Úrkoma í meira lagi

Eins og venjulega látum við Veðurstofuna og aðra „til þess bæra aðila“ sjá um veðurspárnar, en lítum samt á tvær spámyndir tengdar úrkomunni. Sú fyrri sýnir „uppsafnaða úrkomu“ úr harmonie-spálíkaninu næsta sólarhringinn (frá kl.12 í dag, miðvikudag 18.september til sama tíma á morgun, fimmtudag).

w-blogg180919ia

Litir og tölur sýna úrkomumagnið. Fjólubláu blettirnir benda á svæði þar sem sólarhringsúrkoman á að vera meiri en 100 mm, þeir eru nokkrir. Snæfellsnes áberandi, sunnanverður Reykjanesfjallgarður og hálendi kringum Borgarfjörð. Svo vekur athygli langur blettur í austanverðum Skagafirði - eiginlega uppi í fjallinu fyrir ofan Austurdal. Þar segir líkanið að úrkoma eigi að verða yfir 100 mm næsta sólarhringinn. Hvort það svo rætist er annað mál - en merkilegt ef svo fer því ekki er líklegt að mannleg hönd færi að setja háar tölur einmitt á þennan stað - nærri þeim slóðum þar sem úrkoma er hvað minnst á landinu. Að úrkoma sé mikil í hlýrri sunnanátt vestanlands er hins vegar nærri því sjálfsagt mál. 

w-blogg180919ib

Þessi mynd er öllu framandlegri (systur hennar hafa þó sést á hungurdiskum nokkrum sinnum áður). Hér er um að ræða þversnið í gegnum veðrahvolfið frá sjávarmáli allt upp í um 10 km hæð. Þversniðið sníður Vesturland frá suðri (til vinstri) til norðurs (til hægri) eins og hvíta línan á smáa kortinu í horninu efst til hægri sýnir. Snæfellsnes og Vestfirðir sjást sem gráar kryppur neðst á myndinni.

Litirnir (eða liturinn) sýnir rakastig í sniðinu. Það er 90 til 100 prósent uppúr og niðrúr, nema rétt í niðurstreymi við norðanvert Snæfellsnes (þar er það 80 til 90 prósent) og á tveimur smáblettum öðrum hátt í lofti. Segja má í grófum dráttum að allt veðrahvolfið sé rakamettað. 

Sé rýnt frekar í myndina (hún verður skýrari við stækkun) má sjá örþunnar fjólubláar strikalínur, af legu þeirra má lesa vatnsmagn í lofti - einingin er grömm vatns í kílói lofts. Á allstóru bili neðarlega til vinstri á myndinni (sunnan við Snæfellsnes og suður úr) er magnið meira en 8 grömm í kílói. Þetta er óvenjuhá tala - mikið vatn á ferð.

Svörtu, heildregnu línurnar sýna svonefndan jafngildismættishita (heldur erfitt orð). Þetta er sá hiti sem mælir sýndi væri loftið dregið niður í 1000 hPa þrýsting (það hlýnar við það) og að auki losnaði allur dulvarmi sem í því býr (allur raki væri þéttur). Að jafnaði vex jafngildismættishiti upp á við - og loft er því stöðugra eftir því sem hann vex örar með hæð. Þar sem langt er á milli jafnmættishitalína (eða að hann fellur með hæð) þar er loft mögulega óstöðugt - losni sá raki sem í því býr. 

Við sjáum að þannig er málum háttað á nokkru bili vinstra megin á myndinni (ofan við 850 til 800 hPa. Þetta loft er mjög úrkomugæft sé því bara lyft lítillega. Meira þarf að lyfta loftinu sem er hægra megin á myndinni - þar eru línurnar þéttar. 

Almennt má segja að þessi mynd sýni að úrkomunni verði mjög misskipt, hún verður langmest þar sem vindur þvingar loftið yfir fjöll (og rétt handan fjallshryggja), en minni hlémegin. En það loft sem óstöðugt gæti orðið (vinstra megin á myndinni) gæti samt af tilefnislitlu oltið um og skilað miklum dembum nærri því hvar sem er. 

Svo virðist sem úrkomubletturinn austan Skagafjarðar tengist mikilli bylgju sem þar á að vera meira og minna föst klukkustundum saman - hún býr til eins konar sýndarfjall og uppstreymi sem kreistir raka úr lofti á breiðu hæðarbili. Hvort líkanið hefur rétt fyrir sér um þessa bylgju vitum við ekki - og vitum sjálfsagt seint því úrkomumælingar eru af skornum skammti á þessu svæði. Vatnavextir í ám og lækjum eru einu merkin sem sjást og valdi þeir hvorki tjóni né öðrum vandræðum fáum við aldrei neitt að vita um hæfni líkansins. 

Væri vindur mjög hægur í lofti myndi allur þessi raki ekki eiga möguleika á að þéttast. Úrkomumagnið fer því mjög eftir vindraða. Algengur vindur í fjallahæð verður á bilinu 15 til 22 m/s. Það er ekki sérlega mikið (nóg samt). Við komum því til með að sleppa betur frá þessu himnasturtubaði heldur en ef vindur væri meiri. 

En við þetta bætist að áköf úrkoma á að halda áfram næstu daga, að vísu mun eitthvað snúast fram og til baka á áttinni og þar með verður misjafnt hvar nákvæmlega mesta úrkoman fellur á hverjum tíma (sem er svosem ágætt). 

Verði vindur meiri eða minni heldur en spáð er geta úrkomutölurnar orðið allt aðrar - einnig skiptir miklu máli hvort líkanið hefur rétt fyrir sér um hæðardreifingu jafngildismættishitans - það er að segja hvort rakamagnið sem berst að sunnan í líkaninu (komið úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar) er rétt eða rangt. Ekki vitum við um það fyrr en á reynir. 

En rétt er fyrir þá sem eitthvað eiga undir að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar, aðvörunum og einnig fréttum frá Vegagerðinni um ástand vega. Hungurdiskar gefa hvorki út spár né viðvaranir - munið það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úrkoman undangenginn sólarhring í Reykjavík mældist 32,6 mm eða svipuð og fyrstu 10 daga mánaðarins. Spurning hvort það sé ekki met?!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 19.9.2019 kl. 10:31

2 identicon

Orðið "himnasturtubað" hef ég ekki séð áður og þykir gott. Legg það í eigin sarp til seinni nota. Takk fyrir allan fróðleikinn.

Hörður Ingólfsson (IP-tala skráð) 19.9.2019 kl. 13:39

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi: Sólarhringsúrkoma hefur sjö sinnum mælst meiri í Reykjavík í september heldur en 32,6 mm, mest þann 26. árið 1959, 49,2 mm, á seinni árum (og sú 5.mesta) mældist hún 17.september 2008, 38,8 mm. En þetta er fremur óvenjulegt. 

Hörður - þakka þakkirnar - 

Trausti Jónsson, 19.9.2019 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband