Af janúar

Meðan við bíðum eftir lokatölum frá Veðurstofunni skulum við líta aðeins á háloftavikakort mánaðarins. Það er 500 hPa-flöturinn eins og venjulega.

w-blogg010221a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en vik sýnd í lit, neikvæð vik eru bláleit, en þau jákvæðu brún og svo bleik þar sem þau eru mest (ekki alltaf sem við sjáum þann lit á korti sem þessu). Kortið segir ekki síst af fjarveru kuldapollsins Stóra-Bola úr hefðbundnu bæli vestur við Baffinsland. Af vikamynstrinu má ráða að norðlægar áttir hafa verið mun algengari en að jafnaði í háloftum að þessu sinni - en hæðarlínurnar segja okkur að meðalvindur hefur verið úr vestnorðvestri í miðju veðrahvolfi - og Ísland því í skjóli Grænlands og nýtur niðurstreymis austan þess. Neðar ríkir síðan eindregin norðanátt sem borið hefur úrkomu að landinu norðaustanverðu. Annars er algengast í stöðu sem þessari að úrkoma sé ekki mjög mikil þar heldur. 

Við getum auðveldlega leitað að ættingjum þessa janúarmánaðar í fortíðinni - með hjálp endurgreininga - þær eru nægilega nákvæmar til að skila ættareinkennum allvel. Sá almanaksbróðir sem er greinilega skyldastur er janúar 1941. Lítum á vikakort hans.

w-blogg010221b

Ættarsvipurinn leynir sér ekki. Textahnotskurn ritstjóra hungurdiska (sem hann hefur í þessu tilviki nappað úr Veðráttunni) segir: „Óvenju stillt, úrkomulítið og bjart veður. Fé gekk mikið úti. Gæftir góðar. Færð mjög góð. Hiti ekki fjarri meðallagi“. - Við megum taka eftir því síðasta - hiti ekki fjarri meðallagi, mánuðurinn var þó á landsvísu -0,2 stigum kaldari en sá nýliðni. Greinilega önnur hugarviðmið (eins og fjallað var um á hungurdiskum í gær). 

Við lítum líka á þykktarvikakortið. 

w-blogg010221g

Jafnhæðarlínur eru heildregnar sem fyrr, jafnþykktarlínur eru strikaðar, en þykktarvik sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og var nærri meðallagi áranna 1981 til 2010 hér við land - lítillega neðan þess um landið austanvert. Mikil hlýindi voru ríkjandi vestan Grænlands - mesta vik sem við sjáum er 147 metrar - það þýðir að hiti hefur verið um 7 stig ofan meðallags. Kalt var hins vegar við Norðursjó - mesta neikvæða vikið er um -65 metrar - hiti um -3 stigum neðan meðallags. Á samskonar korti fyrir janúar 1941 eru jákvæðu vikin vestan Grænlands svipuð og nú eða litlu minni, en neikvæða vikið yfir Skandinavíu miklu meira heldur en nú - enda var veturinn 1940 til 1941 einn af þremur hryllingsvetrum í röð á þeim slóðum (sá í miðið). 

Hér á eftir er meiri útkjálkatexti - fyrir fáa og því þvælnari sem á líður.

Samband hita og þykktar er oftast nokkuð gott hér á landi - ekki síst á vetrum. Til gamans skulum við líta á tengsl meðalhita janúarmánaðar í byggðum landsins og þykktarinnar. 

w-blogg010221d

Athugunin nær til janúarmánaða 1949 til 2021. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er á landinu. Bláa örin bendir á janúar 2021. Hann er á sínum stað, meðalhiti um -1,6 stig og þykktin um 5220 metrar (522 dekametrar). Við sjáum að janúar 1971 hefur verið talsvert kaldari en vænta mátti, meðalhiti þá var -4,4 stig, en þykktin hefði viljað hafa hann um -1,5. Sum okkar muna enn þennan mánuð - hann var afskaplega tíðindalaus - en á þó lægsta lágmarkshita sem mælst hefur í Reykjavík eftir 1918. Ætli eindregin hitahvörf hafi ekki verið yfir landinu? Staðan var öfug árið 1956, þá var þykktin mjög lítil - meðalhiti hefði átt að vara um -5,3 stig, en var -3,9 stig. Loft hefur trúlega blandast enn betur heldur en venjulega. Það má taka eftir því að hver dekametri í þykkt samsvarar tæpum 0,4°C, - ætti að vera 0,5°C ef fullt samband væri á milli. Köldu mánuðirnir 1979, 1959 og 1984 eru um það bil á réttum stað. 

En róum nú aðeins dýpra. Ritstjórinn hefur oft rætt um þáttun þrýsti- og háloftavinda í vestan- og sunnanþætti (eða austan- og norðanþætti). Hægt er að gera það á grunni beinna vindmælinga, en líka með því að líta á þrýstisviðið - eða hæðarsvið háloftaflata. Sé þetta gert má finna samband vindátta og hita - ekki síst ef við bætum hæð þrýstiflata við í púkkið. Hæðin segir okkur talsvert um það hvaðan loftið er upprunnið. Liggi þrýstiflötur hátt eru líkur á því að loftið undir honum sé af suðrænum uppruna (málið er þó talsvert flóknari fyrir neðstu fletina) - en liggi hann lágt sé uppruninn norrænn. Það getur því komið fyrir að loft sé af suðrænum uppruna þótt norðanátt ríki við jörð (og öfugt). 

w-blogg010221e

Myndin sýnir samband á milli þriggja háloftaþátta (vestanáttar, sunnanáttar og hæðar 500 hPa-flatarins í janúar) annars vegar og meðalhita í byggðum landsins. Því er þannig háttað að því sterkari sem vestanáttin er því kaldara er í veðri, því meiri sem sunnanáttin er því hlýrra er (sunnanþátturinn er reyndar meira en þrisvar sinnum áhrifameiri heldur en vestanþátturinn). Því hærra sem 500 hPa-flöturinn liggur því hlýrra er í veðri (að jafnaði). 

Við sjáum að fylgnistuðullinn er glettilega góður, nærri því 0,8 og myndu tölfræðingar sumir segja að við höfum þar með „skýrt“ hátt í 2/3-hluta breytileika hitans frá einum janúarmánuði til annars. Bláa örin á myndinni bendir á nýliðinn janúarmánuð (2021) - hann reynist lítillega hlýrri en vænta má af vindáttum og hæð 500 hPa-flatarins. Sjá má að ekki gengur heldur vel hér með janúar 1971 - hann var talsvert kaldari heldur en vindáttir segja til um. Við gætum (með kúnstum) lagað þetta samband lítilsháttar (en það yrði ætíð á kostnað einhvers annars) - sumir myndu t.d. hiklaust leggja bogna aðfallslínu í gegnum punktaþyrpinguna - en það vill ritstjóri hungurdiska ekki gera - nema að því fylgi sérstakur rökstuðningur (hann er svosem til). Janúar 1979 var líka kaldari heldur en vindáttir segja til um, en betur tekst hér til að giska á hita í janúar 1956 heldur en á hinni myndinni. 

Sé rýnt í myndina kemur í ljós að janúarmánuðir þessarar aldar hafa margir hverjir tilhneigingu til að liggja ofarlega í þyrpingunni. Það hefur verið hlýrra heldur en „efni standa til“. Þeir sem halda fram hlýnun jarðar umfram aðrar skýringar velja hana kannski - en það er rétt að hafa líka í huga að gögnin eru e.t.v. ekki alveg einsleit allan tímann. Við skulum ekki fara of djúpt í slíkar vangaveltur. Lítum samt á mynd sem sýnir hvernig munur á reiknuðu og mældu (svokallaðri reikni- eða aðfallsleif) hefur þróast í gegnum tíðina.

w-blogg010221f

Jú, leifin á þessari öld hefur yfirleitt verið jákvæð - það hefur verið hlýrra heldur en í samskonar vindafari fyrir aldamót - munar nærri 1 stigi að jafnaði. Við vitum reyndar að norðanáttir hafa verið mun hlýrri heldur en áður var - kannski hefur þetta eitthvað með það að gera. 

Við þökkum Bolla P. fyrir kortagerðina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1064
  • Sl. sólarhring: 1110
  • Sl. viku: 3454
  • Frá upphafi: 2426486

Annað

  • Innlit í dag: 951
  • Innlit sl. viku: 3107
  • Gestir í dag: 922
  • IP-tölur í dag: 854

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband