Af hitafari á þremur fjallvegum

Hér verður hitafar þriggja fjallvega borið lauslega saman. Aðaláhersla er á árstíðasveiflu. Fjallvegirnir þrír eru: Holtavörðuheiði (veðurstöð í 370 metra hæð yfir sjávarmáli=, Steingrímsfjarðarheiði (440 m) og Vatnsskarð í Húnavatnssýslu (420 m). Landslag á Vatnsskarði er mjög ólíkt því sem er á hinum heiðunum. Hæðarmunurinn er ekki mikill, en skapar þó einn og sér lítilsháttar mun í meðalhita, mestan á milli Holtavörðuheiðar og Steingrímsfjarðarheiðar þar sem hann er um 70 metrar - eða um 0,5°C. 

w-blogg300820a

Myndin hér að ofan sýnir meðalhita hvers mánaðar á heiðunum þremur - þeir sem hafa áhuga geta flett tölunum upp í viðhenginu. Gulu súlurnar sýna hita á Steingrímsfjarðarheiði. Þær eru í öllum tilvikum lægri en hinar. Við sjáum líka að meðalhiti er þar undir frostmarki fram í maí og kominn aftur niður í frostmark í október. Í fljótu bragði virðist sem meðalhiti sé neðan frostmarks um hálfum mánuði lengur vor og haust heldur en á hinum heiðunum tveimur -  „sumarið“ mánuði styttra. 

Við skulum nú líta nánar á þennan hitamun stöðvanna.

w-blogg300820b 

Hér er byrjað á því að reikna meðalhita hvers almanaksdags árið um kring þessi 23 ár. Síðan er munur stöðvanna reiknaður. Blái ferillinn sýnir mun á hita á Holtavörðuheiði og Steingrímsfjarðarheiði - jákvæðar tölur sýna daga þar sem hlýrra er á fyrrnefndu heiðinni. Það er nærri því alla daga ársins - fáeinir dagar í júlílok þar sem munurinn er enginn eða Steingrímsfjarðarheiði lítillega í vil. Hvort slíkt heldur til lengri tíma litið er aldeilis óvíst. Aftur á móti getum við verið harla viss um að megindrættir ferilsins eru raunverulegir. Munurinn er áreiðanlega minnstur í júlí og framan af ágúst - vex síðan upp í um 0,7 stig og - sem skýrist líklega að mestu af 70 metra hæðarmun stöðvanna. Helst munurinn svipaður allt haustið og vel fram yfir áramót. Seint í febrúar eða framan af mars fer munurinn að aukast - vex síðan nokkur hratt og nær hámarki síðari hluta maímánaðar. Hann er síðan miklu minni í lok júní heldur en í upphafi mánaðaris. - Bíðum smástund með skýringar.

Rauði ferillinn sýnir mun á hita á Holtavörðuheiði og Vatnsskarði. Það er kaldara allt árið á fyrrnefndu heiðinni - fáeinir dagar að vísu þegar þar er hlýrra, en í aðaldráttum er munurinn 0,4 stig haust og vetur fram í mars, en vex síðan og er mestur í júní. Þá er áberandi kaldara á Holtavörðuheiði - munar hátt í 1 stigi - þrátt fyrir að stöðin á Vatnsskarði sé 60 metrum hærra yfir sjávarmáli heldur en stöðin á Holtavörðuheiði. 

w-blogg300820c

Síðasta mynd sem við lítum á að þessu sinni sýnir árstíðagang dægursveiflu hitamunar stöðvanna á Holtavörðuheiði og Steingrímsfjarðarheiði. Hver mánuður er sjálfstæður - strikalínur sýna mörk milli mánaða. Hitamunur kl.1 að nóttu er lengst til vinstri í hverjum mánuði, en hiti kl.24 lengst til hægri. Í janúar er hitamunur að meðaltali 0,7 stig, bæði dag og nótt. Í maí er ann minnstur seint að nóttu, um 1,0 stig, en vex upp í meir en 2,5 stig síðdegis. Sá munur sem við sáum að var á hita stöðvanna tveggja í maí er því ekki síst orðinn til við það hve miklu kaldara er á Steingrímsfjarðarheiði að deginum heldur en á Holtavörðuheiði á þessum tíma árs. Munurinn að næturlagi er að vísu meiri heldur en á öðrum árstímum, en ekki svo mjög miklu meiri. 

Við getum auðvitað ekki (án nánari athugunar) verið viss um hvað veldur þessari hegðan. Svo virðist sem á tímanum nóvember og fram í febrúar sé munurinn á hita stöðvanna (bæði dag og nótt) að mestu skýranlegur af hæðarmun þeirra. Hinn mikli munur seint á vetri og fram í júní er nær örugglega tengdur mismunandi snjóalögum við stöðvarnar. Þar koma nokkrir þættir við sögu. Í fyrsta lagi er ekki útilokað að snjó leggi meira að Steingrímsfjarðarheiðarstöðinni þannig að hitamælirinn sé undir vor ekki í réttri hæð yfir yfirborði (of neðarlega - vegna þess að snjórinn er „of ofarlega“). Í öðru lagi - og það er áhrifameiri skýring - er ábyggilega miklu meiri snjór í bæði nær- og fjærumhverfi Steingrímsfjarðarheiðarstöðvarinnar heldur en á Holtavörðuheiði - þessi snjór þarf að bráðna og í það fer orka - sem annars færi í að hita autt yfirborð - sem síðan hitar loftið. Yfirborðshiti liggur því stöðugt í núlli, jafnvel í miklu sólskini. Í þriðja lagi er hugsanlegt - það vitum við ekki - að meira sé um þoku við stöðina á Steingrímsfjarðarheiði heldur en á Holtavörðuheiði á þessum árstíma. Einhvern veginn finnst ritstjóra hungurdiska þessi síðasta skýring ekki sérlega líkleg - eða vægi hennar í heildinni sé ekki mikið.

Þá sitja júlí og að nokkru leyti ágúst eftir. Við sjáum (já, þeir sjá sem rýna í línuritið) að í báðum þessum mánuðum dregur Steingrímsfjarðarheiði mjög á Holtavörðuheiði undir kvöld -svo mjög meira að segja að (ómarktækt) hlýrra er á Steingrímsfjarðarheiðinni. Spurning hvað þessu veldur. Vel má vera að þetta hafi með hafgolu að gera - eða hvað við eigum að kalla Hrútafjarðarstrenginn. Steingrímsfjarðarheiðin er miklu betur varin fyrir slíku - sjávar- og lyftingaráhrif gætu verið minni heldur en á Holtavörðuheiðinni. 

Ferlarnir í september og október minna á vorferlana, en eru þó miklu veigaminni. Kannski sjáum við hér áhrif þess að snemma fer að snjóa á Steingrímsfjarðarheiði - að meðaltali þrálátar heldur en á Holtavörðuheiðinni. 

Veðurfarslega er margt dularfullt á fjöllum á Vestfjörðum. Drangajökull er alveg sér á parti meðal jökla landsins. Enginn teljandi jökull er við Tröllakirkju á Holtavörðuheiði - þó hærri sé en hábungur Drangajökuls. Enginn jökull er heldur á Glámu (og hefur að sögn fróðra ekki verið - þó haldið sé fram). En mælingarnar á Steingrímsfjarðarheiði sýna okkur þó að sumarið er um mánuði styttra þar heldur en í samsvarandi hæð í nágrenninu.

Mun betur mætti rýna í þessar mælingar - t.d. með því að tengja þær við vindáttir. Þá gætum við betur séð hvort það er eitthvað sérstakt veðurlag sem mest hefur að segja um þennan mun - eða hvort hann er svipaður flesta daga. 

Látum þetta duga að þessu sinni.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 31
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2478
  • Frá upphafi: 2434588

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 2202
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband