20.9.2020 | 03:09
Af árinu 1846
Tíð á árinu 1846 var almennt talin hagstæð, rigningar voru þó töluverðar syðra um tíma um sumarið og spilltu heyjum. Sex mánuðir voru hlýir, júní hlýjastur að tiltölu, en einnig var hlýtt í febrúar, maí, ágúst, september og nóvember. Fremur kalt var í mars og október. Ársmeðalhiti í Reykjavík var 4,9 stig, 0,9 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan og 4,3 í Stykkishólmi, 1,2 stigum ofan meðallags næstu 10 ára á undan.
Mjög kaldir dagar voru aðeins þrír í Stykkishólmi, 16. og 18.mars og 11.desember. Í Reykjavík voru köldu dagarnir tveir, 16. og 17.mars. Óvenjuhlýir voru hins vegar 28. og 29.júní. Hiti fór í 20 stig 5 sinnum í júlí í Reykjavík.
Úrkoma mældist 897 mm í Reykjavík, einna þurrast að tiltölu var í mars og desember, en úrkomusamt var í maí, september, október og nóvember.
Meðalloftþrýstingur var með lægsta móti í júlí, en með því hæsta í desember. Hæsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 10.desember, 1052,6 hPa - sá þriðji hæsti sem vitað er um á landinu frá upphafi mælinga. Rétt að geta þess að dálítil óvissa er í mælingunni. Hæsti þrýstingur í Reykjavík þennan sama dag var 1049,9 hPa. Lægsti þrýstingur ársins var líka óvenjuhár, 967,1 hPa (mældist í Reykjavík 2.mars) og hefur aðeins þrisvar verið hærri síðustu 200 árin. Þrýstifar var rólegt bæði í janúar og desember - ábendi um kyrrviðri.
Um sumarið gekk mjög mannskæður mislingafaraldur, líklega versta drepsótt 19.aldar hér á landi. Í annál 19.aldar segir m.a. [nær orðrétt eftir Gesti vestfirðingi]: Snemma um sumarið fluttist með Dönum er komu í Hafnarfjörð dílasótt (mislingar) hingað til lands. Hugðu menn hana í fyrstu kvefsótt og gáfu lítinn gaum, en ... síðan breiddist hún um allt land. Var hún svo skæð að hún hlífði nálega engum manni. Lagðist fólkið svo gersamlega að margir voru þeir bæir að hvorki varð gengt heyvinnu né öðrum atvinnuvegum. Og sumstaðar kvað svo mikið að þessu að um tíma varð hvorki búsmali hirtur né sjúklingum hjúkrað. Sýki þessi hafði í för með sér margskonar meinsemdir, ... margir urðu blindir um tíma, hlustarverk, hálsbólgu, höfuðverk, brjóstþyngsli, stemmda gyllinæð og fleira. ... er ár þetta talið með hinum frekustu manndauðaárum á öldinni.
Þess má geta að árið 1846 náði kartöflumyglufaraldur hámarki á Írlandi og olli uppskerubresturinn (og ill viðbrögð stjórnvalda) skelfilegri hungursneyð.
Allmikið var um slysfarir - einkum drukknanir. Flest er rakið lauslega í Annál 19.aldar. Eitthvað af slysunum tengdist veðri, en dagsetningar vantar og því tilgangslítið að birta þá talningu hér.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju.
Gestur Vestfirðingur, 1. árgangur 1847 lýsir tíðarfari ársins 1846:
Vetrarfar hið besta, mjúkviðri, snjóleysur og frostalítið veturinn út. Þegar voraði, varð veðrátta ókyrr, vindasöm og næstum sífelld votviðri fram í septembermánuð, þá kom blíður og góðviðrasamur kafli til þess í [október]. Eftir það komu aftur vindar og votviðri, oftast frostalítið; lagði þó snjó til fjalla í [október], sem leysti upp aftur í [nóvember], og til þessa tíma hefir aldrei fest snjó í byggð, svo að sauðfénaður, og það lömb, hafa gengið, það af er vetrarins, sjálfala úti í mörgum sveitum. Grasár var gott, og þó að sótt sú, [mislingar] hnekkti mjög heyvinnu, urðu heyin samt að vöxtunum til ekki þeim mun venju minni, eins og þau á hinn bóginn hröktust frábærlega og skemmdust bæði hirt og óhirt af sífelldum rigningum, urðu menn því að lóga venju framar fénaði sínum, einkum lömbum. Nýting á öllum eldivið og sjáfarafla varð og hin lakasta, en hlutahæð varð mikil, 7 hundruð til fjögra undir Jökli; hálft fjórða og þaðan af minni í Dritvík. Í vesturverstöðunum aflaðist miður en undanfarin ár. [Í janúar] fórst hákarlaskip í Bolungarvík við Ísafjörð, týndust þar 8 menn. Þá hvarf fiskiskúta ein frá Búðum, voru á henni 6 menn; aðra vantar frá Flatey með 5 útlenskum og 2 Breiðfirskum mönnum; drukknuðu og 2 menn af bát í Nessveit í Strandasýslu.
Reykjavíkurpósturinn (bls.2) segir í október [1846] frá tíðarfari ársins til þess tíma:
Veturinn sem næst leið [1845-1846], var frá nýári sunnanlands einhver hinn blíðasti þeirra er lengi hafa komið, og var því útigangspeningur um sumarmál í góðum holdum enda í þeim sveitum, hvar menjar höfðu orðið á Heklu-gosinu í fyrrahaust; en þegar voraði, fölnaði veður og ókyrrðist, og þar eftir brá til rigninga, og stóð það allt fram að sólstöðum; þá gjörði þurrviðri um nokkurn tíma og allgott sumarveður, en með miðjum túnaslætti brá veðri að nýju, og urðu þá miklar rigningar en hlýindi lítil; hröktust töður hjá öllum almenningi að nokkru leyti, en úthey hvervetna, því fæstir náðu nokkru útheyi í garð fyrr en eftir höfuðdag hér syðra, og má geta nærri að það hafi ekki verið skemmdalaust. Haustið sjálft varð syðra blítt og hagstætt, og bætti það aftur úr mörgum sumarsins vandkvæðum. Nyrðra og eystra gekk vetur í fyrra [haustið 1845] snemma í garð, og varð mjög þungur í skauti í flestum sveitum. Varð snjókoma þar víða meiri enn í mörg ár að undanförnu, svo ekki varð nema með naumindum komist bæja á milli; stóð svo fram á útmánuði að ekki batnaði, og var almenningur víða komin á nástrá með pening sinn, og lá við menn færu að lóga honum sökum heyleysis. En á útmánuðum hlánaði vel, og kom jörð og hagstæð veðurbót þegar mest lá við, og varð þannig hvorki nyrðra né eystra peningsfellir til muna, svo ólíklega sem áhorfðist. Frá árferði og öðru sem á þessu tímabili gjörst hefur á Vesturlandi ætlum vér Gesti Vestfirðingi að segja, þann ætlaði heiman að fyrir löngu, og er því ekkert líklegra enn þeir hittist einhvorustaðar [svo] á leiðinni, hann og Reykjavíkurpósturinn.
Grasvöxtur var næstliðið sumar [1846] hvervetna góður, og sumstaðar venju betri, mundu því heyföng manna, einkum nyrðra, hvar rigningar voru minni og öll árferð betri, hafa orðið mjög að óskum, ef ekki hafi annað að borið, en það var mislingasótt sú, sem kom út í vor í Hafnarfirði, og síðan fór um allt land, en stóð sem hæst nyrðra, meðan á slættinum stóð, og gjörði bæði þar og annarsstaðar mikinn verka-tálma, auk þess að hún varð mörgum manni að bana, þar sem almenningur ekki hér gat komið við þeirri varkárni í öllum aðbúnaði, sem í þeirri sótt þarf við að hafa, ef hún á ekki að verða hættuleg, eins og raun bar vitni um í þetta skipti.
Brandsstaðaannáll: [Vetur]
Frostalítið þar til 9.-12. [janúar] hríðarkafli, 13.-17. þíða, en vann ei á gaddinn. Kom aðeins lítil snöp sumstaðar um tíma, þá fönn á þorranum og jarðleysi. 10. febrúar byrjaði 12 daga hláka, stöðug nótt og dag, er um síðir vann á gaddinn til lágsveita og framdala, en lítið ytra til fjallbyggða. Var þetta óvæntanlegur bati um hávetur, þar með skemmdalaust með hægviðri. Góa var allgóð, utan langsöm hríð ytra síðustu viku hennar, en harðviðri hér.
Á Valþjófsstað rigndi þann 26.janúar í norðaustanstormi og 4 stiga hita. Ingibjörg Jónsdóttir á Bessastöðum segir í bréfi sem dagsett er 10.mars: Hér má heita sól og sumar.
Þann 24.mars segir athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði að hafís sé svo langt sem sést. Um mánuðinn segir hann: Í miðjum þessum mánuði hafa mestar frosthörkur verið sem í vetur hafa komið og með einmánaðarkomu rak hér inn hafís.
Annáll 19.aldar (nokkuð stytt hér): [Vetur]
Eftir nýár héldust snjóþyngsli er komin voru yfir allt Norðurland, og var skorpa sú talin 13 vikur. En með miðjum þorra kom ágæt hláka er varaði í 12 daga. Með einmánuði kom þar þá aftur fannfergi, er hélst fram á sumar. ... Íshroði kom síðast í mars að Norðurlandi, en fór brátt aftur.
Brandsstaðaannáll:[Vor]
Á einmánuði til páska, 12. apríl, frostamikið og jarðlítið. Fór þá að bera á heyleysi sumstaðar, einkum í Vindhælishrepp. Gengu þá rekstrar fram í sveitirnar, helst Ásana. Eftir páska góður og hagkvæmur bati. Um sumarmál heiðarleysing. Gengu þá sumstaðar kýr úti. Gróður kom í apríllok. Í maí vorblíða æskileg.
Brandsstaðaannáll: [Sumar]
Í júní þurrkasamt, oft sunnanátt og hitar. Í júlí norðanátt til 12.-17., að rigning og hretviðri vökvaði jörðina. Fór þá grasvexti vel fram. Í miðjum júlí byrjaðist sláttur, þar sem því varð sætt fyrir mislingasýkinni. Var besta heyskapartíð, rekjur góðar og þerrar á milli, þó í júlílok skemmdist víða töður fyrir fólkleysi. Allir fengu fatla, minnst viku verkamissi og allt að mánaðar. Kaupafólk veiktist syðra og kom mjög fátt, varð því ófáanlegt að bæta þörf manna, utan það áður var ráðið. Í september heyjaðist mikið og nýttist vel, en snemma visnaði gras.
Á Valþjófsstað mældist 29°C frá kl.12 til 15 þann 2.ágúst. Þar heyrðust dynkir þann 4.ágúst. Athugunarmaður á Odda á Rangárvöllum mældi 20 stiga hita þann 29.júní, 6., 20., 21.(22 stig) og 27.júlí og einnig 7.ágúst. Þann 21. og 27. september mældi hann 18.siga hita. Hann segir frá sandryki og ofsaveðri þann 24.júlí og þann 28.ágúst mesta ofsaveður og rigning um nóttina svo víða flaut (hey) burt af engjum.
Þann 1.september segir athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði: Ofsaveður þá á leið, snjór í nótt svo alhvítt varð ofan í byggð, og 7.október segir hann: Enn meira brim svo menn muna ei hér eftir þvílíku.
Brandsstaðaannáll: [Haust]
Haustið varð gott, utan mikil hríð ytra 7.-8. október, þá mest var um kaupstaðarferðir, mörgum til meins, eftir það mikið gott. 4.-7 nóvember norðanþíða, góðs viti. [Þann] 8.-15. mikil hláka og flóð mikið í ám, því snjór var kominn til framheiða. 10. des. kom fyrst hríð, svo farið var að gefa lömbum. Á jólanótt kom fönn allmikil, er tók upp á þriðja.
Annáll 19. aldar (stytt): [Haust]
Haustið var hið ágætasta og oftast þíð jörð norðanlands, svo rista mátti torf til 20.nóvember. Héldust úr því hæg frost og kyrrviðri til ársloka.
Reykjavíkurpósturinn segir af tíð síðustu mánuði ársins í janúarhefti 1847 [s.59]:
Árferð hefur, það sem af er af vetri þessum, verið hér syðra og nyrðra, að því er frést hefur, einhver hinn blíðasta, svo varla hefur fest snjó á jörðu, en oftast verið blíðviðri með sunnanvindi; 26. og 27. nóvember varð kuldinn aðeins -8°R [-10°C] og eins þann 11 og 12 desember.
Veðurskýrsla frá Odda á Rangárvöllum lýsir nokkuð gangi Heklugossins og jarðskjálftum sem því fylgdu og fundust þar. Þann 14.ágúst segir að eldur hafi sést í Heklu um kvöldið, sömuleiðis þann 15., en ekki eftir það.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1846. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 03:17 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 912
- Sl. sólarhring: 1116
- Sl. viku: 3302
- Frá upphafi: 2426334
Annað
- Innlit í dag: 812
- Innlit sl. viku: 2968
- Gestir í dag: 794
- IP-tölur í dag: 731
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.