28.3.2021 | 22:42
Af árinu 1818
Árið 1818 var fremur svalt, veturinn 1817 til 1818 var þó ekki frostamikill en snjór talsverður og áfreðar spilltu beit. Vorið var illviðrasamt en gróður komst vel á legg um síðir. Rigningar þvældu síðan heyskap um landið sunnan- og vestanvert. Litlar upplýsingar eru um hitafar. Giskum þó á að ársmeðalhiti hafi verið 3,1 stig í Stykkishólmi og 3,6 í Reykjavík. Erfið hret gerði um sumarið, síðast og verst seint í september. Hlýtt virðist hafa verið í desember. Hafís kom að Norðurlandi seint um sumarið - sem er óvenjulegt, en hann stóð ekki lengi við.
Ágætar samantektir birtust í bæði Íslenskum sagnablöðum sem og Klausturpóstinum og fáein bréf geta einnig um tíðarfar. Árbækur Espólins tína einnig til. Tíðavísur Jóns Hjaltalín eru sömuleiðis upplýsandi að vanda. Dagbækur eru nokkrar aðgengilegar, en erfiðar aflestrar (eins og venjulega). Hér að neðan má finna það helsta sem tekist hefur að ná saman um tíðarfar og veður á árinu. Stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Íslensk sagnablöð lýsa tíð 1818 [3. deild 1818 (s1-2)]
[M]eð nýári 1818 gerðist vetur strax mjög snjóasamur um allt land, sló í blotum á milli, frysti svo að og gerði jarðbönn mikil allstaðar; varla muna menn til þeirra langvinnari og almennari um Suðurland en þau urðu þá. Á Vestfjörðum, samt í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum var vetur nokkuð vægari en annarsstaðar. Víða förguðu bændur fénaði sínum, en færri fyrr en í ótíma á útmánuðum, og margir felldu pening til muna helst á austurlandinu. Sunnanlands hefði fellirinn orðið meiri en varð, hefði ei (s1-2) bati komið þar fyrir sumar, og flestir verið heybirgir. Vorið bætti ei um fyrir vetrinum, það var víða kalt og votsamt, sem olli því að ær, er gengu magrar undan týndu lömbum, og urðu arðlitlar sumartímann. Gróðurleysi var langt fram eftir vorinu, og lítill grasvöxtur; þó varð víðast meðal grasvöxtur syðra en vestur um land í minnalagi, þar á mót austur í Skaftafellssýslu, og eystri parti Rangárvallasýslu í bestamáta. Sumarið varð yfirhöfuð að tala kalt og votsamt framan af slætti, nema nyrðra og eystra, svo töður voru annaðhvort hirtar svo votar að í görðum skemmdust, eða hröktust á túninu til mikils skaða fyrir bændur. Haustið varð aftur votsamt og veturinn eins allt fram að nýári, en varla lagði nokkurn tíma snjó á jörðu, og frost voru heldur ekki að kalla.
Votviðri sem byrjaði að kalla strax í vertíðarlokin gerði afla ... mjög ódrjúgan; fiskurinn skemmdist víða til muna, og varð sumstaðar hartnær óætur, vegna meltu og slepju enn rýrnaði til muna allur, þegar ei varð þurrkaður í tækan tíma. Verst var sagt af skemmdum fisks í Vestamannaeyjum, og sumstaðar í Snæfells nes sýslu, þar sem góð þerripláss munu ei vera; í Njarðvíkum og Vogum varð og nokkuð af afla skemmt, meðfram vegna þess að fólk gat ei komist yfir að hirða, sem þurfti, þann mikla fisk er þar hafði á land borist. (s3-4)
Brandsstaðaannáll [vetur]:
[Árið] Byrjaði með hláku og góðviðri. 9.-12. janúar hríðarkafli, er lagði fönn og gadd til hagleysis í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, er við hélst til krossmessu [3.maí], en þar var næstliðinn vetur betra en hér og gott grasár fyrir rekjum um töðusláttinn. Hér, einkum til framsveita, var gott vetrarfar, mild og stillt veður og snjóalítið. Í fyrstu viku góu kom lognfönn. Hélst þó jörð lengst af, einkum móti austri og veður stillt.
Klausturpósturinn lýsir vetri frá áramótum [I, 1818, 4 (bls 62)]
Veðráttufar
Þetta hefir frá nýári 1818 til 1ta apríl, um allt Suðurland, mikinn hluta Vesturlands, og Norðurlands nyrðri part, nefnilega: Vaðla- og Þingeyjarsýslur, verið mjög svo þungbært, vegna snjóþyngsla, en einkum áfreða, sem gjörðu langvinnar jarðbannir víðast hvar, allt til nefnds tíma. Útigangspeningur er því víða sárdreginn orðinn og að falli kominn; heybjörg margra, einkum fyrir austan Þjórsá, lítil, og ýmsir hafa þar, og víðar, neyðst til að lóga peningi talsverðum í ótíma. Í Húnavatns- og Hegranessýslum, og nokkrum hluta Vesturlands varð vetur þarámót hinn mildasti og jarðir auðar. Frost þar hjá allstaða væg. Veðurátt stirð, tók fyrir sjógæftir syðra, hvað allt að aprílkomu ekki varð í Faxafirði fiskvart, en, þó nokkuð austanmeð, í Rangárvalla- og Skafta- [hér endar textinn allt í einu]
Þann 22. [janúar], í vökulok, sló loftelding niður í baðstofu í Kross-hjáleigu í Landeyjum, innan Rangárvallasýslu, og deyddi þar 4 ára gamalt barn í rúmi, en öðru barni í sama rúmi varð þó ekki meint. Foreldrar hins dána barns féllu í öngvit. Mælt er að hár á höfði þessa barns hafi lítið eitt sviðnað. Flest bramlaðast eða sundraðist í húsinu, en rjáfri þess feykti ofviðri og éljagarri eins útá hlað. Þann 19da mars þ.á., er mælt að 2 menn hafi orðið úti á Fróðárheiði í Snæfellsnessýslu. Þann 4ða [apríl ?] forgekk 6æringur frá Hafnarfirði, á suðurleið til netafiskiafla, fyrir Vatnsleysuströnd, með 8ta mönnum á, sem týndust allir.
Klausturpósturinn [1818 4 s.64] Við landskjálfta, þó hæga, hefir nokkrum sinnum í vetur vart orðið eystra, líka þrisvar hér syðra á Innnesjum.
Veðráttufar og Fiskiafli [5-78] Í No. 4, bls. 63 og 64, er vikið á veðráttu og fiskiafla. Vetur varð, sem mælt, harður mjög eystra, helst í Skaftafellssýslum, góður og mildur vestanlands í Ísafjarðar, Barðastrandar og Dalasýslum: þungur í Snæfellsness- og Strandasýslum, og í þeirri síðari mikill bjargræða skortur, matur tjáist nógur vera við Kúvíkna höndlun, fátækir fá ei leyst með 1 tunnu lýsis fyrir hverja tunnu rúgs, eða 60rbdli ... sem hér á landi er óheyrilegt verð á þessu ári. Síðan apríl mánaðar byrjun, allt til hvítasunnu, hefir veðurátt hér á Suðurlandi verið stillt, en þurr og köld, með hörðu frosti á nóttum, og jörð þess vegna enn þá gróðurlaus. Hvað fiskiaflanum viðvíkur, þá varð hann góður í Vestmannaeyjum og Landeyjum, og loks nú seint á vertíð, sunnan og austan með, hvar víða komu megn fiskihlaup, þó ekki á Suðurnesjum fyrr en undir vertíðarlok. Þarámóti kom mikil fiskigengd í Garð, Leiru, Keflavík, Njarðvíkur, undir Vogastapa, inn með Strönd, en einkum í Hafnarfjörð, hvar, og á Strönd, nú teljast 6hundraða hlutir hæstir, minna miklu í Ytri-Njarðvík, Leiru og Garði. þar hæst, vart 4 hundruð. Á Seltjarnarnesi lengst af fiskilítið, nema með sókn í Hafnarfjörð, teljast á þessu nesi 2 til 3 hndr. hæst. Á Akranesi sáraum fiskibrögð; einn einasti telur þar 2 hundr., en flestir um hundrað og minna. Fyrir vestan Snæfellsjökul tjáðist góður afli á útmánuðum, en síðan hafa þaðan engar áreiðanlegar fiskifregnir hingað borist.
Klausturpósturinn heldur áfram með vetrar og vorfréttir [1818 (6 bls.94]
Voveifleg tilfelli og slysfarir. [líklega eftir bréfi úr Ísafjarðarsýslu, 10. maí 1818]
Nóttina milli þess 19da og 20ta mars þ.á. féll snjóskriða á bæinn Augnavelli í Skutulsfirði, hvar 9 naktar manneskjur lágu í fasta svefni. Tók hún nokkuð af baðstofunnar viðum og þaki með sér 150 faðma langt, en braut hitt niður ofan á fólkið sem engu bolmagni viðkom, en varð þannig nakið að pressast undir viðum, torfi og klaka í full fjögur dægur, eða til þess um morguninn þann 22. sama mánaðar, þá umbylting þessi sást af næsta bæ. Mönnum var þegar í hasti safnað, og, í blindbyl af kafaldi, farið til bæjarins með verkfærum. Reyndust hjónin þá lifandi, 2 börn þeirra og vinnukerling, en 3ja barnið lá dautt á fótum foreldranna. Varð nú ekki meira aðgjört þenna dag fyrir myrkri og þreytu manna. Þann 23ja mars, fannst 4da barnið dautt og 1 ungmenni, en gamalmenni 1 enn þá tórandi, sem deyði samdægris. Líkt því fólki sem deyði, þoldi það, er af komst, harmkvæli mikil, og tórir enn þann 10da maí flest sængurliggjandi við sár og örkuml. - Sömu nótt tók snjóflóð hjall að veggjum á Bæ í Súgandafirði, með miklu af matvælum í og flutti út í sjó, og fjárhús á Gelti í sömu sveit með 20 fjár í, sem allt fórst. Annað fjárhús á Vatnadal í sama firði fórst og, með fé öllu. Varð fyrir snjófallinu maður, er gekk frá húsinu heim til bæjar, en hverjum þó bjargað varð með litlu lífi. Jökla- og skriðuhlaup féllu hættuleg á tún á Neðri-Miðvík í Aðalvík þessa sömu nótt.
Þann 22. apríl drukknaði stúlka ofan um ís á Belgsholtsvog í Borgarfjarðarsýslu. Þann 9da maí drukknuðu 2 menn úr Kjós af báti, við landsteina á Kjalarnesi. ... Í þessum sama mánuði drukknaði maður í Bugsósi í Snæfellsnessýslu, og í Örnudalsá í Þverárhlíð flakkari úr Kjós. Piltur 12 til 14 ára, drukknaði og í gili við kinda yfirsetu, ... .
Espólín: XCV. Kap. [vetur og vor]
Vetur hafði verið þungur syðra og eystra, en góður vestra, einkum í Húnavatnsþingi, og allt í Skagafjörð; svo var og sjógæftalítið, þó varð góður vetrarafli syðra, en spilltist af rigningum, og gjörðust þær miklar með sumrinu. XCVIII. Kap. Um vorið í mars tók snjóskriða Augnavelli í Skutulsfirði, og voru níu manneskjur naktar í svefni; hún tók nokkuð af baðstofunni 150 faðma með sér, en braut annað ofan á fólkið, lá það undir viðum, torfi og klaka í fjögur dægur, en síðan urðu menn af næsta bæ varir við, heimtu að sér fleiri, og fóru til bæjarins í blindhríð með verkfærum, ..., fleiri snjóflóð gjörðu skaða, og drukknuðu nokkrir menn. (s 105).
Reykjavík 6. mars 1818 (Geir Vídalín biskup):
Haustið var hér gott og vetur í betra meðallagi allt til jóla, á gjörði hér snjó og illt til jarðar, en þann snjó tók allan upp með nýári. En með þrettánda kom veturinn alskapaður með snjókyngi og áfrerum, úr því hér jarðlaust að öllu fyrir allar skepnur til þess 16. febrúar, kom þá bloti, svo að hér skaut upp snöp hér við sjóinn, en engri til sveita, þar sem snjóþyngslin (s160) voru meiri. Sama vetrarfar er að frétta úr Árnes-, Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslum, þó bágast úr þeirri síðast nefndu, því þar heyjaðist illa í sumar eð var vegna votviðra. Í Borgarfjarðarsýslu hafa verið nokkrar jarðir, einkum til dala, og í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum besti vetur, hér harður bæði í Skagafirði, Eyjafirði og fyrir vestan. Frost hafa ekki verið mikil og veðurátt oftast sæmileg, ef jarðir hefðu verið. ... Um veturnæturnar komu hér tvö áhlaupaveður af suðaustri og það þriðja þann 2.-3. janúar af sömu átt. Gjörði það fyrsta víða skaða á heyjum, húsum og skipum. Óvenjulegt skrugguveður kom á Rangárvöllum þann 21. janúar (si recte memini), sló þá þruma niður í baðstofuna í Krosshjáleigu og drap barn í rúminu hjá móður sinni, en bæði hún og bóndinn, sem var á ferð í göngunum, féllu í óvit. Við þetta veður varð hér ekki vart. Í fyrstu vetrarvikunni og síðan oftar í vetur hefur hér orðið var til jarðskjálfta, þó alla hæga, og hvergi hef ég frétt, að mein hafi orðið af þeim. (s161)
Bessastöðum 5. mars 1818 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s55):
... eins var veturinn fram að jólum hinn besti, en síðan hefur oftast verið haglaust og líka þar, sem jörð hefur ekki brugðist í 30 ár. Frostlítið hefur oftast verið.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Eftir miðjan einmánuð kom sólbráð og eftir sumarmál kuldar og frostamikið. Ekki kom hláka eða gróður fyrr en eftir 22. maí. Leysti þá fljótt gadd af heiðum og hálsum, ásamt uppsveitum, er þangað til höfðu aðeins snapir. Þar eftir var vorið gott, en regnsamt, einkum lestatímann, er byrjaði 4. júlí. (s79) Ís kom um vorið seint [festist ei við land (neðanmáls)] og varð á honum mikið seladráp á Austurlandi og Ísafirði. (s80)
Klausturpósturinn (6 bls.96) er sagt af vortíðinni:
Frá vordögum skipti um vetrarharðindi, sem gengu, einkum yfir Suðurland, með mestu stórhretum og óveðrum fram undir Jónsmessu, svo sjaldan gaf á sjó; enda varð vorafli víðast sáraaumur, eins fyrir vestan Jökul, og skemmdist líka töluvert af vetrar- og vorafla manna, af langvarandi óþurrkum. Snjó lagði um vorið svo mikinn víða í Ísafjarðarsýslu, að jarðbönn gjörðu, hvar af leiddi sumstaðar horsóttir af fóðurþröng fénaðar, og víða þar og um Suðurland unglambadauða mikinn, hvar fé var mjög grannt og dregið orðið. Kúpeningur, sármagur allvíða, dró ekki ljóst, og nokkrar kýr króknuðu úti í óveðrum, bæði í Árness- og Ísafjarðarsýslum, en fleiri geltust öldungis upp af fóðurþröng og óveðráttu. ... Úr Norðurlandi heyrist þar á mót sérleg árgæska og bestu peningshöld, en kvillasamt með fólki. Við Ísafjarðardjúp eru í vetur skutlaðir hér um 400 vöðuselir, hver, yfir höfuð reiknað með vættar spiki á.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Voru þá fjöll lítt fær [4.júlí]. Grasvöxtur varð í meðallagi. Sláttur byrjaður á miðsumri. Var lengst rekjusamt, þó þurfti ekki ónýting að verða á heyi norðanlands. Í 16. viku náðust töður lítt skemmdar.
Klausturpósturinn 1818 (I 10 bls. 154) - rekur sumartíð og fleira:
Veðráttufar og heyskapur. Það má heita satt; að vér, í þessu harðviðrasama landi, eigum í ár, seint og snemma, af litlu sumri eða sumarblíðu að segja. Í No.4, bls.63 lýsti ég því, víða um land, þungbæra vetrarfari, til marsmánaðar loka; en á vorveðráttu frá aprílbyrjun til Jónsmessu, minntist ég í No. 5 og 6 bls. 78 og 96. Voru stormar þeir, stórhret og ákafar rigningar, einlægt frá hvítasunnu fram á messur orsök þess, að málnyta hefir mjög svo gagnslítil verið þetta sumar víða á Suðurlandi. Í rigningum þessum féllu víða óttalegar skriður úr fjöllum, en stórum skemmdu beitilönd; en ekki er þess getið, að sérleg óhöpp eða fjárskaðar hafi af þeim skriðum orsakast, nema á Bleiksmýrardal í Þingeyjarsýslu afrétt Fnjóskdælinga hvar meint er að farist hafi af skriðuföllum hér um 500 (eða 300), sem ofan eftir öllum dal hafi rekið upp úr Fnjóská. Aldrei fundust hér í ár nein náttúruleg sumarhlýindi, þó veðurátt skánaði nokkuð og stilltist frá messum fram á sláttarbyrjun. Með honum hófst á ný mánaðar óveðra- og rigningakafli um meiri hluta Suðurlands, hvar þó grasvöxtur var nálægt meðallagi, en góður og vægri rigning Norðanlands, eins um Austurland, einkum fyrir austan Mýrdalssand, hvar heyfengur skal vera ágætur. Um Suður- og Vesturland hröktust töður og svívirtust, og fæstir hirtu tún fyrr enn um höfuðdag. Kuldasamur norðanstorma kafli um engjaslátt, bætti að sönnu þar mörgum góðan útheyjafeng, hvar gras og engjar gáfust þar til, en færði undir eins norður og vestur ströndum á öldungis óvenjulegum árstíma, megn hafþök af hafís, af hverjum, þann 23. ágúst, mikill hroði dreif inn á Skagafjörð og Húnaflóa, og bægði Hofsóss- og Skagastrandarskipum þar frá höfnum, og tálmaði mikið heyvinnu fólks, uns hann, þann 9da september rak aftur til hafs, komst þá Skagastrandarskip á höfn, en hitt til Hofsóss var ókomið þegar seinast fréttist. Frá 27da ágúst og framundir Michalelismessu hefur sjaldan linnt norðan bálkum með ofsa stormum og köföldum í fjöllum, og snjókomu ofan að flæðarmáli, en einkum var hér framúrskarandi áhlaupa norðanbylur, nóttina milli þess 18da og 19da september, með grófustu fannfergi og ofsaveðri, í hverjum kvikfé kaffennti á nokkrum fjallbæjum sunnan Skarðsheiðar í Borgarfirði, er að sönnu náðist lifandi, en þó fenntu til dauðs hér um 20 sauðkindur heim við stöðulból á Hlíðarfæti í Svínadal. Sauðfjárheimtur urðu víða slæmar, einkum lamba, í þeim plássum hvar fjallgöngum ekki var lokið fyrir nefndan kafaldsbyl; fé reyndist nú annars bæði rýrt og mörlítið, sem öll von er á, eftir svo hretviðrasamt og stutt sumar; því með höfuðdegi mátti vetur langan og óttalegan telja hér í garð genginn. Vor stutta og lélega jarð- og garðyrkja sem eins með kálgresi öll, rætur og jarðepli, hefir í ár sérlega mislukkast, svo langt, sem ég hefi tilfrétt, var á endaður 2ur mánuðum fyrri en venjulega. ... Þann 23ja september næstliðinn, voru rúmlega 100 marsvín rekin á land í Hlíðarhúsa og Örfarseyjarlóð við Reykjavík, af nágrönnum þar.
Bessastöðum 23. ágúst 1818 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s58)
Grasvöxtur var sumstaðar í betra meðallagi og eins víða verri. En dæmalaus óþurrkur hefur gengið sífellt síðan sláttur byrjaðist. Alla hundadagana hefur komið einn þurrkdagur.
Bessastöðum 5. september 1818 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s64): ... því hörð norðanveður ganga nú.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Hretalaust þar til í göngum á mánu- og þriðjudag. Föstudag í réttum gjörði hríð mikla og fönn á fjöllum, svo kaupafólk snéri frá Sandi ofan í Vatnsdal. Varð réttafærsla. Á föstudaginn fannkoma svo mikil, að sléttfenni varð yfir fé í dilkum við Stafnsrétt. Eftir 4. okt. þíður og góðviðri, í nóvemberbyrjun frostakafli, 6.-14. hláka mikil. Eftir það var jarðbert og oft þíður, besta vetrarfar til nýárs.
Klausturpósturinn 1818 (I, 12, bls. 191) segir af hausttíðinni:
Í No. 10 minntist ég á bls. 155-56, að með höfuðdegi mætti vetur hér telja í garð genginn. Snjóa- og harðviðraköst gjörði og um og skammt eftir veturnætur víða um Suðurland og undir Eyjafjöllum; eins fréttist af snjókomu mikilli og harðviðri úr Húnavatnssýslu litlu seinna; en frá veturnóttum varð annars víðast um Suðurland veðurátt þýð og mild, en vindasöm til baga sjógæftum og haustafla, sem því varð harla rýr. Úr Skaftafellssýslum fréttist seinast mesta árgæska til lands og sjóar, og allra besti hákarlaafli á afliðnum sumri í hennar eystra parti. Um kvöld þess 10da október strandaði mitt í Eyjafirði, undan Gáseyri, kaupfar Kaupmanns J. L. Buschs, nefnt: Det gode Haab (góð von), í innsiglingu þangað frá Reykjarfirði í Strandasýslu, með ull og ullarvöru, og um 100 tunnur lýsis. Mönnum og vöru varð bjargað.
Espólín [sumar og haust] (að mestu dregið úr Klausturpóstinum):
C. Kap. Þá var óblítt sumar eftir eigi góðan vetur, veður mikil og rigningar, frá hvítasunnu að messum fram, og spillti mjög málnytu sunnanlands og austan, en víða hleypti fram skriðum; tók af mjög mikið af Bleiksmýrardal, og týndist allmargt sauðfé, hugðu menn nær þrem hundruðum hafa rekið dautt upp úr Fnjóská hið efra og neðra. Aftur spillti með slætti, og gjörði stórar rigningar, mest sunnanlands, og urðu heyskemmdir miklar. Afli var enginn norðanlands, en þó var þá eigi öllu betur ært annarstaðar en í Húnavatnsþingi og Skagafirði, kom þó engin sigling á Skagafjörð, en lítil í Höfðann. (s 106). Heyskapur varð sæmilegur norðanlands, en vel fyrir austan Mýrdalssand, en suður og vestur hröktust töður, var þá og lítið fiskifang fyrir Jökli, og allill tíð. Kuldi var um engjasláttinn, og komu hafísar miklir; og þótti þá óvenjulegt; rak nokkuð af þeim inn á Húnaflóa, Skagafjörð og Eyjafjörð, en eftir hundadaga og fram til Mikjálsmessu gjörði snjóa, og mest nóttina milli hins 28da og 29da september, svo að kaffennti fénað á fjallbæjum við Skarðsheiði í Borgarfirði, og 20 sauðkindur til dauðs við stöðulból að Hlíðarfæti í Svínadal. Menn urðu og úti við göngur í Húnavatnsþingi um þann tíma og dó einn af kulda, er heim var kominn; var þá lítil kályrkja þeirra er á það stunduðu. Litlu síðar var vel 100 marsvína rekið á land við Reykjavík, á Hlíðarhúsa- og Örfarseyjarlóð. Eftir veturnætur gjörði væga veðurátt, og síðan vetur hinn besta. (s 107).
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1818
Flestum sveitum Íslands í
orma bana liðin stund
mátti heita hörð af því
hún gaf djúpa fönn á grund.
Frosta-hægur hér um svörð
horfinn vetur oft var samt
snjór harðdrægur huldi jörð
hjörðum veitti rýran skammt.
Vorsins gróður varð og smár
vatn þó drypi skýjum af
Þrymshold fóður þetta ár
þó í meðallagi gaf.
Nýting versta vítt um bý
var í sumar lýðum send
hey hjá flestum heita því
hrakin mygluð eða brennd.
Sumarstíða hretin hér
hver eð baga fengu léð
endti síðast september
svellu snjóa kasti með.
Hér á svæði held ég enn
heiti nýjar fréttirnar
fennti bæði fé og menn
fjúk í haust um réttirnar.
Það sem vetri af nú er
ekki getur kallast strítt
fáein hret þó fyndum vér
frosthæg veður gengu títt.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1818. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Örfáar tölur má finna í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.