Kalt í heiðhvolfinu

Í framhjáhlaupsfréttum er það helst að í dag mældist frost -92 stig í 25 km hæð yfir Keflavíkurflugvelli (í 20 hPa-fletinum). Í fljótu bragði finnur ritstjóri hungurdiska ekki lægri tölu í gögnum af þeim bæ, en geta verður þess að mælingar í 20 hPa-fletinum eru nokkuð gisnar. Ekki var met í næsta fleti fyrir neðan (30 hPa). Hin óvenjuútbreiddu glitský sem sést hafa víða um land tengjast þessu kuldastandi - óskaskilyrði fyrir myndun þeirra.

Glitský eru í sjálfu sér ekki óalgeng yfir landinu að vetrarlagi. Fyrir löngu ritaði ritstjóri hungurdiska stuttan pistil um árstíðasveiflu þeirra á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að að meðaltali sjást þau einn dag í hverjum janúarmánuði - en í reynd felur meðaltalið mikil áraskipti. Stundum sjást þau fjölmarga daga - en síðan geta liðið allmörg ár án þess að þeirra verði vart. 

Algengast er að glitskýin séu afleiðing þess að mjög hlýtt loft langt úr suðri ryður veðrahvörfunum upp - og þar með lyftist allt heiðhvolfið þar fyrir ofan - og kólnar við að lyftast. Bylgjur sem landið (eða jafnvel Grænland) mynda auka á líkur þess að loftið kólni niður í kjörhita skýjanna - sem er í kringum -80 stig, kannski nægja -75 stig. Vegna þess að þessi framsókn er úr suðri, er langoftast skýjað um landið sunnan- og vestanvert þegar þetta á sér stað og skýin sjást ekki - lágskýin fela þau. Glitský virðast því vera mun tíðari á Norður- og Austurlandi heldur en suðvestanlands. 

Fyrir kemur að skammdegisröst heiðhvolfsins slær sér af afli suður fyrir Ísland og heiðhvolfið ofan landsins lendir nærri miðju skammdegislægðar heiðhvolfsins - sem reyndar er misköld. Inni í lægðinni er frost oft meira en -75 stig í 22 til 35 km hæð. Þar geta því verið glitský - svo virðist sem að bylgjuform sé ekki eins áberandi á þeim skýjum og þeim sem fylgja suðvestanáttinni. 

Þau glitský sem sést hafa að þessu sinni eru í skammdegisröstinni sjálfri - þar eru bylgjur - kannski vaktar af Grænlandi. Röstin er óvenjuköld. 

w-blogg030120a

Myndin sýnir stöðuna í 30 hPa-fletinum [23 km hæð] á sunnudagsmorgni, 5.janúar - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. Rétt austan við land á hiti að fara niður í -90 stig. Spár gera ráð fyrir því að eitthvað hlýni þarna uppi í næstu viku. 

Á veðursíðum samskiptamiðla er mikið fjallað um stöðuna í heiðhvolfinu. Ástæðurnar eru e.t.v. tvíþættar. Annars vegar virðast breytingar vera að eiga sér stað þar uppi í tengslum við aukin gróðurhúsaáhrif - en hins vegar er nú mikið leitað að tengslum vindafars í heiðhvolfi og veðurs niður við jörð. Brotni skammdegislægðin upp - eða aflagist hún að mun komi fram áhrif á heimskautaröst veðrahvolfs. Ekki er ólíklegt að svo sé í raun og veru. Leita menn leiða til að spá ástandi heiðhvolfs lengra fram í tímann heldur en neðar - mynstur þar uppi er einfaldara heldur en veðrahvolfinu. Við höfum gefið þessum málum gaum á hungurdiskum áður og verður það ekki endurtekið að sinni. 

En aftur að upphafi þessa pistils. Mælingin frá því um hádegið, -92 stig í 20 hPa er ekki vís - varla leið að staðfesta hana - og við eigum ekki mikið af aðgengilegum gögnum úr þeim fleti til samanburðar. En tölvuskrár innihalda allgóð gögn úr 30 hPa-fletinum. Lægsti hiti sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í honum er -87,2 stig - met sett á annan jóladag 2015. [Minnisgóðir kannast kannski við „ofurlægðina“ sem fór yfir landið nokkrum dögum síðar].

Á undanförnum árum hafa allmörg lágmarkshitamet fallið í heiðhvolfinu yfir Keflavíkurflugvelli - er það í samræmi við beinar væntingar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. En hafa verður í huga að breytingar á hitafari heiðhvolfsins geta einnig haft áhrif á hringrásina, bylgjukerfið - langt í frá er ljóst hvernig fer með það mál.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gæti ekki einnig verið hluti af skýringunni á þessum kulda í heiðhvolfinu að þéttleiki ozons hefur verið með minna móti yfir Norður Atlandshafi og allt upp undir Norðupólinn frá upphafi vetrar (nóvember) ?  

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 5.1.2020 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i
  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 303
  • Sl. sólarhring: 325
  • Sl. viku: 2565
  • Frá upphafi: 2410554

Annað

  • Innlit í dag: 237
  • Innlit sl. viku: 2268
  • Gestir í dag: 216
  • IP-tölur í dag: 205

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband