30.9.2019 | 02:46
Af árinu 1880
Árið 1880 var mjög óvenjulegt. Fyrstu 8 mánuðir þess voru meðal þeirra hlýjustu á 19.öld og tveir þeirra, apríl og ágúst eru meðal allrahlýjustu sinna almanaksbræðra. Hlýindin hófust raunar fyrir áramót 1880 til 1881 og var meðalhiti 12-mánaða tímabilsins október 1879 til september 1880 rúm 5 stig í Stykkishólmi, rúmum 2 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Það var aðeins tvisvar eða þrisvar sem 12-mánaða meðalhiti náði 5 stigum í Stykkishólmi á 19.öld, örugglega 1847 og ef til vill 1829 líka. Eftir 1880 þurfti að bíða hálfa öld eftir því að það gerðist aftur. Það var 1929. En síðan fór allt á versta veg. Frá og með október hríðkólnaði og það svo að dæmi eru ekki um annað eins. Það hefndist fyrir blíðuna eins og stundum var sagt.
Þó sumarið blessaðist vel og alls staðar slyppi til með heyskap var þó úrkomusamt sums staðar á Vesturlandi og Vestfjörðum. Talsverð frost gerði í febrúarlok og skammvinnt hret í maí þannig að veður var ekki fullkomið. Hiti var í meðallagi í febrúar, en annars voru allir aðrir mánuðir til og með ágúst hlýir. September var í meðallagi, en október var kaldur. Nóvember og desember urðu svo sérlega kaldir, desember kaldastur allra.
Kuldinn í nóvember og desember sló á ársmeðalhitann þannig að hann varð ekki nema 4,3 stig í Reykjavík og 3,8 stig í Stykkishólmi. Þótti allgott samt á þessum árum. Ekki var farið að mæla á Akureyri en giskað er á að ársmeðalhiti þar hafi verið 3,5 stig. Meðalhiti ágústmánaðar reiknast 14,0 stig austur á Valþjófsstað í Fljótsdal - nokkuð óviss tala en sýnir samt hin óvenjulegu hlýindi þessa sumars. Meðalhiti í júlí var 12,3 stig í Stykkishólmi. Það met stendur enn, meðalhiti var þar 12,0 stig í ágúst, met sem stóð til ársins 2003. Sama á við um ágúst í Reykjavík, þar var meðalhiti ágústmánaðar 1880 12,4 stig og varð ekki hærri fyrr en 2003.
Eins og árin á undan var athugunarnetið nokkuð gisið - en var þó að þéttast. Hæstur mældist hitinn á Valþjófsstað 21.júlí, 24,5 stig, en mest frost á Saurbæ í Eyjafirði 14.nóvember, -24,0 stig.
Hér má sjá daglegt hitafar. Efri línan (oftast) sýnir hæsta hita hvers dags (ekki hámarkshita) í Reykjavík, en sú neðri meðalhita hvers dags í Stykkishólmi. Vorhlýindin vekja athygli. Hæsti hiti dagsins var nærri 10 stigum í Reykjavík hvað eftir annað síðari hluta marsmánaðar. Kuldinn í desember var gríðarlegur. Átján dægurlágmarksmet sem sett voru 1880 standa enn í Reykjavík, þar af fjögur í nóvember og 11 í desember, öll sett eftir þann 12. Tvö dægurhámarksmet standa enn frá þessu ári, 19.mars og 18.júní (þó var hámarkshiti ekki mældur þessa daga). Kaldir dagar í Reykjavík eru 23, þar af 13 í desember, mjög hlýir dagar voru fjórir. Í Stykkishólmi voru hlýju dagarnir 9. Listi yfir þessa daga er í viðhenginu.
Loftþrýstingur var sérlega hár í október, meðaltalið það hæsta sem vitað er um í þeim almanaksmánuði. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Vestmannaeyjum 1.janúar, 940,0 hPa, en hæstur á Akureyri 19.október 1043,3 hPa.
Úrkoma var í upphafi árs aðeins mæld á þremur stöðvum, í Stykkishólmi, á Djúpavogi og í Grímsey. Á síðastnefnda staðnum voru mælingar óöruggar, mælirinn virðist hafa verið illa staðsettur og mældi snjó sérlega illa. Farið var að mæla úrkomu á Eyrarbakka í júní og í Vestmanneyjum í nóvember. Júlímánuður var þurr á stöðvunum og október óvenjuþurr á Djúpavogi. Janúar var hins vegar úrkomusamur.
Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1880 og vitnað í samtímablaðafréttir og fleira. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Sem fyrr má finna tölulegt yfirlit í viðhenginu.
Jónas Jónasson stud theol ritar í Fréttir frá Íslandi:
Tíðarfar á þessu ári var lengst af hið æskilegasta, svo að lengi hefir ei jafngott verið. Veturinn var svo blíður og inndæll, að varla festi snjó á jörð, en á Suðurlandi var hann nokkuð umhleypingasamur og óstöðugur. Á Norðurlandi var stöðugri tíð, og svo gott, að sauðir komu varla undir þak. Má til dæmis taka um veðurblíðuna, að nóvember, desember og janúar [1879-1880] var meðalhiti hér um bil -0,5°R í Norður-Þingeyjarsýslu, Jökuldal og Sléttu, og eru þau hlýindi næsta óvanaleg um þær slóðir. Tún voru orðin algræn og fögur löngu fyrir sumarmál, og vorið var eftir þessu hið blíðasta og fegursta. Sumarið var heitt og þurrt og hið æskilegasta til höfuðdags. Enn úr höfuðdegi tók að spillast veðurátt og gjörast óstöðugt og umhleypingasamt, og rigningar að koma á með köflum. Þó mátti haustið heita heldur gott, þar til spilltist algjörlega í október. Í miðjum október tók að snjóa á Norðurlandi, og rigndi stundum niður í og snjóaði svo ofan á aftur, svo að jarðir urðu litlar, og varð þá þegar að fara að taka flestan pening á gjöf. Óveður og stormar voru allajafna, og gjörðu víða skaða nokkurn, en þó var aðkvæðamest stórviðri það, er gjörði af útsuðri 10. dag desembermánaðar, einkum á Suður- og Vesturlandi. Það byrjaði kveldið fyrir og hélst alla nóttina, og hafði víða gjört tjón mikið, bæði á húsum og öðru. Bryggjur og skíðgarðar sópuðust á burt úr Hafnarfirði og Reykjavík, skip og báta tók víða í loft upp, og sló þeim niður aftur mölbrotnum; brotnuðu í veðri þessu eigi færri enn 7 sexæringar í Minni-Vogum, 6 ferjur á Akranesi og mörg skip á Álftanesi og víðar. Á Vatnsleysuströnd tók upp þiljubát, sem var í smíðum, og bar veðrið hann um 300 faðma yfir grjótgarða og skíðgarða, svo að hann kom hvergi við, en mölbraut hann síðan, er niður kom. Heyskaðar urðu nokkrir á Suðurlandi, einkum fyrir austan fjall, og sama var að segja af Vestfjörðum; þar höfðu víða hjallar fokið með munum og matvælum og varð ei eftir af það er sæist. Eigi gjörði veður þetta mikið tjón á skepnum, því að svo vel vildi til, að veðrið skall á að nóttu til, svo að fénaður var byrgður. Veður þetta varð allmikið á Norðurlandi en gjörði þar eigi skaða, svo að orð sé á gjöranda. Um jólin voru frost mikil á Norðurlandi, stundum um -24°R, en á Suðurlandi 1215 stig. Milli jóla og nýárs voru einlægir norðanstormar og hríðar, og rak þá inn hafþök af ís fyrir öllu Norðurlandi. Á gamlárskveld gjörði blota lítinn, en gekk upp í frost og hríð um nóttina, svo að hinar litlu snapir, er voru á einstöku stöðum til, huldust alveg óvinnandi gaddbrynju, sem engin skepna gat á unnið.
Skepnuhöld voru með besta móti þetta ár, sem ráða má af veðurblíðu þeirri, sem hvervetna var um land allt. Sauðir höfðu sumstaðar eigi komið í hús svo teljandi væri hinn fyrra vetur; um vorið gengu því allar skepnur alstaðar vel undan, og lambadauði var lítill sem enginn um vorið. Um sumarið mjólkaði kvífé heldur vel, en þó eigi svo vel sem ef til vill mætti við búast, þar sem vorið og sumarið var svo gott og blítt. En það var kennt hinum brennandi þurrkum, er gengu um allt land og þurrkuðu sumstaðar svo haga, að nær því varð vatnslaust með öllu. Um haustið skarst fé í góðu meðallagi en eigi miklu betur, og var það og kennt þurrviðrunum. Heimtur urðu góðar víðast um haustið.
Grasvöxtur varð svo mikill bæði á túnum og engjum þetta sumar, að um mörg ár hefir eigi slíkur verið. Tún urðu víða tvíslegin að mestu, og voru því töður manna með langmesta móti. Útengjar spruttu og ágætlega, nema síst mýrar þær, er þornuðu upp í hitunum og þurrkunum; en þar sem voru forarflóar var hið besta gras. Nýting á heyjum var hin besta til höfuðdags, og mátti svo segja, að hverju strái mætti raka þurru af ljánum í garð. Frá höfuðdegi gengu óþurrkar, og var mest af því heyi, er náðist inn eftir það, meira eða minna illa verkað, sumt hrakið og sumt illa þurrt. En þar eð það var svo seint sumars, og gras féll í fyrra lagi vegna þurrkanna og hins snemma gróðurs, gjörði það ekki mikið mein. Garðvextir, bæði kál, rófur og jarðepli spruttu hvervetna svo vel, að menn mundu varla dæmi til slíks.
Aflabrögð voru nokkuð misjöfn þetta ár sem vant er að vera kring um land allt. Vetrarvertíð fyrir Suðurlandi gekk heldur vel, en nokkuð var gæftalítið, svo að sjór varð ei sóttur að því skapi sem aflinn var til fyrir, þegar gaf; ... Silungsveiðar í ám voru víða heldur góðar en laxveiði sumstaðar nær engi.
(s81) Slysfarir eru fáar á þessu ári, og eru þessar hinar helstu: 9. dag októbermánaðar drukknuðu tveir menn á báti í fiskiróðri frá Skálavík í Ísafjarðarsýslu, og 27. dag sama mánaðar drukknuðu 3 menn með sama móti af Tjörnesi. 3. dag nóvembermánaðar fórst bátur á Eyjafirði með 3 mönnum á á leið frá Akureyri út að Glæsibæ; ... 22. dag sama mánaðar drukknuðu 7 menn á áttæringi á leið frá Reykjavík upp á Akranes; 9. dag desembermánaðar týndist skip með 7 mönnum af Vatnsleysuströnd, og 16. dag sama mánaðar fórst skip með 7 mönnum frá Hrólfsskála á Seltjarnarnesi. Þetta eru hinar helstu og merkilegustu slysfarir á árinu.
Janúar: Nokkuð úrkomusamt syðra með umhleypingum, en yfirleitt mjög hagstæð tíð.
Jónas Jónassen tekur saman veðurlag í Reykjavík í janúar og birtist það í Þjóðólfi 9.febrúar:
Allan mánuðinn má heita að veðurátta hafi verið mjög óstöðug og umhleypingasöm. Fyrsti dagur ársins byrjaði með norðanveðri og blindbyl mestallan daginn, en það stóð að eins í 2 daga, því svo breyttist veður ýmist til landsynnings ýmist til útsynnings með éljagangi þangað til 11., þá var veður bjart og kyrrt og úr því mesta stilling, en henni fylgdi mjög mikil þoka í samfleytta 5 daga. Síðan oftast útsynningur, oft með miklum éljagangi og brimi til sjávarins. Nokkur snjór hefur fallið, en að mestu leyti tekið burt aftur í landsunnan rigningum. Síðasta dag mánaðarins féll mikill snjór með útsynningi. [Þann] 3. skall á með þrumugangi og eldingum, og sló einni þrumunni niður annaðhvort hér í bænum eða rétt hjá honum.
Fróði segir þann 10.:
Með nýárinu gekk i norðaustanátt með talsverðri snjókomu, en hún varaði aðeins 2 daga, gekk þá aftur í sunnanátt, og hefir þessa viku ýmist verið lítið eða ekkert frost, og snjóinn nokkuð tekið.
Skuld segir stuttlega þann 14.: Hér eystra blíðasta tíð það af er vetrar.
Þann 29. segir Þjóðólfur fréttir af veðri - einkum fyrir norðan:
Að norðan og austan er allt nýmælalítið: veðrátta, heilsufar og fjárhöld allt í besta lagi. Í bréfum úr Eyjafirði frá 12. og 13. þ.m. stendur: Vetur hinn besti, kuldi -35°R, en aftur hiti (+ 4 8°R.), en stormar og rigningar allmiklar norður að Vaðlaheiði, en stilltara og þurrara veðurlag úr því. Fiski allgott við Eyjafjörð, en ágætt í austursýslum. Hér syðra gengur umhleypingatíð.
Norðanfari segir af illviðri í pistli þann 30.janúar:
Hinn 21. þ.m. gjörði hér við Eyjafjörð aftaka mikið veður af suðvestri, skemmdust hús á nokkrum stöðum; bátar 2 í Svarfaðardal og 1 í Glæsibæjarhrepp fuku svo ekkert sást eftir af, fleiri bátar brotnuðu. Þilskipið Pólstjarnan", er stendur ásamt fleiri skipum á Svalbarðseyri, fauk á hliðina og brotnaði við það annað mastrið i henni. Eigi höfum vér enn haft spurnir af að fleiri skaðar hafi orðið að veðri þessu.
Skuld birti þann 30. bréf úr Vopnafirði, dagsett 17.janúar:
Veðrátta hefir verið hér eins og allstaðar, sem til fréttist, hin indælasta; jörð má marauð heita bæði til sveita og heiða, því þótt dálítið snjóáfelli gerði um nýár, hefir mestan snjó tekið síðan. Skepnur manna eru hér um bil í haustholdum, lömbum samt gefin hálf gjöf síðan um jól.
Norðanfari segir þann 24.febrúar frá tíð á Suðurlandi, eftir bréfi sem dagsett var 2.febrúar:
Veðurátta verið mjög rosa- og umhleypingasöm, til þess að stillti til með þorratungli um tíma, en með þorranum gekk í útsynningshríðar, stundum með frosti. Um jólin var afarillt og á nýársdag varla fært húsa á millum fyrir stormi og vatnskrapahríð, en snjó til fjalla, og fennti fé í Mýrdal, undir Eyjafjöllum og efst í Mosfellssveit.
Febrúar: Kuldakast síðustu dagana, en annars hagstæð tíð.
Ísafold birti þann 6.mars yfirlit Jónasar Jónassen um veðurlag í Reykjavík í febrúar:
Þótt veður væri nokkuð stöðugra í þessum mánuði en í janúarmánuði, þá má þó svo segja, að það hafi verið óstöðugt, þar sem hann sama daginn oft hefir verið á tveim áttum, hvass að morgni, logn að kveldi, eða hið gagnstæða. 5 fyrstu daga mánaðarins var útsynningur, oft hvass með éljum og talsverðri snjókomu, að kveldi oftast genginn í landsuður. 6. hægur að morgni á austan með nokkurri rigningu, að kveldi genginn í norður, og var nokkuð hvass á norðan 7. (með byl til sveita); 8. landnorðan hægur með mikilli snjókomu og 9. aftur hvass á norðan með byl að morgni; 10. hægur en 11. aftur mjög hvass á austan landnorðan með slettingsbyl, heiðskír og hægur að kveldi með rosaljósum; 12. hvass á landi, að kveldi rok á útsunnan með hryðjum; 13 aftur hægur á útsunnan, en að kveldi hvass á austan og 14. mjög hvass á austan landnorðan með nokkurri rigningu; 15. hægur á sunnan, veður bjart, að kveldi landnorðankaldi; 16. logn að morgni, en austangola að kveldi; 17. hægur við norður 18.20. hvass á norðan; 21. landnorðangola að morgni, landsynningur að kveldi með rigningu og 22. hvass á landsunnan með mikilli rigningu, en gekk í útsynning að kveldi; 23. og 24. útsynningshroði, hvass mjög með köflum; 25. besta veður, kyrrt, bjart og sama veður 26. en hvessti þá um kveldið á austan; 27. genginn í norður með byl; 28. og 29. norðan, nokkuð hvass. Nóttina milli 11. og 12. heyrðust hér þrumur.
Þjóðólfur segir þann 27.:
Veðrátta gekk fremur stirð fyrri hluta þessa mánaðar með fannkomum og áfreðum, en betri síðan. Hið besta útlit með fiskiafla hér fyrir nesjunum og eins suður með, og hafa flestir aflað vel í hvert sinn og róið hefir verið í þessum mánuði. Mildur en þó umhleypingasamur vetur eins á Norðurlandi.
Norðanfari segir þann 13.:
Veðurátta má heita að sé hin sama, sem að undanförnu í vetur, nema dag og dag, sem umskiptir til hins lakara, 7. og 9. þ.m. gerði hér talsverða hríð af norðri með mikilli snjókomu, en birti aftur upp báða dagana þá fram á daginn kom; færðin kvað nú erfið sem stendur og illkleyf fyrir hross í giljum.
Skuld birti þann 6.mars bréf úr Mjóafirði, dagsett þann 14.febrúar:
Einstakur hefir þessi vetur verið að gæðum, snjóleysi og veðurblíðum, svo að enginn man eftir svo góðum vetri. Á þorranum hefir tíðin verið að sönnu óstillt og hretviðrasöm, þó snjólítil, og fáir búnir að taka lömb.
Þjóðólfur segir af febrúartíð þann 12.mars:
Veðráttan í febrúarmánuði hefir oftast verið umhleypingasöm og stirð; fyrstu vikuna lengstum útsynningar með landsynning á kvöldin. Næstu vikuna var oftast norðanátt með köföldum til sveita, en stundum á austan; 3. vikuna á ýmsum áttum, oftast þó sunnan, og líku viðraði 4. vikuna, nema síðustu dagana var norðanátt allhvöss.
Fróði birti þann 16.apríl tvö bréf dagsett í febrúar:
Rangárvallasýslu, 14.febrúar: Rosa-veðráttan, sem hófst með veðraskiptunum 20 vikur af sumri, hefir haldist til þessa, þó með þeim mismun, að fram til jóla rigndi meira enn snjóaði, en síðan hefir mikið snjóað en lítið rignt öðru enn ísingu, þar til nú síðustu dagana að hláka hefir verið. Frost hafa raunar verið lítil, en lítið hefir verið um útbeit síðan fyrir jól, að minnsta kosti í hinum hálendari sveitum, bæði hér og ekki síður í Árnessýslu, því í útsynningum, eins og nú hefir verið, er snjókoma því meiri sem hálendara er. Færð hefir verið ill víða, því jörð hefir verið þíð undir snjónum. Mun póstur hafa fengið að kenna á því, svo og vermenn er farið hafa á þessu tímabili, enda hafa sumir frestað ferðinni og beðið betra færis er annars væri farnir.
Barðastrandarsýslu, 12. febrúar: Héðan af Vesturlandi er lítið að frétta; það sem af er vetrinum hefir tíðin verið mjög óstöðug og umhleyp[ingasöm]. Viðarreki hefir verið mikill í vetur um Rauðasand, Barðaströnd og Eyjahrepp og er það nýlunda.
Þann 13.mars birti Skuld nokkur bréf með stuttum tíðarfarsfréttum:
Húsavík, Þingeyjarsýslu 17. febrúar: Sama öndvegistíð enn, sem verið hefir í allan vetur. Austur-Skaftafellssýslu, 24.febrúar: Sama öndvegistíð hér í allan vetur, frostalaust og snjólaust að kalla má, en hrakviðrasamt nokkuð síðan jól. Breiðdal, 1. mars: Tíðin svo góð í vetur, að enginn man annað eins, enda þurftu menn þess eftir heyleysis-sumarið, og verður þó víst flestum fullörðugt, ef hart fellur vorið.
Fróði birti þann 31.mars bréf dagsett í febrúar í Kjalarnesþingi:
Héðan er helst að frétta óhemju votviðri, sem heita má að staðið hafi sífellt síðan viku fyrir réttir; hafa hús og hey skemmst stórlega og töluvert fallið af skriðum t.d. í Kjós.
Mars: Nokkuð kalt fyrstu dagana, fram til þ.10, en síðan afbragðstíð og óvenju hlýtt.
Þjóðólfur lýsir marstíð í Reykjavík í pistli þann 14.apríl:
Fyrstu daga mánaðarins var hann ýmist á norðan eða landnorðan, kaldur, oft hvass og 6. var blindbylur mestallan daginn á austan landnorðan og hélst hann þar til sunnudaginn 7. að hann gekk í landsuður með rigningu og hefir síðan mátt heita að hann einlægt hafi verið á austan landsunnan, stundum hvass, stundum hægur með mikilli rigningu. 25.- 28. var hér oft logn og bjart veður, síðan aftur austan landssunnan með nokkurri úrkomu. Síðan 8. hefir hér eigi sést snjór. Síðan 10. hefir hér ekki frosið að undantekinni aðfaranótt hins 13. þá var 2° frost.
Þjóðólfur birti þann 22.apríl bréf af Skógaströnd, dagsett 4.mars:
Tíðarfar mjög umhleypingasamt, en með frostaminnsta móti; jarðbönn eða mjög hagskarpt viða um Snæfellsnessýslu og Breiðafjarðardali, og lítur út fyrir, að vetrarfarið verði í þyngsta lagi í stöku stað.
Skuld segir þann 6.mars:
Helstu fréttirnar eru það, að vér höfum nú loksins fengið vetur. 26. [febrúar] gekk hann í garð með norðan-grimmd, 8° frosti, og daginn eftir 13°R. Svo dró úr frostinu, áttin austraði sig, og tók að kyngja niður snjó, og er nú yfir allt hið mesta fannfergi og fjallvegir allir lítt færir eða ekki, nema ef vera skyldi á skíðum. Póstur átti að koma hingað í dag (4.), en það er allt útlit á að það dragist, því líklegt er að hann hafi hreppt illa færð og líklega teppst i veðrunum. Allt fram að þessu hefir veturinn verið einmuna-mildur, þó umhleypingasöm hafi verið tíðin stundum. Sumstaðar hér í Fjörðum mun eigi hafa verið farið að kenna lömbum át, er áfellið kom nú.
Skuld segir þann 13.:
Hér hefir hlánað aftur vel eftir áfellið eystra; mild sunnanátt síðustu daga.
Fróði birti 16.apríl bréf úr Mýrasýslu, dagsett 18.mars:
Sumarið næstliðna var eitt hið besta, heyja-afli í betra lagi að vöxtum og í besta lagi að gæðum; veðuráttan breyttist í september til votviðra sem héldust að mestu leyti til ársloka; í október og nóvember hinar mestu rigningar sem menn muna, skemmdist ákaflega hey, eldiviður og fleiri hlutir. Í desember vægari rigningar, en snjóaði með köflum. Það sem liðið er af þessu ári má heita góð tíð, í janúar snjóa-lítið, en hörð frost stöku sinnum; í febrúar meiri snjór, oftast frostlítið, en stöku sinnum hart frost, komu þá allar skepnur á gjöf að fráteknum stöku hrossum, er eigi enn þá hafa þau réttindi; gengu hey upp í mesta lagi og urðu mjög ódrjúg vegna skemmda. Fyrstu 5 daga af mars, hvass landnyrðingur og hart frost, en síðan blíðustu sumarveður, sunnan átt með hægustu leysingu.
Fróði birti þann 20.apríl bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 23.mars:
Tíðin hefir verið hér í vetur mjög rosa- og umhleypingasöm en frostalítil; útigangspeningur er því heldur magur orðinn, og hey hafa mikil gefist, enda hafa þau reynst mjög létt nema taðan, sem hefir reynst með besta móti. Síðan í miðgóu hefir verið hér hin indælasta tíð, hláka og sunnanátt, er því sumstaðar farið að vinna á túnum og sumir farnir að slétta, stöku menn búnir að sleppa fé sínu.
Þjóðólfur segir almennar tíðarfarsfréttir þann 22.:
Einstaklega mildur og frostalítill vetur yfir allt land, þó miklu mildari í norður og austurhlutanum, því hér syðra hefir lengst af gengið umhleypingatíð, með hrakviðrum og enda snjóum með köflum; fénaður, sem beitt hefir verið, hefir og illa haldist við víða. Það virðist vera sannreynt, að sunnlenskt sauðfé þolir óvíða útigang þótt jörð sé auð, ef hrakviðri ganga. Af bréfi norðan af Sléttu (frá sjálfum norðurbaugi hnattarins) sjáum vér, að meðalhiti þar fyrir mánuðina nóv., des. og jan. hefir verið -0,5°R og mun fátítt mjög. Úr Axarfirði er oss skrifað: Óvenjulega snjólítill vetur en þó umhleypingasöm veðurátt. Bráðafár stingur sér hér niður, og hefir það sjaldan komið fyrir fyrri hér í skóg- og kvistlandi. Úr Jökuldal skrifar merkur maður oss: Langt er síðan að vér Austfirðingar höfum séð jafngóðan vetur; til jóla gat varla heitið að kæmi snjóföl í heiðum, því síður í byggð, og má heita ársæld hin mesta hjá oss til lands og sjóar. Allt fyrir það bryddir enn á vesturfararhug, helst í Vopnafirðinum, sem þegar hefir fengið mikinn hnekki við burtflutninga. Mikið skipast til hér í öskusveitunum, þótt mikið vanti enn á heyskapinn; hann er ekki enn það hálfa við það sem var. Fé verður samt mjög feitt, sem á öskunni gengur.
Norðanfari segir þann 24.mars:
Tíðarfarið hefir verið hið blíðasta síðan öndverðlega í þ.m., stöðug sunnanátt og þíður, svo nú er alveg öríst hér um sveitir og norður undan það spurst hefir.
Fróði segir þann 31.mars:
Úr Skaftafellssýslu er að frétta sömu öndvegistíð, nema nokkuð rigningasamt. Í vesturhlutanum einkum Mýrdal og Skaftártungu snjómeira seint í febrúar en í austurhlutanum.
Apríl: Mjög hlý og hagstæð tíð.
Þann 21.maí birti Ísafold tíðarfarsyfirlit aprílmánaðar í Reykjavík (eftir Jónas Jónassen), sama yfirlit birtist í Þjóðólfi þann 29.maí):
Fyrst framan af mánuðinum var veður hvasst á austan (landnorðan) með snjókomu til fjalla (2. var fjarskalegt rok á austan í nokkra klukkutíma), svo nokkra daga á norðan(5. 6. 7.). Síðan oftast ýmist við suður eða landsuður með nokkurri rigningu og stundum hvass; 8.11. var vindur sunnanlands stundum hvass; 12. og 13. á vestanútnorðan með miklum brimhroða og snjókomu til fjalla og hér varð jörð alhvít aðfaranótt hins 13; 14.21. hægur á landsunnan eða austan og vanalega bjart veður; 21.23. vestanútnorðanhroði mikill. 24. genginn í norður en hægur; 25. logn og fagurt veður; 26.30. 1andsynningur oft hvass og stundum með talsverðum rigningarskúrum.
Skuld birti þann 30.apríl bréf ritað undir Eyjafjöllum 2.apríl:
Vetrarfarið hefir mátt heita hér harðindalítið og frostalítið, og það svo, að jörð er með öllu klakalaus; eigi að síður hefir veturinn verið gjaffeldur sökum hrakviðra og áfreða, snjókrassa og þrávarandi storma, sem bakað hafa mestu ógæftir með allri sjávarsíðu.
Skuld segir af góðri tíð þann 7.apríl:
Tíðarfarið hér eystra hefir í vor verið ómunablítt, orðið snjólaust að kalla um allt um páska [28.mars] og tekið að gróa og grænka í byggðum. Fram um páska voru hitar miklir af og til (stundum 8 til 9 gr. í forsælu og 22 til 26 gr. sólarsinnis) og molluþokur og mistur með stillingum ýmist eða hægri sunnanátt. Eftir páskana gerði rosarigningar með austanátt og hefir það haldist til þessa (4.apríl), en þó er nú tekið að blíkka veðrið og linna rigningin. 3. þ.m. fölvaði litla stund svo gránaði ofan fyrir miðjar hlíðar, en fór jafnskjótt að taka upp aftur. [Hér má til gamans taka fram að óperan fræga Cavaleria rusticana gerist á páskadag 1880].
Þann 10.apríl greinir Skuld frá hlýindum:
Eskifirði, 9.apríl. Lengra að fréttist ekkert. Veðrið hefir nú snúist til einstakrar blíðu. Í gær [8.apríl] gekk hann til vestanáttar síðari part dags með miklum hita í vindinum, þó sóllaust væri. Kl. hálf-níu í gærkvöld var snarpur vestanvindur með nærri 10 gr. hita. Í morgun kl. 7 1/2 var 11 gr. hiti í forsælunni og síðan, er hann hvessti meir og sneri sér til suðurs, steig hitinn til 13°R [16,3°C], og hefir þó eigi sól séð.
Þjóðólfur segir þann 14.apríl:
Hvað þíður og hlýindi snertir, má vetur þessi kallast annálsverður, eins og sýna veðráttuskýrslur vorar. Þó hafa sjógæftir verið stopular það sem af vertíðinni er liðið. 2. apríl hvolfdi báti héðan úr bænum í austan roki, rétt fyrir utan Akurey; týndust 2 menn en 2 varð bjargað.
Þann 9.júní birti Fróði bréf úr Vestmanneyjum, dagsett 25.apríl:
Tíðin hefir verið hér mjög stormasöm í allan vetur og sífeldar rigningar, en varla komið snjór né frost. Sjógæftir hafa verið stirðar og þar af leiðir aflaleysi.
Maí: Allsnarpt kast í kringum þ.25., en annars mjög hagstætt tíðarfar.
Maíyfirlit Jónasar Jónassen birtist í Þjóðólfi og Ísafold 8.júní:
Hina 4 fyrstu daga var útsunnanátt, stundum hvass með miklum brimhroða, svo 1 dag bjart veður og hægur á norðan; síðan ýmist sunnan- landsunnan hægur með nokkurri rigningu eða bjart veður og logn til hins 17., að hann hvessti á landsunnan með mikilli rigningu, eu gekk strax til útsuðurs með brimhroða og skúrum, oft hvass, stundum snjóaði svo, að jörð varð alhvít, stundum með haglhryðjum einkum 23.; 24.28. á norðan hvass og kaldur með byl til sveita og allan daginn hinn 26. ýrði snjór hér úr lofti; 28. var hér bjart veður hæg útræna, er síðari hluta dags gekk til útsuðurs, hægur; 29.31. hægur á landsunnan með nokkurri úrkomu.
Fróði birti þann 9.júní bréf úr Breiðdal, dagsett 11.maí:
Sama veðurblíðan og áður, sem haldist hefir veturinn út og eins síðan sumarið byrjaði, nema hvað snarpari kuldaköst hafa komið síðan það byrjaði. Þessi kuldaköst eru orðin þrjú; hið fyrsta kom um kongsbænadaginn [23.apríl], annað um krossmessuna og hið þriðja um uppstigningardaginn [6.maí], fraus þá töluvert, 46 stig á Reaumur. Ekkert er hægt að finna að þessari tíð annað enn það, að hún er of þurr fyrir gróður og grasvöxt, þar sem vatnsveitingar eru því miður eigi nógu almennar, eður eins víða og þær mættu vera. Kýr voru leystar út víða með byrjun þessa mánaðar, eigi af heyskorti heldur vegna veðurblíðunnar, og munu þau dæmi fá, að kýr hafi hér gengið jafnsnemma úti. Heyfyrningar eru líka með mesta móti eftir veturinn, enda þótt hey væri með minnsta móti í haust.
Þann 21.maí segir Þjóðólfur:
Reykjavík 2. dag hvítasunnu [17.maí]: Eftir einhvern hinn mildasta vetur hefir til þessa gengið yfir oss óvenjulega blítt og indælt vor og veðurblíðunni fylgt öll önnur árgæska: stök heilbrigði manna, bestu skepnuhöld og hvað nálega allt suðurlandið snertir, framúrskarandi fiskiár. Upp í landsteina, inn í innstu víkur og voga hefir hin mikla auðlegð gengið mönnum í greipar, og afli sá, sem kominn er á land hér við allan flóann innanverðan, er að sögu gamalla manna orðinn einhver hinn almennasti og mesti að upphæð, sem komið hefði á land á einni vertíð um langan tíma.
Norðanfari birti þann 13.júlí bréf úr Austur-Skaftafellssýslu, dagsett 30.maí:
Vetrarfarið svo gott, að elstu menn muna eigi slíkt. Kvef og krankleikar hafa allajafna gengið hér í vetur og vor, en fáir andast. Fjárhöld fremur góð nema sumstaðar fórst úr fári. Heybjörg var neyðarlítil í haust en samt komust allir vel af og gróður kom snemma á einmánuði enda er flest fé úr ullu gengið. Næstliðna viku var hér snjókoma og kalsaveðrátta með talsverðu frosti, en í gær var besta veður og væta. Aflabrögð hafa hér í sýslu svo að segja engin verið þessa liðnu vertíð og þykir það mestu furðu gegna í svo góðri tíð, sem stöðugt hefir gengið.
Júní: Sérlega hagstæð tíð.
Þann 16.júlí birti Ísafold yfirlit Jónasar Jónassen um tíðarfar í Reykjavík í júní - yfirlitið birtist einnig í Þjóðólfi 26.júlí:
Þennan mánuð má segja, að veður hafi yfir höfuð verið einstaklega hlýtt og gott; fyrstu viku mánaðarins var veður stillt (oftast logn) með talsverðri úrkomu; 8. var hvasst á norðan, en svo aftur hægur, ýmist á austan eða sunnan með rigningaskúrum, þangað til 18., að hann var hvass á austan, en bjart veður; síðan var veður bjart og stillt til hins 24., að hann gekk til landsuðurs í nokkra daga, svo aftur logn eða útræna og besta veður.
Fróði birti þann 12.ágúst bréf úr Ísafjarðarsýslu, dagsett þann 2.júní:
Svo ég fylgi gömlum sið, þá er fyrst að geta veðráttunnar. Hún hefir verið hér, eins og víst um allt þetta land í vetri var, einhver hin mildasta er menn muna. Hinar fáu frostíhleypur sem komu stóðu sjaldan lengur enn rúman sólarhring, og frost mun hafa verið mest 12°R [-15°C]. Einkanlega var síðari hluti marsmánaðar og svo að segja allur apríl sérlega mildur, enda var hitinn alloft 8 l/2°R [10,6°C] í skugganum. Þrátt fyrir þessi miklu hlýindi hafa hér gengið bæði í vetur og vor miklir umhleypingar og stormar, einkum hvað sjóinn snertir, og mjög sjaldan komið lognstund dægri lengur. Þetta er hér nýlunda um jafnlangan tíma, því venjulega er hér regnlítið, og staðviðri miklu langvinnari heldur enn á Suðurlandi og í syðri hluta fjórðungs vors. Gróður er því kominn hér hinn álitlegasti, sem ég man eftir á þessum útkjálka, jafn snemma á vori.
Norðanfari birti 5.júlí bréf úr Miðdölum í Dalasýslu, dagsett 5.júní:
Tíðarfarið er hið æskilegasta og það síðan í miðgóu, heyfyrningar með mesta móti, skepnuhöld víðast góð, gróður kominn jafnt og á Jónsmessu þegar vel vorar, góða tíðin hefir á mörgum stöðum verið notuð til jarðabóta, kálgarða- og húsabygginga, og það byrjað á einmánuði; víða á sumarmálum búið að vinna á túnum.
Norðanfari birti þann 25.júní bréf úr Seyðisfirði, dagsett 12.júní:
Veturinn var einmuna góður. svo að dæmi til slíks vetrar, mun eigi hafa verið síðan seinasta aldamótsveturinn [1800 til 1801 væntanlega]. Ég gaf lömbum inni 2 vikur og ám í l 1/2 viku, sumstaðar var lömbum eigi kennt át. Kýr voru viða leystar út fyrir sumar, og það jafnvel 2 vikum, og til vissi ég að kýr voru leystar út ú 2 eða 3 bæjum á góu; það má því hafa verið dæmalaust skeytingarleysi hafi nokkur orðið bjargþrota af heyi í slíkum vetri, og samt mun það eigi dæmalaust. Núna fyrir farandi, hefir verið norðaustan kuldahret. Afli kom hér snemma i vor, en fremur hefur hann verið lítill til þessa.
Júlí: Óvenju hagstætt tíðarfar, þurrkar víða.
Yfirlit Jónasar Jónassen um veðurlag í Reykjavík í júlí birtist í Ísafold þann 18.ágúst [og í Þjóðólfi þann 26.]:
Eins og í undanfarandi mánuði hefir veðuráttan þennan mánuð verið einstaklega blíð og stillt. Fyrstu 5 daga mánaðarins var veður bjart og logn, aðeins nokkur úrkoma hinn 4.; 6. og 7. var norðankuldi en úr því oftast logn til hins 14. að hann gekk til suðurs, en þó lygn með nokkrum sudda í 2 daga, svo aftur bjart veður og stillt með lítilli úrkomu við og við á landi, þangað til 25. að hann gekk til norðurs, oftast hægur og bjartasta veður (hvass 29. á norðan).
Norðanfari birti þann 17.ágúst bréf dagsett á Suðurnesjum 1.júlí:
Tíðarfar eitthvert hið besta og blíðasta er menn muna. Aflabrögð af sjó hafa verið þau bestu síðan í vor og mest af þorski, en síðan kaupafólk lagði af stað, eru menn hættir að stunda sjóinn, því að nú eru allir í óða önn að koma frá sér fiskinum í kaupstaðina og þá er komið að því að menn byrji sláttinn. Tún eru sprottin í góðu meðallagi, og sumstaðar ekki.
Í sama blaði [17.ágúst] eru tvö bréf úr Skagafirði og eitt úr Vestur-Ísafjarðarsýslu:
[Skagafirði 3.júlí] Nú um tíma hafa hér verið miklir þurrkar en frost um nætur.
[Skagafirði 30. júlí] Héðan er ekkert að frétta, nema eins og allstaðar að, góða og indæla tíð, heilsa og heilbrigði yfir höfuð hér i sveit. Grasvöxtur mun vera, að undanteknum flæðiengjum, í rýrara lagi; tún í meðallagi sprottin, þar sem þau eru raklend og jafnvel sumstaðar í betra lagi, en þar sem harðlend tún eru, er viða kominn í þau maðkur og brunnið mjög af hólum og harðvelli. Eftir því sem leit vel út fyrri part vorsins að yrði gott grasár, þá hafa þeir langvinnu þurrkar sem verið hafa, gjört það að verkum, að það varla mun mega heita í meðallagi.
[Vestur-ísafjarðarsýslu 31. júlí] Öndvegistíð hefur mátt heita síðan í endaðan maí, tún sprottin í betra lagi í öllum vesturparti sýslunnar og sumstaðar eins og þá best hefur verið, en í norðursýslunni miður. Nýting á töðu hin besta. Fiskiafla á vorinu, getur maður kallað í meðallagi hér vestra; þó við Ísafjarðardjúp hafi hann verið mjög misjafn, þá hafa þó margir þar náð allháum hlutum, þeir hæstu saltað úr 4050 tunna af salti.
Fróði birti þann 20.júlí bréf úr Reykjavík, dagsett þann 9.:
Hér ganga sífelld góðviðri, stillingar og hitar miklir, bæði næstliðinn mánuð [júní] og það af er þessum, hefir hitinn náð hæst á 16°R [20°C], en heldur hefir verið lítið um skarpa þerrira, nema fyrstu dagana af mánuði þessum.
Fróði birti þann 12.ágúst bréf úr Skaftafellssýslu, dagsett 11.júlí:
Sama öndvegistíðin hér í sýslu sem annarstaðar. Síðara hlut vorsins hefir að vísu verið fremur þurrkasamt, og kuldakast upp úr Trínitatis [23.maí] kippti mikið úr gróðri og spillti einkum vexti á kálrófum, sem þá var nýsáð. Þó eru hér tún og flest harðlendi í besta lagi vaxið, og mun allstaðar vera farið að slá; votengi hefir dregist aftur úr.
Fróði segir frá tíð á Akureyri og grennd þann 20.júlí:
Það sem af er þessu sumri hefir verið heitt. Kuldaköst komu að sönnu stöku sinnum í vor, það síðasta í öndverðum júní. Síðan hefir hver dagurinn verið öðrum heitari oft 15°R í skugga. Alltaf hafa verið þurrviðri og mjög sjaldan rignt, grasspretta hefir því eigi orðið eins góð og ætla mætti, tún eru að vísu víðast með betra móti og sömuleiðis vatnsveitingaengjar, aðrar engjar eru aftur víða varla í meðallagi ennþá. Almennt var byrjað að slá 12 vikur af sumri.
Þann 31.júlí birti Fróði bréf úr Borgarfirði, dagsett 15.júlí:
Héðan er að frétta hina sömu árgæsku til lands og sjávar sem hvaðanæva spyrst. Veturinn eymunagóður; að vísu allmiklar rigningar framan af, en síðara hluta vetrar og vorið allt hefir verið æskileg veðrátta; í júní og júlí daglegur hiti 1416°R., og einstöku sinnum 20°; skúrir alloft, svo grasið hefir þotið upp; tún jafnvel sprottin á krossmessu sem vanalega í fardögum, og var sumstaðar byrjað að slá þau um jónsmessu. Gróðfiski í öllum veiðistöðum. Akurnesingar, sem i hitt eð fyrra voru á dauðans nöfinni, hafa nú full hús matar og geyma meginið af sölufiski sínum til 25. ágúst að minnsta kosti.
Þjóðólfur lofar tíð þann 28.júlí:
Veðráttan hefir til þessa verið öndvegistíð til lands og sjávar, mjög líkt sem í fyrra sumar. Grasvöxtur yfir höfuð góður, nema á starengjum í minna meðallagi. Þorskafli, einkum á þilskipum, með mesta móti, nálega hvervetna fyrir sunnan og vestan land. Hjá Frökkum hér við land er því hið mesta veltiár. Bæði hér syðra og fyrir vestan kvarta menn um skemmdir á saltfiski sökum sólbruna.
Ísafold segir af grasvexti og tíð á Suðurlandi þann 30.júlí:
Grasvöxtur er sunnanlands yfir höfuð góður á túnum og vallendi, en bágur á útjörð. Í Flóanum sjást sumstaðar enn þá ljáför frá því í fyrra sumar. Síst eru tún í Skaftafellssýslu enda hafa þar til skamms tíma gengið breyskjuþerrar með hitum og sólskini. Vestar hefir í hálfan mánuð verið þerrilítið með mollum og deyfum. Heilsufar allstaðar syðra gott manna á meðal. Laxveiði er góð í Ölfusá, en heldur lítil í Þjórsá.
Ágúst: Óvenju hagstætt tíðarfar, þó var mjög óþurrkasamt vestast á landinu og syðra voru einnig óþurrkar síðustu vikuna.
Yfirlit Jónasar um veðráttufar í Reykjavík í ágúst birtist í Þjóðólfi þann 11.september:
Fyrstu viku mánaðarins var oftast logn og bjart veður en úr því hefir verið mesta óþurrkatíð, því síðan 7. þ.m. hefir ýmist verið landsunnanátt eða útsynningur með mikilli úrkomu, stundum mátt heita ofsaveður með aftaka rigningu t.d. 27.
Norðanfari birti þann 17.ágúst bréf dagsett á Melrakkasléttu þann 8.ágúst:
Héðan er allt hið besta að frétta. Það er nú komið heilt ár, sem tíðin hér hefir verið svo góð og æskileg, að elstu menn (fæddir um og fyrir aldamótin [1800]) muna ekki annað eins árferði. Hér i Norður-Þingeyjarsýslu allri mega túnin heita ágæt, en engjar eru að minnsta kosti enn lélegar; nú voru þó vætur fyrri hluta hundadaganna, og geta því slægjur enn batnað. Í fyrra fór úthagi ekki að spretta í neinu lagi, fyrr en í ágústmánuði.
Skuld á Eskifirði segir þann 14.ágúst:
Tíðin hefir verið einstök hér eystra í sumar, einlægir hitar og varla eða aldrei komið dropi úr lofti fyrri en um mánaðamótin, sem leið, að dálítið rigndi; nú eru aftur þurrkar.
Fróði birti þann 27.september bréf frá Patreksfirði, dagsett þann 28.ágúst:
Grasvöxtur á túnum hefir verið góður, svo og á harðvelli utan túns, en allt votlendi hefir illa sprottið. Vætutíð hefir verið hin mesta í allt vor og það sem af er sumrinu, nema einn hálfsmánaðar tíma um túnasláttinn; eiga því allir hér um sveitir mikið hey úti; flestallir hafa enn eigi alhirt tún, svo eigi lítur vel út með heyafla, ef eigi batnar tíðarfar innan skamms, og mun hey sumstaðar þegar vera farið að skemmast nokkuð. Síðan um skipti í septembermánuði öndverðum í fyrrahaust má heita að sífelld sunnanátt hafi gengið, en það er hin mesta vætuátt hér, því þá stendur af Breiðafirði, og fylgja því ávallt köföld á vetrum eða önnur úrkoma, en rigningar og þokur á sumrin. Stormar hafa og verið tíðir. Vorið var því eitthvert hið mesta ógæftavor, og einnig hin mestu vandræði að þurrka fisk þann, er fékkst, en salt fæst hér oft eigi nóg í verslununum, til að salta fiskinn; maðkar hann svo niður og skemmist hjá fólki, þegar óþerri-vor koma. En þrátt fyrir ógæftirnar munu þó hér hafa orðið meðalhlutir, því þegar gaf, voru allir firðir fullir af fiski inn i innstu botna, og enn fiskast inni á firði hér, þegar það er reynt.
Norðanfari birti þann 9.október tvö bréf að vestan, dagsett seint í ágúst:
Úr Rauðasandshrepp í Barðastrandarsýslu 23.ágúst: Veðuráttufarið er hér jafnan mjög líkt og á Suðurlandi. Fiskur var hér, sem þar, nægur, en ógæftir miklar. Grasvöxtur í sumar hefir verið góður eða jafnvel í besta lagi á túnum og harðvellis-engjum, en slæmur á öllu votlendi. Óþerrar hafa verið sífelldir í allt vor og sumar, að einum hálfum mánuði undanteknum um næstliðin mánaðamót (júlí og ágúst) og eiga menn því almennt úti af heyi, sem liggur undir skemmdum, ef líkri tíð heldur fram lengur; víða mun taða eigi alveg hirt enn.
Af Ingjaldssandi í Ísafjarðarsýslu 31.ágúst: Tíðin hefir verið mjög votviðrasöm, aldrei komið þurr dagur í öllum ágúst; ekkert af útheyi svo teljandi sé komið í garð.
September: Óstöðugt og úrfellasamt.
Ísafold birti þann 13.október septemberyfirlit Jónasar Jónassen um veður í Reykjavík:
Fyrstu 4 dagana var oftast logn með talsverðri úrkomu; 5. og 6. bjart veður, norðangola; síðan í 3 daga sunnanátt með mikilli rigningu, svo aftur oftast logn og bjart veður frá 10.14; 15. og 16. útsunnan, hægur með talsverðum rigningarskúrum ; 17.20. mjög hvass á norðan (oft hvínandi rok), en úr því oftast hæg austanátt með vætu. [16. féll snjór í miðja Esju, en tók skjótt aftur.]
Í Þjóðólfi þann 22.september er bréf úr Rangárvallasýslu (ódagsett):
Síðan í byrjun ágústmánaðar hefir gengið hér rigningatíð til stórskaða og skemmda á heyaflanum, en grasvöxtur var með besta móti yfir höfuð að tala einkum á túnum, valllendi og allri áveitujörð.
Fróði birti þann 16.október bréf úr Þórsnesþingi á norðanverðu Snæfellsnesi, dagsett 19.september:
Tíðarfarið var hér hið æskilegasta fram að endir hundadaga. Tún spruttu með besta móti og töður hirtust mæta vel. En þegar menn fóru að slá engi voru allar þurrlendar mýrar mjög snöggar, eyjar aftur á móti allflestar og vallendi vel sprottið, en nú komu óþerrar og ofviðri af sunnanátt. Af þessu leiðir að heyjaafli utan túns verður yfir höfuð að tala lítill og slæmur. Sumt af útheyjum er nýlega hirt illa þurrt og sumt hrekst úti enn, og er útlitið hið bágasta. Í gær og dag er norðan ofviðri með snjógangi.
Norðanfari birti þann 9.október bréf úr Reykjavík, dagsett 23.september:
Óþerrar og mollur gengu 3 vikna tíma, svo úthey hraktist og nú gjörði hér ofsaveður norðan, dagana 17.19. [september] Fjöll urðu alhvít af snjó. Nóttina þess 18. sleit hér upp skip á höfninni tilheyrandi P.C. Knutzonsverzlun, og rak upp að Bólverki (hafnargirðingunum) og brotnaði, svo það var selt í gær við uppboð, með einu mastri og bugspjóti fyrir 212 kr. Í gær og í dag heiðríkt og logn.
Þann 4.nóvember birti Þjóðólfur frétt um hrakninga í september:
[Fjórða október] hleypti hér inn fiskiskúta af Vestfjörðum, Ane Sophie, skipstjóri Bjarni Kristjánsson. Hafði hún hreppt háska mikinn og hrakninga af stormum og hrakist tvívegis suður fyrir land og langt út í haf. Þann 17. september voru þeir staddir í miðri Látraröst í ofsaroki, og ófærum sjó; tók þar út 3 háseta af skipinu. Skútan var mjög löskuð, er hún loksins náði höfn, enda hafði hún forn segl, og voru þau ónýt orðin.
Fróði birti þann 18.nóvember bréf úr Árnessýslu, dagsett ótilgreindan dag í september:
Kalla má að veðurblíðan hafi haldist stöðugt til þessa; þó einstöku sinnum hafi hvesst eða kólnað nokkuð. Þá hefir það aldrei varað lengi. en oftast verið lygnt og hlýtt. Þar á mót hefir síðari hluti sláttarins verið að mun vætusamari en framan af. Hefir engjahey manna því töluvert hrakist; þó er það nokkuð misjafnt. Í útsveitum sýslunnar hafa þurrkdagar verið fæstir því þær liggja við Hellisheiðar- og Þingvallasveitarfjallgarðinn, en alkunnugt er, að úrkomur dragast mest að fjöllum. Í uppsveitunum, einkum austan til, hafa þurrkdagar verið nokkru fleiri, enn einna flestir í framsveitunum, en þar er aftur votlendast. Nú eru víst allir búnir að ná heim heyjum sinum, því nokkra þurrkdaga gerði samfleytta fyrir og um fjallleitatímann.
Október: Spilltist tíð og gekk í vetur, oft bjartviðri syðra.
Þann 9.nóvember birtist októberyfirlit Jónasar í Ísafold:
Hina 5 fyrstu dagana var veður bjart og logn, norðangola til hafsins, 6. og 7. sunnangola með nokkurri rigningu; 8. logn, dimmur; 9. landsunnan með mikilli rigningu seinni part dags; 10.12. útsunnan, hvass, með hryðjum ; 13.16. hægur á útsunnan með rigningu við og við; 17.23. við norður, oftast logn og bjart veður; 24. sunnanátt með rigningu, en eftir hádegi hvass á útsunnan með miklum hryðjum; 25.28. bjart veður, við norður; 29.útsynningur, hægur með rigningu; 30. og 31. á norðan, bjartur, nokkuð hvass.
Þjóðólfur segir þann 12.október:
Með póstum er að frétta góða tíð, einkum að norðan. Þó gjörði víða snjókast mikið í byrjun rétta. Heyafli hinn besti um allt Norður- og Austurlandið, en miklu endasleppari varð heyskapur á Suðurlandi og enda sumstaðar á Vesturlandi, og hröktust hey allvíða, t.d. í efri hreppum Árnessýslu.
Fróði segir þann 16.október:
Eyjafirði 16.október: Heyskapur hefir í sumar gengið mætavel hér í firðinum. Þerrar voru stöðugir mestallan sláttinn og þornaði því heyið jafnóðum og slegið var. Heyfengur mun allstaðar vel í meðallagi og sumstaðar nokkuð meiri; einkum munu töðurnar hafa verið með mesta móti. Vegna kuldakastanna í vor og hinna miklu þurrka í sumar var grasspretta víða ekki góð; hálfdeigjur spruttu laklega en vatnsveitingarengi mjög vel og harðar grundir allvel. Fyrir því að heyskapartíðin var svo æskileg höfðu margir lokið við engi sitt í 19.20. viku sumars og hættu þá heyskap, en þeir sem engi höfðu voru við hey til þess í 22. og 23. viku sumars. Úr Staðarbyggðarmýrum hefir heyfengur í sumar orðið venju fremur mikill; síðan farið var að skera mýrar þessar fram og veita á þær vatni, hafa þær sprottið betur enn áður, en einkum er orðið léttara að afla, hey í þeim; í sumar var þar víða þurrkað hey er áður höfðu verið djúpar keldur. Kartöflurækt hefir í nokkur ár verið mikið stunduð á Akureyri og hefir heppnast vel (bregst þar helst í köldum votviðrasumrum). Í sumar hafa kartöflur sprottið þar með betra móti; nálægt 40 búendur hafa þar kartöflugarð. ... Veðrátta hefir verið mikið góð í allt haust, stillingar lengst af og úrkomur nokkrum sinnum, aldrei hart frost en oft nokkurt frost; í gær [15.október] kom hér [Akureyri] snjór í fyrsta sinni að nokkrum mun, dreif hann niður í logni og frostleysu.
Þann 30.október birti Fróði bréf úr Múlasýslu, dagsett þann 12.:
Veðrátta hefir í haust verið úrfellasamari en í sumar og eftir þann 20. [september] snjóaði töluvert i fjöll og enda festi í byggð. Um mánaðamótin kom norðanátt og talsvert frost nokkra daga svo jörð fraus, en svo er hún nú aftur orðin þíð og komin blíð tíð, þessa dagana.
Nóvember: Illviðratíð. Mikið frost um miðjan mánuð.
Ísafold birti þann 21.desember yfirlit Jónasar um veður í Reykjavík í nóvember, auk fréttar af skipskaða - yfirlit Jónasar birtist einnig í Þjóðólfi 11.desember:
Veðurátta hefir verið þennan mánuð fremur óstöðug, og um tíma (frá 13.18.) mjög köld; [tvo] fyrstu dagana var veður bjart, austankaldi; 3. hvass á sunnan með mikilli rigningu, en lygn að kveldi, og sama veður 4., en 5. var logn að morgni og dimmviðri, en síðari hluta dags hvass á landnorðan með krapaslettingi, og urðu öll fjöll héðan að sjá alhvít; 6. hægur á austan með nokkurri snjókomu, að kveldi rokinn á norðan; 7. hvass á norðan; 8. blindbylur og hvass á landnorðan að morgni, að kveldi genginn í landsuður með rigningu og síðan á vestan; 9. vestanútnorðan með brimhroða, en hægur allan daginn; 10. og 11. hæg austangola með rigningu; 12. aftur hvass á norðan með blindbyl; 13. hvass á norðan ; 14.20. hægur við austanátt, oftast bjart veður; 21. mjög hvass á landnorðan með rigningu, að kveldi genginn í útsuður hægur; 22.27.hæg austanátt, oft logn ; 28.29. nokkuð hvass á norðan (með byl til sveita); 30. logn og fagurt veður.
Skipskaðar. Mánudaginn þ. 22. nóvember fórst áttróið skip af Akranesi á ferð úr Reykjavík uppeftir með 7 manns. ... Dimmt var farið að verða, er þeir fóru af stað, og barst þeim á, eins og oftar vill til, á heimferðinni úr Reykjavík.
Fróði (á Akureyri) segir þann 18.nóvember:
Í næstliðinni viku féll hér mikill snjór í norðaustanhríð. Þessa viku hefir verið stilling það af er, en frost mikið; varð það 19°R [-23,7°C] á sunnudaginn [14.nóvember], og mun jafnmikið frost hér sjaldgæft, þá eigi er lengra liðið vetrar. Í Skagafirði er einnig fallinn mikill snjór.
Norðanfari birti þann 22.desember tvö bréf að austan, dagsett í nóvember:
Jökuldal 24. nóvember: Veðrátta hefir verið hér mjög stirð síðan seint í októbermánuði. Af og til norðaustan hríðar með áköfum frostbitrum, mesta frost 22°R [-27,5°C]. Það var 13.þ.m, má það heita óvanaleg helja svo snemma vetrar. Nú þessa síðustu daga er austanátt og bleytur, lítur út fyrir hagleysur ef þessu heldur fram.
Völlum 27. nóvember: Héðan er fátt að frétta nema harðindi mestu síðan um veturnætur; mikill snjór hér um allar ytri sveitir héraðsins, en betra til dala, einkum Fljótsdals. Afli er sagður til fjarða ef gæftir væru.
Desember: Mjög köld illviðratíð. Óvenjuhart frost.
Ísafold birti þann 11.janúar 1881 yfirlit Jónasar um veður í Reykjavík í desember:
Þar sem allur fyrrihluti þessa mánaðar var fremur frostalítill, hefir allur síðari hluti hans (frá 13.) verið einhver hinn kaldasti, er elstu menn muna, því ekki einungis hefir frostharkan verið geysi-mikil, heldur hefir hin kalda norðanátt haldist óvenjulega lengi. Snjór hefir fallið mjög lítill. Fyrstu 2 dagana var veður stillt og bjart en 3. hvasst á austan með blindbyl, en logn að kveldi með nokkurri rigningu; 4. og 5. hægur á landsunnan með rigningu ; 6. hægur útsynningur að morgni, en bráðhvass að kveldi og sama veður tvo næstu dagana, en þó vægari með hryðjum; 9. hvass á landnorðan með byl að morgni, gekk svo til eftir miðjan dag og fór að hvessa á útsunnan og varð úr því fjarskalegt ofsaveður, sem hélst við allt kvöldið og næstu nótt fram til morguns hinn 10., að hann lygndi, og var þann dag hægur útsynningur með slettingsbyl um kveldið; 11. og 12. aftur hvass á útsunnan, gekk svo 13. í norðanátt til djúpanna, en hér í bænum var þann dag og eins 14. og 15. hæg austangola; 16. landnyrðingur, hvessti er á leið daginn og var bráðviðri á norðan til djúpanna og frá 17.30. einlægt norðanbál með grimmdarhörku; einkum var veðurhæðin mikil 27. og 28. og lagði sjóinn, svo að menn hinn 30. gengu eigi aðeins út í Akurey, Engey og Viðey, heldur og upp á Kjalarnes. Ofangreinda daga (17.30.) var hér í bænum oft logn, þótt norðanrok væri inn að eyjum; 31. breyttist aftur veðurátta, er hann gekk til landsuðurs með talsverðri rigningu, en að kveldi dags var hann aftur genginn í útsuður með miklum brimhroða.
Norðanfari birti þann 13.janúar bréf úr Hrútafirði, dagsett 3.desember:
Næstliðið sumar mátti heita ágætt nema að því leyti, að grasbrestur var víða á útjörð, en tún spruttu almennt vel. Fyrir réttir spilltist tíðin, og þá gjörði hið óminnilega skot, því að þá fennti féð í hópum hér á vesturfjöllunum og var að finnast dautt og lifandi fram eftir öllu hausti, sem var hér gott, en síðan 2 vikur af vetri hafa gengið einlægir umhleypingar og hagleysur.
Þjóðólfur segir þann 11.frá miklu illviðri:
Að kvöldi þess 9. þ.m. kl.10. skall hér á útsynningsrok svo mikið, að ekki þykir hér hafa komið maki þess, nema ef skyldi vera ofviðrið, þegar póstskipið Sölöven fórst undir Jökli [27.nóvember 1857]; fylgdi því hellirigning krapakennd, og hélst það þannig víð til kl.2 um nóttina, þá hætti úrfellinu, eins og hendi væri veifað, og varð heiðbjart, loft á svipstundu og norðurljós; rokið hélst samt hið sama allt til kl.4, um morguninn, og fór þá smátt og smátt að hægja, og var komið allgott veður kl.6 um morguninn. Gjörði veður þetta mikinn skaða hér í nágrenninu en lengra að hefur enn ekki frést; bátar skip og hjallar fuku víða og brotnuðu í spón, bryggjur og bólverk þurrkuðust burt í Hafnarfirði, og víða fleygðust skíðgarðar um hér í bænum og það sem laust lá, fauk víðsvegar langar leiðir, svo sem borðviður og tunnur. Eitt hús hér hreyfðist á grunninum svo að sprungið hafði kalkið frá fótstykkjunum, og úr þeim sátu flísar fastar í kalkinu. Minnisvarði einn (P. Gudjohnsens), sem var stór og fagur, úr steini, fauk um og brotnaði, og hafði veðrið raskað mörgu á kirkjugarðinum. Skip eitt lá hér á höfninni, það sem þeir kaupmaður Jón Guðnason og Agent Lambertsen komu á frá Englandi í fyrra mánuði og rak það með akkerum og festum allt inn undir Laugarnes, bar þar að klettum og brotnaði svo mikið, að það sökk, þegar í sjóinn hækkaði, en skipverjar komust af. Var lítið eitt af vörum í því helst kol og salt. Skipið er eign hr.Lambertsens, og er sagt að það ekki muni hafa verið í ábyrgð, og er það tilfinnanlegur skaði fyrir eigandann, ef svo hefir verið.
Þann 21.desember birti Ísafold fréttir af skipsköðum og illviðri:
[Níunda] þessa mánaðar fórst skip með 6 mönnum frá Vatnsleysum á Vatnsleysuströnd. Það hafði lent (hleypt) úr róðri sunnar á Ströndinni, en lagði þaðan heimleiðis um kvöldið í hálfdimmu, og ætla menn það hafi farist skammt fram undan Vatnsleysuvörinni. Formaðurinn var Gísli Bjarnason, ungur maður og efnilegur, nýkvæntur. ... 16. þ.m. drukknuðu 5 menn af skipi frá Lambastöðum á Seltjarnarnesi. Það var á uppsiglingu úr fiskiróðri í norðanstórviðri, hafði alda tekið sig upp rétt við skipið og gengið yfir það, svo að fyllti og hvolfdi þegar. Menn allir, 7 að tölu, komust á kjöl, en skoluðust af honum aftur og drukknuðu allir, nema formaðurinn og annar til, sem Hjörtur bóndi Þorkelsson í Melshúsum bjargaði, þeir sem drukknuðu, voru allir frá Lambastöðum, nema einn.
Aðfaranótt hins 10. þ.m. gerði ofviðri svo mikið af vestri, að fullorðnir menn þykjast ekki muna slíkt. Varð af því skaði mikill á skipum við sjó og heyjum í sveit. Það vildi til, að smástreymt var, annars telja menn víst, að skipastóll hér með sjó hefði sópað burt, og jafnvel mörgum bæjum. Þá rak upp af Reykjavíkurhöfn upp í Laugarnes þilskip þeirra Lambertsens og Jóns kaupmanns Guðnasonar, og komust menn af. Einn bóndi á Álftanesi missti allan sinn skipastól, áttæring góðan, sexæring og bát. Margir fleiri misstu og skip, eða náðu þeim meir eða minna brotnum. Hjallar veltust um og brotnuðu og þak rauf af húsum. Nú ganga menn hér um kaupstaðina, að reyna til að fá timbur í skip í stað þeirra, er fórust, en kaupmenn eru timburlausir. Sagt er að bóndi nokkur hafi orðið nýlega úti í Flóa.
Norðanfari birti þann 13.janúar 1881 frétt af slysi í Laxárdal í Þingeyjarsýslu:
Á næstliðinn annan í jólum, fóru 2 vinnustúlkur frá Þverá í Laxárdal í Þingeyjarsýslu, er hétu Jóhanna og Elíza, yfir í Kasthvamm, hvar þær töfðu lítið og svo þaðan yfir í Halldórstaði og dvöldu þar til þess kl. var 45 um nóttina, og þá komin hríð en kjurt, lögðu samt af stað af því að ekki var nema til næsta bæjar að fara en bæjarleiðin er liðugur [fjórðungur] mílu [um 2 km] og ekkert að glöggva sig við, sakir myrkurs og hríðarinnar en þegar þær voru nú farnar skall hvassviðrið á; allt fyrir það treysti fólkið á Halldórsstöðum því, að þær mundu hafa sig heim, og á Þverá talið víst, að þær mundu vera á Kasthvammi eða Halldórsstöðum, en þá hríðina lægði 3 eða 4 dægrum síðar, voru stúlkurnar eigi komnar heim, var þá þegar safnað mönnum og leitað til þess þær fundust á nýársdag, norðanvert við svonefnda Skollahóla, sú yngri dáin en hin með lífsmarki, eftir að hafa legið úti 10.dægur, [5 sólarhringa] en dó litlu síðar ... Líka hefir og piltur orðið úti fyrir nokkru síðan frá Svínadal í Kelduhverfi, ... og sendur hafði verið upp að Mývatni, en eigi fundinn. Það hefir og frést hingað, að maður hafi í nefndri stórhríð átt að verði úti í Skagafirði en eigi frést hingað hver sá var. Allir firðir og víkur hér nyrðra fylltust þá með hafís ...
Þann 29.janúar birti Norðanfari bréf úr Þistilfirði, dagsett 30.desember:
Grófustu harðindi, jarðlaust yfir allt síðan í þriðju viku vetrar. Næstliðna 8 daga hafa verið vonskuhríðar með 1418° frosti. Nú í dag þegar birti, huldi hafís allan sjó að hafsbrún. Stúlka varð úti snemma á jólaföstunni, sem fór frá Sveinungsvík og ætlaði að Ormalóni, og er hún ófundin enn.
Í sama blaði er einnig bréf úr Axarfirði, dagsett 15.janúar - þar segir meðal annars:
Héðan er fátt tíðindavert utan hvað tíðarfarið er eitt hið grimmasta, sem elstu menn muna, sakir frosthörku og veðurvonsku á jólaföstu byrjun. Um jólin voru hér vonskuhríðar, og á þriðja dag jóla var hér hið versta veður, sem komið getur með 20 stiga frosti, og er sú frosthæð tíðust um þessar mundir. Jökulsá bólgnar og hleypur svo hér um sandana, sem nefndir eru, vegna frosta og stórhríða, að út lítur fyrir, að hún eyðileggi suma bæi hér í sveit, á Hróarstöðum, mátti flýja með gripi fyrir nýárið, vegna hlaups, sem fór í húsin og í næsta hlaupi fór í bæjarhúsin þar og á fleiri bæjum eru hús í voða. Hafís kom hér að landi um jól, en fór hér af firðinum aftur í sunnanhláku, sem kom hér eftir nýárið, ... Í hríðunum millum jóla og nýárs, tapaðist frá fjárborg við sjó á Presthólum í Núpasveit á milli 2030 fjár, sem sumt hafði hrakið í sjó en sumt á land, en búið að finna aftur nálægt 1620, allt dautt.
Þann 1.janúar 1881 birti Þjóðólfur frekari fregnir af illviðrum og slysum í desember - fyrst voru viðbótarfréttir af illviðrinu þann 10.:
Allgott veður var fyrra hluta dagsins sem rokið laust á um kvöldið, og hafði einn bátur með 7 mönnum róið frá Vatnsleysu; formaðurinn hét Gísli og var nýkvæntur, ungur maður og ötull, og talinn með bestu sjómönnum þar syðra. Hvessti á þá af austri þegar leið að miðjum degi, og það svo, að þeir hleyptu út í Landakotsvör á Vatnsleysuströnd og lentu þar með öllu heilu; en meðan þeir biðu þar, hægði veðrið svo, að þeir beittu lóðir sínar aftur, og sigldu fram á miðin. Síðan hefir ekki spurst til þeirra, en brot af skipinu rak síðar á Hvassahrauni og slitur af lóðum þeirra i Kúagerði. Skip og bátar brotnuðu víða í spón og sumt laskaðist; þannig er sagt að 7 sexmannaför hafi brotnað í Minnivogum, 6 ferjur á Akranesi, margar á Álftanesi og missti þar einn bóndi allan skipastól sinn, sem var 1 áttæringur, 1 sexæringur og 1 tveggja mannafar, og sá hann ekkert eftir af því. Lárus Pálsson læknir missti þilbát sem var í smíðum, og kastaði veðrið honum rúmlega 300 faðma burtu, yfir axlarháa steingarða, hverja hann ekki hreyfði, en brotnaði í spón þá hann kom niður. Heyskaðar hafa ekki orðið hér nærlendis af þessu veðri, svo á orði sé gjörandi, en fyrir austan fjall, hafði orðið meira af því. Eftir þetta veður hugðu allir, að fiskur mundi hafa horfið hér á miðunum, en það reyndist ekki svo, því nokkrum sinnum var róið hér eftir veðrið og var fiskur allstaðar fyrir, bæði djúpt og grunnt, en nú veit maður ekki hvernig fiskur hagar hér innfjarða, síðan norðanveðrin og frostin komu svo, en nýfrést hefir af Suðurnesjum, að hlaðfiski væri þar allstaðar ef gæfi. Fimmtudaginn 16. þ.m. var hér róið alskipa því logn var um morguninn, en um daginn rak á norðanstorm með frosti; náðu allir landi það spurst hefir, nema skip frá Lambastöðum á Seltjarnarnesi með 7 manns; fórst það á uppsiglingunni og drukknuðu 5 af hásetunum, en formanni og einum háseta var bjargað af kjöl, fyrir atorku og snarræði Hjartar bónda Þorkelssonar á Melshúsum. Rétt fyrir jólin fannst bóndi Jón Brandsson af Álftanesi örendur á heimleið sinni frá Hafnarfirði; hefir hann að líkindum orðið veikur, lagst fyrir og frosið í hel ... Af því veðrin hafa verið svo hörð allan þennan mánuð, hafa ferðir verið mjög fáar, og getur Þjóðólfur því miður ekki verið fróður lengra að, en þó hefir borist að austan, að maður hafi orðið úti á heimleið frá Eyrarbakkakaupstað, ... Þar eystra er einnig sagt að ýmsir séu farnir að lóga fénaði sökum harðindanna, og væri óskandi að sem flestir gættu sín í tíma, ... Úr Hnappadalssýslu hefir frést, að harðindin séu mjög mikil þar vestra, og hætt við skepnufelli ef ekki batni tíðin hið bráðasta.
Skuld hafði nú flutt frá Eskifirði til Kaupmannahafnar og birti þann 10.janúar fréttir af Austfjörðum:
Að heiman af Íslandi fréttist, að haustið og fyrri partur vetrar hefir verið óvenju hart. Af Eskifirði var oss skrifað 18. nóvember, að þá væri jafnfallinn snjór yfir allt og jarðleysi, en frostin höfðu oft náð 15°R [-18,8°C] og er það fágætt í fjörðum eystra. Með norsku gufuskipi, er kom til Stafangurs um jólin, fréttist hingað að hörkurnar og óveðrin héldust enn (19.desember).
Fróði segir frá hrakningum sjómanna frá Seyðisfirði þann 2.febrúar 1881:
[Fjórir] menn á Seyðisfirði höfðu orðið fyrir sorglegum hrakningi á sjó snemma á jólaföstunni í vetur: Mánudaginn 29.nóvember höfðu nokkrir bátar á Seyðisfirði róið til fiskjar í ískyggilegu veðri og frosti allmiklu; komu allir bátarnir aftur samdgurs nema einn með 4 mönnum; um kvöldið gerði illviðri er hélst næstu daga, en ekki spurðist til hins óaðkomna bátar og töldu allir víst að hann hefði farist, en á föstudaginn næstan eftir komu mennirnir á bátnum inn á fjörðinn; höfðu þeir á mánudaginn náð landi undir hamrafelli því er gengur út í sjó út af suðurbyggð Seyðisfjarðar milli Skálaness og Dalatanga, og verið þar tepptir til þess á föstudaginn því ógengt var til bæja fyrir hrúgum og harðfenni. Allan þennan tíma voru þeir matarlausir. Þrír af mönnum þessum höfðu skaðlega kalið og missa fætur, en einn var óskemmdur. Mennirnir sem kólu heita Jóhann Ringsted, Þorsteinn Þorsteinsson og Jón Sigurðsson, allir sunnlenskir; sá sem heill komst af heitir Jón Valdimarsson, austfirskur; hann hafði haft góð stígvél og gætt þess að vera alltaf stígvélafullur af sjó.
Fróði segir frá því þann 22.janúar að fjárskaði hafi orðið á Presthólum á Sléttu milli jóla og nýárs, 20-30 fjár hrakti í sjóinn.
Norðlingur segir frá þann 6.janúar 1881:
Á þriðja og fjórða í jólum var hér sú ákafleg stórhríð að menn muna varla aðra eins og fannkoma að því skapi; svo var harðviðrið mikið, að menn kól á andlit og hendur á milli húsa.
Norðlingur segir af sömu hríð þann 29.janúar 1881:
Á þriðja i jólum fór vinnukona í fjós á Þingeyrum í Húnavatnssýslu, hleypti hún kúm í vatn en missti þær útí stórhríðina útúr höndunum á sér, og komst sjálf með illan leik að heykumbli er hestar höfðu brotið upp og gat grafið sig inn í heyið svo hún hélt lífi. Kýrnar fundust þegar upp létti hríðinni með lífsmarki, en varð þó að drepa þær.
Ísafold birti þann 2.apríl 1881 fréttabréf úr Skaftafellssýslu, dagsett 24.febrúar það ár. Þar segir af veðri í desember:
Mest gegndi furðu hinn mikli stormur af útsuðri, sem geisaði aðfaranótt hins 10. desember [1880]. Þá mátti svo að orði kveða, að allt léki á þræði, og var veður óstætt úti, þótt margur væri að leitast við að forða heyjum sínum og húsum við tjóni; samt sem áður varð tjónið vonum minna. Hús rufu víða, einkum útihús, einnig fuku bæjardyr á Hörgslandi á Síðu; hey rufu meira eða minna, en óvíða til stórra skemmda, nema á Kirkjubæjarklaustri um 40 hestar, er lítið eða ekkert sást af.
Þann 18.maí 1881 birti Norðanfari pistil með yfirskriftinni Eftirmæli ársins 1880 í Múlasýslum:
1. janúar var fyrst um morguninn stillt veður, en er áleið daginn gekk í snjóveður 2. var kafaldsbylur, 3. var stillt veður, en 4. og 5. hin besta sunnan hláka, 6. gekk til vestanáttar með hægu frosti og úr því einlæg stilling, sem hélst öðru hvoru til hins 22., breyttist þá tíðin til umhleypinga, eður útsynningshroða, er stóð yfir til mánaðarlokanna, en 1. og 2. febrúar var stillt veður, og eftir það voru umhleypings svipir (?) til þess 15., þá breyttist veðrið til norðanáttar mánuðinn út með sífeldum umhleypingshroðum, spillti þá á jörð mest til dala og fjalla, þá kom og 15 stiga frost, og varaði þetta fyrstu dagana af marsmánuði eður til hins 7 s.m., þá gekk til sunnanáttar, blíðviðra og stillinga sem hélst til hins 28 s.m. sást þá víða til gróðurs í útbaga. Þann 29. gekk veðuráttan til austan- og suðausturáttar með óttalegum rigningum, sem héldust til 8. apríl, hljóp þá víða á tún, eftir það komu þurrkar og blíðviður nema það sem stöku sinnum hljóp í frost, en gróður var þá kominn um sumarmál og sóley sást sprottin í stöku túnum, og almennt voru þá kýr leystar út, en með maímánuði gekk tíðin til kulda og frosta, er stóð yfir nokkra daga. 19. maí og nokkra daga þar á eftir var eld- eða sandmóða með vestan stormi. 23. gjörði snjókast og kuldanæðinga og frost sem hélst nokkra daga, gekk þá aftur til blíðviðra, sem héldust til 4. júní, þá kom snjóhret og kuldanæðingar og frost, eftir það gekk tíðin til votviðra og hita er hélst til messna, en með júlímánuði hófst hita- og þerratíð og hélst allan þann mánuð út, svo að almennt var farið að slá í 11. viku sumars og tún í 12. vikunni. Töðufall varð með mesta móti, og eigi meiri töður fengist síðan grasárið mikla 1847. En með ágúst breyttist veðráttan til sudda og skúra, sem stóð yfir rúma viku, fór þá af nýju úthagi að spretta og háátúnum, því að alla jafna var hitatíðin, en mýrarengi mjög graslítið en valllendi betra, en sökum hinnar góðu heyskapartíðar heyjaðist allvel; með septembermánaðarbyrjun breyttist tíðin í óþerra einkum þann 5. og upp frá því var bæði rigningasamt og veðuráttan óstillt til þess í október, þá hófust frost og kuldar allt til hins 16. eða á Gallusmessu, að alveg hófust snjóar og harðindi svo að menn hlutu þaðan af að taka lömb á gjöf, en með allraheilagramessu gjörði vestanhláku, svo að upp kom nokkur jörð en 5. s.m. byrjuðu aftur snjóhríðar og illviður, svo að farið var að gefa sauðum um Marteinsmessu (11. nóv.), sem hélst til 4. des. Þann 5. og 6. var norðvestan hláka, sem stóð skamma stund, því þá brá aftur til snjóa og harðviðra. Hinn 13. desember var hinn mesti ofsabylur með 17 stiga frosti á R, og upp þaðan stöðugt norðanhríðar og harðviðri til nýárs með 1016° frosti. Á nýársdag var komin vestan hláka. Á annan í jólum sást ísinn hér út af Norðfirði, og hefi ég ekki heyrt þess getið að svo snemma á vetri hafi hér ís sést síðan veturinn 182122, sem kallaður var Maunguvetur, þá kom ís á þriðja í jólum, en þá var aðgætandi, að ísinn kom um sumarið 1821 og lá við til höfuðdags. Samt má telja þetta ár eitt hið besta, því að vel heyjaðist og afli í betra lagi, þar menn höfðu oftast síld, því Norðmenn lágu þá hér öðru hverju og unnu að síldarveiði. Ritað í Norðfirði 3. janúar 1881.
Lýkur hér að sinni yfirferð hungurdiska um árið 1880. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 30
- Sl. sólarhring: 129
- Sl. viku: 2477
- Frá upphafi: 2434587
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 2201
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.