Óróleg tíð

Tíðafar er heldur órólegt þessa dagana, minnir dálítið á rússneska rúllettu. Líkön hafa þó staðið sig allvel til þessa, en óvissa samt veruleg. Djúp lægð fer hjá landinu í nótt og í fyrramálið (aðfaranótt mánudags) - einhver leiðindi fylgja henni - alla vega rétt fyrir ferðalanga að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar og veðurathugunum. 

Síðan á önnur lægð að koma að landinu á þriðjudag, enn dýpri en sú fyrri. Ástæða er til að fylgjast vel með vestanáttinni í kjölfar hennar. Leiðindin sem fylgja fara að vísu mjög eftir hitafarinu - hvessi í snjókomu er útlitið mjög slæmt, en heldur skárra þar sem blautt er í. Þetta þýðir að allar ferðir um fjallvegi eru trúlega vægast samt varasamar á þriðjudag. Sömuleiðis er lægðin svo djúp og svo hvasst verður undan landi að ef vindur fellur illa í sjávarstöðuna er varla von á góðu. Eru þeir sem eitthvað eiga undir hvattir til að fylgjast vel með þróuninni.

Svo er ekki allt búið - evrópureiknimiðstöðin er að spá óvenjulegri háloftastöðu á miðvikudaginn - svo óvenjulegri að gefa verður henni gaum. En rétt að taka fram að hún er á mörkum þess trúlega - og bandaríska líkanið er öllu vægara, og þar með e.t.v. trúlegra (en við vitum ekki enn um það). 

w-blogg050120a

Kortið gildir kl.18 síðdegis á miðvikudag, 8.janúar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Undanfarna daga hefur verið mjög kalt norðvestan Grænlands. Svo virðist sem kuldapollurinn hreyfist nú til suðurs. Hálendi Grænlands stíflar framrás kalda loftsins að mestu til austurs - en megi trúa líkönum slettist jafnframt gusa af kulda yfir jökulinn og niður hlíðar hans austanverðar, allt frá Hvarfi norður undir Kulusuk. Þetta er mjög vandasöm staða fyrir reiknilíkön og margt sem getur farið úrskeiðis. Fari nægilega mikið af köldu lofti yfir jökulinn og niður hinu megin dragast veðrahvörfin ofan við „fossinn“ niður og mjög djúp háloftalægð verður til. Samkvæmt þeim reikningum sem kortið sýnir á 500 hPa-flöturinn að fara niður í 4610 metra þar sem hann er lægstur. Þetta er mjög óvenjulegt - og eins gott að ekkert hlýtt loft komist inn í lægðina. Ritstjóri hungurdiska hefur séð svona lága tölu á þessum slóðum áður - en ekki er það oft. 

Þeir sem hafa auga fyrir kortum af þessu tagi sjá að jafnþykktarlínurnar (litirnir) fylla að nokkru upp í hringrás háloftalægðarinnar. Vindur við jörð er því ekki nærri því eins mikill og e.t.v. mætti búast við. 

w-blogg050120b

Þó er það svo að seint á aðfaranótt fimmtudags (9.janúar) er spáð fárviðri af vestsuðvestri á Grænlandshafi - eins og kort reiknimiðstöðvarinnar sýnir. Hversu mikill vindur nær alla leið til Íslands er fullkomlega óljóst á þessu stigi málsins. Með þessu fylgir spá um 11 metra ölduhæð á utanverðum Faxaflóa, Snæfellsnesi og Reykjanesi á fimmtudaginn. Vonandi sleppum við við rafmagnstruflanir af völdum seltu í þessum vestanáhlaupum. 

Lægðagangurinn á síðan að halda áfram. En ritstjóri hungurdiska minnir enn á að hann gerir engar spár - en hvetur eins og venjulega lesendur til að fylgjast með spám „til þess bærra aðila“. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i
  • w-blogg121124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 394
  • Sl. sólarhring: 400
  • Sl. viku: 2656
  • Frá upphafi: 2410645

Annað

  • Innlit í dag: 310
  • Innlit sl. viku: 2341
  • Gestir í dag: 280
  • IP-tölur í dag: 266

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband