Af árinu 1847

Árið 1847 var eitt hið hagstæðasta á allri 19.öld. Veturinn óvenjuhlýr, janúar varla orðið hlýrri nokkru sinni síðan. Mars og júlí eru einnig meðal hinna 5 til 10 hlýjustu. Einnig voru febrúar, maí, júní og október hlýir. September var hins vegar óvenjukaldur og einnig voru nóvember og desember fremur kaldir. Meðalhiti ársins í Reykjavík reiknast 5,6 stig og varð ekki jafnhár aftur fyrr en árið 1933 (þetta er þó nokkuð óörugg tala). Meðalhiti í Stykkishólmi var 4,5 stig og þurfti að bíða til ársins 1928 eftir hærri tölu og veturinn var svo hlýr að ekki kom annar hlýrri fyrr en 1929. Janúar 1847 er sá hlýjasti sem vitað er um í Hólminum og í Reykjavík. Mælingar voru stopular þetta ár á Akureyri, en meðalhiti í janúar reiknast 3,3 sig - sjónarmun hærri en í janúar 100 árum síðar, 1947, en þá var janúar einnig fádæmahlýr á landinu. Í Reykjavík reiknast mars 1847 líka sá hlýjasti sem vitað er um - en óvissa um nákvæmni er meiri heldur en í Stykkishólmi. 

ar_1847t 

Þrátt fyrir þessi hlýindi var ekki mikið um sérlega hlýja sumardaga í Reykjavík eða Stykkishólmi. Í Reykjavík sker enginn sig úr - hiti komst aldrei í 20 stig og aðeins einn dagur telst óvenjuhlýr í Stykkishólmi, 10.júlí. Óvenjulegust í Reykjavík var vika snemma í mars, þann 3., 7. og 8. mældist hiti 9°R [11,3°C]. Svo hlýtt hefur aldrei orðið þar síðan í fyrri hluta mars. Kaldir dagar í Reykjavík voru 8, þar af 7 í ágúst, en þá kom slatti af köldum nóttum í björtu og þurru veðri. Einnig var mjög kalt 8.desember, frostið mældist -17,5 stig. Tveir mjög kaldir dagar voru í september í Stykkishólmi, 4. og 18. og einnig var kalt dagana 7. til 9.desember. Þann 8.desember mældi Eggert Jónsson á Akureyri, -24,4°C frost. 

Vetrarhlýindunum hér fylgdu kuldar á Bretlandseyjum og sjálfsagt víðar í Evrópu.

Árið var mjög úrkomusamt í Reykjavík. Ársúrkoma mældist 1074 mm. Úrkoman var sérlega mikil í janúar og desember, en undir meðallagi í febrúar, mars og október.  

ar_1847p 

Loftþrýstingur var óvenjulágur í desember og líka lágur í maí, júní og nóvember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 18.desember 954,1 hPa, en hæstur í Stykkishólmi 1. og 2. október, 1037,6 hPa. Þrýstingur var órólegur í nóvember og desember.

Minna virðist hafa verið um slysfarir heldur en „venjulega“. Flest er rakið lauslega í Annál 19.aldar. Eitthvað af slysunum tengdist veðri, en dagsetningar vantar og því tilgangslítið að birta þá talningu hér. Meira var um það en oft áður að erlend skipflök ræki upp við suðurströndina, m.a. tvö mannlaus viðarskip.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju.

Ársritið Gestur Vestfirðingur 1848 [lýsir veðri ársins 1847] - við breytum röð textans lítillega hér:

Eins og ég greindi stuttlega frá góðu árferðinni í fyrra, og gat um, hvað hver mánuðurinn var öðrum betri á árinu 1846, eins er ei einungis hið sama að segja af árinu, sem nú líður út [1847], heldur enn nú betra, svo öngvir elstu menn á Vestfjörðum muna slíkan vetur, sem þann, er síðast leið, það er að segja, frá nýári til sumarmála. Svo mátti kalla, að ekki væri frost, nema dag í bili, og varla festi snjó á jörð, og þegar menn litu yfir land og fjöll, sáu menn ei snjóa eða fannir, nema í háum fjallahlíðum, líkt og jafnast er milli fardaga og jónsmessu, því láglendi var snjólaust, jörðin klakalaus, svo að sauðfé, og jafnvel lömb gengu víða sjálfala úti. Gras á túnum og út til eyja, enda sóley og fífill, sást þrisvar sinnum vera farin að spretta. Fuglar sungu dag og nótt, eins og á sumrum; andir og æðifugl flokkuðu sig kringum eyjar og nes, og viku ei frá sumarstöðvum sínum, og svo var að sjá, sem hvorki menn né skepnur fyndu til vetrarins. Menn sléttuðu tún, hlóðu vörslugarða og mörg útihús, fóru til grasa, eins og á vordag, og það ekki einu sinni eða tvisvar, heldur allvíða 12 og 14 sinnum, enda var þetta hægðarleikur, því hvort heldur vindurinn stóð frá norðri eða suðri, voru jafnan þíður, en oftar var þó sunnanátt aðalveðurstaðan, en sjaldan hægviðri eða logn, sem olli því, að sjógæftir þóttu nokkuð við bágar, þó bar mest á því að liðnum páskum, því þá urðu útsynningar skakviðrasamari og magnaðri. Fyrstu sumarvikuna var eins og veturinn risi á fætur eftir ævilok sín [sumardaginn fyrsta bar upp á 22.apríl], brunaði síðan þá með afar-miklum norðanveðrum, köföldum og frosti, ýmist fram af eða framan í hvern fjallatindinn, eftir því sem á landslagi stóð. Eftir þá viku héldust umhleypingar og ókyrrur, úrfelli og rigningar öðruhverju fram eftir öllu vori, og lá nærri, að illa nýttust sjóföng, dúnn og eldiviður, og þó að sumarið yrði notasælt, og gróður kæmi furðu fljótt á jörðina, af því hún var öll þíð undan vetrinum, mátti samt kalla þerrileysusumar. Allt um það náðu Vestfirðingar mestum hluta heyja sinna í hlöður og heystæður skemmdalitlum, því þerridagar komu í bili, t.a.m. 24. og 31. júlí, 5., 6. og 7. og tvo hina síðustu daga ágúst, og tvo fyrstu daga september, og fáeina daga í sama mánuði.

Tjón varð mönnun á, af því þerridagarnir voru fáir, að hirða heldur fljótt hey sin, og kom því víða hiti í þau. Það er næsta fáheyrt hér vestra, að eldur kvikni í heyjum; það varð í sumar á einum bæ í Tálknafirði í Barðastrandarsýslu, að loga laust upp í garðheyi einu; þó brann það ekki til ösku, nema um miðjuna, því mælt er, að þegar menn urðu eldsins varir, gripu þeir til verkfæra og mokuðu í ákefð öskunni frá sér til beggja hliða heyinu, og gátu þannig varið báða endana frá bruna. Heybrunafregnir hafa og borist bæði úr Dala- og Snæfellsness- eður Mýrasýslum, vika á milli. Grasvöxturinn var frábær á öllu harðlendi og sögðu menn: „að grasið væri upp úr grjótinu", og víst mátti svo að orði kveða, því allt var vafið grasinu. Allvíða bæði á túnum og engjum fannst álnarhátt gras; nokkrir heimulu-njólar náðu þriggja álna hæð út til eyja á Breiðafirði Á mýrlendi var grasvöxtur allur minni, og ei betri en í meðallagi. Heyjafengur um Vestfirði varð allstaðar venju meiri, og vita menn ei til, að almennt hafi jafnmikil hey í garð komið á einu sumri, auk þess sem margir áttu fyrir talsverðar heyfyrningar. Margur góður slægjublettur varð þó eftir bæði ósleginn og óbitinn, því næsta fátt fólk er til að vinna upp víðlendar engjar, þegar þær eru allar þaktar í kafgrasi. ... Þar sem farið var að slá velræktað tún í 11. viku sumars, spratt grasið eða háin svo vel og fljótt aftur, að nýagrasið var hálfrar álnar hátt orðið, að hálfsmánaðar fresti, og þegar það var þá slegið, mátti slá sama völl að þrem vikum liðnum þar frá, og náði það gras kvartils hæð. Er þessa því getið, að það munu árbækur landsins seinna meir mega telja fáheyrða nýlundu, þar sem þetta finnst ei í þeim ritað nokkru sinni áður.

Með haustinu kólnaði veðrátta og varð síðari hluti september nokkuð frostamikill. Síðan létti aftur frostunum; því tvo hina næstu mánuði voru jafnan umhleypingar og úrfelli mikil, og skiptust regn og krapar á, en fannkoma varð samt lítil, þó voru svell og snjóar á jörðu komin fram til fjalla og dala við byrjun desember, þegar þá frost og köföld tóku aftur til og héldust í hálfan mánuð, urðu þá svo hörð frostin að þau náðu 18 mælistigum 5. og 6. dag [desember] en síðan komu landsynningar og þíður, svo ís leysti upp og mikið af snjó; mátti svo kalla, sem jörðin væri við áraskiptin víðast snjóalaus í byggð, þó snjókrapar og harðir útsynningar enduðu árið.

Sjávarafli á opnum bátum hefir þetta árið verið samfara annarri ársæld á Vestfjörðum. Ekki hefir í langa tíma jafnmikið fiskigengd komið að Vestfjörðum, að minnsta kosti ekki eins langt inn á firði; vita menn ekki til, þeir er nú lifa, að þorskur hafi veiðst vestra lengst inn á fjarðarbotnum, eins og í sumar er leið, einkum í Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslum; þannig náðu menn, t.a.m. á Patreksfirði, Arnarfirði, Ísafirði og víðar, fjögra hundraða hlutum, síðari hluta sumarsins, og mundu hlutir þó hafa orðið töluvert hærri, hefðu ekki óhentug veiðarfæri og heyannir hamlað því. ...

Þegar ég hefi þannig minnst árgæskunnar bæði til sjós og lands á ári þessu, verð ég að geta þess líka, að þó að sauðfénaður hefði alltaf á auða og þíða jörð að ganga, og væri, að kalla mátti, að sumrinu sokkinn ofan í grasið, reyndist fjárskurður naumlega í meðallagi, og má vera að nokkuð hafi ollað ótímgun sauðfjárins, því að vetrinum var hann víða hvar þjáður af mikilli niðurgangssýki, og er ei talið ólíklegt, að bæði menn og skepnur hafi sætt sýki þeirri, sökum Heklugossins. Annars hafa sóttir haft lítið um sig á þessu ári, og engin talsverð landfar-sótt gengið um Vestfjörðu, nema nokkurskonar þyngslakvef að sumrinu, og lagði það suma í rúmið nokkra daga. Mörg hafa ungbörn dáið þetta árið, þótt ei hafi þau hrunið eins ógurlega niður, og árin að undan.

Ekki hefi ég heyrt þess getið, að opnum skipum hafi borist á í Vestfirðingafjórðungi á ári þessu, nema þessum: róðrarskipi af Hjallasandi, dag 27. mars í fiskiróðri, var þá á hvassviðri austan, en þó ekkert ofviðri, týndust 4 menn, en annað róðrarskip bjargaði hinum fjórum, og kenndu menn það ofhleðslu, að svona tókst til; báti í Rifsveiðistöðu með tveimur drengjum á, drukknaði annar þeirra, en hinum varð bjargað.

Brandsstaðaannáll: [Vetur]

[Árið] var eitthvert hið besta, sem land vort getur fengið, svo lengi hefði mátt að búa. Í janúar hægar þíður, lítið frost og snjólaust að mestu og sýndist sem jörð dofnaði ekki frá hausttíma. Húsþök, túnblettir vel ræktaðir og góð jörð var sífellt algræn. Í febrúar stillt austanátt, með litlum snjó og meðalfrosti. 7.-8. norðanhríð og einasta innistaða á þessum vetri, en engan dag var jarðlítið og eins til fjalla og harðindaútkjálka. Með mars stöðug og löng hláka, svo fé var sleppt á hagagóðum jörðum með haustholdum.

Reykjavíkurpósturinn segir í janúar (bls.59):

[Í janúar], eður til þess 28. hefur ekki fryst á daginn, en stöku sinnum lítið eitt á nóttunni. Rigningar vóru samt venju fremur, einkum í þessum mánuði, þá hér rigndi [162 mm]. Hér sunnanlands mun útigangspeningur því víða kominn enn á gjöf, nema lömb, og þó varla fyrr en um jólaleyti, og má þetta heita stök árgæska.

Reykjavíkurpósturinn - febrúar, (bls.76):

Í þessum mánuði var árferð hér syðra, og að því leyti fréttir hafa af farið, bæði nyrðra og vestra, hin sama og áður, og stöðugar frostleysur og blíðviðri, svo baldinbrá og sóley var komin í blóm á þorra, en þetta kulnaði aftur öndverðlega í þessum mánuði þá hér komu fáeinir kuldadagar, og varð kuldinn þá -10°R., en það hefur kuldinn mestur orðið hér syðra í vetur.

Reykjavíkurpósturinn - mars, (bls.93):

Þegar Reykjavíkurpósturinn var seinast á ferð, gat hann þess, að tíðin hefði alstaðar verið góð, þar sem til hafði frést úr landinu. Nú er mánuður liðinn síðan og má með sanni segja, að hann hafi ekki umspillst, því tíðin hefur mátt heita sumar en ekki vetur. Elstu menn þykjast ekki muna eins jafngóða vetrarveðurátt, einsog verið hefur i vetur, en einkum þennan síðasta mánuð. Jafnvel útlenda menn, sem vanist hafa góðu veðri, hefur furðað á slíku blíðviðri. Er það og sjaldgæft að túnavinna og garðyrkja sé byrjuð með einmánaðarkomu, einsog nú er, eða að tún séu þá farin talsvert að grænka, tré orðin laufguð í görðum, og gangandi fé farið að taka vorbata. Það er að líkindum ekki ófagur fífill sveitabóndans eftir slíka árgæsku.

Þann 8.mars segir Ingibjörg Jónsdóttir á Bessastöðum í bréfi: „Vetur er sá blíðasti, ekki frost og ekki snjór, fiskur kominn fyrir löngu og allt í himnalagi“.

Brandsstaðaannáll: [Vor]

Með einmánuði óstöðugra, þó þíðusamt, svo afljúka mátti túnaávinnslu og starfa að torfverkum. Vegir urðu færir og grænka fór í túni. 16. apríl gjörði norðanveður mikið upp á útsynning og sjórót fjarskalegt. Fórst þá jakt Jóns Bjarnasonar á Eyvindarholti. Fönnina tók brátt upp. Með maí nægur gróður, í honum þurrkasamt.

Reykjavíkurpósturinn - apríl, (bls.107):

Í þessum mánuði var veðurátta bæði hér syðra og, að því leyti frést hefur, líka vestra og nyrðra, miklu óblíðari en að undanförnu; og var því samfara nokkurt frost með norðannæðingi og kafaldsbyljum þess á milli, svo sumstaðar upp til dala fennti sauðfé og enda hesta. Kuldinn var mestur þann 12. [apríl], en þó var hann ekki nema -3°R [-3,8°C], en hitinn var mestur + 8°R [10°C].

Þann 18.apríl segir Sr. Jón Austmann í Ofanleiti: „Það annað mesta ofsaveður sem höfundurinn lifað hefur í 20 ár í Vestmannaeyjum“, (austanátt).

Reykjavíkurpósturinn - maí, (bls.127):

Árferð hefur í þessum mánuði verið hér syðra allgóð; að vísu gengu framan af mánuðinum norðannæðingar, og kopaði við það útigangspeningi, og kom kyrkingur í þann gróða sem kominn var; en þegar uppá leið, gekk veðrið til batnaðar með sunnanvindum og hlýnaði við það; rigndi þá og töluvert, eða allt að tveimur þuml. eftir því sem jústisráði og landlæknir Thorsteinsson segist frá, og hann hefur athugað á regnmælir þeim, er hann hefur undir höndum, svo nú er hér kominn gróður á jörðu vel í meðallagi.

[Júní, s.143] Vorið var nyrðra, að því leyti frést hefur, kalt; gjörði þar og, um og eftir sumarmál, mikið hret, og féll þá mikill snjór á öllum útsveitum, en öndverðlega í maí batnaði þar aftur æskilega, svo þar var, þegar seinast fréttist, kominn gróður eins og í besta ári og fiskur genginn víða inn á fjörðu og kominn góður afli. ... Slysfarir urðu þar og í vor venju fremur; hákarlaskúta frá Skagaströnd týndist algjörlega, og önnur í Skagafjarðarsýslu, og átti hana merkisbóndi þar og alþekktur dugnaðarmaður, Jón Bjarnason á Eyhildarholti, sem hafði keypt skútu þessa fyrir 2 árum af fiskiveiðafélagi nokkru á Borgundarhólmi, en það var þó þyngst af öllu, að með skútunni fórst sonur Jóns, 17 eða 18 vetra gamall, sem hafði farið utan og lært stýrimannafræði, og staðið próf í henni og farist vel. Halda menn hvorutveggi þessi skiptapi hafi orðið í hríðarbyl miklum, sem kom um sumarmálaleytið [apríl] fyrir norðan land. Nokkru síðar fórst fiskibátur á Tjörnesi í Norðursýslu með 5 mönnum og orð leikur á því, að vestra munu hafa farist um sama leyti tvær fiskiskútur, og er það að vísu mæðulegt, hvað fiskiskútum reiðir illa af hér við land, því af þeim týnast að tiltölu fleiri en af öðrum fiskiskipum, enda ætla þau sér meira, og eru oft úti í reginhafi, þegar óveðrið dettur á.

Brandsstaðaannáll: [Sumar]

Í júní besta grasviðri, svo víða var slægur úthagi á fráfærum. Sláttur byrjaði almennt 10. júlí. Var þá mesta gras komið á tún og harðlendi. Þann mánuð var rekjusamt, en þó nægur þerrir á milli, þeim sem notuðu hann, en því sættu ei allir. Þann 1. ágúst gjörði stöðugan þerri um 9 daga, eftir það rekjur og þurrkar að óskum. Jörð vöknaði ekki til óhægðar og hretalaust. Um göngur hirtu allir, sem vildu og varð heyskapur hinn mesti, er menn höfðu fengið, utan við eingöngu þyrrkingsmýrar. Mest varð árgæskan yfirgnæfandi á harðindaútkjálkum landsins og má vera, að þeir hafi búið lengur að henni en miðsveitarmenn.

Reykjavíkurpósturinn - júní (s143):

Í þessum mánuði var árferði hér syðra, þegar á allt er litið, í góðu lagi, því að vísu var fremur svalt og hretviðrasamt, en þó mátti kalla gott grasveður, og eru því tún sprottin víða vel, og sumstaðar betur en í meðalári.

Reykjavíkurpósturinn - júlí (s152): 

Í þessum mánuði var veðurátt hér innanlands votviðrasöm í meira lagi, svo varla þornaði af strái, og gekk því seint með að þurrka hey og fiskiafla, og er sagt að óvíða sé kominn baggi í garð nú í mánaðarlokin, en sláttur byrjaði snemma, því grasvöxtur bar hinn besti hvervetna á öllu harðlendi. Vestanlands gengu sömu óþurrkar, en nyrðra er sagt betur hafa blásið og að árferð hafi verið þar öllu hagfelldari, og grasvöxtur er og sagður þar í besta lagi.

Reykjavíkurpósturinn - ágúst (s169):

Öndverðlega í þessum mánuði breyttist veðurátta hér mjög til batnaðar; hætti þá rigningum og kom góður þerrir; hirtu þá allir töður sínar, sem sumstaðar voru komnar að skemmdum, og komu því veðrabrigði þessi mjög í góðar þarfir. Hvervetna þar sem vér höfum fregnir af, varð töðufall hér meira og betra en í mörg ár að undanförnu og eins nyrðra og vestra, svo sumstaðar komst taðan ekki fyrir á túnum meðan hún var þurrkuð, en víðast hvar lá öll taðan undir í einu. Af því grasvöxtur á útengi að sínu leyti einnig er sagður einsog í betra ári, þykir mega fullyrða, að útheysskapur einnig muni orðinn að óskum, og að heybirgðir muni allsstaðar verða og séu orðnar, einsog í besta ári.

Reykjavíkurpósturinn segir frá septembertíð í októberblaðinu (s.15):

Frost var alleina á næturnar milli þess 4. og 6. [september], og frá þeim 18. til 26., annars frostlaust daga og nætur, og hitinn um daga eftir meðaltali milli 6 og 7 gráður. Aldrei festi snjó á láglendi, þótt oftar snjóaði á fjöllin þegar hér rigndi. Rigning var við og við, þó ei mjög mikil nema þann 29. og 30. eða 2 seinustu dagana. 19 dagar máttu heita þurrir, en 11 votir. Vindáttin var lengst af frameftir mánuðinum ýmist norðlæg, norðaustlæg, eða á austan, og seinustu 3 dagana hvassviðri á landsunnan. 

Veðurathugunarmaður á Siglufirði segir alhvítt niður í byggð þann 10.september. 

Brandsstaðaannáll: [Haust]

Haustið allgott og var þá gamall gaddur tekinn svo úr fjöllum og jöklum, að enginn mundi það eins. 2. nóvember kom mikil fönn, er brátt tók upp. Aftur 9.-11. lagði fönn yfir framdali. 18.-20. hláka með miklu hvassviðri og eftir það gott vetrarfar, en byljasamt á jólaföstu, þíða á jólunum og ofsaveður nóttina 28.desember.

Reykjavíkurpóstur - október (s15):

Frost var ekki fyrri enn frá þeim 18. til 27. [október] á næturnar. Fyrstu 15 dagana var oftast á hverjum degi 8° hiti [10°C] um miðjan daginn, og stundum 9° og allt að 10°, eftir það kólnaði meira, fraus þó ei um miðja daga – þó svo að eins, frá þeim 18. til 27. +1°R. Þykkt loft og þoka var oft í þessum mánuði, oftar með sudda, en stórrigningum; mest rigndi þann 26. með austan stormi og þann 31. ... Vindáttin var fyrstu vikuna á landsunnan, aðra mest við austur, síðan 3 daga á útsunnan, 15., 16. og 17. Þann 19., 20. norðanátt og gott veður 23.-25., þ.26. austan stormur, og síðan sunnan og útsynnings umhleypingar, með skúrum, éljum og brimi miklu í sjónum. 16 dagar mega heita þurrir eða  rigningarlausir, 15 meira og minna votir.

Reykjavíkurpóstur - nóvember (s31):

Fyrstu 6 dagana var austanátt og landnyrðingur með þoku, rigningum og stundum hvassviðri, austan stormur og stórrigning þann 1.; norðan stormur þann 7. síðan útsynningur með kafaldséljum, þann 8. og  9.; þann 10. útnyrðings stormur og kafald, sömuleiðis þann 11. á útsunnan. Þann 12. landsynnings stormur með rigningu. Eftir það oftast útsynningur og óstöðugur vindur, ýmist með rigningum en snjó- og hagléljum, þangað til þann 22. og 23., báða þá daga var mikið kafald og stormviðri á austan, síðan hefur verið austan landnorðan átt næstum til mánaðarins enda; stormur nóttina milli þess 27. og 28., nema um miðjan dag þann 30. gjörði kafaldsbyl á vestan og varð um leið frostlaust, en frysti aftur með kvöldinu og spillti á jörðu. Annars hefur 9 seinustu dagana aldrei orðið svo svo frostlaust, að þiðnað hafi að mun, þó hefur ei töluvert frost verið nema 4 daga, 24.-27. ... Heiðskír dagur má varla nokkur hafa heitað til enda. 

Reykjavíkurpósturinn segir í janúarblaði 1848:

Í Norðurárdal í Mýrasýslu hlupu skriður miklar 18.—19. nóvember [1847]. Tók þá af hálft túnið á bæ þeim sem heitir í Sandalstungu, og stór skriður féllu á tvær aðrar jarðir, Hreðavatn og Sveinatungu.

Ingibjörg Jónsdóttir á Bessastöðum segir í bréfi sem dagsett er 8.nóvember: „Hér var grasár það mesta“. 

Þann 28.nóvember segir Sr.Jón í Ofanleiti: „Nóttina til þessa dags ofsastormur og fjúkbylur“. Þann 1.desember segir hann: „Nóttina til þessa dags ofsaveður - og rauð norðurljós á lofti sem gengu yfir loftið frá SV“.

Reykjavíkurpóstur - desember (s40):

Þenna mánuð hefur veðurátt hér sunnanlands verið mjög umhleypingasöm og óstöðug. Framan af jólaföstu voru snjóar og frost og komst því nær allur peningur á gjöf; hefir og hið sama frést vestan af Snæfellsnesi. Síðan hafa verið einlægir stormar að kalla má, að kalla má, af suðri og útsuðri, ýmist með ákafa rigningum eða éljagangi, er því ekki ólíklegt að útigangspeningur hafi talsvert megrast.

Veðráttufar í desembermánuði í Reykjavík: Fyrstu 14 dagana voru ýmist landnyrðingar, með frosti, eða austan stormar, og stundum gekk vindurinn snögglega í suður-útsuður með mikilli snjókomu, eða rigningum og freðum, svo allvíða gjörði haglaust, en uppfrá þeim 14. þiðnaði aftur og hefur síðan oftast gengið austan og sunnan með mikilli rigningu, og stundum útsynnings snjóéljum, og oftar með hvassviðri og þíðum, heldur en fyrri hluta mánaðarins, svo nú má hér kalla snjólaust á láglendi, því þó snjór hafi komið við og við, hefur hann bráðum þiðnað aftur, því rigningar hafa verið miklar. Yfir höfuð hefur loftþyngdarmælirinn verið með lægsta móti og veðurátt vindasöm og óstöðug, úrkoma í meira lagi, og frost varð einnig meira [-14°R, -17,5°C] þann eina dag [þ.8.], enn komið hefur hér í nokkur ár að undanförnu, en stóð ei nema 8 klukkustundir svo mikið — og sá sami dagur var sá eini dagur í mánuðinum, sem kalla mætti algjörlega heiðskír.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1847. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 913
  • Sl. sólarhring: 1117
  • Sl. viku: 3303
  • Frá upphafi: 2426335

Annað

  • Innlit í dag: 813
  • Innlit sl. viku: 2969
  • Gestir í dag: 795
  • IP-tölur í dag: 732

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband