Enn fer vel með (í aðalatriðum)

Það hefur farið vel með veður nú í haust - ekki mikið um illviðri og lengst af hefur verið fremur hlýtt - þó kulda hafi brugðið fyrir dag og dag. Nokkrar öflugar lægðir eiga þó leið hjá, t.d. sú sem fer til norðausturs fyrir suðaustan og austan land á morgun (föstudag). Flestir landshlutar virðast þó eiga að sleppa furðuvel við áhrif hennar - þó hvessir sumstaðar fyrir austan - og kannski snjóar nyrðra. Eins og venjulega látum við Veðurstofuna um spár og hvetjum lesendur til að fylgjast með þeim.

Veturinn á norðurhveli hefur samt sinn gang - hefur lagst nokkuð á hluta Norður-Ameríku en lítið látið á sér kræla í Evrópu og meginhluta Asíu.

w-blogg191120a

Kortið sýnir háloftastöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin spáir henni síðdegis á laugardag (21.nóvember). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstefnu og styrk í miðju veðrahvolfi, en þykkt er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra, sem er mjög nærri meðallagi nóvembermánaðar hér á landi. 

Það eru þrír mjög kaldir blettir á kortinu - vetrarkuldapollar. Einn yfir heimskautasvæðum Kanada - við höfum hér á blogginu til hægðarauka kallað hann Stóra-Bola. Hann fitnar nú hægt og bítandi - en er ekki búinn að ná fullum vetrarþroska. Hann mun á næstunni leika sér við annan poll - þann sem er nærri norðurskautinu. Við gefum báðum gaum. Þriðji kuldapollurinn er yfir Austur-Síberíu - rétt að ná sér á strik.

Föstudagslægðin okkar er hér komin austur fyrir land - og veikur háloftahryggur vestur af landinu. Af einhverjum ástæðum hafa veikir hryggir sem þessi verið nokkuð viðloðandi á okkar slóðum að undanförnu - risið strax upp aftur ef að þeim hefur verið sótt og þeir bældir niður. Slík staða er í rauninni hagstæð - alla vega meðan kuldi hefur ekki náð að byggjast upp að ráði í norðurhöfum. Framtíðarspár eru heldur á því að þetta ástand haldi áfram - þó út af bregði dag og dag þegar lægðir fara hjá - aðallega fyrir sunnan land. En auðvitað kemur að því að kuldapollarnir taka sig saman í andlitinu og fara að angra okkur - eða það er vaninn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.11.): 94
  • Sl. sólarhring: 143
  • Sl. viku: 2338
  • Frá upphafi: 2411758

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 1988
  • Gestir í dag: 70
  • IP-tölur í dag: 67

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband