Aldarafmæli Veðurstofunnar

Veðurstofa Íslands var stofnuð þann 1.janúar 1920. Í fyrstu var hún deild í Löggildingarstofunni. Veðurstofan tók þá þegar við formlegum veðurathugunum í landinu af þeirri dönsku en hún hafði komið upp allþéttu athugunarkerfi og rekið það í nærri hálfa öld (frá 1872). Síðustu árin var þó nokkuð farið að þynnast um. Kannski erfiðar samgöngur í heimsstyrjöldinni fyrri hafi ráðið nokkru, kannski eitthvað annað. Veðurskeyti höfðu fyrst borist frá landinu með reglubundnum hætti um sæsímann haustið 1906 og voru mjög mikilvæg veðurspám í Evrópu þó skeytastöðvarnar væru ekki margar. [Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri, Grímsstaðir á Fjöllum, Seyðisfjörður og Vestmannaeyjakaupstaður]. Þessi veðurskeyti voru einföld, sjávarmálsþrýstingur, hiti, vindátt og vindhraði. Skýjahulu og veðri var „lýst“ með aðeins einum tölustaf (sem er þó meira en flestar sjálfvirkar athuganir bjóða upp á í dag). 

Í tilkynningu sem dagblaðið Vísir birti þann 1.febrúar segir m.a.:

Fyrst um sinn fylgir veðurlýsingunni enginn spádómur um það, hvernig veðrið muni verða. Slíkir spádómar eru nú sem stendur miklum vandkvæðum bundnir, og mundu ekki geta orðið svo ábyggilegir, að þeir kæmu að verulegu gagni. En til þess er ætlast, að þeir, sem hafa áhuga á því að vita um komandi veður, geri sér að venju að athuga veðurlýsingarnar, og reyni að finna í þeim nýjar reglur um veðurfarið.

En hvers konar veður blasti við mönnum þennan fyrsta starfsdag Veðurstofunnar? Við nýtum okkur bandarísku endurgreininguna sem ábendingu um stöðu þrýstikerfa.

w-blogg301219aa

Hæðarhryggur er yfir landinu vestanverðu, hæð yfir Grænlandi og kröpp lægð austur af Nýfundnalandi. Mikil norðanátt er fyrir austan land og teygir sig frá Svalbarða allt suður til Afríku. Sé þetta borið saman við raunveruleikann á Íslandi kemur í ljós að aðalatriðin virðast rétt, en greiningin vanmetur styrk norðanáttarinnar austanlands - ekki víst að allar þrýstiathuganir landsins séu með í leiknum. 

w-blogg301219b

Það er helsta kraftaverk endurgreininga að þær sýna okkur líka stöðuna í háloftunum - og þar með líklegar skammtímahreyfingar þrýstikerfa og þykktina að auki. Sú síðastnefnda virðist oft vera lítillega ofmetin endurgreiningum á fyrsta hluta 20.aldar og á 19.öld. 

Á landinu var veðrið um miðjan dag um það bil eins og kortið hér að neðan sýnir:

w-blogg301219ac

Bjartviðri var um landið sunnan- og vestanvert - og líka á Norðurlandi vestanverðu. Rokhvasst var austast, 10 vindstig í Papey, 9 á Teigarhorni og 8 á Seyðisfirði. Vestanlands var austan og norðaustan kaldi eða stinningskaldi, hægur norðanlands, á Akureyri andaði af suðri og logn var á Ísafirði. 

Afgangur þessa fyrsta vetrar Veðurstofunnar varð nokkuð erfiður. Það var mjög umhleypingasamt og snjór með allra mesta móti á Suður- og Vesturlandi. Vetur sem þessi hefði orðið annasamur á spávakt Veðurstofunnar enn þann dag í dag og gular og appelsínugular viðvaranir viðloðandi. Nánar á lesa um veður og tíð á árinu 1920 í samantekt hungurdiska.

Veðurstofa Íslands er ein af grunnstoðum nútímasamfélags og vonandi að hún fái enn að blómstra. Hún hefur líka verið góður og vinsamlegur vinnustaður ritstjóra hungurdiska í meir en 40 ár og kann hann bæði stofnun og samstarfsfólki öllu bestu þakkir. 

Ritstjórinn þakkar líka lesendum hungurdiska fyrir vinsemd á nýliðnu ári og óskar þeim öllum hins besta í framtíðinni. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 267
  • Sl. sólarhring: 325
  • Sl. viku: 2529
  • Frá upphafi: 2410518

Annað

  • Innlit í dag: 210
  • Innlit sl. viku: 2241
  • Gestir í dag: 193
  • IP-tölur í dag: 184

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband