Eru bjartir dagar hlýrri en þeir alskýjuðu?

Svar við spurningunni er auðvitað ekki algilt. Það fer bæði eftir stað, árstíma og fleiri þáttum. En hið almenna svar - það sem tengist meðaltölum - er samt það að í Reykjavík er sólarhringsmeðalhiti hærri þegar alskýjað er heldur en léttskýjað - nema á tímabilinu frá því svona viku af júní og rétt fram í ágústbyrjun. Um maí má segja að meðalhiti sé hærri upp síðdegis á sólardögum heldur en þegar alskýjað er, en mestallan sólarhringinn eru alskýjuðu dagarnir hlýrri. 

Við skulum byrja á því að sjá hvernig þessu er háttað í aprílmánuði - á árunum 1997 til 2019 í Reykjavík.

w-blogg100420a

Blái ferillinn sýnir meðalhita hverrar klukkustundar þá daga sem alskýjað var á þessum árum (meðalskýjahula sólarhringsins meiri en 7,5 áttunduhlutar). Munur á hita dags og nætur er ekki mjög mikill - rétt rúm 2 stig. Rauði ferillinn sýnir meðalhita hverrar klukkustundar þegar léttskýjað er (meðalskýjahula sólarhringsins minni en 3 áttunduhlutar). Eins og sjá má er þónokkuð kaldara í bjartviðrinu, meira að segja um miðjan daginn. Dægursveiflan er mun meiri - hátt í 5 stig. 

Ástæða þessa ástands er fyrst og fremst sú að bjartviðrið er mest í norðlægum áttum - þær eru í eðli sínu kaldar. Þó sólin sé dugleg að hita að deginum nær hitinn samt ekki því sem gerist þegar alskýjað er - þá er áttin oftast suðlæg. 

Þegar kemur fram í maí minnkar munurinn á rauðu og bláu ferlunum, rauði ferillinn fer rétt upp fyrir þann bláa frá því kl.15 til kl.19 (0,4 stig þegar mest er), en sólarhringsmeðaltal björtu dagana er samt lægra. 

Á Akureyri víkur þessu öðru vísi við.

w-blogg100420b

Hér eru björtu dagarnir hlýrri en þeir skýjuðu - ívið kaldara yfir blánóttina, en en eftir kl.8 er hiti þeirra björtu kominn með vinninginn. Þegar bjartviðri er á Akureyri er ríkjandi vindur af landi - eða hægur (þar til hafgolan dettur inn). Hér eru tölurnar frá árunum 2006 til 2019 - mældar við Krossanesbrautina.

Við lítum líka á júlímánuð.

w-blogg100420c

Jú, nú eru björtu dagarnir í Reykjavík hlýrri en þeir alskýjuðu - mestallan sólarhringinn. Það eru aðeins fáeinar klukkustundir síðla nætur sem eru kaldari bjartar en skýjaðar. Örvarnar benda á tvær „axlir“ á rauða ferlinum. Á morgnanna stefnir hitinn hratt upp - en síðan er eins og hik komi á hækkunina - skyldi þetta vera hafgolan? Eins er síðdegis - hitinn tregðast við að falla fram undir kl.20. Þegar mesti broddurinn er úr hafgolunni er eins og hitinn hiki við að falla - er það síðdegislandloftið að austan sem kemur yfir borgina? Það er furðuoft sem hámarkshiti dagsins í Reykjavík er ekki náð fyrr en um og uppúr kl.18 (valdandi hitauppgjörsvanda sem hefur oft verið rakinn á hungurdiskum). 

w-blogg100420d

Á Akureyri er staðan svipuð - smástund yfir blánóttina í júlí þegar kaldara er á björtum dögum en skýjuðum. En - það kemur mikið hik á hlýnun frá og með kl.12 - hiti helst svipaður allt fram til kl.19. Trúlega er þetta hafgolan - bjartir dagar þegar hennar gætir ekki eru hlýrri. (En um það fjöllum við ekki hér og nú). 

Að lokum athugum við mun á sólarhringsmeðalhita alskýjaðra og léttskýjaðra daga í Reykjavík og á Akureyri í öllum mánuðum ársins.

w-blogg100420e

Bláu súlurnar sýna tölur frá Reykjavík. Mjög mikill munur er á hita bjartra og alskýjaðra daga að vetrarlagi - í janúar munar hátt í 8 stigum. Hiti bjartra daga hefur betur í júní og júlí - staðan er í járnum í ágúst, en afgang ársins eru björtu dagarnir kaldari en þeir alskýjuðu.

Brúnu súlurnar sýna akureyrartölurnar. Bjartir dagar eru hlýrri en þeir alskýjuðu á Akureyri frá því í apríl og þar til í september. Á vetrum munar ekki jafnmiklu á hita og í Reykjavík. 

Gera má ráð fyrir því að niðurstöður séu svipaðar Reykjavík um meginhluta Suður- og Vesturlands, en Akureyrarniðurstöður eigi við Norður- og Austurland. Auðvitað er hugsanlegt að einhverjar veðurstöðvar skeri sig eitthvað úr. Nú er því miður orðið lítið um skýjahuluupplýsingar þannig að ekki er hægt að fara í þennan reiknileik fyrir nema sárafáar stöðvar - því miður. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.11.): 181
  • Sl. sólarhring: 281
  • Sl. viku: 2695
  • Frá upphafi: 2411615

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 2326
  • Gestir í dag: 165
  • IP-tölur í dag: 165

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband