Dálítið tregt

Lægðin sem kom að landinu á aðfangadag og olli mikilli rigningu um landið vestanvert - og síðan vestanéljagangi í gær, jóladag, hefur verið yfir landinu í dag, annan dag jóla. Eins og títt er í miðju mikilla lægða sem náð hafa fullum þroska hefur vindur nærri miðju hennar verið hægur og niðurstreymi yfir köldu landinu eyðir skýjum. - Nú á lægðin að fara suðaustur um Bretland því öflugur hæðarhryggur leitar á úr vestri og norðanstormi spáð á morgun, sunnudag. Þetta er ekki alveg algengasti gangurinn eftir atburðarás eins og þá sem hér hefur verið lýst. 

w-blogg261220a

Spákortið hér að ofan gildir síðdegis á mánudag, 28.desember og sýna heildregnar línur hæð 500 hPa-flatarins. Af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Lægðin sem er yfir landinu í dag er hér komin suður á Ermarsund, dælir miklum hlýindum langt norður eftir Skandinavíu, en kulda norðan úr höfum yfir Ísland og suður yfir Bretland og síðar meginland Evrópu. Lægðin á síðan að síga enn sunnar. Hún er mjög víðáttumikil og það mun taka tíma að hreinsa hana og kalda loftið burt - vel má vera að kalt verði um Frakkland, Spán og víðar næstu eina til tvær vikur. 

Hlýindin sem fara norður auka á viðloðandi fyrirstöðu á þeim slóðum, fyrirstöðu sem hefur verið viðloðandi í mestallt haust - án þess þó að vera mjög sjáanleg - dálítið einkennilegt mál. Framtíðarspár eru ekki mjög sammála um hvað gerist næst - það hefur einhvern veginn legið í loftinu að ný fyrirstaða rísi upp nærri Grænlandi - það gæti verið bæði hagstætt og óhagstætt fyrir okkur. Ef það gerist nærri okkur myndu lægðir forðast landið á næstunni - oftast yrði fremur svalt - en illviðralítið. Myndist fyrirstaðan vestar er komin ávísun á langvinna norðanátt með kulda og trekki - sumir vilja víst svoleiðis. En síðan er sá möguleiki auðvitað uppi að fyrirstaðan verði fyrir sunnan land - kannski gerir þá hlýindi eða eitthvað svoleiðis.

Það er eftirtektarvert að kuldapollurinn yfir Kanada (sá sem við höfum á þessum vettvangi kallað Stóra-Bola) er ekki öflugur þessa dagana (það getur þó breyst á skammri stundu), miklu rýrari heldur en bróðir hans í austri, Síberíu-Blesi. Það er raunar mjög hlýtt (að tiltölu) um mestallt vesturhvel, kalda loftið er til staðar - en fær óvíða frið á þeim slóðum. 

Það er svosem kominn tími á háþrýstivetrarmánuð - eða háþrýstivetur hér á landi, afgerandi slíkur mánuður hefur ekki komið síðan í mars 2013. Loftþrýstingur í desember hefur þó hingað til verið í meðallagi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg241224b
  • w-blogg241224a
  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.12.): 30
  • Sl. sólarhring: 419
  • Sl. viku: 1233
  • Frá upphafi: 2421525

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 1106
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband