10.2.2021 | 22:17
Fannfergið mikla í árslok 1978
Veturinn 1978 til 1979 er ritstjóra hungurdiska mjög eftirminnilegur. Skömmu fyrir jól lauk hann embættisprófi í veðurfræði (eins og það hét þá) í Bergen í Noregi og hóf störf á Veðurstofu Íslands í lok janúar. Dvaldi reyndar á heimaslóð við próflestur í október og fram eftir nóvember - en síðan í Bergen til prófs. Nóvember þessi (1978) var minnisstæður fyrir óvenjulega ásókn smálægða sem ollu miklu fannfergi um landið suðvestan- og vestanvert. Hungurdiskar hafa áður fjallað um þá merkilegu daga. Undir lok mánaðarins gerði mikla hláku og reyndar óvenjulegt úrhelli sums staðar suðvestanlands. Mældist þá mesta sólarhringsúrkoma til þess tíma á Stórhöfða í Vestmannaeyjum [142,0 mm] - met sem raunar féll naumlega ári síðar - líka í einkennilegu veðri [145,9 mm]. Allan snjó tók upp á skömmum tíma og veður lagðist í eindregnar austanáttir - sem stóðu að heita allan desember.
Svo segir um desemberveðurlag 1978 í Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands:
Tíðarfarið var með eindæmum hagstætt, milt lengst af, hægviðrasamt og snjólétt. Hagar voru góðir og sauðfé gekk víða úti. ... Fyrstu 13 daga mánaðarins voru lægðir suðvestur eða suður í hafi, en hæð var lengst af yfir Norðurlöndum.
Síðan varð vindur norðaustlægari út mánuðinn. Úrkoma var aðeins um þriðjungur af meðallagi í Reykjavík allan mánuðinn og alveg þurrt var alla daga frá þeim 19. og fram yfir hádegi þann 30. Einnig var þurrt víða fyrir norðan en úrkoma var ofan meðallags sums staðar á Austur- og Suðausturlandi.
Meðalþrýstikort desembermánaðar 1978 ásamt þrýstivikum. Óvenjulega þrálát austanátt var ríkjandi í mánuðinum, suðaustlæg fyrri hlutann, en síðan norðaustlægari. Mánuðurinn er ofarlega á lista yfir þrálátustu austanáttir í desember.
Þann 30. dró til tíðinda. Ekkert benti þó til þess í upphafi dags. Ritstjóri hungurdiska gekk til útfarar í Borgarneskirkju eftir hádegi þennan dag - hann leit upp til sveitar af Kirkjuholtinu og sá þar tiltölulega meinlaus lágský á sveimi - eitthvað féll úr þeim - en virtist ekki mikið. Hann hafði heyrt eftirfarandi veðurspá fyrir Faxaflóa lesna með hádegisfréttum:
Norðaustan gola eða kaldi og bjart veður.
Við lok útfarar var komið él. Þá var ekkert að gera en að bíða eftir veðurspánni sem lesin var í útvarp kl.16:15 og gæta þess að missa ekki af henni: Austan- og norðaustan kaldi. Dálítil él í kvöld, en annars skýjað með köflum. - En lítið var um éljaskil það sem eftir lifði dags og smám saman jókst ákafi snjókomunnar. Morguninn eftir snjóaði enn - og kominn var kafsnjór - nánast jafnmikill og verið hafði í mikla snjónum í nóvember. Satt best að segja tók veðurspáin varla við sér. Næsta spá, kl.22:30 hljóðaði svo: Snjókoma með köflum í nótt, en léttir heldur til á morgun, en þó él á stöku stað. En rétt fyrir hádegi á gamlársdag stytti loksins upp við Faxaflóa.
Hugur þess nýútskrifaða var beggja blands. Hvað var hér á seyði? Átti hann eftir að fá annað eins í hausinn - óspáð? [Auðvitað átti hann eftir að lenda í því - hvað annað]. Ekki voru sömu upplýsingar á borðum veðurfræðinga þá og er í dag. Tölvuspár voru afskaplega ófullkomnar - breska 24-stunda 500 hPa-háloftaspáin sú besta - en 48-stunda spár voru afskaplega óáreiðanlegar - það var þó ekki hægt að treysta því alveg að þær væru rangar. Nú verður ritstjóri hungurdiska að játa að hann hefur ekki séð þær tölvuspár sem þarna voru þó fáanlegar - en hann hefur séð veðurathuganirnar og háloftaathuganir frá Grænlandi þar með.
Hér má sjá endurgreiningu japönsku veðurstofunnar á sjávarmálsþrýstingi, úrkomu og hita í 850 hPa um hádegi 30.desember 1978. Þar má sjá litla lægð fyrir norðaustan land - tæplega þó lokaða hringrás (eða rétt svo). Varla þarf að taka fram að engar athuganir var að hafa frá þessu svæði - og þó svo hefði verið hefði verið erfitt að sjá að lægðin stefndi til suðvesturs - hvað þá að henni fylgdi einhver úrkoma. Einhver úrkomubönd hafa þó sjálfsagt verið sjáanleg á daufum gervihnattamyndum sem Veðurstofan fékk sendar - þó ekki með alveg reglubundnum hætti.
Háloftakortið er skýrara - þar má sjá að hæðin sem ráðið hafði ríkjum undanfarna 10 daga var að gefa sig og hún hörfar til vesturs undan lægðardragi og meðfylgjandi kuldaframrás úr norðri (örin). Það mátti sjá þetta lægðardrag á kortum á Veðurstofunni þennan dag.
Þetta er ekki frumritið - heldur afrit (riss) sem ritstjóri hungurdiska gerði nokkru síðar þegar hann var að klóra sér í höfðinu yfir þessum atburði. Jafnhæðarlínur eru grástrikaðar, en jafnhitalínur dregnar með rauðu. Framsókn kalda loftsins sést vel - sömuleiðis að hæg suðlæg átt er í háloftum á Tobinhöfða - en ákveðin norðvestanátt yfir strönd Grænlands þar fyrir sunnan. Eitthvað er greinilega á seyði - en að fara að spá meiriháttar snjókomu út á þetta eina kort er glórulítið - rétt að bíða þess sem verður og reyna að halda í horfinu.
Hér er kort sem sýnir veður á landinu kl.9 að morgni gamlársdags. Snjókomubelti liggur yfir því vestanverðu. Þetta belti hafði legið hreyfingarlítið á svipuðum slóðum frá því að snjókoman byrjaði upp úr hádegi daginn áður - varla mótar fyrir lægðinni. Þegar á daginn leið þokaðist snjókoman til austurs og um síðir snjóaði einnig mikið sums staðar á Suðausturlandi - en stytti upp vestanlands. Bjartviðri var vestan við - eða svo er að sjá.
Japanska greiningin sér lægðina/lægðardragið enn greinilega á korti sem gildir á hádegi á gamlársdag. Það er nú skammt undan Suðvesturlandi og alláköf úrkoma þar um slóðir. Taka ætti eftir illviðrinu sem geisaði í Evrópu - bæði þennan dag og daginn áður.
Ekki veit ritsjórinn hvort þessi gervihnattamynd barst Veðurstofunni - og hafi hún gert það var hún mun ógreinilegri. Þetta er hitamynd sem tekin er eftir hádegi á gamlársdag. Þar má sjá greinilega lægðarhringrás fyrir vestan land [sést betur sé myndin stækkuð] - skilasinnaðir gætu meira að segja sett þarna allar gerðir skila, hita- og kuldaskil, samskil og meira að segja afturbeygð samskil (sting). Það er hins vegar sérkennilegt við þessa lægð að hún kemur varla fram á þrýstikortum - alla vega ekki svona vel sköpuð. Þá fer loks að verða ljóst hvers eðlis er.
Eins og nokkrum sinnum hefur verið getið um á hungurdiskum áður (en eðlilegt er að enginn muni) er ekki nauðsynlegt að vindur blási í hringinn í kringum lægðakerfi - og gerir það raunar aldrei alveg. Lægð - þar sem enga suðvestanátt er að finna suðaustan lægðarmiðjunnar getur litið eðlilega út á mynd - sú hin sama lægð getur jafnvel hreyfst til suðvesturs - algjörlega andstætt við það sem útlit hennar bendir til að hún geri. Það eina sem þarf að fara fram á er að norðaustanáttin suðaustan við lægðarmiðjuna sé minni, og helst miklu minni, heldur en norðaustanáttin norðvestan miðjunnar. Öfugeðli sem þetta er því algengara sem kerfið er minna. Í gömlum hungurdiskapistli má finna mjög skýrt dæmi um lægð sem þessa - en að sumarlagi (svo lítt var eftir henni tekið).
Í þessu tilviki má segja að háloftalægðardragið eigi ábyrgðina - það býr kerfið til - gaman væri að fylgjast með þróun þess í nútímaspálíkani - allt frá óljósu úrstreymi - og tilheyrandi uppstreymi þar til skýjakerfið hefur hringað sig eins og sjá má á myndinni að ofan. Dragið fór síðan til austurs og lægðin með.
Á myndinni má einnig sjá tvær gular örvar. Önnur sýnir (fallega?) éljaslóða í ískaldri austanátt yfir hlýjum Norðursjó - en hin bendir á hafísbrúnina rétt hjá Jan Mayen. Þetta mikill hafís hefur ekki sést lengi á þessum árstíma svona austarlega. Lítið hefur verið um hafís hér við land síðan vorið 1979 - veturinn 1980 til 1981 leit illa út um tíma, en ísinn hörfaði þá frá landinu undan suðaustanáttum í febrúar - rétt þegar hann virtist vera alveg að koma. Hvað síðar verður vitum við auðvitað ekki.
Þetta kort sýnir tveggja daga ákomu snævar á landinu. Langmest snjóaði á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum - heldur minna í Borgarfirði og fyrir austan fjall. Sömuleiðis snjóaði nokkuð sums staðar fyrir norðan og á Suðausturlandi, en lítið á Snæfellsnesi og á mestöllum Vestfjörðum. Snjódýpt var reyndar sums staðar meiri norðaustanlands (og á Hveravöllum) en tölurnar sýna - en sá snjór var áður fallinn. Autt hafði verið á öllu Suður- og Vesturlandi.
Blöð komu ekki út um áramótin - snjókoman byrjaði eftir að prentun var lokið fyrir þau. Þess vegna er ekkert mjög mikið af fréttum af snjókomunni. Stærsta fyrirsögnin var í Dagblaðinu síðdegis 2.janúar. Morgunblöðin birtu fréttir af færð og snjó daginn eftir - þegar þau komu fyrst út á nýju ári - en ekki með miklum fyrirsögnum. Morgunblaðið sagði þó á forsíðu frá afleitu ástandi í Evrópu og vestanhafs. Lesa má þessar fréttir með því að stækka myndirnar - eða fletta þeim upp á timarit.is - en þaðan eru þær fengnar (eins og venjulega).
Snemma í janúar gerði skammvinnan útsynning - þá daga var ritstjórinn að leita að húsnæði í Reykjavík (og fann - fyrir makalausa tilviljun). Síðan gekk á ýmsu - en snerist loks til norðankulda út mánuðinn og varð janúar mjög kaldur. Á Veðurstofunni sjálfri gekk í mikið stormviðri sem flæmdist í blöðin - látum eiga sig að rifja það frekar upp. Febrúar var nokkuð kaldur framan af en síðan hlýrri - og þá gekk á með nokkrum skakviðrum. Mars varð síðan óvenjukaldur og ekki var hlýtt í apríl.
Þriðjudaginn 3.apríl tók ritstjórinn þátt í sjónvarpsþætti um veðurfarsbreytingar - ásamt sér þroskaðri og merkari mönnum. [Fréttin er fengin úr Þjóðviljanum þann dag - enn með aðstoð timarit.is]. Lá við ofdrambi fáeina daga á eftir - en slíkt gleymdist fljótt í hinum hræðilega og illræmda maímánuði - sem var hreint afturhvarf til harðinda 19.aldar - ásamt septembertíðar sama ár. Virtist allt stefna til ísaldar - ef ekki þeirrar litlu - þá stórusystur sjálfrar. Þó voru þeir til sem héldu sönsum og sögðu mikil hlýindi í vændum - eiginlega sama hvað.
Í viðhengi má sjá veðurspár fyrir Faxaflóa þessa daga og veður í Reykjavík 30. og 31.desember 1978 og 1.janúar 1979. Þar er einnig listi með tölunum á snjódýptarkortinu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:24 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 512
- Sl. sólarhring: 691
- Sl. viku: 2307
- Frá upphafi: 2413327
Annað
- Innlit í dag: 478
- Innlit sl. viku: 2078
- Gestir í dag: 472
- IP-tölur í dag: 463
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.