Fyrstu tuttugu dagar desembermánaðar

Þá eru það 20 fyrstu dagar desembermánaðar. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er -0,4 stig, -0,7 neðan meðallags áranna 1961 til 1990, en -1,1 neðan meðallags síðustu tíu ára og í 14.hlýjasta sæti (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2016, meðalhiti þá +5,6 stig. Kaldastir voru dagarnir tuttugu árið 2011, meðalhiti -2,8 stig. Sé litið til lengri tíma er meðalhitinn í 92. til 93. sæti af 144 - hlýjast 2016, en kaldast var 1886, meðalhiti -5,6 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 20 -1,1 stig, +0,1 stigi ofan meðallags 1961 til 1990, en -0,2 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið kaldast við Faxaflóa, en hlýjast á Norðausturlandi. Á einstökum stöðvum er jákvæða vikið mest í Möðrudal, +1,1 stig, en kaldast að tiltölu hefur verið á Botnsheiði, -2,2 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Úrkoma hefur mælst 33,0 mm í Reykjavík, nokkru minni en í meðalári, en á Akureyri hefur úrkoman mælst 121,9 mm, þrefalt meðallag. Það mun vera það mesta sem vitað er um á sama tíma í desember - harla óvenjulegt.

Sólskinsstundir hafa mælst 21,7 í Reykjavík það sem af er mánuði, það fjórðamesta sem vitað er um sömu daga. Enn er því rétt hugsanlegt að árið verði það næstsólríkasta í Reykjavík frá upphafi mælinga -

Tíðafari mánaðarins til þessa hefur því verið nokkuð misskipt. Syðra hefur tíð verið að minnsta kosti sæmileg - en aftur á móti óhagstæð víða um landið norðanvert, sums staðar mjög svo. Það er þó fyrst og fremst um vestanvert Norðurland sem snjóalög eru óvenjuleg (fram til þessa). Hrossatjónið þar um slóðir verður að teljast óvenjulegt, en þó er það svo að þegar tjónlistum er flett finnast furðumörg dæmi um að hross hafi fennt og farist og það ekki aðeins um landið norðanvert heldur einnig í Borgarfirði og á Suðurlandi - þó sjaldgæft sé á þeim slóðum. Eins og oft áður er vandi á höndum varðandi nákvæma merkingu orðsins „óvenjulegt“. Ekki er ritstjóri hungurdiska viss um hið vissulega í þeim efnum.

Hér eru til fróðleiks tvö dæmi um að hross hafi fennt - merkileg að því leyti að þetta er í maílok 1952 og í júní 1959 (athugið að júníveðrið er ekki það frægasta sem gerði á þjóðhátíðardaginn).

hross-fennir_1952-05

Þessi frétt birtist í Tímanum 5.júní 1952. 

hross-fennir_1959-06

Og þessi úr Morgunblaðinu 17.júní 1959. 

Þessi tilvik (að hross hafi fennt) eru ekki nærri því eins víðtæk og þau sem áttu sér stað á dögunum, en sýna samt vel að þetta getur gerst á nærri því hvaða árstíma sem er. Engar fréttir hefur ritstjórinn þó af slíku frá miðjum júní og fram í septemberbyrjun (ekki þar með sagt að það hafi aldrei gerst á þeim tíma).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 42
  • Sl. sólarhring: 325
  • Sl. viku: 2304
  • Frá upphafi: 2410293

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 2064
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband