Tími frá síðasta gosi?

Ritstjóra hungurdiska finnst einkennilegt að eldvirkni á Reykjaneshrygg - til þess að gera nærri landi - skuli ekki vera talin með þegar fjallað er um þann tíma sem liðinn er frá síðasta gosi. Jú, land er land og sjór sjór - en gosreinarnar halda áfram og enginn munur á þeim sem næst landi liggja og þeim sem (svo vill til að) eru á þurru. Þetta á alla vega við svæðið kringum Eldey og Geirfuglasker. Á þeim slóðum var mikil virkni fyrir um 200 árum. Frægt er gosið 1783 sem myndaði Nýey, eyju sem reis þarna úr sjó - en hvarf aftur. Aftur urðu allmiklar hræringar, jarðskjálftar og eldgos á árunum 1830 til 1831. Virknin virðist hafa verið viðloðandi á annað ár - en með hléum og ekki stórfelld. Þó hrundu leifar Geirfuglaskers og þrengdi enn að geirfuglastofninum sem verpti á þessum slóðum. Einnig er að sjá sem að gosið hafi á sömu slóðum 1879.

Sigurður Þórarinsson segir í Surtseyjarriti frá heimildum um gosið 1783 - og verður það ekki endurtekið hár. 

Minnst er á jarðskjálfta og gos í fáeinum heimildum frá 1830 til 1831. Fram kemur að gosið byrjaði líklega í mars 1830 og stóð með hléum fram á fyrstu mánuði ársins 1831. Þá urðu einnig jarðskjálftar á Reykjanesi - en þeirra virðist lítt hafa gætt í Reykjavík eftir því sem Jón Þorsteinsson veðurathugunarmaður segir, alla vega ekki eftir 1.september 1830 - en e.t.v. fyrr. Á fylgiblaði skýrslu sem hann sendi frá sér í lok febrúar 1831 (og nær til 6 mánaða) segir - í lauslegri þýðingu:

Engir jarðskjálftar hafa fundist hér um slóðir þessa mánuði, en hins vegar viðvarir af og til reykur sá sem í fyrra tók að stíga upp úr hafi u.þ.b. 14 til 15 mílur suðvestur frá Reykjanesi, án þess, að því er virðist, að hafa nokkrar afleiðingar.

Suðurnesjaannáll (höfundur er Séra Sigurður Br. Sívertsen í Útskálum. Annállinn er prentaður í Rauðskinnu) getur um jarðskjálfta - en talar ekki um eldgosið. „1830: Jarðskjálftar miklir á Reykjanesi og út af því á hafsbotni. Þá sukku Geirfuglasker ... sem voru um kýrfóðursvöllur að stærð, með 17 faðma háum björgum“. Mjög fróðlega eldri lýsingu á Skerinu má einnig finna í Rauðskinnu.

Ingibjörg Jónsdóttir á Bessastöðum (móðir Gríms Thomsen) segir í bréfi 5.ágúst 1830: „Fiskirí hefur í vor verið í minna lagi og venju fremur horaður fiskur. Sumir geta til, að hann hafi gleypt töluvert af vikur, þegar eldurinn var uppi í vor fyrir Reykjanesi“.

Gunnar Gunnarsson prestur í Laufási við Eyjafjörð segir í bréfi 19.ágúst 1830: „Fiskur sá er á Suðurlandi aflaðist í vor og seint í vetur, skal hafa verið ærið magur, og liggur fólki þar við að kenna um það Vulcan-útbroti, sem í næstl. marsmánuði hafði uppkomið úr hafi fyrir Suðurnesjum vestur af Blindafugla skerum. Hafi reykur sá, er þar skaut upp, glöggt sést frá Reykjavík, hafa og vikurkol víða rekið þar syðra“.

Magnús Stephensen segir í bréfi sem ritað er í Viðeyjarklaustri 5.mars 1831: „ ... vulcansk eruption [eldgos], lík þeirri í fyrra, hér á ný byrjuð fyrir mánuði síðan á sama stað í suðvestri frá Fuglaskerjum, en menn segja langt úti í hafi sem í fyrra“.

Bjarni Thorarensen segir í bréfi sem ritað er í Gufunesi 19.mars 1831: „Ild har der nu som i Fior været i Havet udenfor Reikenes“.

Síðar á 19.öld, 1879, bárust einnig fréttir af eldgosi á svipuðum slóðum, með vikurreki - varla er ástæða til að efast um að gosið hafi.

Í 6.tölublaði Heilbrigðistíðinda 1879 stendur þetta:

„Eldsuppkomu fyrir Reykjanesi þann 30. maí nálægt Geirfuglaskerjum sáu menn vel frá Kirkjuvogi í Höfnum, og eins daginn eftir, þann 31., á að giska þaðan 12 vikur sjávar, en skemmstu leið frá ysta tanga á Reykjanesi 8 vikur [50-60 km]. Með júnímánuði komu vestan-útnyrðings-bræluvindar með svartaþoku, samfleytt í 13—14 daga, svo að ekki var ratfært á sjó né landi nema á vissum vegum, en þokulaust allstaðar fyrir innan, í Keflavik, Njarðvíkum og Garði, og eins í Grindavík, sem menn héldu að stæði af eldinum. Rétt áður en upp birti, kom öskufall, sem vel sá á grasi; gjörði þá þéttar skúrir og birti upp með sífelldum þurrki síðan. Sást þá verða vart við eldinn að eins og svo ekki oftar mánuðinn út. Í Grindavík og einkanlega í Höfnum hefur verið einstakt fiskileysi frá lokum og til lesta, að menn muna ekki slíkt, eins á Miðnesi, en góður afli strax fyrir innan Skaga og einkanlega inn á Sviði allt vorið; svo það lítur út fyrir að fiskurinn hafi flúið undan eldinum. Ekki hefur verið getið um, að menn hafi orðið varir við vikur, og ekki heldur jarðskjálfta við þessa eldsuppkomu, og heldur engin vissa fyrir, hve nærri Geirfuglaskerjum að eldurinn var að brenna. Ritað 12. júlí 1879. B. Guðmundsson“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Getur verið að þessi gos í sjó undan Reykjanesi séu í öðru eldstöðvarkerfi, annað kvikuhólf og flokkist því ekki með eiginlegum Reykjaneseldum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.3.2021 kl. 00:14

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það virðist eitthvað misvísandi hvernig menn telja eldstöðvakerfi á þessu svæði. Mér finnst bara allt of mikið gert lengd doðans á svæðinu þegar eldvirkni hefur verið í gangi vestast á því meira og minna allan tímann.  

Trausti Jónsson, 21.3.2021 kl. 03:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband