10.9.2019 | 17:26
Haustlægðin Celia - 1962
Orðið haustlægð komst seint á prent í blöðunum sé að marka flettingar á timarit.is, fyrst 1983 og síðan ekki fyrr en 1990. Það hefur þó verið á róli nokkuð lengur manna á meðal - minnir ritstjóra hungurdiska. Enginn veit þó nákvæmlega hvað það er sem greinir haustlægðir frá öðrum, né heldur hvort þeim bregður fyrir á öllum árstímum - eða þær skilgreina haustkomu á einhvern óræðan máta. Við veðurfræðingar ættum sennilega að fara varlega í notkun þessa orðs - en ráðum auðvitað engu um það hvað aðrir gera.
Þrátt fyrir allan efa er það nú samt svo að stundum birtist haustveðrið nokkuð snögglega og fer ekki aftur - jafnvel þótt stöku síðari dagar sama árs sýni sig í gervi sumars.
Ritstjóri hungurdiska hefur lengi fylgst með veðri, kannski allt frá hausti 1961 - sumt man hann enn eldra - [en margt síðan man hann auðvitað alls ekki] og man fáeinar raunverulegar haustlægðir. Hvað um það, haustkoman 1961 er ekki alveg negld niður á dag eða lægð í huganum (kom samt) - en er það aftur á móti 1962.
Óvenju rólegt var á fellibyljaslóðum haustið 1962 og fengu aðeins 5 hitabeltislægðir nafn. Þar af voru þrír fellibyljir. Lægðin Celia náði aldrei styrk fellibyls (svo vitað sé), veðrið snerti Nýfundnaland, en olli engu tjóni fyrr en hér á landi. Þann 22. september var hún austan Nýfundnalands fremur sakleysisleg að öðru leyti en því að hún virtist bera vel í háloftabylgju sem að vestan kom. Á þessum tíma var ekki mikið um veðurathuganir á þeim slóðum sem hún er stödd. Þetta tilvik er gott dæmi um það að ekkert beint samband er á milli styrks hitabeltislægða og fellibylja og áhrifa afkvæma þeirra hér á norðurslóðum.
Kortið hér að ofan er af síðum Morgunblaðsins - þori ekki að fullyrða um höfund þess - líklega Knútur Knudsen - hann var á vakt þennan morgun. Það gildir kl.6 að morgni 22.september. Þessi kort voru ungum veðuráhugamönnum mikils virði og smám saman töluvert á þeim að græða.
Endurgreining japönsku veðurstofunnar og morgunblaðskortinu ber allvel saman. Vaxandi lægð austur af Nýfundnalandi á leið norðaustur, en hæð yfir Bretlandi. Á handteiknaða kortinu má einnig sjá veðurathuganir veðurskipanna Bravó, Alfa og Charlie, hið síðarnefnda á kortinu í hlýja geiranum austan lægðarmiðjunnar og sérlega mikilvægt í þessu tilviki. Veðurskipið Bravó fylgist með á norðurjaðri úrkomusvæðis sem sýnt er á japanska kortinu. Veðurfræðingar bíða spenntir eftir því hvað gerist á Alfa sem var á Grænlandshafi miðju - og því hvort lægðin tæki austlægari braut - sem hér var alveg hugsanlegt - skipið Indía, beint suður af Íslandi gæti gefið það til kynna. - Engar tölvuspár var að hafa - og engin von til þess að segja mætti af neinni nákvæmni um dýpkun lægðarinnar - og enn síður hvað síðan gerðist.
Þrátt fyrir þetta má segja að allvel hafi tekist til með spána - nema hvað norðanáttinni hvössu yfir Vestfjörðum var alls ekki spáð - fyrr en hún var komin.
Veðurspár voru handskrifaðar í bók sem þessa. Spá sem lesin var í útvarp kl.10:10 þann 22.september hljóðaði svo (yfirlit og upphaf):
Um 1400 km suðvestur í hafi er lægð sem dýpkar ört og hreyfist norðaustur. [Veðurhorfur næsta sólarhring] Suðvesturland til Vestfjarða, Suðvesturmið til Vestfjarðamiða: Suðvestankaldi og skúrir í dag. Vaxandi sunnan- og síðan suðaustanátt í kvöld. Hvasst og rigning í nótt.
Takið eftir því að ekkert segir um veður morgundagsins. - Þess var fyrst getið kl.16:30 - allir biðu spenntir eftir þeirri spá. [Hvass suðvestan og skúrir síðdegis].
Lægðin hrökk nú í ofurvöxt, dýpkaði um rúmlega 40 hPa á sólarhring, þrýstingur fór líklega niður undir 950 hPa þegar best lét að morgni þess 23. Kortið hér að ofan gildir kl.18 þann dag - sunnudag. Þá var lægðin yfir Breiðafirði og hafði grynnst lítillega. Endurgreiningin nær henni allvel.
Sá sem þetta skrifar minnist vel veðurhörkunnar þennan dag - betur en veðrið í gær, fyrst í suðaustanáttinni og ekki síður í suðvestanáttinni í svokölluðum snúð lægðarinnar. Þetta tók fljótt af, en síðan skall haustið á með öllum sínum þunga og snjókomu um norðvestanvert landið. Þrýstingur mældist lægstur á landi 956 hPa. Það var í Stykkishólmi. Veðrið varð langverst suðvestanlands, en gætti minna í öðrum landshlutum - nema hvað mjög hvasst varð af norðri um tíma á hluta Vestfjarða. Dægurlagið sem hékk á heilanum þessa daga var Walk right in með hópnum Rooftop Singers (undarlegt að muna það líka).
Kortið sýnir veðurathuganir á skeytastöðvum kl.18 síðdegis. Kröpp lægðarmiðjan yfir Breiðafirði - en aðeins farin að fletjast í botninn. Takið eftir norðanáttinni á Hvallátrum. Um nóttina skilaði hún snjókomu suður á vestanvert Snæfellsnes og það snjóaði niður í miðjar hlíðar í Hafnarfjalli - haustið var komið þó hlýja og hvassa austanátt drifi yfir nokkrum dögum síðar. Illviðrið hafði rifið lauf af trjám í stórum stíl og lyktin gjörbreyttist. Allt var breytt.
Í veðrinu urðu skemmdir á bátum í Reykjavíkurhöfn, sex trillur sukku. Bátur sökk í Þorlákshöfn og stórskemmdir urðu á mannvirkjum í smíðum í Keflavík, tveim síldarþróm og fiskhúsi. Fokskemmdir urðu einnig nokkrar í Sandgerði. Járnplötur tók af nokkrum húsum í Reykjavík, þar skemmdust líka girðingar og tré brotnuðu. Stór mótauppsláttur fauk í Vestmannaeyjum og þar fauk steingirðing um koll. Menn voru hætt komnir er bát rak upp í kletta við Drangsnes. Járnplötur fuku af húsum í Höfn í Hornafirði og á Akranesi. Bíll með knattspyrnuliði ÍA fauk út af vegi í Hvalfirði, slys urðu ekki á fólki. Sjór gekk yfir grjótgarðinn við höfnina í Bolungarvík (í norðanátt) og ljósker brotnuðu, brimið sagt 30 metra hátt. Brimstrókar við Arnarstapa þóttu óvenju tignarlegir. Mikið af korni fauk á Rangárvöllum og eins á ökrum á Héraði.
Á þessum árum voru stöðug vandræði í höfnum landsins hvessti mikið. Gríðarmikið hefur verið bætt úr síðan. Þó var smástreymt í þessu tilviki, mikill áhlaðandi hefur samt borist inn til Reykjavíkur.
Myndin sýnir þrýstispönn (munur á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu á öllum athugunartímum mánaðarins) - grátt, og lægsta þrýsting hvers athugunartíma (rauður ferill). Mikil sveifla fylgdi Celíu og mikil þrýstispönn - og mikill vindur. Næsta spannarhámark á undan (þann 15.) fylgdi allmiklu norðanveðri - en ekki fylgdi hausttilfinning því á sama hátt og Celíu. Eins var allmikill vindur þann 1. - kannski tengdur leifum fellibylsins Ölmu - kannski einhverju öðru suðlægu kerfi). Djúp lægð var langt suður í hafi og vindur af austri hér á landi. Hætt við að einhver hefði misst út úr sér haustlægðarmerkilappann þegar í upphafi mánaðarins - þó ekki væri ástæða til. Drjúghvasst varð einnig síðasta dag mánaðarins - þá af austri enda mjög djúp lægð fyrir sunnan land. Austanáttin sú var þó mild um landið vestanvert - en náði ekki að skapa tilfinningu fyrir endurkomu sumars.
Þetta veður sýnir að til þess að gera sakleysisleg hitabeltiskerfi geta verið mjög varasöm - reyndar virðist meira máli skipta að rekja sú og hlýindi sem þau draga með sér langt sunnan úr höfum hitti rétt í vestanvindabeltið heldur en það vindafl sem þau bjuggu yfir í sinni fyrri tilveru. Ekkert virðist ameríska fellibyljamiðstöðin vita af tjóni því sem kerfið olli hér á landi (og er sjálfsagt alveg sama).
Fyrsta haustlægðin árið eftir var líka minnisstæð - hún kom enn fyrr, 10.september. Ekki varð þá aftur snúið. - En förum sparlega með þetta hugtak - haustlægð - á meðan við vitum ekki almennilega hvað það er.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:28 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.3.): 7
- Sl. sólarhring: 103
- Sl. viku: 1341
- Frá upphafi: 2455667
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 1201
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Fróðlegt væri að fá úttekt á fellibylnum Flóru sem er hræðilegast veður í mínu barnsminni þegar blæjurnar fuku af rússanum hans pabba gamla og mömmu þótti vissara að tjóðra mig með ullartrefli við sætið sitt í bílnum þegar ekki naut lengur skjóls af þeim.
Þorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 10.9.2019 kl. 17:37
Haustlægð er auðvitað bara á haustin en þar sem september er jú ekki haustmánuður samkvæmt Veðurstofunni - og veðurfræðingum - þá er alls ekki rétt að tala um haustlægð fyrr en í oktber, ekki satt?
Torfi Kristján Stefánsson, 10.9.2019 kl. 22:45
Þorvaldur: Nokkuð hvasst varð í sumum sveitum hér á land samfara leifum fellibylsins Flóru 1963, en illviðrið olli litlu tjóni - og máttleysi (miðað við spár og væntingar) þess olli ungum veðuráhugamanni miklum vonbrigðum. Flóra er einn mannskæðasti fellibylur allra tíma, þúsundir manna fórust á eyjum Karíbahafs, flestir á Kúbu þar sem veðrið strandaði um tíma - kannski ekki ósvipað og Dorian nú yfir Bahamaeyjum.
Torfi: Hausti getur brugðið fyrir í huga manna á öllum árstímum - ýmist tilefnislaust eða vegna þess að eitthvað í náttúrunni minnir á það. Sagði ekki Einar Bragi í júní 1951: „þeyrinn ber handan um höfin haustljóð á vori“. Hin tæknilega skilgreining Veðurstofunnar á sumri og hausti hefur ekkert með slíkt að gera.
Trausti Jónsson, 10.9.2019 kl. 23:54
Jæja karlinn. Alltaf skal það heita eitthvað! Í öllu haustlægðaratinu hefurðu þó gleymt að segja okkur frá því hvernig sumarhlýindin 10 fyrstu dagana í september hafa verið.
Hvenær má maður búast við þeim (merku) upplýsingum?
Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 11.9.2019 kl. 09:12
Torfi - að vanda eru tíudagaupplýsingarnar á fjasbókarsíðu hungurdiska
Trausti Jónsson, 11.9.2019 kl. 11:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.