Af árinu 1837

Tíðarfar var talið mun skárra árið 1837 heldur en næstu tvö ár á undan. En matið fer samt nokkuð eftir því við hvern er talað, talvert betra hljóð syðra heldur en norðanlands. Meðalhiti ársins í Reykjavík var 3,8 stig og er áætlaður 2,9 stig í Stykkishólmi, 0,3 stigum neðan meðallags næstu 10 ára á undan. Engar mælingar eru til frá Norðurlandi, en líklega hefur verið tiltölulega kaldara þar - sumrið var svalara heldur en á Suðurlandi ef trúa má almennum lýsingum og dagbókum. Nóvembermánuður var sérlega kaldur, enn kaldari en árið áður. Sömuleiðis var kalt í mars, apríl og maí, en fremur hlýtt í júní, júlí, september og desember. 

ar_1837t

Í Reykjavík voru mjög kaldir dagar 23, flestir í mars og apríl. Að tiltölu var kaldast 29.ágúst - og 11.mars. Einn dagur var óvenjuhlýr, 24.júní. Hiti komst í 20 stig 18 daga í Reykjavík. Höfum í huga að aflestrarnákvæmni er aðeins 1°R. Kaflinn frá 19.júlí til 1.ágúst var sérlega góður. Nokkuð hlýtt var líka á Akranesi þessa daga, en hlýinda virðist ekki hafa gætt austur í Vík í Mýrdal megi trúa mælingum Sveins Pálssonar. 

Árið var sérlega þurrt í Reykjavík - eins og fleiri ár á síðari hluta fjórða áratugarins og mældist úrkoman aðeins 532 mm. Hún var rétt yfir meðallagi í febrúar og júlí, en annars undir. Ekki mældust nema 10 mm í mars og 17 mm í apríl (aðrar tölur má sjá í viðhengi).

Loftþrýstingur var sérlega hár í mars, en fremur lágur í febrúar. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 15.febrúar, 945,9 hPa, en hæstur 3.mars 1040,0 hPa. Þrýstiórói var með minnsta móti á árinu, sérstaklega í apríl, maí, júní,júlí og september, en einnig í janúar. Bendir það til þess að hvassviðri hafi ekki verið mjög tíð. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær.

Fjölnir segir af tíð 1837 (4.árg. s.33): 

Árið 1837 var á Íslandi eitthvert farsælasta ár til lands og sjávar. Að vísu gjörði um þrettándann fádæma hörkur og harðviðri, sem tók yfir allt land, og kyngdi niður svo miklum snjó i einu fyrir sunnan, að varla varð komist yfir jörðina, er álnardjúpur [60 cm] snjór lá yfir víða á jafnsléttu; og þóttust menn varla muna, að svo miklu hefði snjóað í einu; voru og um það leyti hríðir miklar og frostharka, og fórust um Norðurland nokkrir menn og helst i Norðursýslu, og líka 1 skip með 5 mönnum þar úr fjörðunum. Enn bráðum linaði þessum harðindum aftur með hægri sunnanátt eður útsynningum, og mun þess bata hafa notið við um allt landið; og svo voru miklar þíður og marar fyrir sunnan á þorranum, að klaki var að mestu úr jörðu, og sumstaðar í Árnessýslu og Rangárvallasýslu farið að beita kúm út á grænurnar, sem losnuðu undan fönnunum; hélst það fram eftir góunni. Enn þegar út á leið betur, hljóp í aftur öðru hverju með hörkufrost og norðanátt; en aldrei kom þaðan af syðra snjór á jörð, að kalla mætti. Voru og harðviðrin sjaldan lengur enn tvo eður þrjá daga í senn, og gekk þá aftur með hægð til suðurs eður útsuðurs; voru helstu íhlaupin af norðri 9.—12. mars; svo í vikunni fyrir og eftir páska [26.mars], næstum hálfan mánuð í senn, sem alltaf var við norðurátt og feiknakuldi öðru hverju; og svo viku fyrir sumar, 14.—16. apríl; gekk svo á vorkuldum lengi fram eftir; enn þó var mest meinið að íhlaupinu síðasta, 24.—20. dags maí, og kom af því kyrkingur mikill í grasvöxtinn, og kál skemmdist víða. Veður var hið sama norðanlands, nema hvað meira varð þar af íhlaupunum, og vorkuldarnir voru meinlegri; er svo talið, að sumstaðar væru ekki fleiri enn 4 eður 5 nætur frostlausar fram að þrenningarhátíð [21.maí], þegar síðasta áfellið byrjaði; var þar og hafíshroði að flækjast um sjóinn. Hvergi getur samt, að fellir hafi orðið eður heyþrot, og víða voru nokkrar fyrningar, og olli það með fram norðanlands, að heyskapurinn gekk svo báglega sumrinu fyrir, að miklum fénaði var lógað um haustið. Úr því leið af fardögunum var veðuráttufarið viðast blítt og hagstætt, og oftar heldur vætukennt; lagaðist svo jörðin, að grasár mun allstaðar hafa orðið í meðallagi, og sumstaðar miklu betur. Féll og nýtingin á heyi að því skapi, og varð hún góð alstaðar, og slátturinn ekki endasleppur. Heyafli varð því mikill og góður, og með því að víða var svo fénaðarfátt undir, mun þorri manna hafa þóst fær að taka vetrinum, þó hann yrði nokkuð svæsinn; hefur þó að minnsta kosti sunnanlands ekki á það reynt. Að sönnu var veðurátta heldur hroðafengin frameftir haustinu og rigningasöm, svo lítið varð að verki — komu og frostin þegar rigningunum létti, og heldur með fyrra móti; en þó var sunnanlands, þegar á allt er litið, frá haustnóttum — en sér í lagi frá því með jólaföstu -— og fram á góu einhver staklegasta veðurblíða, oftast þíður og sunnanátt. Er það meðal annars til marks um það, að undir S0 menn úr Landeyjum sátu tepptir í Vestmannaeyjum frá 3. degi nóvember til 29. janúar; hefir það ekki borið til í manna minnum. En úr Eyjunum verður ekki komist til lands nema í norðanátt, utan í einstöku góðviðrum og sjódeyðum á sumardag. Má svo kalla, það sem liðið er vetrarins, að varla hafi komið snjór á jörð á láglendi, enn aldrei tekið fyrir haga. Búfénaður er því víða enn í haustholdum (í janúar 1838), þó ekki hafi honum verið gefið strá. Fyrir norðan varð heyskapur víðast með betra móti, eins og fyrir sunnan; en með veturnóttum gjörði þar hríðir miklar og eitthvert frekasta snjókyngi, einkum í nyrðri sýslunum.

Sunnanpósturinn 1838 segir frá árinu 1837

(s3) Það næstliðna ár 1837, reyndist Íslandi yfir höfuð að tala, betra en áhorfðist í fyrstunni og miklu betur en von var til eftir undirbúningnum frá sumrinu 1836. Árið 1837 byrjaði með harðindum, snjókomu og frosti. Framan af janúar var veðráttan hörð, jafnvel sunnanlands, hvar frostið varð að 16°; og þar er þó venjulega mildust veðrátta; það var því ekki láandi þótt margir væri hálf hræddur þegar árferðið var svo ískyggilegt, því tíðast er það að í marsmánuði verður veðrátta hörðust á voru landi, en það fór í þetta sinn ekki svo, heldur batnaði vetrarfar eftir því sem á hann leið, svo flestir bændur komust vel af með fénað sinn, ekki meiri heyafla en þeir höfðu undan sumrinu. En er leið að sumarmálum heimsótti hólma vorn sá gamli óvinur „Grænlandsísinn“ og lagðist inná hvern fjörð norðanlands og beygði sig austur fyrir Langanes, líklega og vestur fyrir Horn. Þessi ís komst með tímanum fyrir alla Austfirði og vestur með landinu, allt út að Skaftárósi, þar var hann seint í maímánuði, en vonum fyrr rak hann frá aftur. Við Norðurland þar á mót lá hann allvíða þangað til snemma í júlímánuði. Þessi ís hafði þá sömu verkun sem alkunnug er hér á landi, að vorið varð allt þurrt og kalt og það svo mjög að jafnvel sunnanlands sást næstum engin blómgun á jörðu, því síður í nánd við þennan óþekka gest, um sólstöður (21.júní), en strax með sólstöðum brá veðuráttunni til mýkinda og votviðris fyrst syðra og svo eftir því sem ísinn fjarlægðist, norðanlands. Mót margra von hafði þó þessi seina umbreyting veðráttunnar þá gleðilegu verkun, að grasvöxtur varð allgóður víðast hvar; almennt er þó haldið að vorkuldar, fyrst meðan gras er að springa út, sé háskalegasti gróðurs hnekkir. Meðalgrasvöxtur og sumstaðar í betra lagi veittist í sumar og nýting grassins varð allgóð; lökust samt í Skaftafells- og Strandasýslum; í Strandasýslu var og sumstaðar töluverður grasbrestur, og þar skal hafa verð óbjargvænlegt á næstliðnu hausti. Haustveðráttan hefir verið syðra í meðallagi, þó æði stormasöm og eftir veturnæturnar, fram undir jólaföstu, köld, en með jólaföstu kom góður bati sem viðhélst árið út. Það kuldakast sem hér kom eftir veturnæturnar var upp um sveitir miklu harðara en hér syðra hvar frostið aldrei varð yfir 9° og því fylgdi snjókoma sem orsakaði jarðbönn sumstaðar. Í fyrra vetur gafst aðeins afli í minna meðallagi nema í Skaftafellssýslu og undir Eyjafjöllum, því austar því meiri; hlutir urðu 5 og 6 hundruð. Var það nærgætnislega gert af forsjóninni að láta þennan afla gefast snemma vertíðar í Skaftafellssýslu því þar voru um það leyti margir orðnir bjargþrota sem ekki var tiltöku mál, þar eð harðindin árið áður höfðu hvað þyngst orðið fyrir austan Jökulsá á Sólheimasandi.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Þó sunnan og vestanlands væri gott ár, náði það ei til norðurlands. Á nýársdag upp á hláku bræddi hér yfir jörð ógnarlegu glerhálu svelli með frostrigningu, svo engin skepna komst úr úr dyrum og hross stóðu í sveltu. Aftur 15. jan. gerði annan blota með sama frostrigningarviðskilnaði. Varð að járna hross til að koma þeim heim eða á loðna hnjóta og enginn gat ójárnaður náð vatni í bæ og fjós nokkra daga, þar til hríðar gerði. 7. jan. brast á mikill bylur. Urðu menn úti frá Brekkum og Miðhúsum í Blönduhlíð og 3 manneskjur í Fnjóskadal á kirkjuleið, Sauðamenn í jarðsælli sveitum náðu fáir heim. Allan janúar var hér jarðbann. 5. febr. gjörði mikla hláku, er mjög vann á svellið og hélst snöp eftir það og veðurátt allgóð. 8.-12. mars miklar hörkur og aftur um páskana vikutíma, þess á milli milt og stillt veður.

Nokkur bréf frá þessu ári hafa verið prentuð. Flest eru fengin úr Bréfasafni Bjarna Thorarensen amtmanns á Möðruvöllum (þar var húsið Frederiksgave) og úr ýmsum bréfabókum sem Finnur Sigmundsson tók saman. 

Saurbæ 5-2 1837 [Einar Thorlacius] (s76) Sumarið [1836] að vísu var kalt og afgróðaspart, en ekki notaslæmt, vetur veðráttustirður með köflum. Nú er þó æskilegt þíðvindi og næstum öríst.

Í bréfinu hér að neðan kemur fram að Bjarni amtmaður gerir reglulegar veðurathuganir og sendur þær til Danmerkur. Við vitum ekki hvar þær eru niðurkomnar nú. 

Frederiksgave 12-2 1837 (Bjarni Thorarensen): Jeg vover underdanigst at lade hosfölge meteorologiske Observationer af mig siden 6te Novembr. næstavigte paa et eftir Reaumurs scala men efter Decimalmaal indrettet Franskt Thermometer (Barometer ejer jeg ikke) hvoraf Deres Kongelige Höjhed naadigst vil erfare, at meget streng Frost sielden har indtruffet i denne Vinter – (s341)

Mjög lauslega þýtt: „Allranáðarsamlegast leyfi ég mér að láta veðurfræðiathuganir gerðar af mér síðan 6.nóvember síðastliðinn fylgja með. Þær eru gerðar með frönskum tugabrotaskiptum mæli eftir hitakvarða Reaumur (loftvog á ég ekki). Af þeim getur yðar konunglega náð reynt að hart frost hefur sjaldan orðið hér á þessum vetri“.

Frederiksgave 13-2 1837 (Bjarni Thorarensen): ... nógur hagi hefir veri síðan 25ta janúar, en vont, einkum í Skagaf. og Húnavatns sýslu þangað til á nýári, og hross voru orðin horuð í Skf. sýslu (s239)

Breiðabólstað 14-2 1837 (Tómas Sæmundsson): ... vetrarfar hefir verið með stirðasta móti allt fram að þorra ... Haustvertíð hefir fallið illa á Suðurnesjum og helst vegna gæftaleysis; nú er sagt farið að fiskast.

Bessastöðum 3-3 1837 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s172) Vetur hefur verið harður til jóla, síðan góður, svo líkindi eru til að ekki brjóti út virkilegt hallæri í þetta sinn.

Frederiksgave 16-4 1837: Hafís liggur fyrir öllu mínu umdæmi frá Vopnafirði vestur á Hrútafjörð ... Skepnufellir verður hér trauðlega því vetur hefir síðan 25ta janúar verið góður, en nú er íhlaup aftur. (s152)

Brandsstaðaannáll [vor]:

14. apríl mikil hríð upp á hláku og vatnsgang. Hafís var landfastur og lá langt fram á sumar. Hann var einstaklega flatur yfir að sjá, því mikið var af honum lagnaðarís. Vorið var kalt og þurrt. Gróður sást fyrst í miðjum maí 24. var mikil rigning og harka á eftir. Kól þá tún og engi til stórskaða. Varði frostið um viku. Fórust lömb allmörg, þar heyleysi var.

Sveinn Pálsson getur þess að 23.apríl hafi ís komið að Meðallandsfjörum og þann 25.maí getur hann þess að um nóttina hafi ísflekk rekið hjá Vík - til suðvesturs. 

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í júní þurrt og og stillt veður lengst. Eftir sólstöður frostalaust og í júlí gott sumarveður. Spratt úthagi lengi og varð í meðallagi til framsveita. Sláttur byrjaði þar á miðsumri, en i júlílok í útsveitum. Heyskapartíð gafst góð, rekjur og þurrkar nægir og varð á þurrengi meðalheyafli, en flæðiengi kól um vorið. Öll jörð var nú orðin sinulaus. Haustheyskapur gafst vel. Í Langadal fékkst hey í meira lagi, en í minna lagi utar. Lögðu nú flestir mikla ástundun á að heyja og gekk kaupafólk vel út. ... Ísinn lá hér á fjörðum til hundadaga, en sveif frá Fljótum, svo til hákarla náði um tíma. Höfðaskip komust inn á Siglufjörð um Jónsmessu og biðu þar um mánuð og þótti þetta fáheyrt.

Nokkur bréf rituð um sumarið: 

Frederiksgave 28-7 1837 (Bjarni Thorarensen): Nú vona ég að Drottinn gefi norðlendingum þó dálítið andrúm eftir þessi 3 grasleysis sumur, því svo illa sem áhorfðist framyfir Jónsmessu, því Skagafjörður og Húnaflói eru vart hafíslausir enn, þá hefir sá bati komið að grasvöxtur allstaðar er miklu betri en í fyrra og verður víðast meðalár (s241)

Laufási 17-8 1837 [Gunnar Gunnarsson] (s78) Allt framundir Jónsmessu í sumar voru slíkir kuldar hér og svo kalin jörð, að oss mönnunum sýnsit varla og ekki mögulegt, að grasvöxtur gæti gefist svo mikill, að fengist gæti handa því hálfa af fénaði fólks, en svo furðulega hefur bæst úr þessu með hagstæðu veðráttufari síðan, að til þess lítur nú út til, að flestir haldi lífi í skepnum sínum ...

Frederiksgave 18-8 1837 (Bjarni Thorarensen): ... á sumum útkjálkum, nl. Ólafsfirði og Siglufirði hefir grasvöxtur verið mikið aumur.

Frederiksgave 19-8 1837 (Bjarni Thorarensen): Vorið var hér það harðasta til Jónsmessu, en úr því gekk hagstætt svo nú er meðalgrasár, nema í Ólafsfirði og Siglufirði – hvergi var ástand mjög bágt vestra nema í Vindhælis- og Skefilsstaðahreppum ... Þeir gátu nefnilega enga björg fengið á sjó fram í júlí mánuð vegna hafíssins. (s136)

Frederiksgave 18-9 1837 (Bjarni Thorarensen): Vel vare Udsigterne i næstavigte Foraar paa det mörkeste, thi man kan ikke sige at der kom nogen Sommer förend först i Julii, men Vejret forandrede sig fra den Tid saaledes til det bedre, at Grasvæxten paa flere Steder endog blev middelmaadig og Höibiergningen lykkedes paa det bedste lige til 28de f. M, men fra den Tid indtil den 15de dennes var Vejret afvexlende med Slud og Snee som ganske afbröd Indhöstingen og endog faldt meget dyb paa de nordligste Udkanter – fra den 15de d. M. er Luften efterhaaanden bleven mildere og i Dag har det været 15 Graders Varme (Fr. Decimalmaal) saa man har grundet Haab om at Folk vil faae bierget det afslaaede Höe. ... Inspectionsreise ... Nöd havde man endnu ingensteds lidt – kun vare to Communer, den ene i Hunevands og den anden i Skagefjords Syssel, i en farlig Stilling, thi begge disse Communer som ligge paa Sysslernes Udkanter, havde formedelst Drivisen som laa der tæt optil Kysten lige til Julii.

Í mjög lauslegri þýðingu: Það má segja að útlitið síðastliðið voru hafi verið hið dekksta, því svo má segja að ekki hafi neitt sumar komið fyrr en í júlí, en frá þeim tíma snerist veður til hins betra svo grasvöxtur og heybjörgun tókst hið besta alveg fram til 28.[ágúst] en frá þeim tíma til þess 15. þessa mánaðar [september] var veður breytilegt og skiptust á slydda og snjór sem rufu heyskap og snjór varð djúpur í útsveitum. Frá 15. hefur loftið orðið mildara og í dag hefur verið 15 gráðu hiti (franskt tugamál) þannig að ástæða er til að halda að fólk geti bjargað því heyi sem slegið hefur verið. Á eftirlitsferð (kom í ljós) að neyð höfðu menn hvergi liðið - aðeins í tveimur hreppum, annar í Húnavatnssýslu, en hinn í Skagafjarðarsýslu, þar sem staðan er hættuleg, því í báðum tilvikum hafði hafís legið þétt við strendur fram í júlí. 

Frederiksgave 20-10 1837 (Bjarni Thorarensen): Portugisi (þú sérð að sú þjóð er farin að manna sig upp!) strandaði einhverstaðar austantil í Norðursýslu [Þingeyjarsýslum], og höfðu 14 skipverjar komist af en nokkrir drukknað en þeim sem af komust var ráðstafað með skipi sem ófarið var í Múlasýslunum. Þar, og yfirhöfuð að tala vestur að Öxnadalsheiði hefir á núliðnu sumri heyjast allvel, lakar í Skagafjarðar- og Húnavatns sýslum hvar mýrlendi spratt ofur báglega – þó hygg ég að lömb verði þar líka sett nokkur á í vetur. ... Þó vel hafi heyjast í Múla sýslunum, er í sumum hreppum þar bágt ástand vegna undanfarins fellis ... (s156)

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

3. okt skipti um til votviðra, þó frosta- og snjóalaust til vetrar. 26. okt. byrjaði vikuhríð hér í veðursældarsveit, hvað þá ytra. 7. nóv. blotaði og varð snöp 10 daga og gott veður, síðan hörkur og köföld; 5, des. hláka; tók upp til sveita en lítið til dalanna; aftur 10 daga gott. Seinni part desember hríðar og jarðleysi og hross tekin inn eða rekin til hagagöngu norður og gengu þar í örtröð. Á Suður- og Vesturlandi var árgæska, vetur góður, gras og nýting í betra lagi, haust gott og veður að nýári ... .

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1837. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband