Nýleg háloftamet

Ritstjóri hungurdiska fylgist með háloftaathugunum yfir Keflavíkurflugvelli og gefur nýjum metum þar gaum. Háloftathuganir eru að vísu býsna gisnar, lengst af gerðar aðeins tvisvar á dag (um tíma þó fjórum sinnum). Sömuleiðis er stöðin einmana. Líkur á að ýmiskonar Íslandsmet fjúki hjá - án þess að nást á mæla - eru því allmiklar. Svo bilar stöðin stundum og athuganir falla niður um stund. Tímaraðir neðri flata, upp í 100 hPa eru þó allsæmilegar aftur til 1952 og efri flatanna aftur til 1973. Mælingar í efri flötum frá 1952 til 1972 eru þó til - en ekki á tölvutæku formi. Seinlegt er að leita meta í slíkum gögnum. Neðsti staðalflöturinn, 925 hPa komst ekki í flokk þeirra útvöldu fyrr en seint og um síðir og eigum við ekki til gögn úr honum nema aftur til 1993. 

Slæðingur af mánaðametum féllu í vetur - fleiri en í fyrra. Við höfum áður skýrt hér frá októberkuldametinu í 500 hPa fletinum, þann 24. mældist frostið í honum -43,2 stig. Nú í apríl féllu mánaðarlágmarkshitamet í allmörgum flötum - frá 400 hPa og upp í 50 hPa, ekki öll þó sama daginn. Flest tengdust þau illviðrinu mikla sem hér gerði helgina þann 4. og 5.apríl - því sem olli fannferginu í Hveragerði og víðar. 

Í 100 hPa-fletinum (rúmlega 15 km hæð) voru þá sett bæði mánaðarlágmarkshita- og lágstöðumet (flöturinn hefur aldrei mælst lægri í apríl). Lágmarkshitametið var sett þann 4. kl.18, -73,0 stig, en lágstöðumetið sama morgun kl.11, 15150 metrar. 

Við lítum á kort evrópureiknimiðstöðvarinnar kl.18 - bæði fyrir 100 hPa og sjávarmál.

w-blogg290420a

Lægsti hitinn í kerfinu er reyndar austan við land, -76 stig. Mikið og vaxandi lægðakerfi fyrir sunnan land olli þessum mikla kulda. Hlýtt loft úr suðri lyfti veðrahvörfunum - og öllu þar ofan við. Þegar loft lyftist kólnar það rækilega - við getum því - óbeint - séð atganginn neðar með því að fylgjast með hitabreytingum þarna uppi. Veðrahvörfin voru mjög neðarlega við Ísland - en lágmarksmetin féllu eins og áður sagði í 400 hPa og ofar - ofan veðrahvarfa.

w-blogg290420b

Sunnanáttin mikla í veðrahvolfinu sést mjög vel á sjávarmálskortinu - og þrengir að kuldanum norður undan. Enda fengum við aldeilis að finna fyrir átökunum. 

Aðeins nokkrum dögum áður höfðu hins vegar mánaðarhástöðumet hrunið umvörpum (fletir stóðu sérlega hátt) - allt frá jörð (þar sem sjávarmálsþrýstingur var í hæstu hæðum) og upp í 200 hPa - um það bil veðrahvarfahæð þann daginn).

w-blogg290420c

Kortið sýnir nýja marsmetið í 300 hPa, hæðin á fletinum yfir Keflavík mældist 9350 metrar kl.11 þann 29.mars. Gríðarmiklar sviptingar í veðri. 

Í mars var líka sett mánaðarhámarkshitamet í 20 hPa-fletinum, -22 stig þann 22. Mikil viðbrigði frá nýja lágmarkshitametinu í þeim fleti sem sett var í janúar, -92 stig, 70 stiga munur. Frá lágmarkshitametinu var sagt í pistli hungurdiska 3.janúar í vetur.

Svo er lengi von á einum - eins og sagt er. Því fyrir nokkrum dögum var sett nýtt met í hæð 70 hPa-flatarins yfir Keflavík, hæð hans fór í 18660 metra þann 22.apríl, og líka þann 23. Við erum ekki með kort á hraðbergi fyrir þann flöt.

Allt eru þetta út af fyrir sig merkir atburðir - þó fáir kunni að meta þá - nema allraallraæstustu veðurnörd (og þau meira að segja varla). Þeir sem vilja smjatta geta litið á viðhengið.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 25
  • Sl. sólarhring: 306
  • Sl. viku: 1598
  • Frá upphafi: 2466158

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 1464
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband