5.12.2020 | 13:47
Af árinu 1860
Árið 1860 var mjög erfitt um landið norðan- og austanvert. Þar gerði afleitt vorhret seint í maí og síðan þurrkalítið sumar. Syðra var heldur skárra, heyskapur gekk betur og enginn snjór fylgdi vorhretinu. Meðalhiti í Stykkishólmi var 2,5 stig, 0,7 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan, en 1,6 stigum hærri en árið áður (1859). Áætlaður meðalhiti í Reykjavík er 3,5 stig og 1,3 stig á Akureyri. Mars, maí og júní voru mjög kaldir, júlí í hlýja þriðjungnum, og í apríl og nóvember telst hiti nærri meðallagi, Afgangur mánaðanna var kaldur.
Fimmtán dagar teljast mjög kaldir í Stykkishólmi, 26.mars þeirra kaldastur að tiltölu (sjá lista í viðhengi).
Úrkoma mældist 575 mm í Stykkishólmi - og er það í þurrara lagi. Sérlega þurrt var í júní, heildarúrkoma mánaðarins aðeins 2,8 mm. Einnig var mjög þurrt í maí - einna votviðrasamast var í apríl.
Þrýstingur var sérlega hár í nóvember og var einnig hár í maí, júní og desember. Hann var lágur í október. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 20.janúar, 957,6 hPa, en hæstur á sama stað þann 20.apríl, 1043,0 hPa. Þrýstifar var sérlega stöðugt í júní, og einnig í maí og nóvember.
Katla gaus stuttu gosi í maí - en einhverja ösku og eldglæringar urðu menn varir við um haustið að sögn.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.
Þorleifur í Hvammi segir í athugsemd í febrúar: Mikið snjófall við enda mánaðarins og fanndýpi mikið. Þann 26.maí segir hann: Frosnir lækir og mýrar.
Athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði segir af hafís: 3.janúar: Hafís kominn inn á fjörð; 19.mars: Hafís kominn inn á fjörð; 21. til 26.mars: Sami hafís.
Blöðin minntust ekki á veður ársins 1860 fyrr en í mars. Þjóðólfur segir þann 10.:
Með norðanpóstinum, sem kom hér næstliðinn sunnudag, 4.[mars], bárust engin markverð tíðindi og ekki var það heldur með sendimanni, sem kom hér vestan af Ísafirði, 6.[mars]. Úr öllum áttum spyrst hið besta vetrarfar og bestu skepnuhöld; bráðapestarinnar, sem hefir verið svo skæð um mörg hin undanförnu ár, hefir nú í vetur svo að segja hvergi orðið vart svo að teljandi sé.
Norðri segir þann 31.mars:
Allur þessi mánuður [mars] hefir verið hinn besti og jarðir víðast hvar nógar og góðar, og er víst óhætt að fullyrða, að þorri og góa hafa allsjaldan verið hér jafnblíð á Norðurlandi, Með byrjun einmánaðar [20.mars] hefir breyst veður, og er nú komin norðanátt með snjókomu töluverðri og allsterkum frostum; og með þessum norðanveðrum hefir komið hinn vanalegi vágestur Norðurlands, hafísinn, hingað á Eyjafjörð og alla firði hér austur um til Langaness. Ekki vita menn enn með vissu, hversu mikil hafþök eru fyrir landi, þó ætla vegfarendur, að það sé mest laus íshroði, sem enn er kominn að landinu, og hann hafi komið austan um; reynist það satt, eru menn vonbetri um að ekki verði mikil brögð að honum, og hann liggi skemur.
Þjóðólfur segir þann 28.apríl af slysförum:
Á pálmasunnudag (1. apríl) varð úti & Grindaskörðum bóndi einn að austan, roskinn maður; hann var til sjóróðra í Selvogi og ætlaði snögga ferð hér suðuryfir.
Þjóðólfur segir þann 10.maí:
Úr sveitunum fjær og nær, fréttist ekki annað en góð tíð og bestu skepnuhöld, en víða hefir verið sóttnæmt fram á þenna tíma, og víðast hefir verið mjög hart manna í milli, sakir fjárfæðar og málnytuleysis í fyrra, að töður verkuðust illa víða um austursveitir og nálega allstaðar hér syðra, en þess vegna hafa kýr verið svo víða gagnslitlar í vetur.
Þjóðólfur segir þann 26.maí af eldgosi í Kötlu (lítillega stytt hér):
Nú hófst nýtt gos úr Kötlu miðvikudaginn 9. [maí] einsog þegar er hljóðbært orðið, og merki hafa síðan sést til öðru hverju hér um hinar vestari sveitirnar sunnanfjalls, bæði mökkur mikill, hátt í loft upp og með eldglæringum; eftir því sem enn er komið og frést hefir, virðist þetta gos vera fremur jökulhlaup með fjarskalegu vatnaflóði heldur en eldgos eða sandgos, enda hefir Katla aldrei spúð jarðeldi eða hraunefni, síðan land þetta byggðist, en einatt hafa hin mestu jökulhlaup fylgt gosi úr henni, og valdið miklu tjóni og auðn byggða þar umhverfis, einnig hefir hún einatt spúð miklum sandi, eins og var 1755, því eftir það gos lögðust í eyði um nokkur ár flestallir bæir í Skaftártungu og Álftaveri, sakir öskufalls.
Gosi þessu er nú hófst 9.[maí] hefir eigi fylgt öskufall að neinum mun, svo að vart yrði í byggðum þar í grennd, hina næstu viku á eftir, en veðurstaðan var einnig sú, að öskuna hlaut að leggja alla fram eftir Mýrdalssandi og fram á sjó, því stöðug norðanátt hélst þar eystra fram til 19. þ. mán. A kaupfari einu, er var þar á siglingu framundan, en eigi alldjúpt fyrir, hinn sama morgunn er gosið byrjaði, varð vart öskufalls en eigi mikið. Þar í móti var gosi þessu samfara mesta jökulhlaup og vatnsflóð, en það kom mestallt fram fyrir vestan Hafursey, og fram eftir Múlakvíslaraurum, svo að Álftaverið hafði ekkert sakað enn, um 13.14.[maí], að því er sagt hafði sendimaður austan af Síðu er fór Fjallabaksleið, því Mýrdalssandur er ófær vestur til Fljótshlíðar. Hlaupi þessu fylgdu svo mikil jökulbjörg, að sagt er að sum þeirra standi botn á þrítugu eða fertugu dýpi, og vatnsflóðið svo ógurlegt og með því afli, að þess hali sést merki langt út á sjó; vikur úr gosinu er og rekinn bæði í Vestmannaeyjum og meðfram allri suðurströnd landsins. Reykjar- og gufumökkurinn hefir og staðið hátt í loft upp með eldglæringum, var hann mældur lauslega frá Vestmannaeyjum 14.[maí], og tók fjórfalt hærra í loft upp en jökullinn sjálfur, eður nálega 3 mílur á hæð upp af jöklinum: úr Landeyjunum virtist mökkurinn nokkuð hærri er hann var mældur, og þó eigi nákvæmlega, fám dögum síðar.
Þjóðólfur segir þann 7.júní:
Síðustu fregnir segja, að fyrir öllu Norðurlandi hafi verið hafþök af ís, fram yfir miðjan [maí], og þar með hörkur og gaddar, svo að lagnaðarís hafi verið á fjörðum fyrir innan hafísinn. Fram til þess í gær hefir og veðráttan hér sunnanlands verið næsta hörð, sífeldir þurrkar og norðanátt með kulda og frostum á hverri nóttu; gróðurleysið er einstakt, tún heita varla litkuð, en eigi grænt strá á útjörð; kúahey þrotin nálega allstaðar, kúpeningur megrast því og geldist upp, en þar af leiðir aftur vaxandi skort og harðrétti manna á milli til sveitanna. Á útmánuðunum færði hafísinn með sér allmikil höpp að Norðurlandi, einkum af hnísum og meðfram höfrungum; á Vatnsnesi náðust 60, á Skagaströnd nálægt 6070; á Tjörn á Nesjum, um 150 og í Laufássókn 110; nokkru fyrr öfluðust á Akureyri 900 tunnur hafsíldar.
Gosið úr Kötlu virðist nú hætt að sinni, eftir því sem síðustu fregnir segja; það staðfestist, að engi verulegur skaði eða tjón hafi orðið að því að þessu sinni; reyndar er í lausum fréttum, að nokkurt öskufall hafi komið um miðjan [maí] á austustu bæina í Mýrdalnum, og að eitthvað lítið eitt af hlaupinu hafi komið fram fyrir austan Hafursey og hlaupið austur af sandinum og í engjar tveggja bæja í Álftaveri; en að hvorugu þessu mun nein veruleg spilling. Menn eru og nú farnir að fara yfir Mýrdalssand.
Þjóðólfur segir þann 30.júní:
Að norðan og vestan fréttist sama einstakt gróðurleysi eins og hér; á Norðurlandi og hið efra um Borgarfjörð hefir verið frost í byggð nálega á hverri nóttu fram til 20.[júní]; hér í suðursveitunum hefir stórum lifnað jörð þessa viku; en allstaðar að fréttist af einstaklegu nytleysi kúpenings, og fjárhöld að norðan sögð eigi góð né sauðburður, sakir vorhörku og gróðurleysis; hér syðra hefir sauðburður hvívetna heppnast vel. Vorafli af ýsu hefir orðið hinn besti hér um öll nes, einkum á Akranesi; þiljuskip hér hafa lítið aflað til þessa bæði af þorski og hákarl, um öndverðan [júní] var kominn þorskafli í góðu meðallagi umhverfis Ísafjarðardjúp, en hákarlaafli rýr; en um Eyjafjörð var hákarlaafli góður. Um öndverðan [júní] var hafís fyrir Hornströndum. Katla hefir eigi látið vart við sig síðan 26.[maí], og tjón af þessu gosi hennar eigi talið að neinu.
Norðri segir af vorharðindum í pistli þann 30.júní:
Hér um Norðurland eru fréttirnar og hafa verið mjög báglegar með tíðarfarið þetta vor. Veturinn var góður að kalla mátti, en vorið hefir verið hið kaldasta sem menn muna og sannkölluð vetrartíð. Um hvítasunnu [27.maí] var hér moldviðri og niðurburður af snjókomu, og víðast hvar mátti gefa hér inni ám um allan sauðburð, og fjöldi hefir tapast af lömbum, og þó peningur væri mjög vel framgenginn undan vetrinum hefir hann hrakast svo niður í vor, að lítil von er um bjargræði af skepnum. Kýr hafa orðið svo að kalla alveg gagnslausar, því töður voru hér allar uppgengnar, svo að láta varð nautpening út á gróðurlausa jörðina. Mest og fjarskalegust urðu þessi harðindi um Þingeyjarsýslu, einkum um norðurhlut hennar. Það má nú nærri geta í slíkri tíð, að seint muni gróa; enda er það svo hér um allar sveitir að varla sést lit bregða á úthaga, og tún enn alveg ósprottin í enda júnímánaðar.
Þann 5.nóvember birti Þjóðólfur frásögn af hvítasunnuhretinu mikla í Múlasýslum:
Harðindin í Múlasýslum vorið 1860. Skrásett og aðsent af manni er þá var í Múlasýslu. Það er alkunnugt, hversu kalt og hart var vorið sem leið allstaðar her á landi; en þó mun það hvergi hafa verið eins hart eða ollað eins miklu skepnutjóni, og í Múlasýslum, og þó einkum í Norður-Múlasýslu, að frá teknum Fljótsdal og Jökuldal, og nokkrum hluta Suður-Múlasýslu. Frá sumarmálum, og þangað til mánuð af sumri var að sönnu oftast hægviðri og stillingar, en þó var svo kalt, að gróður var lítill á túnum og engi í úthaga, sem teljandi væri, mánuð af sumri, og uppfrá því fóru kuldar ávallt vaxandi, með frostum í byggð á nóttum og snjóa áleiðingum ofan í fjöllin, en kófrildum á fjöllum uppi, allt til hvítasunnudags [27.maí]; þá gjörði kaföld þau og áfelli, sem héldust við samfleytt í viku (27. maí 2.júní um allar sveitir þær sem áður eru taldar, sem lengi mun verða minnisstæð, því þá var líkara því sem harðast er á vetrardag en sumri. Féll þá svo mikill snjór í öllum norðurfjörðum og út við sjá allt að Fáskrúðsfirði, á öllu Úthéraði og á austanverðu Upphéraði, að slíks eru eindæmi, með svo miklum kuldum og frostum, að ganga varð á skíðum jafnvel í byggð. Töluvert fennti af fénaði, og sumstaðar hestar dregnir úr fönnum, sauðfé eða hrossum var ekki beitandi út alla þessa viku, og í sumum sveitum, svo sem í Borgarfirði, ekki fyrr en mánuði seinna því allan þenna tíma héldust kuldarnir, svo ekki fór að gróa fyrr en 8 vikur af sumri. Hvergi er þó getið um, að meiri snjór hafi fallið en í Njarðvík við Borgarfjörð og er það sögn kunnugra manna, að aldrei hafi þeir séð jafnmikinn snjó á vetrardag, enda urðu þar óttalegustu afleiðingarnar, því engi skepna komst lífs af nema mennirnir og hundarnir. Eins og nærri má geta, einkum þegar haft er tillit til hinna fyrri harðinda, vetur og vorið hið fyrra [1859], og sumarið og haustið næst á undan, urðu mjög slæmar afleiðingar af harðindum þessum hvervetna, en þó einkum í Borgarfirði og Loðmundarfirði, Hjaltastaða- og Eiðaþinghám. Margir felldu gjörsamlega sauðpeninginn, en kvöldu fram kýr á mat og heyleifum þeim, flestum skemmum, sem þeir höfðu eftir, en engi komst hjá að missa nokkuð, og að minnsta kosti töluvert af unglömbum allstaðar þar sem snjóana gjörði mikla, auk þess sem skepnurnar urðu gagnlausar af harðrétti þeim, sem menn neyddust til að beita við þær.
Þjóðólfur segir mannskaðafréttir þann 14.júlí (líklega ótengdar veðri):
Það má álita sannspurt, þótt áreiðanlegar fregnir skorti um smærri atvik, að nálægt 20.25.[júní] hafi týnst 11 manns i sjóinn vestur á Ísafirði, ... Fregnin segir, að þeir hafi allir siglt úr höfn með kaupskipi er norður ætlaði, nokkrir segja að kona [Péturs] Guðmundssonar hafi ætlað í því til Norðurlands, hali kaupstaðarbúar ætlað að fylgja því úr höfn spölkorn, snúið síðan heim með hafnsögumanni og hans liði, en muni hafa kollsiglt sig á heimleiðinni.
Íslendingur segir af tíð í pistli þan 19.júlí:
Síðan um Jónsmessu [24.júní] hefur tíðarfarið verið mjög votviðrasamt hér sunnanlands, einkum voru ákafar rigningar í vikunni frá 8. 15.[júlí]; urðu þá vegir og vötn illfær, og ferðamenn í vandræðum staddir. Nú er heldur farið að þorna um aftur, hvað lengi sem það stendur. Grasvöxtur var lengi tregur, meðan þurrkarnir gengu framan af sumri, en nú má kalla, að komið sé gras í betra meðallagi, og teknir eru sumir menn til sláttar.
Athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði segir 13.júli: Hita- og veðurmistur.
Þjóðólfur segir þann 7.ágúst - fyrst af slysi, en síðan árferði:
[Þann 10.júlí] fórst bátur með 2 mönnum af Hvalfjarðarströnd í hingaðleið fyrir framan Kjalarnestanga, i Músarsundi eða þar í grennd, báðir mennirnir týndust.
Úr Múlasýslum eru nú rituð ill fjárhöld og nokkur fellir, vann mest að því megnt illviðrakast um hvítasunnuna, 27.28. maí, þá fennti fé og hross til dauða, og unglömb varð sumstaðar að skera undan ánum; illviðrið var svo hart að 50 sóknarmenn urðu veðurtepptir að Hofi í Vopnafirði um hátíðina. Dagana 2.6.[ágúst] hefir hér syðra verið blessunarþerrir, og hefir hann komið sér ómetanlega vel við töðuhirðingar. Grasvöxtur hér á Suðurlandi og Vesturlandi, nú sagður orðin nálega í meðallagi, nema tún sumstaðar með kali, einkum til fjalla. ... Hér um innnesin hefir haldist allgóður ýsuafli á grunni fram til loka [júlí]; síðan hefir verið gæftaleysi; ...
Þjóðólfur birti 25.febrúar 1861 eftirfarandi þakkarpistil (styttur hér):
Sunnudaginn í 16. viku sumars í fyrra [5.ágúst 1860] missti ég í ofsaveðri fulla 40 hesta af töðu, á túni mínu, eða meira; urðu þá 6 sveitungar mínir til að bæta mér að nokkru þenna tilfinnanlega skaða, er þeir gáfu mér sinn töðukapalinn ... Grund í Kjalarnesi í jan. 1861. Jón Jónsson.
Íslendingur greinir af tíð þann 14.ágúst:
Tíðarfar hér á Suðurlandi hefur verið æskilegt, það sem af er [ágúst], og töður verið hirtar grænar. Nú er veðurátt brugðið um sinn til vætu. Menn gefa sig nú mest við heyskap, en minna við sjósókn, þó hefur háfur aflast vel á Akra- og Seltjarnarnesi og um tíma suður í Keflavík.
Norðri segir af tíð þann 31.ágúst:
Síðan að sláttur byrjaði hefir hér allstaðar norðanlands verið hin bágasta tíð með þurrkleysum og tíðum rigningum, svo að töður hafa hér óvíða orðið alhirtar fyrr en í enda þessa mánaðar og ósýnt hvort þær hafa náðst allstaðar enn, og víðast hafa þær hrakist töluvert. Úr Skagafirði kvarta menn og yfir töluverðum grasbresti, en víðast hér um sveitir ætlum vér grasvöxt í meðallagi, ef nýting hefði fengist að því skapi. Í Norður-Þingeyjarsýslu virtist oss mikill grasbrestur á túnum, einkum í Núpasveit og Þistilfirði, svo mun og verið hafa á Langanesi og [Langanes-]Ströndum, en í Vopnafirði og á Héraði var grasvöxtur í góðu meðallagi en þurrkleysur allstaðar hinar sömu. Eystra á Vattarnesi var hvalur róinn í land, milli 50 og 60 álnir að lengd. Hann var dauður og lítið eitt skorinn af hvalveiðamönnum útlendum. Eigendur hans eru Skriðuklaustur og Vallaneskirkja.
Íslendingur segir af tíð og afla í pistli þann 5. september:
Síðan blað vort kom seinast út hér á undan, hefur tíðarfar verið hið æskilegasta hér á Suðurlandi. Menn hafa hirt heyið eftir hendinni, og þó grasvöxtur sé sumstaðar í rýrara lagi, þá er aftur á öðrum stöðum allvel sprottin jörð, en nýting hlýtur að vera afbragðsgóð, og er það jafnan fyrir mestu. Vér þykjumst mega fullyrða, að allt hið sama gildi um allan Vestfirðingafjórðung, nema ef vera skyldi á Ströndum, en þaðan höfum vér enga fregn. En að norðan og austan úr Múlasýslum er illa sagt af óþurrkum, og eru það hörmuleg tíðindi ofan á mjög hart vor. Sjávarafli hefur mátt heita góður hér í Faxaflóa, hvenær sem menn hafa getað stundað sjóinn, en það vill nú oft ganga skrykkjótt um sláttinn. Háfur fékkst mikill hér allstaðar syðra um tíma, og fyrir fáum dögum, áður en norðanveður það gekk upp, er nú stendur yfir í gær og í dag (30. ágúst), var besti fiskiafli hér á Innnesjum af ýsu og stútungi (stuttungsþorski).
Norðri gerir upp heyskapinn í pistli þann 16.október:
Vér höfðum áður getið þess að næsta báglega leit út með heyskapinn sökum grasbrests og fjarskalegra óþurrka, sem voru svo miklir að töður náðust víðast hvar ekki fyrri en í 19. og 20. viku sumars [um 25.ágúst]. Hin góða tíð um og eftir höfuðdaginn og mestallan septembermánuð gjörði það þó að lokum að nokkuð rættist úr með heyskapinn; þó ætlum vér að heybjörg manna sé víðast með minnsta móti auk þess sem heyin eru í mörgum stöðum hrakin og skemmd. Það mun því brenna víða við, að menn þurfi venju fremur að farga af bjargræðisstofni sínum, sem þó er framar orðinn lítill og rýr eftir undangengin harðæri. Húnvetningar komu nýlega hér norður og ætluðu að sækja fé til Þingeyinga, en urðu að hverfa aftur svo búnir, því snemma í þessum mánuði [október] lagði hér að með snjóum og illviðri svo ófarandi er með fé, og færð hin versta norður um fyrir hesta.
Íslendingur segir fréttir 25.október:
Það, sem af er október hefur tíðarfar mátt heita allgott hér á Suðurlandi. Þó gjörði mikið sunnanveður hinn fyrsta dag [október] og sleit þá upp fiskiskútu suður í Vogum, rak á land og braut í spón; um sama leyti lestist annað þilskip, er Njarðvíkingar eiga, og þá var uppi í Hvalfirði; rak það þar á land, en skemmdist lítið. Menn sakaði enga. Þ. 15. og 16. [október] var hér ákaflegt norðanveður, þó fjúklítið, svo að ekki festi, og er hér auð jörð í byggð til þessa dags, en fallinn er talsverður snjór á fjöllum. Mælt er, að vestur í Hörðudal sé fénaður kominn á gjöf, og svo mikill snjór kominn á Holtavörðuheiði, að menn hafi snúið þar frá með hesta. Sannspurt er, að sumarið hafi verið svo votviðrasamt í Þingeyjarsýslu, að elstu menn muna ekki annað eins óþurrkasumar. Má þá nærri geta, hvernig heyskapur hafi þar orðið. Úr Múlasýslum höfum vér ekki frétt gjörla, en að líkindum ræður, að í nyrðri hluta þeirra muni líku hafa viðrað, sem norðan til í Þingeyjarsýslu.
Enska herskipið Bulldog, kapt. M. Clintock, sem áður er nefndur í blaði voru, kom 19.[október] hingað aftur frá Labrador og Grænlandi, og segir Clintock hin verstu tíðindi frá Grænlandi. Hann fór frá Juianehaab 3.[október] og þá var aðeins eitt skip komið til Grænlands allt sumarið; höfðu skip þau, er þangað áttu að fara, ekki náð höfnum sökum hafíshrakninga þar umhverfis landið, og eitt, ef ekki fleiri, farist, með mönnum og öllu, er á var, þar við land. Og svo sögðu Grænlendingar, að annað eins óveðrasumar og hafísaár hefði ekki komið yfir þá hin síðustu 40 ár.
[Þjóðólfur segir viðbótar 27.október: Bulldog hreppti og hin mestu illveður og hafvolk á leið sinni, og náði hér höfn brotið og bramlað á marga vegu, en hyggur þó að halda héðan aftur til Bretlands á morgun. Þeir sáu á leið sinni hvar danskt briggskip lenti í ísnum og fórst þar, og gátu þó engu bjargað, hvorki mönnum né öðru.]
Þjóðólfur gerir upp sumarið í pistli þann 27. október:
Þetta liðna sumar hefir verið næsta misjafnt þegar yfir allt land er litið; hér á Suðurlandi og nálega um gjörvallt Vesturland, var sumarið eitthvert hið besta og hagstæðasta að veðráttu sem menn muna, og nýttust því hey hér afbragðsvel og eru víst yfir höfuð að tala í bestu verkun. Um gjörvallt Norðurland var sumarið miklu erfiðara, þokumollur og hafsuddar gengu framan af slætti svo að segja stöðugt og fram í miðjan ágústmánuð; þar urðu því nálega hvergi alhirt tún fyrr en dagana 18.28. ágúst, voru þá töður orðnar kvolaðar og hraktar meira og minna, svo að rýr þykir af þeim málnytuvon í vetur. Grasvöxtur var víðast í lakara meðallagi á túnum og vallendi bæði fyrir norðan og hér syðra, en aftur talinn í meðallagi í sumum sveitum vestanlands; á mýrum mun víðast hafa þótt gras undir það í meðallagi, og hér syðra urðu nú mörg þau forarflóð slegin með bestu eftirtekju, er oftar eru óslæg sakir vatnsfyllinga; úr Vestur-Skaftafellssýslu, milli sanda, fara mestar sögur af sneggjum og grasbresti einkum á túnum og vallendi. Haustveðrátta hefir verið vinda- og hryðjusöm, gæftalítil hér syðra, en talsverður snjór er fallinn nyrðra og það í byggð í Þingeyjarsýslu, um miðjan [september]. Um skurðarfé hér syðra hefir verið lítið að ræða, en hér úr kláðasýslunum hefir féð reynst heldur vel, einkum á hold, bæði af læknuðum stofni og aðkeyptum, og talsvert miður hefur það fé reynst, er vestan af Mýrum hefir komið og að norðan; veldur því sjálfsagt meðfram hið afarharða vor norðanlands og lakara sumar, en hér nú miklu færra fé, hefir því sætt betri meðferð og þrifum. Eftir því sem sögur fara af, horfir afkoma almennings norðanlands heldur erfiðlega við, vöruafli í kaupstað var lítill og fjárskurður rýr sakir fjárfæðarinnar eftir undanfarin harðæri, en víða málnytubrestur í sumar sakir hins afafharða vors og gróðurleysisins fram undir messur; nú þar sem töður náðust nálega hvergi þar nyrðra nema hraktar og skemmdar, þá horfir enn við málnytubrestur þar í vetur, og er því eðlilegt og næsta aðgæsluvert, hve báglega horfir við afkoma manna víða hvar í Norðurlandi; ætti menn eigi að skirrast við um of að farga þegar í haust nokkru af fénaðinum sér til bjargar þó að hann sé orðinn í færra lagi.
Norðri segir frá 10.nóvember:
Síðan um miðjan október hefir veðrátta verið hér hin æskilegasta. Má svo að orði kveða að hér sé sumartíð hin fegursta og alautt er lengst upp í fjöll. Menn urðu eins og vér höfum fyrr getið að hætta við haustverk sökum áfellis og illviðra, sem komu um og eftir haustgöngur, en úr þessu hafa menn nú getað bætt í þessari einmuna tíð sem verið hefir um næstliðin mánaðamót. Einlægir suðlægir þíðvindar hafa gengið svo að frost er að miklu leyti úr jörðu. Fiskiafli hefir verið hér nokkur út í firði, ... Hér inn á pollinn hefir enn enginn fiskur gengið.
Norðri birti þann 20.desember úr bréfi af Austfjörðum:
Hausttíðin var hretasöm og nálega aldrei gæftir, og var þó nógur afli kominn: einu sinni og tvisvar varð róið í viku og fékkst töluverð björg. Um veturnætur komu kyrrðir og blíða eftir skaðaveðrið mikla 22. október, en þá var aflinn flúinn allur undan vatnakorgnum, sem blandaði sjóinn út í reginhaf; öll vötn hlupu yfir og um sléttlendi, þurrir lækir urðu óreiðir og allt þurrlendi flóði í vatni af býsnum þeim sem streymdu úr loftinu nóttina fyrir þenna 22. október. Þessu fylgdi svo mikið ofsaveður, að hey reif sumstaðar að tóftum niður, t.a.m. í Njarðvík og Bárðarstöðum í Loðmundarfirði, og víða urðu skaðar. Bátar fóru sumstaðar og skipin á Seyðisfirði rak upp. Bilaðist annað (Vestdalseyrarskipið), svo ekki varð sjófært og missti stýri; hitt frelsaði tilviljun, að slagbylur kom úr annarri átt og hratt því út. Haustáfellið varð hér vægra en nyrðra, þó gjörði öll fjöll ófær og gefa varð fé í Eiðaþinghá. Mannadauði er enn upp á sveitum, nokkur hér og barnaveikin að stinga sér niður og deyðir flest börn þar sem hún kemur.
Þjóðólfur segir þann 1.desember:
Framan af f. mánuði [ekki er alveg ljóst hvort átt er við október eða nóvember] varð vart talsverðs öskufalls um Rangárvalla- og Árnessýslu, og 6. f.m., og um þá dagana sást mikill mökkur og bjarmi á lofti í þeirri átt sem Katla er, en eigi eftir það á mánuðinn leið;
[Í september] fórst bátur í fiskiróðri vestur í Arnarfirði, voru 4 menn á, og týndust allir; formaður var Gísli í i Lokinhömrum, góður bóndi.
Haustveðráttan hefir mátt heita hin besta, hvívetna hér sunnanlands, heldur rigningasamt fram undir miðjan [nóvember], en síðan mest þyrrkingur og norðanátt, en aldrei frosthart; allmikill snjór féll hér til fjalla öndverðan f.mánuð, og fennti sumstaðar fé. Norðanlands varð hið harðasta íhlaup um miðjan október; snjókoma varð svo mikil um Skagafjörð, að sumstaðar var farið á skíðum milli bæja, fé fennti sumstaðar og Héraðsvötnin allögðu og urðu sumstaðar jafnvel hestheld; þenna snjó tók að mestu upp í byggð aflíðandi 20. október, en með þeim ofsaveðrum, að bæði reif hús og hey í Húnavatnssýslu, og sumstaðar svo, að mikill skaði varð að.
Þann 22.desember megir Þjóðólfur:
Í haust fórst bátur norður á Vatnsnesi með 6 mönnum á, og týndust þeir allir; 7. [desember] fórst bátur með 2 mönnum frá Kolbeinstöðum í Rosmhvalaneshrepp, og týndust báðir mennirnir. ... Með yfirdómara hr. B. Sveinssyni bárust bréf og fregnir að norðan, og er hin æskilegasta tíð þaðan að frétta, síðan kastið gjörði um 20. október, og bestu fjárhöld. Bylurinn hér syðra, undir lok [nóvember] varð sumstaðar að allmiklu tjóni; undir 60 fjár fenntu og fórst að mestu í Mela- og Leirársveit, og nokkurt fé fennti og í Miðdal hér í Mosfellssveit og víðar. Það sem af er þessum mánuði, hefir mátt heita aflalaust hér um öll Innnes, en besti afli syðra, hefir og almenningur sótt þangað mikla og góða björg; héðan af nesinu, og hefir veðurblíðan stutt að því Hins litla öskufalls er fyrr var getið að hefði orðið vart úr Kötlu, um Rangárvalla- og Arnessýslu, gætti eigi að neinu austur í Skaftafellsýslu, og eigi varð þar neinna hlaupa eða vatnavaxta vart á Mýrdalssandi.
Íslendingur segir af tíð þann 7. desember:
Allan nóvember hefur tíðarfar mátt heita hið besta á Suðurlandi; úr öðrum landsfjórðungum höfum vér eigi tilspurt; að sönnu gjörði allhart norðanveður hinn 12. dag mánaðarins, og stóð það um nokkra daga; féll þá talsverður snjór til sveita, og er sagt, að fennt hafi fé til dauðs upp um Borgarfjarðardali. Um þær mundir misstu nokkrir menn sauðkindur á Kjalarnesi, er hrakti í sjóinn, en svo mikið sem af því var látið með fyrstu, þá megum vér fullyrða, að vart munu Kjalnesingar hafa misst yfir 1013 kindur alls. Hinn 18. batnaði veður, og þá fóru þeir af stað héðan, norðan- og vestanpóstur. Síðan hefur veðurátt verið hæg og þurr, vindar við austur og norður, frost ekki teljandi, jörð auð, skepnur í góðum holdum, en vart verður sumstaðar við bráðapestina. Fiskiafli hefur verið allt til þessa mjög lítill um öll Innnes.
Þjóðólfur segir 9.febrúar 1861 frá tíð fyrir áramót:
Lengi mun minnisstæð hin einkar hagstæða veðrátta og má segja veðurblíða, er hefir haldist stöðugt yfir gjörvallt Suður- og Vesturland að kalla má síðan um veturnætur og fram á þenna dag; því íhlaupið er gjörði um jólaleytið (hér með nálega 11°R. frosti (-13,8°C)), varð eigi nema fáa daga;
Þann 23. mars 1861 (s21) birti Norðri löng grein eftir B.A. sem heitir Veðráttan - við styttum hana verulega hér (enda lítið talað um veður). Greinin er dagsett 31.desember 1860:
Árið í fyrra [væntanlega 1859] var eitt af hinum bágustu, sem ég man, því sumartíðin var svo vond og hey manna urðu lítil, margskemmd og ónýt. Þó hefir þetta ár verið miklu bágra. Veturinn í fyrra var reyndar ekki svo harður; ýmist hlánaði eða tók fyrir jörð. En af því heyin voru svo hræðilega ónýt, varð fénaður magur og heyin gengu upp. Þó komst allt bærilega fram í 5.viku sumars. Þá dundi hér á hið versta voráfelli, sem nokkur man á þessari öld, hávetrargrimmdir með fannfergju og hafstormum af norðaustri hvíldarlaust í 16 daga. Engin skepna fékk björg utan húss, og féll fjöldi fjár af hungri og hor í húsunum, því fóðrið þraut víða, Unglömb voru skorin flestöll eða dóu af sulti og óáran. Svona var þetta áfelli víðast hvar við sjó í Norður-Múlasýslu, en miklu snjóminna inn til dala og um syðri sýsluna víða nærri snjólaust, en stormar og grimmdir miklar. Man enginn maður, að slíkur fjöldi fjár hafi fallið í fardögum og eftir þá, þegar engin skepna var áður fallin. þegar batnaði var löng síekja, og ekki kominn gróður fyrr en eftir messur. Í 14. viku sumars brá aftur til votviðra og kom víða enginn þurrkdagur þaðan af fyrr en eftir höfuðdag. Töður hröktust og urðu víða ónýtar, og eins úthey, sem losað hafði verið, eða þó einhverju af því hefði verið haugað saman, þá skemmdist það. Eftir þetta var allgóð tíð fram undir Mikaelsmessu [29.september] og heyjaðist töluvert því mýrar voru orðnar vel sprottnar. Haustið var hretviðrasamt, en batnaði undir veturnætur og var besta tíð 3 vikur. Þá brá til snjóa og hefir síðan verið jarðlaust í harðindasveitunum, en góðar snapir í hinum betri. ... Skrifað á gamlaársdag 1860. B.A.
Íslendingur segir frá þann 12.janúar 1861:
Veðráttan má alltaf heita með betra móti. Um jólin gjörði kulda og norðanveður, og kom þá allvíða hér syðra snjór með meira móti, en síðan um nýár hafa verið útsynningar og þeyvindar og snjóinn tekið upp að mestu.
Nóttina milli 30. og 31. desember [1860] urðu menn hér í Reykjavík varir við jarðskjálfta. Það var aðeins einn kippur og býsna-harður, svo að sumir menn hrukku upp af svefni við kippinn og brakið í húsunum. Hreyfingin virtist ganga frá útsuðri til landnoröurs, og þann veg hafa oss fundist flestar þær hreyfingar ganga, sem vér höfum tekið eftir hér sunnanlands. Jarðskjálftinn í haust, er leið, 20. september, tæpri stundu eftir miðaftan, var viðlíka mikill og þessi, og hafði hina sömu stefnu, frá útsuðri til landnorðurs, og þannig gætum vér tilgreint fleiri.
Íslendingur birti þann 15.nóvember spurningaskrá Jóns Hjaltalín um hafís og hafískomur. Ýmsir urðu á næstu árum til að svara þessum spurningum og birtust svörin í blaðinu - og þau má einnig finna í annálum hungurdiska:
Eftir að ég nú í 2 ár hef gjört mér far um, að safna öllu því, er lýtur að hinni íslensku veðurfrði (Climatologie), leyfi ég mér nú að skora á alla núlifandi landa mína fyrir vestan, norðan og austan, að skýra mér frá öllu því, er þeir vita að segja um hafísinn; einkum eftir því, er þeir sjálfir hafa tekið eftir á þessari öld. Ég sný mér helst að hinum eldri, því þeir muna best fram á öldina, og leyfi ég mér einkum að leggja fyrir þá eftirfylgjandi spurningar, er ég vona þeir sýni mér þá velvild, að svara mér upp á með póstum í vetur, eða svo fljótt sem auðið er. En helstu spurningar þær, er ég vildi fá svar upp á, eru þessar:
- Hvað oft munið þér eftir hafísreki á þessari öld?
- Hvernig er veðurátta jafnaðarlega, áður hafísrekið byrjar?
- Rekur hafísinn jafnaðarlega fljótt eða dræmt inn? og hvað sýnist mest að flýta ferð hans, vindur eða straumar?
- Úr hvaða átt kemur hann vanalega hjá yður (norðri, norðvestri eða norðaustri)?
- Eru þær tvær ístegundir, sem um er talað, sumsé borgarís og flatur ís, samfara, eða hvor fyrir sig? og hvora þessara ber þá fyrst að landi á hverjum stað fyrir sig?
- Koma hvalir hvervetna inn á flóa og firði á undan ísnum? og hvort eru hvalir meira fyrir landi í ísaárum eða þá íslaust er?
- Fer það eftir vöxtum hafíssins, hvað lengi hann liggur við landið? eða eru það vissir straumar, er allajafna fra hann burtu?
- Hvar rekur hafísinn fyrst að á Vestfjörðum? hvar fyrir miðju Norðurlandi? og hvar þegar norðar dregur?
- Kemst hafísinn að nokkrum mun fyrir Horn á Vestfjörðum, nema hafþök séu af honum? og fer hann nokkurn tíma suður fyrir Langanes, nema hafþök séu fyrir Norðurlandi?
- Fer hafísinn, þegar hann kemur fyrir Langanes, þétt með landi, eða fyrst út á við og rekur svo inn?
- Verða oft slík hafþök fyrir Múlasýslunum, að eigi sjáist út yfir af fjöllum?
- Í hvaða átt rekur hafísinn, þegar Múlasýslurnar losast við hann?
- Hafa menn fyrir vestan, norðan eða austan tekið eftir nokkrum breytingum á norðurljósum, meðan hafísinn er landfastur?
- Merkist ekki alla-jafna langtum meiri kuldi í sjónum, meðan hafísinn er við land, en ella?
- Halda menn á Norðurlandi, að sudda- og vætu-sumur standi af hafís?
- Af hverju ætla menn hið gamla máltki sé komið, sem segir, að »sjaldan sé mein að miðsvetrarís»? og hafa menn enn þá trú á því?
- Hvaða kvillar fylgja helst hafís á mönnum og skepnum?
- Þegar tré reka í hafís, eru það þá bæði sívöl og köntuð tré, eða að eins sívöl?
- Hvernig eru þau sumur jafnaðarlega á Norðurlandi, þegar enginn hafís hefur komið eða sést veturinn eða vorið áður?
- Er það almenn reynsla á Vestur-, Norður-og Austurlandi, að eftir mikil ísaár, sem gengið hafa í samfellu, komi gott árferði?
En þó þetta sé hið helsta, er mig fýsir að vita, þá kann að vera margt, er glöggir menn hafa tekið eftir, og vildi ég þá gjarnan, að getið yrði um það. Mér þykir full von, þó menn viti eigi mikið um straumana umhverfis landið, og því hef ég eigi spurt svo mikið um þá; en gæti nokkur gefið mér þar um sérstaklegar upplýsingar, væri mér það mjög kært. Reykjavík, 9. nóvember 1860. J. Hjaltalín.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1860. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 30
- Sl. sólarhring: 128
- Sl. viku: 2477
- Frá upphafi: 2434587
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 2201
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
og vid berum okkur illa?
Vesturferđir fóru brzátt ađhefjazt efir þesa kulda.Ģlobal warming af çò2.Segir ekki Páll ad 35 ára sveifla hafi þarna verid i adzigi?
Halldór Jónsson, 7.12.2020 kl. 16:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.