12.12.2020 | 21:51
Af árinu 1831
Almennt er vel látið af árinu 1831 að öðru leyti en því að miklar rigningar voru sunnan- og vestanlands þegar kom fram á mitt sumar og spilltu þær heyskap. Ekki er mikið um prentaðar fréttir en mælingar voru gerðar á fáeinum stöðum, og sömuleiðis eru heimildir í dagbókum - gallinn bara sá að mjög erfitt er að lesa þær flestar.
Meðalhiti í Stykkishólmi er áætlaður 3,8 stig [svipaður og t.d. 1999], 4,9 stig í Reykjavík og 3,9 stig á Ketilsstöðum á Völlum. Ágústmánuður var mjög kaldur sunnanlands - í rigningatíð, en mun hlýrri austur á Héraði - minnir dálítið á hin sígildu rigningasumur 8. og 9. áratuga 20.aldar. Júní var hlýr, einkum sunnanlands. en kalt var í maí, september og nóvember.
Myndin sýnir hlýindi um tíma í janúar, kuldaköst á þorra, snemma í maí og seint í október. Sömuleiðis gerði skammvinnt, en snarpt kuldakast um mánaðamótin ágúst og september. Þá var kaldast í Reykjavík á árinu - að tiltölu. Annars voru óvenjukaldir dagar í Reykjavík 9 talsins (sjá viðhengi). Hlýir dagar voru tíu, langflestir í júní, sá 15.hlýjastur. Mjög umhleypinga- og illviðrasamt var um tíma í nóvember og desember. Hiti fór í 20 stig í Reykjavík 5.dagar (sjá viðhengi).
Myndin sýnir lágmarkshita hvers sólarhrings í Reykjavík og lægsta mældan hita á Ketilsstöðum á Völlum (þar var hiti mældur 4 sinnum á dag flesta daga ársins 1831). Það er með vilja að ekki er mikill munur á lit ferlanna - þannig að við sjáum hversu vel þeir falla saman í öllum aðalatriðum. Einna mestur munur er í fáeina daga fyrir miðjan júní - þegar bjart og sæmilega hlýtt er syðra, en svalara í norðaustanátt á Héraði. Svo er töluverður munur síðar um sumarið þegar fjölmargir hlýir dagar eru á Héraði, en dumbungur og svali syðra.
Úrkoma í Nesi mældist 863 mm. Einna þurrast að tiltölu var í janúar og júní, en mjög úrkomusamt í júlí og september.
Þrýstingur var óvenjulágur í júlí. Hann var líka fremur lágur í mars og október, en hár í janúar. Lægsti þrýstingur ársins í Reykjavík mældist 17.desember, 957,4 hPa, en hæstur mældist hann 1036,8 hPa, 2.apríl.
Hér að neðan eru helstu rituðu heimildir um árið teknar saman. Annáll 19.aldar er mjög stuttorður um veðrið á árinu 1831 - aðallega samdráttur úr tíðavísum Jóns Hjaltalín (sjá hér að neðan) sem og úr árbókum Espólíns. Annállinn getur hins vegar fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri.
Skírnir (VI 1832 - s85) segir af árferði 1831:
Á Íslandi var árferði á þessu tímabili nokkuð misjafnt, en yfirhöfuð sem í betra meðalári; vorið reyndist hagstætt, en svalt og þurrt, og sumarið norðanlands æskilega blítt og afli góður; en sunnan- og vestanlands var sumarið vætu- og regnasamt, en fiskiafli var einhver hinn besti, einkum á Vesturlandi; var og grasvöxtur æskilegur, og nýting góð norðanlands; en syðra hröktust hey mjög til skemmda.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Var fjórða gæðaárið. Í janúar gott og stillt veður, snjólítið og stundum þíða, í febrúar snjóameira, en þó víðast hagi nokkur, hláka í fyrstu viku góu; í annarri viku hríð og fönn mikil um 3 vikur. Á góuþræl fjarskarigning um 5 dægur í sífellu. Vatnaruðningur varð mikill og bárust jakar með grjóti miklu á engi allvíða.
Jón Jónsson segir janúar megi telja í meðallagi, en febrúar nokkuð þungan, mars segir hann dágóðan.
Árbækur Espólíns [vetur]:
En veturinn varð þó einkar góður, og nálega því betri sem á leið meira, og engir mundu slíkan einmánuð, kom þó ís, og var sem að engu bagaði; dó þá fátt nafnkenndra manna, og var fátítt lengi allstaðar at spyrja. (s 174). CLXVI. Kap. Á þorra týndust skip á Suðurnesjum og á ellefu menn; var vestan átt, og þá hart vestra. (s 174).
Suðurnesjaannáll (Rauðskinna):
Fjórir skipstapar þ. 9. febrúar í ofsaveðri og byl. Þá fórst eitt fjögramanna-far frá Löndum ... þrír bátar frá Garði með sjö mönnum. Einn bát rak inn á Vatnsleysuströnd.
Hagstæðu vetrarveðri er lýst í nokkrum bréfum:
Jón Þorsteinsson skrifar með sexmánaðaskammti af veðurathugunum þann 1.mars (hér í lauslegri þýðingu):
Veturinn hefur hingað til verið mildur og snjór minni en venjulegt er því að í desember, sem þó var kaldastur, féll næstum enginn snjór og desember er þurrastur síðustu 6 mánaða (frá og með september). Engir jarðskjálftar hafa fundist hér um slóðir þessa mánuði, en hins vegar viðvarir af og til reykur sá sem í fyrra tók að stíga upp úr hafi u.þ.b. 14 til 15 mílur [80 til 90 km] suðvestur frá Reykjanesi, án þess, að því er virðist, að hafa nokkrar afleiðingar.
Viðeyjarklaustri 5-3 1831 (Magnús Stephensen):
(s94) Vetur hér syðra hinn besti, fiskfæð nú lengi, og vulcansk eruption [eldgos], lík þeirri í fyrra, hér á ný byrjuð fyrir mánuði síðan á sama stað í suðvestri frá Fuglaskerjum, en menn segja langt úti í hafi sem í fyrra. Vetur hér syðra hinn allrabesti að kalla snjóa- og frosta laus, góður allstaðar, en þótt höstugri til sveita og nyrðra, og nú hafþök komin allstaðar nyrðra af hafís.
Gufunesi 11-3 1831 (Bjarni Thorarensen):
Veturinn hefir hér ennþá verið uppá það besta og þeim mun þægilegri en hinir að hann hefir verið þurr og nokkuð frostasamur, en í Þingeyjar sýslu og allt vestur að Öxnadals heiði hefir hann harður verið, og er ég hræddur um að þetta verði byrjun óára, því lengi hefir gott gengið og harðindi hafa ætið fyrst byrjað í Þingeyjar- og Múla sýslum og endað þar fyrst. (s189)
Bessastöðum 22-4 1831 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s132)
Veturinn hefur hér verið sá besti og fiskiríið svo fjarskalegt, að elstu menn ekki muna annað eins. ... Seinast í janúar sást reykur fyrir Reykjanesi. Síðan er ekki talað um það.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Eftir það vorgæði, svo gróður kom með maí. Litlu síðar gerði hart kuldakast 5 daga, eftir það stöðug vorblíða.
Jón Jónsson segir apríl í meðallagi góðan en nokkuð óstilltan að veðráttu. Fyrri hluta maí segir hann kaldan og bágan, en síðan hlýjan og góðan.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Tún spruttu í besta lagi, líkt og 1828. Bar mest á grasmegni á óræktartúnum. Í sama máta var allt þurrengi ágætt, en mýrar og votengi lakara. Sláttur byrjaði 12.-13. júlí, töðunýting besta, fyrri part ágúst regnasamt. Varð þungur heyskapur á votengi, en ei þurftu skemmdir að verða á heyi, þó aðferð allmargra olli því. Síðari helming engjasláttar besta tíð. Urðu mikil hey og fúlgur stórar við fornu heyin, er margir söfnuðu ár frá ári. Í göngum hlýviðri og jökulleysing mikil.
Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum segir frá 7 þrumum þann 17.júlí og miklum skúrum [miklir skúrar]. Býsna oft skúrir í júlí og ágúst. Éljaleiðingar 1.september.
Jón Jónsson segir júní merkilega góðan. Júlí segir hann allan dágóðan og hentugan heyskap. Hann nefnir líka þrumuveðrið þann 17.júlí. Ágúst var mikið góður og hagstæður heyskap. Samantekt fyrir september vantar, en af vikuyfirlitum að ráða virðist veðrátta hafa verið góð.
Árbækur Espólíns [vor og sumar]:
CLXVIII. Kap. Vorið var gott og svo sumarið, nema rigningasamt nokkuð á hundadögum, og varð mikið af því syðra, svo stórum skemmdi hey, voru æ jafnan sunnanáttir, svo að nær þótti undarlegt. Reyk varð og vart við mikinn á öndverðu sumri, og vissi enginn víst hvaðan kom, þó hugðu flestir vera mundi fyrir Reykjanesi, því þar hafði orðit vart elds um veturinn, og sögðu menn að fallit mundi hafa á jörð. (s 177). CLXXII. Kap. Þá var enn sem fyrri gott ár, og heyskapur mikill og góður, helst fyrir norðan Yxnadalsheiði, því sunnanáttir voru jafnan, var mjög vott syðra og spilltust hey. (s 183).
Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum segir fréttir af veðri - en aðallega slysförum í bréfi sem dagsett er 4.ágúst 1831 (Andvari 98/1973 s186):
Héðan er að frétta milda en votviðrasama veðuráttu, svo töður nýtast illa. Heilsufar manna almennt í betra lagi, og fáir nafnkenndir deyja hér nyrðra. En hryllilegt var mörgum manntjónið að vestan, þá P. Thorbergsen [Páll Þorbergsson] nýorðinn Vestfjarðalæknir fórst með 8 mönnum öðrum á leið frá Stykkishólmi til Fellsstrandar þann 10. júní, og daginn eftir fórst skip með 5 merkisbændum úr Hvammssveit á leið til Stykkishólms [aðrar heimildir segja þetta hafa verið í Hraunsfirði og 10.júlí]. Einn eða tveir menn úr Dalasýslu drukknuðu um sömu mundir af báti í Búðaósi, og einn á Lækjarskógsfjörum, svo sýsla sú hefir orðið fyrir miklum mannskaða þar allir þessir áttu heimili í henni, nema Thorbergsen, hér almennt er harmaður sem mikill dugnaðar og dánumaður.
Brandsstaðaannáll [haust]:
Haustið gott til nóvember. Komu þá hríðar og fannir miklar, þó tók óvíða fyrir beit. 21.-23. nóv. mikið sunnanstormveður með frostlini, er bar víða sand á slægjur og eftir það vikuhláka, jólafastan stillt og góð og þíða fyrir nýárið, auðar allar heiðar.
Ólafur á Uppsölum nefnir ofsabylji (hvassviðri) aðfaranótt 22.nóvember og 24. einstakt ólátaveður og bylji.
Október segir Jón Jónsson yfir höfuð dágóðan að veðráttu. Nóvember var líka dágóður nema fyrsta vikan. Desember hvassviðrasamur framan af en síðan stilltari.
Bjarni Thorarensen ritar í Gufunesi 2.mars 1832:
Haustafli var hér rýr. Sumarið [1831] votsamt og örðugt í þessu plássi milli manna. ... Tveir menn urðu úti 4. nóvember á Hellisheiði og í þeim byl urðu fjárskaðar miklir einkum hjá mér ég hefi í allt misst 80 kindur með öllu móti síðan í fyrra, en stend mig ei mikið verr. ... Eldur fyrir utan Reykjanes í vetur [sennilega átt við þann fyrri - nema gosið hafi enn tekið sig upp], sumir segja einnig í Torfajökli. (s198)
Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum segir af hausttíð 1831 (Andvari 98/1973):(bls. 187):
Næstliðið sumar [1831] var í Norðurlandi yfir höfuð í betra lagi með grasvöxt á túnum og valllendi, en votengi brugðust víðast. Nýting heyja almennt góð. Haustið hlýtt, og vetur ei með jafnaði né til lengdar frosta- né snjóasamur, en veðrátta þó óstöðug og stormasöm með jafnaði, einkum gjörðu suðaustanstormar tjón mikið á húsum og heyjum á nokkrum bæjum hér í sýslu síðustu daga kirkjuársins (í lok nóvember?).
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1831:
Vetur góður víðast hvar
var um rjóður Ísfoldar
gripum fóður fjörgyn bar
fólst ei fóður jarðhaddar.
Vorið gott og var í ár
veitti Drottinn gæðin klár
ofan dottin ýmis-tár
örvuðu sprottin jarðar-hár.
Sólin glansa sendi blíð
sátu bands með kjörin fríð
njótum brands svo nota þýð
norðanlands var besta tíð.
Heyskap besta suma sátt
sagði bresta fólk ókátt
hér því vestra var um slátt
vætu-mesta sunnan-átt.
Haustið síðan hefir sent
hörku tíða merkið tént
snjó um hlíð og flatir fennt
fljót og víðir ísum rennt.
Undir sólar oft nam flóð
elris góla tíkar jóð
fram sem hól og flatir óð
fastan jóla var þó góð.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1831. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólins (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.12.): 30
- Sl. sólarhring: 419
- Sl. viku: 1233
- Frá upphafi: 2421525
Annað
- Innlit í dag: 24
- Innlit sl. viku: 1106
- Gestir í dag: 24
- IP-tölur í dag: 24
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.