Af árinu 1851

Tíð var yfirleitt talin hagstæð á árinu 1851 að því undanskildu að mjög slæmt hret gerði um mánaðamótin maí/júní og var óvenjukalt um tíma eftir það. Meðalhiti í Reykjavík var 4,6 stig, 0,1 stigi ofan meðaltals næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Stykkishólmi var 4,1 stig, 0,6 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Meðalhiti á Akureyri var 3,5 stig. Sérlega kalt var langt fram eftir júnímánuði, hiti fór niður í frostmark í Reykjavík þann 14.júní og niður í rúmt 1 stig þann 19. og 20. Þann 5.júní var hámarkshiti þar aðeins 2,5 stig. Júlí og ágúst voru einnig fremur kaldir. Aftur á móti var sérlega hlýtt í desember (enn hlýrra heldur en í sama mánuði árið áður - sem þó var óvenjulegt). Hlýrri desember kom ekki í Hólminum fyrr en 82 árum síðar (1933), sama á við um bæði Reykjavík og Akureyri. Hlýtt var einnig í janúar, apríl, maí, september og nóvember. 

ar_1851t

Enginn dagur telst mjög hlýr í Reykjavík, en einn í Stykkishólmi, 26.desember. Hiti fór þó þrisvar í 20 stig í Reykjavík, 24., 25. og 26.júlí - en svalt var að nóttu. Einn dagur var mjög kaldur í Stykkishólmi, 24.ágúst, en í Reykjavík voru köldu dagarnir 12, þar af 8 í júní og 4 í ágúst. Kaldastur að tiltölu var 5.júní.  

Úrkoma í Reykjavík mældist 816 mm. Frekar þurrt var í mars, júní og júlí, en úrkomusamt í september og desember. 

ar_1851p

Meðalþrýstingur var sérlega lágur í janúar og sérlega hár í nóvember, hann var einnig nokkuð hár í apríl og í júní til september. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík á nýársdag, 943,5 hPa, en hæstur á Akureyri 26.febrúar, 1040,5 hPa.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Þó heimildir um veður frá degi til dags megi teljast allgóðar er óvenjulítið ritað um veður og afleiðingar þess á árinu í heimildum. Blaðaútgáfa var að nokkru lömuð. Þjóðólfur, sem reyndar var allt of upptekinn af stjórnmálaþrasi til að skrifa mikið um veður, var bannaður í kringum Þjóðfundinn og kom ekki út um hríð. Lanztíðindi hættu líka að koma út (eitthvað þras þar líka). Þannig er t.d. litlar upplýsingar að hafa um almyrkva á sólu sem varð norðaustanlands 28.júlí. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. 

Gestur vestfirðingur tekur saman tíð ársins 1851 í pistli sem birtist í blaðinu 1855:

Árið 1851 var ennú árgæska, sem hin fyrri árin. Janúarmánuður var hinn besti vetrarmánuður; því þó vindar væru af ýmsum áttum, og þó hagar spilltust nokkuð af blotum, sem komu milli kyndilmessu og góu, var veðrátta jafnan hagstæð og góð allt fram til sumarmála. Að sönnu komu frost nokkur á einmánuði; varð þá og vart við hafís fyrir norðan land, og um tíma sáu menn hann af fjöllum ofan á hafi úti. Góðviðri voru alla hörpu; en seinustu viku maímánaðar gjörði íkast með ofsaveðrum og fannkomu; linnti því hreti ekki fyrr en komið var fram í miðjan júnímánuð, og hafði ei jafnmikið hret komið allan veturinn áður; var þá ei óvíða, að sauðfé fennti og króknaði af kulda, einkum sauðir, er úr ullu voru komnir [Varð þó miklu minna af fjártjóni þessu hér vestra, en sagt var frá úr Norðurlandi, þar sem fé fennti hundruðum saman, og sumstaðar fennti hesta.] Af þessu kom kyrkingur í gróður þann, sem kominn var að vorinu. Eftir miðjan júnímánuð og júlímánuð út voru sífeldir þurrkar og veðurkyrrur svo miklar, að ei þóttust menn muna jafnmikil logn dag eftir dag. Í ágústmánuði voru vindar og úrkomur tíðari; en mest skipti um til rigningar og sunnanáttar í septembermánuði, og héldust vætur öðruhverju allan októbermánuð út. Nóvembermánuður var fremur skakviðrasamur, en frosta og snjóalítill, og þvílíkur var og desembermánuður. Ár þetta má að öllu aðgættu einnig teljast góðærisár.

Vetrarafli varð góður undir Jökli: minnstur hlutur ... Vestur um fjörðu varð sjáfarafli í meðallagi, enda þótt haustaflinn yrði víða rýr sökum ógæfta.

Þjóðólfur fer lauslega yfir tíðarfar ársins 1851 í pistli sem birtist þann 10.febrúar 1852:

Árið 1851, sem Þjóðólfur á nú yfir að lita, má að líkindum telja með hinum merkari árunum í „ævintýri Íslands", ekki svo fyrir þá atburði, sem orðið hafa í landinu af völdum náttúrunnar, heldur hins vegna, sem fram hefur komið í þjóðlífinu vegna þess anda, sem fyrir var í þjóðinni sjálfri. Og munum vér nú fara fáum orðum um hvorttveggja. Veðráttufarið veturinn út frá nýári mátti kalla gott, var það einkum úrkomulítið, og einatt logn og heiðríkjur er út á leið. Vorið var ákaflega kalt og næðingasamt allt fram að Jónsmessu. Þá komu fyrst hlýindi og veðrátta hin besta, hvervetna úrkomulaus, og hélst fram að höfuðdegi. En nú brá svo til rigninga, og hretviðra einkum allan september, að varla kom þurr dagur allt til árslokanna.

Brandsstaðaannáll [um árið í heild]:

Á þessu ári varð einstakleg tilbreyting á veðurlagi. Fyrst 10 vikna þurrviðri um vorið, annað fardagahretið, þriðja 6 vikna breiskjur og sólbruni, fjórða haustfannkyngjan og fimmta jólaföstuþíðan.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Í janúar suðlægt, frostalítið og nær því auð jörð til 20., þá snjóþyngsli til 27., svo bloti og góðviðri til 6. febr., þá landnorðan-hríðarkafli og úr því óstöðugt og jarðlítið; hross tekin inn til dalanna. Grimmir 3 fyrstu góudagar, síðan gott veður, en jarðleysi. 7.-9. mars vestan- og norðanhríð, kýrbylur kölluð. 17.-23 harka mikil.

Lanztíðindi lýsa þann 10.febrúar veðurfari í janúar:

Í þessum mánuði hefur veðurátta verið mjög óstöðug, og umhleypingasöm; lengst af hefur austanáttin haldist við, oft með hvassviðrum, sem stundum fljótlega hafa snúist til útsuðurs, suðurs eða landnorðurs, ýmist með éljum, og snjó lítilfjörlegum, eða, sem oftar verið hefur, með rigningum. Frost var ekki stöðugt nema frá þeim 17. til þess 23., að öðru leyti oftar þíður, einkum um daga, og seinustu 3 dagana var landnyrðingsveður, og þó frostlaust að kalla.

Lanztíðindi lýsa veðurfari í Reykjavík í febrúar þann 23. mars:

Fram eftir þessum mánuði allt til þess 18. var mjög óstöðug veðurátta, og vindasöm, ýmist á austan eða útsunnan, með rigningum eða snjógangi. Þann 18. og 19. var mikið norðan hvassviðri, en upp frá því var hægð, góðviðri, og stundum hæg austangola, og alltaf þurrviðri til mánaðarins enda.

Lanztíðindi segja þann 10.mars almennt af árferði:

Það sem af vetrinum er hefur veðurátta allstaðar þar sem tilspurst hefur hér á landi, verið góð og þó hún sumstaðar hafi verið nokkuð umhleypingasöm, hafa þó frost og hörkur verið með minnsta móti. Með öllu Norðurlandi hefur verið óvenjulegur fiskiafli, einkum á Eyjafirði og er mælt, að þar séu komnir 18 hundraða hlutir frá því á haustnóttum og til þorrakomu. Þar á mót hefur verið lítið um fisk vestra og með þorrakomu var í veiðistöðum undir Jökli mestur 1 hundr. hlutur, en hæglega getur ráðist hót á þessu enn, því þar er oft vant að fiskast vel þegar fram á kemur ef gæftir eru góðar. Sunnanlands hefur og verið fátt um fisk til þessa.

Lanztíðindi lýsa veðri í Reykjavík í mars í pistli þann 15.apríl:

Fyrstu 5 dagana af þessum mánuði var austan og norðan kæla á víxl, og gott veður; þá næstu 4 daga frá 6. til 9. var útsynningur og vestanátt, ýmist með snjóéljum eða regnskúrum, en frá því, til mánaðarins enda var oftast austan landnorðan átt, og frost, einkum á næturnar, þó oft yrði frostlaust um daga; þann 31. var hvasst veður á austan með rigningu.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Á Maríumessu [25.mars] blíðviðrisbati, svo gott og þurrt til páska, 20.apríl. Eftir þá alljafnt frostasamt. 6. maí sást fyrst gróður í úthaga. 9.-12. heiðarleysing. Hey gáfust mjög upp og töðuskortur mikill var í fardögum, ásamt gagnsskortur kúa. Hross gengu af, þar jarðasælast er í Skagafirði. Frá 10. mars til 20. maí kom engin úrkoma, en á uppstigningardag, 29. maí, gerði hið mesta bleytu-fannkomu-ofviðri og um nóttina hljóp á norðanhríð. Fé nýrúnu lá við dauða, áður en næðist inn og króknaði í ofviðra plássum. Enginn mundi slíkt áhlaup á þeim tíma.

Lanztíðindi lýsa veðri í Reykjavík í apríl í pistli þann 15.maí:

Fyrstu 5 dagana af þessum mánuði var austanátt með rigningu, einkum þann 4. og 5., en frá því, og til mánaðarins útgöngu, hefur oftast nær verið hæg landnyrðings- eða vestanútnyrðingskæla, með næturfrosti næstum á hverri nóttu, og hefur hvorki regn né snjór fallið á jörðina, nema lítið snjóföl þann 14., er því engin gróður kominn á jörðina vegna þurrka og næturkulda, en að öðru leyti hefur verið besta veðurátta til sjóróðra, því vindur hefur oftast verið mikið hægur og stundum logn og heiðviðri.

Þjóðólfur segir þann 13.júní:

[Þann] 20. dag maímánaðar var hér rok mikið og hroði á vestan. Þá hleypti Norðmaður, sem lagður var út héðan fyrir fáum dögum, aftur inn í flóann, og náði inn á Skerjafjörð; missti hann fyrir framan Vatnsleysuströnd einn af mönnum sínum og skipsbátinn. En til þess tóku þeir, sem sáu, hve fimlega og kunnuglega Norðmaður stýrði í því veðri og innan um þau sker; enda eru Norðmenn bestu sjómenn. Sama dag kom hér inn á höfnina póstskipsherra Aanensen; hann er Norðmaður líka, og kallar ekki allt ömmu sína, þó loft og lögur leiki saman; en það trúi ég, að honum hefði ekki fundist til þessa sumarveðurs vors.

Þann 30.maí segir Þorleifur í Hvammi frá snjófalli og skaflar séu komnir. 1.júní festi snjó í éljum, 4.júní „festi snjó hádag, en birti að kvöldi“, 5.júní „snjór í sjó niður með sköflum og 25.júní „frost og héla að nóttunni“. Á Hvanneyri í Siglufirði alsnjóaði aðfaranótt 31.maí og 2.júní. 

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Aftur kom 1.júní norðan-fannkomuhríð í sífellu um 9 dægur. Ókjör af stórfenni rak niður til fjalla, fyllti hlíðar, gil og stíflaði kvíslar, svo fjöldi sauða og gemlinga fennti á Reynistað, Vík og víðar og hér mest á Höskuldsstöðum, um 100 fjár á þessum 3 bæjum og margt náðist úr fönn. Um 30 hross fórust í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Eftir hretið frostasöm þurrviðri. Ei kom frostlaus nótt til fjalla að sólstöðum. Eftir það grasviðri og góð tíð. ... Í júlí lengst þurrkar. Grasbrestur var á túnunum. Með hundadögum farið að slá. Náðist illa af þeim vegna breiskju og bruna. Gekk illa heyskapur á harðlendi. 25. ágúst skipti um til votviðra. 28. alsnjóaði. Eftir það kom allt hey, en þeim því slepptu varð hey ónýtt allmikið utan í Langadal, sem 16.-17. sept. náðist í vestanstormi að mestu. Eftir það kom enginn þerrir. Nokkuð svældist inn um Mikaelsmessu. Í göngum á þriðjudag vestanhríð [sennilega 23.september], miðvikudag norðanfannkoma og 30. september [líka þriðjudagur] mikil fannkoma, versta veður og færð í öllum göngum.

Þorleifur í Hvammi nefnir sólmyrkvann 28.júlí: „Sólmyrkvinn álíka og hálfrokkið inni í húsum, en hálfhúmað úti“. Þann 9.júlí segir athugunarmaður í Siglufirði að nógur hafís sé útifyrir og daginn eftir, 10.júlí „mikið frost í nótt“. 

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

[Þann] 8.-9 okt. rifu menn hálfblautt hey úr snjóhrafli og létu inn. Það þá var eftir varð úti meira og minna hjá flestum í öllum sveitum og mikið ást upp í svo langri snjóatíð um og eftir göngur. 11.-12. okt. gerði mikla rigningu, en fönn til fjalla, en. 13. snjóhlaðning, 14. stórhríð og 15. enn snjókoma. 16. birti upp hér, en hlóð niður mestu fönn austan Vötn, fram í dali. Varð jarðlaust og ófært yfir af fanndýpt til hálsa og framdala, en augaði í árbakka og með vötnum á litlum rima til lágsveita. Fé varð ei sumstaðar heim komið úr högum á 2 dögum. Hross og fé tók út hungur. Fönnin lá á og rýrnaði lítið, þó frosthægt væri, þar til 27. okt., að jörð nokkur kom upp. Aftur hríð og fönn til, 1. nóv., þann 3. harka mikil. Eftir það frostalítið mánuðinn út, svo ár lagði ei. 4.-9. þíða, svo nóg jörð gafst úr því, oft blotar og slyddusamt og urðu svellalög mikil. Með desember frost og staðviðri 6 daga, 4.-6. hláka og 14.-15. heiðarruðningur og eftir það þíður og leysti vötn í sveitum og flóar urðu þíðir, auð fjöll og heiðar á jólum, en vatnsagi var mikill í jörð og á.

Ný tíðindi segja 20.janúar 1852 frá fjárskaða í Þingvallasveit og víðar:

[Þann 23.nóvember] varð séra Símon Bech á Þingvöllum fyrir fjárskaða miklum. Var það í útnyrðingsbyl og ákafri fannkomu, að sauðirnir hröktust niður í hraungjá eina, sem liggur vestur úr Almannagjá fyrir ofan Öxarárfoss. Voru þó fyrst 2, en síðan 4 menn hjá fénu, en þeir gátu engu við ráðið. Þegar þeir sáu, að féð fór að fjúka niður í gjána, fóru þeir niður í hana, og reistu hverja kind á fætur, sem niður kom; því allt kom féð lifandi niður. Svo reyndu þeir og að koma því fram úr gjánni, en gátu það ei. Hættu þeir þá við, og ætluðu varla að komast heim um kveldið; því svo var veðrið þá illt orðið og fjarskalegt. Daginn eftir var gjáin full orðin af harðfenni. Voru þá fengnir menn til að moka upp gjána, og voru þeir að því 6 daga. Fátt eitt af fénu náðist lifandi, en á milli 70 og 80 dautt. — Gjáin kvað vera hér um bil 2 faðma breið, 4 faðma djúp og slétt í botninn. — Sama dag heyrist, að nokkrir fjárskaðar hafi orðið bæði á Hæðarenda í Grímsnesi, og í Eyvindartungu í Laugardal, en ekki höfum vér heyrt um þá greinilega sögu, né heldur, hvert þeir hafi víðar orðið.

Þann 10.mars segja Ný tíðindi frá mannskaða í sama byl: „Maður varð úti á Hrófá í Steingrímsfirði í hríðinni 23. [nóvember]“.

Þann 17.desember segir Jón Austmann í Ofanleiti að farið sé að grænka og Þorleifur í Hvammi segir að á jólum hafi jörð verið þíð og snjólaus. 

Þjóðólfur birti þann 27.mars 1852 úr bréfi úr Múlasýslu - þar segir:

Með nýári 1851 kom víðast um Austurland talsverður snjór, þó mestur efst til inndala, og tók þar þá víða þegar fyrir jörð, bæði af snjóþyngslum og blotum, sem bræddu allt í svell, kom þar víða ekki upp jörð aftur fyrr en á einmánuði. En allstaðar til útsveita og við sjávarsíðu hlánaði snjór þessi aftur, og héldust víðast nægar jarðir fram úr. Stillingar og veðurblíður voru allstaðar miklar fram á vor, svo, þegar hálfur mánuður var af sumri, var besti stofn kominn á gróður. En eftir það skipti um; komu þá norðansvakar, snjóáfelli og grimm frost, svo jörð kól upp aftur. Héldust kuldar þessir fram að túnaslætti, svo grasbrestur var þá hræðilegur. En seint í júlí kom votviðrakafli svo sem vikutíma, og skánaði þá grasvöxtur nokkuð. Eftir það komu hitar miklir, sem héldust fram í september, og oftast þurrviðri til septemberloka; heyjaðist því víðast öllum vonum framar, því nýtingin varð svo góð. Haustið var líka sérlega gott, og vetur þessi fram til nýjárs, sífellt þurrviðri og veðurhægð og frostleysur; mátti varla heita að föl kæmi nokkurn tíma í byggð, svo það stæði við degi lengur, enda var lömbum ekki kennt át fyrr en nú frá með nýjárinu. Að aflabrögðum til var ár þetta í meðallagi. Fjársýkin, sem verið hefur hér skæð að undanförnu, var þetta árið með vægasta móti.

Þann 2.júní 1852 birtu Ný tíðindi lýsingu á loftsjón sem sást norðanlands 26.október. Við birtum aðeins inngang frásagnarinnar hér. Þann 29.júlí 81852] birtist í blaðinu almenn umfjöllun um loftsteina, líklega eftir Björn Gunnlaugsson. Hann dregur þar saman fróðleik um fyrirbrigðið eins og menn best vissu á þeirri tíð:

Á sunnudaginn fyrstan í vetri [26.október] nær miðjum degi, í heiðríku lofti og glaðasólskini, sáu fáeinar manneskjur mikinn ljóshnött líða frá austri til útvesturs (lágt á lofti) yfir norðurloftið. Hafði sá verið, að sagt var, vel svo mikill fyrirferðar á himni, sem tunglið er, og svo bjartur, sem líkast væri að sjá til sólar gegnum þunna bliku, og engin duna heyrðist til þessa.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1851. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.11.): 118
  • Sl. sólarhring: 285
  • Sl. viku: 2632
  • Frá upphafi: 2411552

Annað

  • Innlit í dag: 115
  • Innlit sl. viku: 2268
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 112

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband