Einhvers staðar í illviðrasyrpu

Fyrri hluti þessa mánaðar hefur verið illviðrasamur, en þó þarf að fara í nokkur smáatriði til að finna eitthvað sér í lagi afbrigðilegt. En svo er alls ekki víst að syrpunni sé lokið. Ekki lítur sérlega gæfulega út með næstu stóru lægð - eða lægðir - en ekki rétt að þusa mikið um það á þessu stigi. Erfitt er að fara í uppgjör í miðjum leik, en við skulum samt reyna að leita eitthvað uppi - og finnum.

Hér að neðan er nokkuð flókin mynd. Aðalatriði myndarinnar er línurit (grátt) sem sýnir þrýstispönn á landinu á klukkustundar fresti frá því 1.desember 2019 til 15.janúar 2020. Þrýstispönn er munur á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu á hverri klukkustund. Gott samband er á milli hennar og vindhraða. Þeir smámunasömu geta fundið að því að hrein vestan- eða austanveður skila sér verr heldur en þau hreinu norðlægu eða suðlægu. Ástæðan er sú að landið er ekki hringlaga - styttra er á milli útgildanna í fyrrnefndu áttunum heldur en þeim síðarnefndu. 

w-blogg-150120a

Um myndina þvera er rauð lína, hún markar 20 hPa spönn. Sé spönnin svo mikil má gera ráð fyrir því að illviðri sé að minnsta kosti einhvers staðar á landinu. Illviðri geta líka orðið þó spönnin sé mun minni - t.d. skilar suðurnesjabylur síðasta sunnudags (12.janúar) sér ekki á línurit sem þetta - lægðin var svo lítil um sig. Við sjáum að „aðventuillviðrið“ sem kallað hefur verið er það mesta á tímabilinu, spönnin fór þá upp í 36,3 hPa þegar mest var - það er nokkuð óvenjulegt. Hún var 30 hPa eða meiri í 16 klukkustundir, og 20 hPa eða meiri í 33 klukkustundir. 

Í janúar hefur 20 hPa-mörkunum verið náð hvað eftir annað, en oftast ekki lengi í hvert sinn, nema í veðrinu undanfarna daga þegar þrýstimunurinn var meiri en 20 hPa í 33 stundir líka (en ekki alveg samfellt). Hann fór mest í 25,2 hPa - mun minna en í aðventuillviðrinu. Hér skulum við þó gæta þess að aðventuillviðrið var af norðri, en síðasta illviðrið nú ívið austlægara.

Meðaltal fyrstu 15 daga janúar er nokkuð hátt í langtímasamanburði, um 14,7 hPa, svipað og  sömu daga 2014 og 2011. 

Rauðleiti ferillinn sýnir hins vegar lægsta þrýsting hverrar klukkustundar (hægri kvarði). Þar vekur athygli hvað þrýstingur hefur nær samfellt verið mjög lágur í um 10 daga. Lægsti þrýstingur landsins færist auðvitað til frá stöð til stöðvar, en meðaltal hans er þó lægra en það hefur verið á þeim tíma sem við eigum þessi landslágmörk á lager (frá 1949). 

Meðalþrýstingur í Reykjavík hefur líka verið óvenjulágur, 976,0 hPa fyrstu 15 daga mánaðarins og hefur aðeins þrisvar verið lægri sömu daga frá upphafi samfelldra mælinga, 1821. Það var 1933, þegar meðaltalið var 970,0 hPa, 1974 þegar það var 974,4 hPa og 1869 þegar það var 974,9 hPa. Nákvæmni síðustu tölunnar er þó ekki meiri en svo að munurinn á stöðunni þá og nú er alls ekki marktækur. 

Gróflega getum við haldið því fram að þessi lági þrýstingur tengist óvenjulegri framsókn kuldapollsins Stóra-Bola og minnst hefur verið á áður á þessum vettvangi. Slíkri framsókn fylgja einætt einhver meiriháttar vandræði í veðri (misjafnt að vísu hver þau eru). 

Þetta er því nokkuð óvenjulegt - svo er auðvitað allsendis óvíst hvaða úthald mánuðurinn í heild hefur á þrýstisviðinu. 

Ekki hefur fallið mikið af vindhraðametum á stöðvum sem athugað hafa lengi. En það er samt þess virði að líta á listann (hann er í heild í viðhengi - þó er sleppt alveg nýjum stöðvum).

Eitt vindhraðaársmet hefur verið slegið (10-mínútna meðalvindhraði), á Gillastaðamelum (skammt frá Króksfjarðarnesi). Þar hefur ekki verið athugað nema frá 2009 - metið var sett í fyrradag (13.). Svo var reyndar slegið ársmet á stöð sem er á snjóflóðavarnargarðinum í Bolungarvík - en þar hefur ekki verið athugað nema í um 4 ár. 

Slatti er af janúarmetum. Ef við lítum aðeins á síðustu daga eru þessi merkust: Á Hafnarmelum (við brúna yfir Hafnará), þar hefur verið athugað frá 1998, eins var slegið met við Búrfell (1993), í Árnesi (2003), Æðey (2012), Önundarhorni undir Eyjafjöllum (2010), Vatnsskarðshólum (sjálfvirka stöðin) (2003), við Bræðratunguveg (2012), í Hvammi undir Eyjafjöllum (2001), á Vatnaleið (2002), á Lyngdalsheiði (2010), Hallahálsi (2012), Svínadal í Dölum (2002), Gauksmýri (2006), Mosfellsheiði (2012), Fíflholti á Mýrum (2006) og á Reykhólum (2004) - og við skulum líka (vegna snjóflóðanna vestra) nefna Hnífsdal - þó ekki hafi verið athugað þar nema í 2 ár. 

Merkustu janúarvindhviðumet síðustu daga voru sett á Hafnarmelum, Bláfeldi, Öræfum, Kjalarnesi og við Hafursfell (sjá viðhengi). 

Af þessu má sjá að sums staðar hefur verið methvasst - og svo hefur líka verið hvasst á fjölmörgum stöðvum þó ekki sé um met að ræða. Eins og fram hefur komið hafa líka óvenjumargir dagar mánaðarins náð inn á illviðralista ritstjóra hungurdiska - og sólarhringsmeðalvindhraði þriðjudags 14. janúar í byggðum landsins var meiri en í aðventuillviðrinu. Klukkustundarmeðaltal var það hæsta síðan 7. og 8.desember 2015. 

Hálfur janúar 2020. Meðalhiti í Reykjavík er -0,2 stig, -0,9 neðan meðallags sömu daga 1991 til 2020, en -1,2 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 14.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir 15 árið 2002, meðalhiti 4,2 stig, en kaldastir voru þeir 2005, meðalhiti -2,1 stig. Á langa listanum er hitinn í 74. sæti (af 145). Fyrri hluti janúar var hlýjastur árið 1972, meðalhiti 5,9 stig, en kaldastur var hann 1918, meðalhiti -9,5 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 15 daga mánaðarins -0,6 stig, í meðallagi áranna 1991 til 2020, en -0,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Austfjörðum, hiti er þar í 9.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast hefur verið við Breiðafjörð og á Vestfjörðum, þar er hitinn í 17.hlýjasta sæti.
Á einstökum veðurstöðvum er jákvætt vik miðað við síðustu tíu ár mest á Höfn í Hornafirði, á Eyrarbakka og í Þykkvabæ, +0,4 stig, en kaldast að tiltölu hefur verið á Gemlufallsheiði, neikvæða vikið þar er -2,4 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 75,7 mm, það er vel yfir meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 46,7 mm og er það einnig vel yfir meðallagi. Sólskinsstundir hafa aðeins mælst 2,4 í Reykjavík það sem af er mánuði en hafa oft verið færri - og stundum hafa engar mælst fyrstu 15 daga janúarmánaðar, síðast 1993.

Viðbót 18.janúar:

Ítarlegri upplýsingar berast nú smám saman um veðurfar framan af mánuðinum. Úrkomutölurnar vekja nokkra athygli. Að morgni þess 16. mældist snjódýpt í Birkihlíð í Súgandafirði 164 cm. Það er meira en þar hefur mælst áður í janúar (og febrúar). Janúarúrkoman er meiri en vitað er um sömu daga áður við Mjólkárvirkjun í Arnarfiðri (athugað frá 1959), í Birkihlíð (1997), í Hnífsdal (1995), á Hrauni á Skaga (1958) og Skeiðsfossvirkjun (1970). Úrkoma er einnig óvenjumikil á sjálfvirku stöðvunum vestra, Flateyri, Bolungarvík og Ísafirði - í Bolungarvík meiri en mældist nokkru sinni sömu daga á mönnuðu stöðinni. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Illugi Jökulsson rifjaði upp frétt úr Alþýðublaðinu.

Ofsaveður sem skall á suðvesturlandi 15. janúar
1942 var í Reykjavík á við þriðja stigs fellibyl.

Hefurðu gert einhvern samanburð við núna?

Halldór Jónsson, 16.1.2020 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband