Af árinu 1840

Árið 1840 var talið sjöunda hafísárið í röð og virðist ísinn hafa komist allt vestur að Reykjanesi sunnanverðu. Það var þó ekki kalt um landið suðvestanvert, meðalhiti í Reykjavík var 4,5 stig, +0,6 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan og það hlýjasta frá 1831. Reiknaður hiti í Stykkishólmi er 3,6 stig. Engar mælingar hafa fundist frá Norður- og Austurlandi. Þurrt var framan af sumri, en síðan tóku rigningar við þannig að sumarið fékk yfirleitt auma dóma. Janúar var kaldur, eins var kalt í apríl, maí, júlí og september. Aftur á móti var sérlega hlýtt í mars og einnig hlýtt í febrúar, október, nóvember og desember. 

ar_1840t 

Ellefu dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, kaldastir að tiltölu voru 25.janúar og 6.júlí. Einn mjög hlýr dagur var á árinu, 10. júní, þá fór hiti í um 20 stig í Reykjavík og sömuleiðis þann 15.júlí. 

Árið var fremur úrkomusamt - og mjög úrkomusamt ef miðað er við árin næst á undan. Í Reykjavík mældist hún 855 mm. Þurrt var í janúar og júní, en óvenjumikið rigndi í ágúst, 160 mm í Reykjavík. Úrkoma var einnig mikil í febrúar, apríl, október og desember. 

Meðalþrýstingur var óvenjuhár í mars og maí, hefur reyndar aldrei verið hærri í þessum mánuðum síðustu 200 árin. Hann var einnig fremur hár í október og desember, en fremur lágur í apríl, júlí og ágúst. Lægsti þrýstingur ársins mældist 29.nóvember, 956,2 hPa, en hæstur 20.mars 1042,4 hPa. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Annáll 19. aldar telur ýmis slys og óhöpp - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið. Þann 23.apríl fórst skip úr Þorlákshöfn með 13 mönnum og 19.júlí drukknuðu þrír menn úr Vatnsfirði, hver af sínum bátnum. Í fyrstu viku jólaföstu hrakti 20 hross til dauðs fram af klettum í Dalasýslu. Ísbirnir voru unnir á Vopnafirði og Berufirði. 

Gestur Vestfirðingur segir frá tíðarfari ársins 1840, en ekki fyrr en 1847:

Ár 1840 byrjaði harðindalega fyrsta mánuðinn, var þá mjög hagaskarpt fyrir útigangspening og 20 mælistiga frost, en á tveimur næstu mánuðum kom aftur besta vetrarveðrátta; voru þíður þá svo miklar á góu, að hús voru byggð vestanlands, heyhlöður og hjallar og baðstofa ein í Barðastrandarsýslu. Hinn fjórða mánuðinn voru tíðir og ákafir útsynningar, en næstu 3 mánuðina votviðri. Á ellefta mánuðinum gjörði fannir miklar og áfreða, er leystu upp undir árslokin. Grasár varð í lakara meðallagi og nýting bág á heyjum, eldivið og sjóföngum. Sjáfarafli varð í flestum verstöðum vestra jafnbetri en árið áður. Í Dritvík frekur hundraðs hlutur.

Í febrúar drukknuðu 2 menn við hafselaveiði á Ísafjarðardjúpi, og 1 maður í apríl, er varð í skipreika fyrir framan Eyrarsveit. Úr téðri sveit drukknuðu líka 5 menn í fiskiróðri, og í desember fórst skip með 6 mönnum á Ísafirði á leið frá Hnífsdal í Vigur.

Jón Jónsson (sem fluttur var að Dunhaga í Hörgárdal) segir janúar allan hafa verið harðan, mest vegna jarðbanna. Svo er að sjá að hann kvarti undan jarðleysi fram eftir febrúar en síðan hafi komið hægt þíðuveður. Sýnist hann tala um að mikið hafi snjóað í logni aðfaranótt 29. Mars yfir höfuð allur góður - nema síðasti hlutinn. Apríl segir hann í kaldara lagi. Maí segir hann kaldan og síðast hafi gert mikinn snjó í efstu byggðum og til fjalla. Júní kaldur fram að sólstöðum, en síðan betri. Fyrri hluta júlí segir hann mikið kaldan. Ágúst allur nema fyrsti partur fjarska óþurrkasamur. Fyrstu 3 vikur september mikið kaldar og oft óþurrkasamar. Október mestallur góður að veðurfari. Erfitt að lesa í nóvemberyfirlit, en helst að sjá að desember hafi verið dágóður. 

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Sama harka og hagleysi hélst til 9. jan., að blota gjörði og linviðri, svo snöp kom til lágsveita, en þraut að öllu brota-og mokjörð til hríshálsanna. Með þorra rak 3 daga hríð ísinn á Skagafjörð. Út þorra varaði hagleysið og oftar harðviðri. 18. febr. blotaði og úr því gáfust þíður og góðviðri, svo góa varð ein af þeim bestu. Aldrei kom snjór og ei hélaði glugga. Vermenn, er fóru í þorralok, tepptust 2 vikur við snjóbleytu á heið- (s134) inni og ófærar ár.

Úr nokkrum bréfum:

Laufási 10-2 1840 [Gunnar Gunnarsson] (s89) Allt til jólaföstu [1839] voru víða hér nokkrar jarðir fyrir útigangspening, en síðan hefur dunið yfir oss mesta snjófergja með sterkustu frostum, einkum síðan um jólin, þá kuldi hefur oftlega stigið til 24 allt að 28 gr., svo slái í langbakka með bata til þess kemur fram á útmánuði, þá verður óumflýjanlegur stórfellir á búpeningi hjá mörgum. Hafþök af ís skal nú vera hér úti fyrir, en ekki er nema hroði af honum kominn hér inná fjörðinn.

Frederiksgave 15-2 1840 (Bjarni Thorarensen): Tíðindin eru hvorki góð né mikil. Vetur um allt amtið með verstu jarðbönnum frá nóvemberloka til nú. Hey lítil og skemmd. ... Hafís kominn og farinn vesturmeð en í þetta sinn er hann borgarís mest og því lengra að, vona ég því að þetta verði seinasta hafísárið eins og það 7da. ... Það dómadags snjóflóð kom útí (s148) Siglufirði á sjó niður að honum sletti upp hinumegin svo skip sem þar stóðu uppi brotnuðu nokkur í spón en hin löskuðust og sjór fór þar inní kaupmannshúsin [í desember 1839] (s149)

Frederiksgave 13-2 1840 (Bjarni Thorarensen): ... en nú hefir verið vita jarðlaust um allt þetta amt síðan fyrir jólaföstu, en hey í öllum helmingi þess slæm og lítil, ... hafís kom fyrir þorrabyrjun sem þó nú hefir rekið nokkuð vesturmeð, en þareð hann var að miklu leyti borgarís sem ekki hefir verið hin árin, svo vona eg að þetta verði seinasta vor hans fyrst um sinn, því hann er lengst að kominn, líka er máltæki að sjaldan sé mein að miðsvetrarís, en auðnan má ráðu hvort það nú rætist. (s250)

Frederiksgave 16-2 1840 (Bjarni Thorarensen):: Jarðlaust um allt mitt umdæmi. – Hey allstaðar lítil, í hálfu amtinu skemmd. ... Hafís sást aftur mikill fyrir þorra sem var borgarís, ergo lengra að, svo ég vona að þetta 7da hafísvor verði það seinasta fyrst um sinna. (s169)

Bessastöðum 28-2 1840 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s187) Vetur hefur í öllum Sunnlendingafjórðungi verið til þessa hinn besti, þó nokkuð frostmikill, en veður stillt.

Frederiksgave 23-4 1840 (Bjarni Thorarensen):: Bati kom hér í þorralok og hefir síðan haldist svo ég vona nú að peningshöld verði allgóð. (s171)

Brandsstaðaannáll [vor]:

Með apríl kuldakafli, eftir það útsynningur og óstöðugt, snjór um vikutíma á sumarmálum, þá gott og gróður á eftir. Í maí kælusamt, stundum fjúkslyddur.

Tómas Sæmundsson nefnir tíð í bréfi:

Breiðabólsstað 12-5 1840 (Tómas Sæmundsson): Hér er góð tíð til landsins vegna veðurblíðunnar, þó seint sé um gróðurinn.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í júní oft hlýtt, en þó næturfrost. Í júlí þurrkar, sem ollu grasbresti. Tún spruttu fram í ágúst. Sláttur byrjaði með hundadögum. 29. júlí skipti um til votviðra og varð ei þurrkað 9 daga. Skemmdust töður hjá mörgum, er slepptu af litlum þerri. 17.-19. og 25.-26. ágúst voru einustu þerridagar. Alltaf héldust votviðrin til 25.-26. sept., að allir gátu hirt hey sín, en oft kom þó flæsustund, er nota mátti til hlítar. Féll nú heyskapur þvert á móti því í fyrra. Varð þraut mikil votengi, en allgóður heyskapur á harðlendi. 27. sept. hret og fönn mikil.

Úr nokkrum bréfum (Frederiksgave er amtmannshúsið á Möðruvöllum í Hörgárdal):

Frederiksgave 18-7 1840 (Bjarni Thorarensen): Bati kom í þorralok svo peningshöld urðu betri en áhorfðist, en hafís seinna og kuldar, borgarís mikill svo jakar standa botn á 6tugu og áttræðu djúpi, en flatísinn miklu þykkri og harðari en hin árin, því að líkindum kominn lengra norðanað, svo ég vona nú að það sé losnað sem losnað getur og menn að ári verði fríir fyrir þeim gesti ... Ég fór inspectionsferð yfir nyrðri hluta Norðurmúlasýslu og Þingeyjarsýslu og kom að Sauðanesi og Presthólum, á fyrra staðnum lá ég um kyrrt þann 6ta og 7da [júlí] vegna snjóa!! og fór þaðan þann 8da í bleytings kafaldi. (s252)

Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi lýsir veðri snemma í júlí, sama hreti og Bjarni nefndi í bréfi sínu þann 18.:

3. [júlí] Norðan, kaldur, þykkur, þokufullur, oftar regn og krapi. 4. Sama kulda veður. Úrkoman minni, þó oftar súld og fýla. 5. Norðan kaldur, hvass áleið, oftar regn og krapi. 6. Norðan stormur, mikill kuldi, hríðarkrapaél og óveður. 7. Norðan hvass, mikið kaldur, þokufullur. Sólskin um tíma, seinast bleytuhríð [innskot: Allt fullt af ís norðan og austan við landið]. 

Hjálmholti 21-7 1840 (Páll Melsteð ritar Jóni Sigurðssyni): „Tíðin hefur verið nokkuð köld og þurrkasöm, af því hafísinn var að hrekjast hér fyrir landi lengi frameftir; hann lenti allt suður að Reykjanesi, kom austan með landi og lá hér rúman hálfan mánuð og fór svo suðaustur í haf. Tún eru ekki svo illa sprottin, en úthagi sárilla. Nú er sláttur byrjaður víðast hvar hér um pláss og fellur nú margt strá til jarðar hér í Flóanum“. Páll segir svo frá ferð sem hann fór upp að Geysi með Jónasi Hallgrímssyni og Japetus Steenstrup. Hann segir: „ ... veðrið var með besta móti, nærri því of heitt, því daginn sem við vorum við Geysi var 21° hiti í skugga. Ekki efast Steenstrup um það að hér megi koma upp birki og greniskógum ef sáð sé til þeirra og plönturnar friðaðar og passaðar“.

Saurbæ 28-8 1840 [Einar Thorlacius] (s92) Veturinn var snjóamikill með jarðbönnum, vorið aftaks kalt og gróðurlítið. Ollu því hafísar fyrir öllu Norðurlandi, svo sum kaupför eru hingað nýkomin og voru 10 vikur í sjó. Þó komu öll til skila. Síðan um mitt sumar hefur verið blíð og þíð veðurátt. Grasvöxtur var í meðallagi, en mesta mein að rigningum og óþurrkum.

1-9 1840 (Jón Þorsteinsson athugasemd með veðurathugunum): „Det indeværende Sommer har, med undtagelse af Junius, været meget vaad, især i August“. [Þetta sumar hefur, að undanskildum júnímánuði, verið mjög blautt, sérstaklega ágúst].

Laufási 16-9 1840 [Gunnar Gunnarsson] (s95) Það má heita að hér hafi nærri verið stöðug votviður síðan um miðjan túnaslátt eða seint í júlímánuði, og þó menn hafi súldað nokkru af því hálfblauta heyi heim í nokkrar af tóftum sínum, þá er að óttast fyrir slæmum eftirköstum, og nú liggur almennt úti mikið af heyi og sumstaðar stórlega skemmdu.

Brekku 21-9 1840 (Páll Melsteð): „Síðan þessi mánuður byrjaði hefir hér viðrað heldur stirt. Einlægt hefur verið svo stormasamt að sjaldan hefir á sjóinn gefið og þó það sé að á fiskimið verði komist, þá er þar ekki fiskur fyrir. Heyskapur er ofurlítill víðast hvar, því bæði var illa sprottið og svo hefir verið óþurrkasamt, þar til vikuna sem leið; þá kom mikið norðanveður, hér um 4 eða 5 daga, og þá hafa margir náð töluverðu heyi í garð. Lakastar eru töður manna úthey er nokkru skárra“.

Bessastöðum 20-9 1840 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s192) En svo lítur út, að árferði muni nú töluvert spillast vegna rigninga, sem gengu allan ágústmánuð út og fram til þess 10. sept. Að sönnu kom í ágúst einstaka hálfur dagur þurr, en það vildi nú lítið hjálpa.

Frederiksgave 7-10 1840 (Bjarni Thorarensen): ... frá 20ta til 27da desember [ritvilla fyrir september] voru hér dýrmætir dagar, svo allir náðu heyi sínu heim, en sjálfsagt er að það var víða skemmt stórum einkum á útkjálkum. Ástandið er samt miklu betra, einkum austanmeð en í fyrra um þetta leyti. Komist nú Norðurland af í vetur, vona ég að þess Crisis sé úti, því þetta er 7da hafísárið, þau eru sjaldan vön að vera fleiri, en þar að auki hefir sá fjarskalegi ís sem hingað hefir í ár komið verið annars eðlis en hin árin, því flatísinn hefir verið miklu þykkari og þar að auki komið með honum borgajakar sem menn segja að hafi staðið botn á 6tugu og 8ræðu djúpi!. Hann er því langt að kominn kannski frá sjálfum Nástrandar Dyrum, og ekki ólíklegt að það sé losnað sem losnað getur. (s253)

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Í október lengst þíður og þrisvar ofsaveður á suðvestan, stundum miklar rigningar. Í nóvember fyrstu 10 daga mesta blíðviðri, þurrt og þítt, eftir það frost og auð jörð, 8 daga þá óstöðugt, þó gott vetrarfar, jörð nóg og hláka um jólin. Austurlandið umkringdi hafísinn allt til Vestmannaeyja um vorið og hélst við fram í júlí og olli það grasbresti. Höfðaskipin komu nú vestan fyrir mót venju, því aldrei festist ísinn hér við á flóanum. Sigling kom í júní. (s135)

Frederiksgave 22-10 1840 (Bjarni Thorarensen):: ... þetta sumar hefir orðið affarabetra en áhorfðist fyrir allan eystri hluta amts þessa, því þar rættist nokkuð úr grasvexti og nýting varð bærileg, en allt því lakara því vestar sem dró. (s172) Í Vopnafirði klagaði maður fyrir mér sem sat á 16 (hndr) jörð hvað hún hefði spillst við skriðu og vildi fá hana niðursetta, en ég sá jörðina sjálfur og fann að hún hafði grösugt votengi víðlent, stórt vænt tún hvaraf hérum ½ dagslátta lá þakin moldu af skriðu þessari, hitt fagurgrænt en fjallhagar nógir. (s173)

Frederiksgave 29-12 1840 (Bjarni Thorarensen):: Veturinn hefir hér verið hinn æskilegasti það sem af er. Nýting á heyi í eystra parti ríkis míns allbærileg, lakari í vestri partinum, ... menn hyggja og ég með, að hafís nú sé langt í burtu, því flatísinn var í sumar dæmalauslega þykkur, en nú er í hverri norðangolu dæmalaust brim á útkjálkum sem sýnir að hún blæs yfir langan sjó. (s174)

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1840. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 919
  • Sl. sólarhring: 944
  • Sl. viku: 2714
  • Frá upphafi: 2413734

Annað

  • Innlit í dag: 862
  • Innlit sl. viku: 2462
  • Gestir í dag: 838
  • IP-tölur í dag: 816

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband