27.10.2019 | 22:10
Af árinu 1816
Árið 1816 er frægt á alþjóðavísu sem það sumarlausa á Nýja-Englandi og Frankensteinsumarið við Genfarvatn. Árið áður hafði orðið stórkostlegt eldgos í Tambórafjalli í Indónesíu og gera menn því skóna að það hafi valdið alls konar röskun á veðrakerfinu og eru jafnvel farnir að rökstyðja það með tölvureikningum
Við höfum ekki mjög áreiðanlegar upplýsingar um hitafar. Séra Pétur Pétursson á Víðvöllum í Skagafirði mældi þó reglulega snemma morguns og við getum því í grófum dráttum séð helstu kuldaköst og hret, en höfum í huga að við sjáum eitthvað sem er nærri lágmarkshita sólarhringsins. Myndin hér að ofan sýnir mælingar hans. Að sumarlagi mældi hann einnig um miðjan dag, en sól hefur greinilega skinið á mælinn suma daga. Áreiðanlega var nokkuð hlýtt eftir miðjan júní - um þær mundir sem sumarleysið var hvað átakanlegast í Evrópu og Ameríku. Sumarið þótti ekki sérlega óhagstætt hér á landi.
Veturinn var kaldur, en hláku gerði þó síðari hluta marsmánaðar. Aftur var mjög kalt um miðjan apríl. Slæmt kuldakast gerði í lok ágúst og einnig undir mánaðamót október/nóvember. Oftast var kalt líka í desember.
Hér að neðan skautum við yfir aðrar heimildir - stafsetningu oftast hnikað til nútímahorfs.
Annáll 19. aldar segir svo frá:
Vetur frá nýári var harður um allt land, vorið kalt og þurrt, grasvöxtur í minna lagi, þó spruttu tún nokkurn veginn vel, en engjar voru lítt sláandi, nema þar sem þær voru í sinu. Þó segir Espólín heyafla sæmilegan og mun það helst hafa verið syðra, en hretasamt telur hann í ágúst. Haustið var rigninga- og vindasamt. Gerði vetur þann, er þá fór í hönd, mjög mislægan, og þótt snjóar yrðu sumstaðar miklir, munu jarðir þó hafa haldist til jóla. Ís kom um kyndilmessu nyrðra [2.febrúar], og var þar á hrakningi langt fram á sumar. Féll þá, einkum um nálægar sveitir mikið af útigangspeningi. ... Fiskafli var lítill á báta um veturinn, nema í Vestmannaeyjum. ... 17 menn er talið að dæju úr hungri í Snæfellsnessýslu.
Annállinn segir að vanda frá fjölda slysa og óhappa. Við nefnum aðeins þau sem fest eru á ákveðnar dagsetningar. Menn urðu úti þann 5.febrúar og 22.mars urðu tveir úti á leið milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar, villtust af leið á Norðurárdal. Þann 20.apríl fórst skip við Akranes með 7 mönnum - óljóst hvort tengdist veðri. Við getum þess að þann 4.ágúst drukknaði séra Hallgrímur Þorssteinsson faðir Jónasar Hallgrímssonar í Hraunsvatni í Öxnadal (það tengdist raunar ekki veðri). Óljósar fregnir eru af því að Skagastrandarkaupfar hafi farist (rétt einu sinni). Þann 2.nóvember drukknuðu 5 menn á kirkjuleið frá Múla á Skálmarnesi og þann 18. sama mánaðar fórust 6 menn í róðri frá Hallbjarnareyri í Eyrarsveit á Snæfellsnesi [þar var holdsveikraspítali]. Þann 23. desember varð kona úti á Skaga, á jóladag varð úti Guðbrandur frá Sauðhúsum í Dölum - var að sinna fé og á gamlársdag varð maður úti á Vatnsskarði.
Brandstaðaannáll:
Gaddur og hagleysi viðhélst lengi. Í janúar kafaldasamt mjög til 15.; eftir það stillt og oft gott veður. Lengi brutu hross niður á hálsum og heiðum, því smáblotar náðu þar lítið um. Annars tóku flestir þau inn um nýár. Í Blönduhlíð og framsveitum var jörð, af því að þar reif í Þorláksmessuhríðinni [1815]og áttu margir þar hross í hagagöngu. Á góu mest norðanátt og frostamikið, jarðleysi yfir allt. Brutust þá fáir vermenn suður. Á góuþrælinn dreif mikla fönn niður; eftir það gott veður og blotar. Kom upp snöp til lágsveita og móti sólu, er rýmdi um til páska, 14. apríl. Á þriðja [16.] hríð og fannlag; versta skorpa til sumars 25. [apríl] Bar þá allvíða á heyleysi eftir 16 vikna skorpu. Sauðir gengu af án gjafar utan í innistöðum í Skagafjarðardölum. Þverárbú hjá Schram þraut hey og tóku ýmsir hross og fé af honum, en mjög gekk á heyfyrningar hjá allmörgum. Með sumri, 25. [apríl] kom góður bati og eftir það stöðug vorgæði, hretalaust að kalla, gróðurnægt á fráfærum. 3.júlí lögðu lestir suður og gaf þeim vel. Sláttur byrjaði í 13. viku sumars. Heyskapartíð varð hin besta, rekjur hægar alljafnt og þurrviðri, með góðum þerri stundum. Grasvöxtur í betra lagi yfir allt og almennt hirt um seinni göngur, en stórrignt á milli þeirra. Síðast í september snjór og frost. Hálfan október stillt og þurrt veður, síðan snjóakast mikið. Með vetri varð auð jörð til sveita og frosta- (s73) samt. 6. nóv. lagði á fannir miklar með köföldum og hörku, svo lömb komu á að öllu. Þá var fjárjörð lengst. Með jólaföstu blotaði og var gott eina viku; aftur hríðar og hörkur, þó gott á milli. Byrjaði þá gjafatími hjá flestum. 19.des. ofsaveður og bloti. Tók nokkuð upp, en snjógangur á eftir. Á jóladaginn brast á mikil hríð með ógnarfrosti, er varaði 3 daga og harka á eftir. Varð síðar mikið tjón af því á Barkarstöðum. Þar hrakti fé til heiðar og þó flest næðist lifandi, féll talsvert af því um vorið. Spillibloti endaði árið. (s74)
Espólín:
LXXVIII. Kap. Þessi vetur var harla þungur af snjóum og jarðbönnum um allt land; voru blotar, er spilltu. Sjór var gagnlítill fyrir norðan, sem fyrri. (s 85). LXXXII. Kap. Þá var heyskapur sæmilegur, en hretsamt í Augusto. (s 91). LXXXIII. Kap. Gjörði vetur þann er þá fór í hönd eigi góðan, en þó mjög mislægan, voru víðast jarðir til jóla, þó snjóar yrði allmiklir, og snemma legði að. En með miðjum vetri komu hafísar ok þöktu allan sjó; voru aldrei frost mjög ákafleg, en jarðbönn hin mestu víða vestur um land, og sumstaðar í Húnavatns þingi, og til dala. (s 91).
Reykjavík 8-5 1816 (Bjarni Thorarensen):
... den afvigte Vinter har i dette Land været meget haard og den havde været ganske ödelæggende hvis ikke Höeavlen i afvigte Sommer havde været paa det bedste; men med alt det ere paa mange Stæder et betydeligt Antal Creature styrtet af Magerhed; Fiskeriet har her i Faxebugten været paa det elendigste in indeværende Foraar og endnu slettere end i forrige Aar ... (s18)
Í lauslegri þýðingu: ... nýliðinn vetur hefur verið mjög harður hér á landi og hefði haft meiri eyðileggingu í för með sér hefði heyfengur síðastliðið sumar [1815] ekki verið með besta móti, samt sem áður hefur víða orðið peningsfellir af hor. Fiskveiðar hafa verið með aumasta móti hér á Faxaflóa í vor og enn verra en síðastliðið vor.
Sveinn Pálsson segir snjó í Vík í Mýrdal 29.maí og frost á nóttum, einnig var næturfrost þar 3., 4. og 5.júní. Sveinn fór í leiðangur austur á Djúpavog í júní og getur í athugasemdum um hlaup í Skeiðará - sem væntanlega er þó alveg búið þegar hann fer um í báðum leiðum. En þann 24. er hann í Öræfum og segir af eldmistri yfir Skeiðarárjökli og daginn eftir þegar hann fór yfir sandinn á vesturleið nefnir hann gosmökk í norðaustri frá Lómagnúp. Nokkuð var um næturfrost í Vík í september.
Reykjavík 7-5 1816 (Geir Vídalín biskup):
Vetur illur og arðlítill. Lagðist hann snemma að hér sunnanlands, en á Austur- og Norðurlandi ekki fyrr en með jólum. Snjóar hafa verið hér í mesta lagi, líka áfrerar og oft jarðbönn, bæði hér og um nálægar sveitir, svo tekið er að hruflast nokkuð af útigangspeningi. Þó held ég að hér um sveitir verði ekki stórkostlegur fellir, ef vorið verður bærilegt. Úr Norðurlandi er sagt mikið hart, en meira held ég samt að gjört sé úr því en það er í raun réttri, og varla býst ég við, að þar verði stórkostlegur fjármissir. Hafís var þar kominn nokkur, þegar seinast til fréttist, en hvergi eiginlega landfastur, svo líklegt er, að hann hafi hrakið í burtu í sunnanveðrum, sem hér hafa nú gengið um tíma. (s136) ... Skip fór héðan með 11 manns fyrir skömmu og ætlaði upp á Akranes, en kom upp á sker nærri lendingu og brotnaði. Týndust 9 manns, en 2 komust af. ... Víða hefur og fólk orðið úti á heiðum, sem ég hvorki man eða hirði um að telja hér upp. (s137)
Reykjavík 18-8 1816 (Geir Vídalín biskup):
Veðuráttin í vor var bæði köld og stormasöm allt fram að sólstöðum, og grasvöxtur lítill á harðlendi, betri í mýrum. Síðan sólstöður nær einlægir þurrkar, svo töður hafa nýst einka vel. (s144)
Reykjavík 13-9 1816 (Geir Vídalín biskup):
Seinni partur sumarsins sérílagi góður, svo eg hygg, að þó grasvöxtur væri lítill, hafi flestir hér í nánd fengið hey vel verkað fyrir skepnur sínar nokkurn veginn (s146) til hlítar. (s147)
Ritstjórinn reynir (með litlum árangri þó) að tína til úr dagbók Jóns á Möðrufelli - en mjög umorðað hér:
Þann 20.janúar segir hann, (vikan) ei svo óstillt að veðráttu, og um næstu viku á eftir að hún hafi verið mikið stillt og björt. Janúar allur stilltur. Febrúar var nokkuð veðráttuharður um tíma, en þó aldrei freklega, en sífellt jarðleysi, hestar sumir orðnir mjög magrir. 2.mars var nýliðin vika stillt, en jarðbönn sömu, næsta vika á eftir mikillega hörð, en síðasta vika mánaðarins var mikið góð og hagstæð. Mars harður fyrri part. Apríl stillur í upphafi og í lokin, en verri á milli. Í maí var hafíshroði að flækjast til og frá fyrir utan land og stundum inn á fjörð. Þá segir hann einnig að frá jólaföstu hafi aldrei komið hláka, þó hafi snjó tekið upp allsæmilega vegna góðviðris. Júní var allur vel stillur, en andkaldur. Fyrsta vika júlí var mikið góð og hlý, en næsta á eftir þurr og andköld, þriðja vika júlí var úrkomulítil og svöl, og sú fjórða þurrklítil, en þó ekki mjög vot. Þann 31.ágúst snjóaði ofan undir bæi um nóttina. September var býsna óþurrkasamur og frost síðast. Október mikið stilltur, veðrátta góð og dágóðar jarðir. Nóvember einnig yfirhöfuð dágóður, nægar jarðir og oftast stillt veður. Desember allsæmilegur, engin stórhríð komið.
Úr tíðavísu Jóns Hjaltalíns fyrir árið 1816:
Harðan vetur þáði þjóð,
þjóðin nú og köstin höst,
ísalögin láði háð
lengi voru föst á röst.
Allt frá jólum örðug gjörð
og að sumri víða stríð,
harkan varði hjörðum svörð
heyjum eyddi tíð óblíð.
Þurrt var vor svo þáði fjáð
þaraf lítinn gróða slóð
taða smá var tjáð um láð
telst þó nýting góð hjá þjóð.
Margir herma víða víð
væri engi þæg óslæg,
sinuhey því síðan tíð
sveitin nýtti fræga næg.
Haustið sendi hörð á jörð
hret og líka fjöllum mjöll,
fannir huldu hjörðum svörð,
hrímdu frostin gjöll og völl.
Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1816. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr árbókum Espólíns. Smávegis (nærri því ekki neitt) af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.11.): 267
- Sl. sólarhring: 325
- Sl. viku: 2529
- Frá upphafi: 2410518
Annað
- Innlit í dag: 210
- Innlit sl. viku: 2241
- Gestir í dag: 193
- IP-tölur í dag: 184
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.