. (s 116). Vor var þá kalt, og gróður lítill, en fiskafli í Múlasýslum var næsta mikill um sumarið, og svo fyrir norðan, svo að bátar í Eyjafirði fengu 300 af góðum þorski á hálfum mánuði, en tví- ok þrí-hlaðið á degi skammt undan landi á Sléttu og Langanesströndum, þar ei hafði lengi fiskast. Selir voru og allmargir teknir á Langanesi, en í fjörðunum: Borgar-, Loðmundar- og Seyðisfirði voru tvö eða þrjú hundruð sela rotuð í ísi. (s 116).
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Þurrkasumar og heyin góð. Áttu enn flestir allmiklar fyrningar, þó mikið gæfist upp um veturinn.
Espólín [sumar]:
XC. Kap. Það sumar voru illar nýtingar fyrir sunnan, helst þar sem ei var þurrlendi, en þó heyjaðist víða eigi all-lítið. (s 119). Það sumar var víða grasgott, nýttist vel fyrir norðan þó votsamt væri, og allt var sumar hið besta fyrir austan. Hvali rak hér og hvar, og tvo mikla á Vestfjörðum, seint um sumarið. (s 121). Þá var fólk á landi hér á áttunda hundraði hinnar fimmtugustu þúsundar. (s 121).
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haustið oft frostamikið og ekki fannir miklar, um veturinn blotasamt og hörkur á milli, óstöðugt, en þó víðast nóg jörð til nýárs. (s38)
Sveinn Pálsson ritar talsvert um veður á árinu 1801 - verst hvað ritstjóra hungurdiska gengur illa að komast fram úr skrift hans. Það sem hér fer á eftir er því misáreiðanlegt því hætta á mislestri er veruleg.
Getið er um sterka jöklafýlu þann 12.janúar. Þó umhleypingasamt hafi verið í janúar og febrúar getur Sveinn aldrei um storm í þessum mánuðum - en 8 sinnum í mars. Sveinn var í Reykjavík seint í júní. Í mánaðaryfirlitinu kvartar hann undan tíðinni, þrálátri þokufullri og óþægilegri suðvestanátt. Að kvöldi þess 25. júní hafi gengið í sterkan (hæftig) storm með sjógangi. Þá hafi bátum hlekkst á. Um nóttina hafi snjóað niður í byggð (sjálfsagt útsynningsél). Fram eftir júlí var vindur aðallega af vestri og oft þoka - en síðan varð áttin norðlægari í nokkra daga - oftast skýjað og fjallaskúrir. Hann segir mjög hlýtt þann 17.júlí. Þann 19. var sunnan stormur og rigning. Suðlægar og suðvestlægar áttir voru ríkjandi í ágúst oft rigning eða skúrir - en fáeinir flæsudagar, t.d. 12. til 14. Seint í mánuðinum fór Sveinn aftur austur í Kotmúla. Næturfrost gerði snemma í september og þrumuveður með óvenjusnörpu hagli þann 15. Svo er að sjá að í kringum 10.desember hafi verið mikið frost hann giskar á -15 til -20°R (-19 til -25°C) - og minnist á meiri frostbresti en hann hafi áður heyrt. Jörð hafi sprungið í kringum hús í Odda á Rangárvöllum. Frost í jörð hafi verið 1 3/4 alin [ekki fjarri 100 cm] í Þingvallakirkjugarði, en um 3/4 alin á Breiðabólstað í Fljótshlíð.
Brot úr dagbók Jóns Jónssonar í Möðrufelli - athugið að lestri ritstjórans er ekki alveg treystandi.
Jón segir janúar allan harðan vegna jarðbanna af áfreðum. Fyrsta vika febrúar var mild og stillt, önnur vika hans einnig still og gerði þá góða hláku. Mánuðurinn var þrátt fyrir að veðrátta hefði ekki verið svo slæm - allur harður vegna sífelldra jarðbanna.Mars allur harður af jarðbönnum. Fyrri partur apríl ákaflega harður, en síðari partur batnaði með sumartungli. Hafís. Maí allur harður, nema síðasta vikan. Júní að vísu stillur að veðuráttu, enn oftast lofkaldur. Fyrsta vikan rétt góð og grænkaði jörð þá í betra lagi en síðan spratt seint. Júlí allur mjög þurr og loftkaldur, en veðráttan stillt. Ágúst allur þurr og stilltur. September. Um tíma kaldur en yfirhöfuð góður. Vikan 6. til 12. september stillt, en óþurrkasöm er áleið, vikan 13. til 19. köld og fjöll alsnjóa, vikan 20. til 26. rétt góð og hagstæð. Október má yfirhöfuð teljast rétt sæmilegur nokkuð. Nóvember í meðallagi uppá veðráttu en jörð léleg. Desember allur í harðara lagi. Umliðið ár má víst teljast hart ár.
Úr tíðavísu Jóns Hjaltalín 1801:
Margt ángræði, mein og fár
mæddi svæði þetta ár
hjarl og víðir hörku bar
harðna tíðir víða hvar.
Orma myrðir ánauð bjó,
einatt stirður framast þó
gjörðu hretin hörkustands
harðan vetur norðanlands.
Örlynd góa illsku til
af sér snjóa fæddi byl
sem framundir sumarmál
svell um grundir barði hál.
Hrundu víða hross og féð
hjarðir lýða fenntu með
banasárin sveltið gaf
sumir skáru heyjum af.
Sveitar trega sumarið hratt
sæmilega grasið spratt
skaða-næm þó nærði grand
nýting slæm um Suðurland.
Rosum hreyfði haustið þó,
hörkur, leysti frost og snjó.
skafla hvíta hauður ber
hagalítið víðast er.
Minnisverð tíðindi 3.árgangur 1.tölublað s121 segja frá því sem líklega var framhlaup í Bægisárjökli:
Um sumarið 1801 sáu menn hraun uppkomið í svokölluðum Bægisárjökli, er liggur til landsuðurs frá Yxnadalnum, hvert hraun aldrei fyrr skal sést hafa: hvaraf orsakaðist, að Bægisáin sjálf, ein lítil Þverá, er fellur í Hörgá, varð, móti allri venju að undanförnu, á lit, sem korgótt jökulvatn, hvað eð viðhélst frameftir öllu sumri, þá þessi þverá og jafnan var í ótíðvænlegum vexti, og vatnið að sögn volgt. Geta menn ekki ólíklega til, að orsökin til uppkomu nefnds hrauns hafi verið jarðelds hiti, en þótt þar annars ekki eigi að hafa sést merki til reyks eður eldsuppkomu.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1801. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 10.4.2021 kl. 03:44 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 4
- Sl. sólarhring: 266
- Sl. viku: 2383
- Frá upphafi: 2434825
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 2114
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.