4.3.2021 | 21:58
Af árinu 1844
Árið 1844 þótti almennt hagstætt. Meðalhiti í Reykjavík var 4,3 stig, en reiknast 3,4 stig í Stykkishólmi, +0,4 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Mjög kalt var í febrúar og einnig var nokkuð kalt í apríl, en hlýtt í maí, júní, ágúst og desember. Ekki hefur enn verið unnið úr veðurmælingum frá Norður- og Austurlandi.
Fjórtán dagar voru mjög kaldir í Reykjavík (sjá lista í viðhengi), kaldastur 24.apríl (síðasti vetrardagur). Þá fór frost í -10 stig í Reykjavík og hámarkshiti dagsins var -5,0°C. Átta dagar voru mjög hlýir og komst hiti í 20 stig 14 sinnum um sumarið. Hafa verður í huga að nákvæmni í aflestri var ekki mikill, átta þessara daga var hitinn nákvæmlega 20 stig. Allur kaflinn frá 20. til 30.júní hefur verið óvenjugóður.
Árið var úrkomusamt í Reykjavík, mældist úrkoman 992 mm. Einna þurrast var í febrúar, júní og júlí, en úrkoma í nóvember óvenjumikil.
Þrýstingur var sérlega lágur í apríl og þá var þrýstiórói einnig mjög mikill. Miðað við meðallag var þrýstingur einna hæstur í maí og júní. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 959,3 hPa, þann 26.nóvember, en hæstur 1028,7 hPa þann 26.maí.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Við getum sum sé vel áttað okkur á veðri frá degi til dags þetta ár, en menn virðast ekki hafa haft mjög mikið um það að segja. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið.
Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1844, en ekki fyrr en í 1. árg 1847:
Ár 1844, gott ár, frostlítið, en veðrátta ókyrr og úrfellamikil. Hagabann fyrir útigangsfénað varð hvergi langvinnt. Grasár gott, helst á úthaga, og nýting hagfeld. Hlutir við sjó í betra lagi, vetrarhlutir undir Jökli frá hálfu þriðja til fimm hundraða. Í Dritvík mjög lítill afli, vegna ógæfta, 60 fiska hlutir hæstir. Aftur aflaðist betur í veiðistöðvum vestra. Ennþá var kvefsótt í landinu. Árið 1844 engir skipskaðar [á Vesturlandi].
Suðurnesjaannáll:
Skipstapi á Vatnsleysuströnd í marsmánuði. ... Ofsaveður með sjávarangi 2. apríl, svo að skip tók upp og brotnuðu. Skipstapi um vorið frá Landakoti að Miðnesi. Drukknuðu þrír menn. ... 50 fjár flæddi á Býjaskerjum og 80 í Leiru. Ufsaveiði mikil í Hafnarfirði. Þá fórust tveir bátar með ufsafarm þaðan í ofsaviðri. Annar var úr Njarðvíkum, en hinn úr Keflavík.
Jón Jónsson í Dunhaga í Hörgárdal er erfiður í lestri að vanda - en vonandi hér í stórum dráttum rétt eftir honum haft (ekki þó orðrétt):
Janúar má teljast í betra lagi, febrúar allstilltur að veðráttufari og oftast nægar jarðir, áköf frost. Lagís mikill á Eyjafirði en hafís utar. Marsyfirlitið er torlesið en að sjá sem hart hafi verið með köflum - en ekki alslæm tíð. Fyrri hluti apríl sæmilega góður, en síðan mjög óstöðug tíð. Að sjá sem maí hafi ekki verið harður - en samt stormasamur og erfiður að því leyti. Júní góður. Júlí heldur kaldur. Ágúst sæmilega hagstæður. September í meðallagi, en heldur óstilltur. Heyskap má yfirhöfuð telja í meðallagi, sumstaðar í betra lagi. Október má kallast mikið góður. Góð veðrátta í nóvember og næg jörð. Desember merkilega stilltur að veðurátt, oft þíðviðri og jörð auð.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Veður stillt og frostamikið til 13. jan., þá 4 daga hláka og aftur þítt 21.-24. Í febrúar óstöðugt, köföld og hart frost á milli, 19. jarðleysi allvíða og hross tekin á gjöf, en í lágsveitum gengu þau af. Alla góu harðviðrasamt og gaddmikið til dalanna.
Einar Thorlacius skrifar: Saurbæ 6.febrúar 1844 (s110) Vetur allt að þessu í betra lagi með jarðsæld, engin teljandi illviðri né sterk frost, síst lengi, og ekki yfir 12 gráður hafa enn komið, en óstöðugt heldur veðráttufarið.
Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 13. mars 1844 (s214) Vetur er í meðallagi.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Með einmánuði bati góður og blíðviðri, sólbráð og stillt veður, 5 daga fyrir sumar frostmikið og sumardag fyrsta [25.apríl] sunnanhríð mikil, en föstudag [26.] hastarlegur norðanbylur; brátt aftur hláka. 4. maí heiðarleysing og flóð í ám og allan þann mánuð (s148) vorblíða og góður gróður.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní lengi náttfrost með norðanátt og stilltu veðri. Seint fært frá og í júlíbyrjun sterkir hitar 6 daga, þá til 16. þokur og hretviðrasamt og gaf illa í kaupstaðarferðum, en vel í lestaferðum suður, er stóðu yfir seinast í júní. Sláttur byrjaði 18.-20. júlí. Var þá rekjusamt og lítið um þerri til 7. ágúst. Skemmdust töður mjög, þar miður voru hirtar. Þá notagott veður til 25. ágúst. Á sunnudagskvöld [25.], upp á góðan þerri, kom hret og eftir það votviðri til 3.-5. sept. Þann 10. kom ógnarrigning, mörgum til skemmda, þar sæti var óhirt, sem þó víða var. Um gangnatímann mátti hirða allt hey. Þó ónýting yrði allvíða, varð nýting góð hjá þeim, er haganlega notuðu stuttan þerri og litlar flæsur og ekki geymdu hey sitt í föngum, eins og mörgum er tamt sér til skaða. Nú varð gangnafærsla austan Blöndu vegna rímspillis-sumarauka. Annars bar nú réttardag á 25. sept.
Jón Austmann í Ofanleiti segir að 5.júní hafi hiti farið niður í 2° í norðvestan kafþykkum slyddubyl og að snjóað hafi á fjöll.
Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 8. júlí 1844: (s216) Hér er nú heldur gott í ári.
Hiti fór í 24°C á Valþjófsstað 28.júlí og þann 4.september varð þar jarðskjálfti um kvöldið.
Páll Melsteð fer snjöllum orðum um landsynninginn í bréfi til Jóns Sigurðssonar: Landakoti, 22.september 1844 Ég kom hér suður [til Reykjavíkur] eins og kjörstjóri í besta veðri með 3 hesta. Nú fer ég héðan af stað eins og förukarl, búinn að missa frá mér 2 hesta, og veðrið svo illt að varla er sigandi út hundi fyrir regni og stormi. Minnir þig nokkuð til þess hvernig landsynningurinn var á stundum, þegar hann hafði lengi legið undir fyrir norðanvindinum, en reis á fætur aftur. Ekki hefir honum farið aftur síðan. Og því skyldi honum fara aftur núna í þessu landi sem nú er nýbúið að fá alþing, og þar sem allt er að lifna við og byrja nýjar framfarir.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haustið varð mikið gott, eitt hret 9. okt. Frá veturnóttum til 7. nóv. blíðviðri besta, svo berja og ausa mátti af túnum. 8.-12. nóv. hart frost, svo lækir botnfrusu mörgum til vandræða og náðu ei farveg aftur lengi. Veður var stillt og gott, snjólítið oftast, auð jörð og hláka á jólunum, allvíða ei farið að gefa lömbum. Ár þetta má kalla, sem 6 ár undanfarin, hagsældar- og blómgunarár, þeim sem notuðu tíðina réttilega. (s149)
Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 10. nóvember 1844: (s220) Haustið hefur verið heldur gott ...
Grímur Jónsson segir í bréfi dagsettu á Möðruvöllum 6.febrúar 1845 (lengri kafli úr bréfinu er hér settur á árið 1845]: Á jólum lukum við upp öllum gluggum með 5 gráða varma.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1844. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaða- og Suðurnesjaannála. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:06 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 51
- Sl. sólarhring: 146
- Sl. viku: 1972
- Frá upphafi: 2412636
Annað
- Innlit í dag: 51
- Innlit sl. viku: 1725
- Gestir í dag: 50
- IP-tölur í dag: 49
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.