Af árinu 1849

Tíðarfar var almennt talið fremur hagstætt. Veturinn var þó nokkuð umhleypingasamur - vorið talið næturfrostasamt. Sumarið var almennt hagstætt og haustið líka. Kalt var í janúar, febrúar, júní og október, en hlýtt í september og desember. Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig, 0,3 stigum neðan meðalhita næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,3 stig og 2,8 stig á Akureyri.

ar_1849t

Hiti fór 7 sinnum í 20°C í Reykjavík - höfum þó í huga að nákvæmni var aðeins 1,0°R, en hæsti hitinn 22,5°C þann 11.ágúst. Dagana 28.júlí til 2. ágúst fór hiti í 20 stig alla dagana nema þann 30.júlí. Ekki var sérlega hlýtt á nóttunni þessa daga og þeir komast því ekki á lista yfir hlýja daga (á langtímavísu). Kaldir dagar í Reykjavík teljast hins vegar 9, 6.nóvember kaldastur að tiltölu. Kaldir dagar voru aðeins fjórir í Stykkishólmi, 5.nóvember kaldastur. Sjá má lista yfir dagana í viðhenginu. 

Úrkoma mældist 838 mm í Reykjavík, mjög úrkomusamt var í janúar, febrúar, mars og september, en fremur þurrt í júní og júlí.

arid_1849p

Meðalloftþrýstingur var óvenjuhár í september og fremur hár í júní, ágúst og desember. Þrýstingur var fremur lágur í janúr og júlí. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 7.febrúar, 952,6 hPa, en hæstur á sama stað þann 27.desember, 1035,1 hPa.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Áberandi lítið er rætt um veðurlag á Austurlandi - nánari upplýsingar um það kunna að finnast við ítarlegri leit. 

Ársritið Gestur Vestfirðingur 1850 [lýsir veðri ársins 1849] (lítillega stytt hér):

Þegar ég á að bera öldum mönnum og óbornum söguna frá árferð ársins 1849, eins og það hefir reynst Vestfirðingum, ætla ég, að árið megi með sanni telja eitt meðal hinna hagstæðustu árgæsku-ára. Að sönnu byrjaði það með umhleypingum og fannalögum, svo töluverð vetrarharka og hagbann hélst fram undir góulok [seint í mars], en bæði var veturinn snjólaus og mildur til nýárs, og líka gjörleysti fannir aftur á einmánuði, þegar sunnanáttir, regn og leysingar héldust við samfleytta 10 daga. Vorið var oftar blítt og hægviðrasamt, en jafnan nokkuð kalt á næturnar, þó var jörð víða vel gróin i fardögum, svo sóley og fífill skreytti þegar tún og engi; en þaðan í frá og fram yfir miðsumar voru sífeld bjartviðri, sólarhiti á daginn, en stundum frost á nóttunni; gras spratt því mjög seint, einkum á túnum og harðvelli, og náði sumstaðar naumast meðalvexti. En mæta vel vannst að grasinu sökum hinnar hagstæðu veðuráttu um heyanna tímann; nýting varð hin besta, og úthagar spruttu allvel, svo heyaflinn varð í góðu meðallagi, og þaðan af betri; svo var og haustveðráttan líka góð, að margir voru að heyvinnu venju lengur fram eftir, og ekki einungis haustið, heldur og veturinn allt fram að árslokunum var blíðviðrasamur og hagstæður; um veturnætur komu frost venju fremur, um það leyti árs, og náðu þau 14—16 mælistigum; en þetta stóð ei nema vikutíma. Í 22. viku sumars [um miðjan september] komu rigningar miklar, svo eigi mundu menn aðrar meiri; ollu þær víða á halllendi miklum skriðum á tún og engjar; sumstaðar skemmdust svo hey í görðum, að draga varð þau í sundur. Leysingar og stórrigningar eftir góulokin ollu og furðumiklum skriðum og snjóflóðum sumstaðar, er skemmdu bæði haglendi og hús. Hvergi ætla ég yrði þó jafnmikil brögð að þessu, og í Stapadal við Arnarfjörð. Er svo sagt, að 11.dag febrúarmánaðar hafi snjóflóð tekið þar og fleygt út á sjó heyhlöðu með heyi í, spelahjalli með töluverðum skipaútbúnaði og veiðarfærum, nýju sexrærings-skipi og fjárhúsi með 40 sauðum og 30 gemlingum (lömbum); nokkuð af sauðkindum þessum náðist dautt út um sjó. Fjárhús og sauðkindur fórust og af snjóflóða-skriðum bæði í Gjörfudal í Ísafirði, og á Geirmundarstöðum í Steingrímsfirði. [Annáll 19.aldar segir að um svipað leyti hafi þrjú hross farist í snjóflóði frá Silfrastöðum í Skagafirði og eitt hrapað til dauðs]. 

Sjávarafli reyndist vel um Vestfirði eins og víðar; vetrarhlutir undir Jökli urðu minni en í fyrra, og ollu því ógæftir um fiskigengdartímann, hlutir töldust þar 2—4ra hundraða. Aftur urðu vorhlutir þar í veiðistöðunum hærri en í fyrra, og gáfust nú 3 hundruð til vorhlutar. ... Allt eins voru bestu aflabrögð að vorinu fyrir sunnan Jökulinn, í veiðistöðum öllum, og það inn eftir öllum Faxafirði, ekki einungis eins langt og Snæfellssýsla nær, heldur einnig inni á Mýrum, og var víða landburður síðari hluta vorsins, og er það á orði, að menn, sem voru ekki vanir fiskiveiðum þar heim undan hjá sér, hafi þó með góðu fylgi reynt að hagnýta sér fiskigengd þessa, og aflað töluverðu af þorski. En bæði þar og annarstaðar var fiskur mjög magur, líkt og við hefir gengist þessi seinni árin. Um Breiðafjörð gætti minna þorskaflans, en annarstaðar vestra; þó fiskaðist í betra meðallagi, og vart varð við nýja fiskigengd sumstaðar, þar sem í mörg ár áður fannst ei fiskur á fornum miðum. Héldu menn, að þorskgengd þessi hefði haldið ferð sinni áfram inn á hina mörgu smáfirði, sem liggja inn úr Breiðafirði, þótt enn hafi ekki tekist að veiða fisk inni á þeim, eða finna þar sumarstöðvar hans, og er það þó víðast hvar vestur um fjörðu og í Strandasýslu, allt inn á Hrútafjörð, og hefir þessi innfjarðaafli vel gefist sumstaðar þetta ár, svo þeir, sem gátu vegna annarra búanna sinnt fiskigengdinni, fengu viða 1 hundrað þorska á skip á eitt haldfæri á dag, og sumstaðar talsvert af flyðri og skötu, ... Vorselaafli og hrognkelsaveiði heppnaðist viða ágætlega vel. Þó virtist sem hrognkelsagengdin væri sumstaðar minni nokkuð, en verið hefir að undanförnu.

Þetta ár í Vestfirðingafjórðungi veit ég ei aðra skipskaða en þessa: 1) bátur týndist frá Otrardal í Arnarfirði 22. dag mars í byljóttum útsynningshroða; þar týndist presturinn séra Ólafur Pálsson og ungmenni tvö, sonur hans, Þórarinn og systursonur hans, Árni Vídalín. 2) Róðrarbátur með 6 mönnum týndist við landtöku 8. dag september við Ingjaldssand hjá Dýrafirði, þá er hann í uppgangshvassviðri kom af róðri; formaðurinn hét Eiríkur, og urðu þar að sögn 5 ekkjur. Smiður nokkur, að nafni Jón Guðnason, Einarssonar frá Harastöðum,  drukknaði í Rifsós 29. dag desember [1848].

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Lognfönn lá á jörð og frosthægt veður, hríðarbylur 13.-16. jan., og 20. gjörði bloti jarðlaust til dalanna til 12. febr. Eftir það óstöðugt og kafaldasamt. Með góu landnorðanhörkur. Í mars aftur austan og sunnanátt með köföldum, svo að beit urðu lítil not, 14.-18. góð hláka. Var þá farið að bera á heyleysi allvíða austan Blöndu og norður frá.

Reykjavíkurpósturinn segir frá tíð í janúar (s66):

Þennan mánuð hefur hér sunnanlands verið allgóð vetrarveðurátta; framanaf mánuðinum féll mikill snjór á jörðu, svo sumstaðar kvað hafa verið jarðbann fyrir útigangspening vegna snjóþyngsla, og þetta hélst til mánaðarins loka; en frost voru ekki mikil, og þegar á mánuðinn leið oftast hæg veðurátta.

[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á janúarveðráttu í Reykjavík]: Fyrstu 5 dagana af þessum mánuði var gott veður og hægð með hrímfrosti um nætur; þann 6. var snjóþoka með drífu og austanvindi, og þann 7. slydduveður á austan með rigningu og hljóp í suður útsuður um kvöldið í rökkri; voru þá skruggur mjög miklar og reiðarþrumur sem varaði fram á nótt [Reiðarþrumur eru hér sunnanlands mestar nálægt vetrarsólstöðum, en víðast í öðrum löndum eru þær mestar á sumrum; svo gengu og miklar þrumur þann 28. desember seinastliðna, [1848]]. Eftir það var vindur á ýmsum áttum, eða logn, og féll mikill lognsnjór þann 10.; þann 12. var sunnan þíðvindi og rigning. Síðan hefur veðurátta verið oftast óstöðug og umhleypingasöm, oftar frost en þíða, þó mest hafi verið austanvindar, og hlaupið til útsuðurs með snjógangi; eftir þann 12. hefur í 5 daga eina frostlaust orðið, nefnilega þann 16. og 20., og þá 3 daga saman 27.- 29. og þótt vindur hafi hlaupið í norðurátt við og við, hefur aldrei orðið degi lengur stöðugt.

Jón Austmann í Ofanleiti segir í febrúarskýrslu sinni: „Nóttina til þess 8. óttalegur orkan frá vestnorðvestri, hús fuku um koll skip brotnuðu, líka varð heyskaði, Ofviðri frá 8. til þess 12. – Síðan ég hefi minni til nú 62. ár hefi ég ekki lifað annan eins umhleypingavetur“.

Ingibjörg Jónsdóttir segir í bréfi rituðu á Bessastöðum 7.mars (s241): „Hér eru mestu harðindi. Enginn fiskur nú. Fjarska stormar hafa brotið fjölda skipa í Rangárvallasýslu“.

Reykjavíkurpósturinn í febrúar (s78) 

[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á febrúarveðráttu í Reykjavík]: Frá byrjun þessa mánaðar, og til þess 20. dags, hefur verið einhver hin stirðasta veðurátta, með stormvindum, miklum köföldum, slyddublotum, rigningum og umhleypingsvindum frá austri til suðurs, útsuðurs og vesturs; hefur oft verið stórviðri á ýmsum áttum á einu og sama dægri, og ýmist verið frost eða þíða fleirum sinnum á sólarhring, hafa því orðið jarðleysur víða, eða mjög illt í högum: en frá þeim 20. til mánaðarins enda hefur verið stöðug norðanátt með töluverðu frosti og stundum kafaldskófi.

Reykjavíkurpósturinn í mars (s100):

Árferði og fréttir. Framan af þessum mánuði var árferð hér syðra hin sama og vetrarríki engu minna enn áður; en þegar kom fram í mánuðinn, gekk vindur til suðurs og kom þá hagstæð og hæg hláka; leysti þá allan snjó í byggð, og kom þessi bati mjög í þarfir, því peningur hafði þá lengi verið á gjöf, og margir orðnir tæpstaddir með heyforða handa skepnum sínum. Þegar á mánuðinn leið, gekk veður aftur til útsuðurs og norðurs og ókyrrðist mjög, svo aldrei gaf að kalla á sjó, hefur þetta haldist til mánaðarloka.

[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í mars í Reykjavík]: Fyrstu 9 dagana framan af þessum mánuði var oft stormviðri og umhleypingar af landnorðri, suðri og útsuðri með snjógangi og kafaldi, líkt og verið hafði lengst af í febrúarmánuði, en þann 10. brá til batnaðar, með sunnan þíðviðri og rigningu, hélst sú þíða tíð, með hægri leysingu fram yfir þann 20. svo mestallan snjó leysti burt af láglendi hér um kring. Þann 21. var landsynnings stórviðri með ofsarigningu, en með þeim 24. byrjuðu aftur frost og kuldar, með útsunnan vindi, og hljóp stundum í austur landnorður, með kafaldi, og einkum miklu snjófalli í logni þann 30.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Í marslok hríðarkafli, svo gott til 12. apríl, þá kuldakast til sumars. Vorið kalt. Þó kom nokkur gróður með maí. Vegna náttfrosta tók ei gadd af heiðum fyrr en eftir fardaga. Lestir fóru um sólstöður yfir gadd og hagleysu suður fjöll.

Reykjavíkurpósturinn í apríl (s115);

Í þessum mánuði hefur veðrátta hér syðra mátt heita fremur köld, enda hefur vindur sem oftast verið norðlægur. Snjóinn mikla, sem féll um mánaðarmótin, leysti þó upp, og nú er hér lítill eða enginn snjór í byggð. Útigangspeningur er sagður grannholda hjá almenningi, og er það því mjög undir vorinu komið hvernig skepnuhöld verða í vor, því heybirgðir eru hjá allflestum mjög litlar, þar sem margir voru komnir á nástrá með hey, þegar batinn kom í einmánuðinum.

[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í apríl í Reykjavík - birtist í maíblaði Reykjavíkurpóstsins]:

Þessi mánuður var að sínu leyti, líkt og mars; norðan- og landnyrðings kæla, hélst oftast við, fram yfir þann 20. með næturfrostum, þó jafnaðarlega með hægum vindi, en gróður var lítill. Eftir þann 21. voru ei næturfrost, nema 2 nætur, 27. og 28., en þó kuldanyrðings veðurátta.

Reykjavíkurpósturinn í maí (s143):

Vorið, sem nú er liðið, var hér sunnanlands hagstætt, en fremur þurrt og næturfrost, lengi frameftir; greri því seint, og ennþá má gróður ekki kallast nema í meðallagi. Norðanlands er sagt vorið hafi verið kalt og hretviðrasamt, og peningur gengið magur undan, einkum í Skagafirði, en í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum kvað peningshöld hafa verið miklu betri, enda hafði veturinn verið því hagstæðari sem lengra kom norður og austur eftir, og þannig miklu betur fyrir norðan enn fyrir vestan Reykjaheiði.

[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í maí í Reykjavík - birtist í maíblaði Reykjavíkurpóstsins]: Í þessum mánuði voru líka lengi frameftir austan kælur; næturfrost voru að sönnu ekki, en þó oft kalt í veðri, og þegar skúrir komu einstaka sinnum, helst seint í mánuðinum af austri eða suðri, voru það oft krapaél til fjallanna; annars voru vindar oft hægir eins og í næsta mánuði á undan, og því fiskigæftir góðar. Eftir þann 23. voru hlýindi fáeina daga með regnskúrum.

Þorleifur í Hvammi segir af þrumuveðri síðdegis þann 29.maí.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Eftir Jónsmessu góð gróðrartíð, en frá 7. júní þurrkasamt. Spratt vel á deiglendum túnum, hálsum og votengi, en lítið á harðlendi. Þó batnaði það til höfuðdags. Sláttur hófst í miðjum júlí. Breiskjur og vatnsleysi hélst til 19. ágúst, eftir það rekjur og góðviðri með nýting eftir þörfum. Gras dofnaði seint og varð meðalheyskapur. Þar með voru óslegnar engjar í fyrra, er spruttu nú allvel. Almennt hirt um göngur.

[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í júní í Reykjavík - birtist í júlíblaði Reykjavíkurpóstsins]:

Í þessum mánuði hefur veður verið mjög kalt og þurrt, vindur oftast hægur eða logn, en þó lengstum við norður og landnorður. Frá þeim 20. til 26. var við og við austan átt með regnskúrum, sem þó voru helst til muna nálægt fjöllunum, varð því grasvöxtur sárlítill, einkum á harðlendi. Að öðru leyti hefur verið hin besta veðurátta og stöðugasta.

[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í júlí í Reykjavík - birtist líka í júlíblaði Reykjavíkurpóstsins]:

Í þessum mánuði var lík veðurátta og hinum næsta þar á undan, oftast hægð og góðviðri, þó var helst norðanátt, sem ýmist brá til austurs, landnorðurs eða vesturs útsuðurs. Framan af mánuðinum voru einstaka sinnum regnskúrir, og þó ei miklar, nema máski til fjalla, en eftir þann 20. hefur ei mátt heita að deigur dropi hafi fallið, og valla dögg á næturnar, því ýmist hefur verið þykkt loft og þurrt, eða útnyrðingsgola, hefur því grasbresturinn ekki batnað á harðlendi, en nýting verið góð á því, sem náðst hefur af jörðunni.

Þann 5. ágúst mældist hiti í Odda á Rangárvöllum 20°C og 23°C daginn eftir. Þann 31. ágúst er getið um töluverðan jarðskjálfta á Odda á Rangárvöllum. Hiti fór yfir 20 stig á Akureyri 13. og 14.júlí. 

[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í ágúst í Reykjavík - birtist í septemberblaði Reykjavíkurpóstsins]:

Í þessum mánuði var eins og framanaf sumrinu mikið þurrt veður, oftast og allt til þess 18. stöðugur þerrir með hægri norðankælu og lognum, frá þeim 18. til 24. var austan landsynningsátt með litlum regnskúrum, og síðan var aftur útnyrðingur og þerrir til þess 29., svo að veðuráttan mátti heita hin besta sumarveðurátta.

[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í september í Reykjavík - birtist líka í septemberblaði Reykjavíkurpóstsins]:

Í byrjun þessa mánaðar var austanvindur og rigningar, og hélst það við með köflum fram að þeim 20., þó voru fleiri dagar í einu þurrir, frá 5. til 7. og 9. til 12., en frá þeim 21. til mánaðarins enda, var þerrir og bjartviðri oftast, og logn eða lítil norðankæla, svo að heyannir enduðu með góðum þerri, eins og sumarið hefur verið gott og þurrt, og bætti góð nýting upp grasbrest þann, er víða varð af vorkuldum og miklum þurrk framan af sumrinu.

Í september segir Þorleifur í Hvammi: „20.september stórregn frá kl.1 til þess að kl. var 1 f.m. þann 21. með miklum vatnsgangi“. 

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til nýárs]:

Haustið gott, en regnasamt og hret. 3.-4. okt., sem oft hittir á ös mikla í Höfða. Lengi var freðin jörð, þó auð væri. 31. okt. hríð og nokkur snjór, en 4., 5. og 6. nóv. allra mesta norðan-ofsahríð og fannkoma mikil, innistöður yfir fleiri sveitir, þar eftir gott veður og jarðlag móti norðri. 20.-24. góð hláka og eftir það góð tíð og auð jörð, ásamt til fjalla, auðar ár og vatnavextir 28. nóv. Þíður 10., 13., 19., 23., 25. des.    

Þjóðólfur fer lauslega yfir veðurlag ársins þann 16.nóvember:

Veturinn 1848 og 49 mátti heita í harðara lagi. Eftir því sem vetrarfar hefur verið um mörg undanfarin ár; var einkum snjókoma mikil seinni hluta vetrarins þó sjaldan væru frost til muna. Það mátti varla heita úrkomulaus dagur frá jólum og til pálmasunnudags [1.apríl]; kyngdi og þann dag svo miklum snjó niður, að hann tók í mitt læri á jafnsléttu. En eftir það kom líka batinn, og hann svo góður, að eigi sást snjór á láglendi á páskum [8.apríl], og var það mest fyrir sólbráð, því lítið rigndi alla vikuna. Þannig viðraði svo vorið allt og sumarið; voru rigningar með minnsta móti sem verið hefur, því tíðast var hæg norðankæla, eða logn og heiðríkja. Vertíðarafli var víða hvar í meðallagi, en afbragðsmikill í Höfnum, því þar voru 1200 hæst til hlutar.

Lanztíðindi segja þann 1.desember frá októbertíðarfari í Reykjavík:

Fyrstu 5 dagana af mánuðinum var norðanátt og kæla með næturfrosti; þann 6. og 7. rigndi lítið eitt, en að öðru leyti var gott veður og þurrt til þess 13., þá var hæg sunnanátt 3—4 daga með þoku og rigningu til þess 16., þá varð aftur þurrt veður til þess 22. með norðankælu; síðan var ýmist austanátt eða útsynningur, oft með skúrum, eða snjóéljum til fjallanna. Snjó festi aldrei dægri lengur á láglendi; en meira varð af honum til fjalla og á hálendi öllu; þann 31. var norðanstormur.

Lanztíðindi segja þann 20. desember frá veðráttufari í Reykjavík í nóvember:

Fyrstu dagana af þessum mánuði var landnyrðings- og norðanátt, fyrstu 3 dagana með hægð og lítilli snjókomu, en þá næstu 3 daga 4. til 7. var mikið harðviðri á norðan, með kafaldi, og nálægt 10° frosti; eftir það lægði veðrið, og gekk til austurs með hægð, var þá eftir þann 10. oft gott veður og stundum þíða, til þess 24., þá varð bjartviðri logn og hrímfrost í 3 daga hvern eftir annan, en seinustu daga mánaðarins var landsynningur með miklum rigningum.

Lanztíðindi segja þann 31.janúar 1850 frá veðráttufari í desember [1849]í Reykjavík:

Í þessum mánuði hefir verið einhver hin besta vetrarveðurátta, svo að meira líktist vorveðri með næturfrosti, en veðurfari um hávetur. Fyrstu vikuna var hæg austanátt, með þíðu nálega hvern dag, og stundum litlu næturfrosti; eftir það var einstaka sinnum nokkuð frost, og rigningar á austan-landsunnan, og hljóp vindur við og við til suðurs-útsuðurs, en stundum var logn heila daga (t.a.m. þann 15. og 16.) og þíðurnar héldust við, allt til þess 26., þá kom norðanátt með frosti, sem varaði þó ei nema rúmlega 2 daga, svo að seinustu 2 dagana var aftur þíðvindi og hægð.

Þann 27.desember segir séra Þorleifur í Hvammi: „Þráðbeinn geisli upp af sól í uppgöngu hátt upp á loftið“.

Í ritinu „Skriðuföll og snjóflóð“ telur höfundurinn (Ólafur Jónsson) að snjóflóð sem féll á bæinn Víðidal í Lóni (á Lónsöræfum) hafi átt sér stað á þrettándadagskvöld 1849 - þar fórst bóndinn og synir hans, en húsmóðirin og dóttir hennar lifðu af og brutust til byggða. Ólafur segir ítarlegustu frásögnina af þessum atburði í Syrpu II, 1948. Einnig segir Ólafur frá krapahlaupi sem féll á kotbæinn Klofa í Eskifirði 21.nóvember 1849. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1849. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 266
  • Sl. viku: 2383
  • Frá upphafi: 2434825

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 2114
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband