Af tveimur reikniaðferðum

Í pistli dagsins lítum við á nokkuð skrýtið - hvað það er kemur ekki í ljós fyrr en aftast í pistlinum - eftir þó nokkurn þrautalestur. 

Hægt er að reikna mánaðarmeðalhita á ýmsa vegu. Íslenska og danska veðurstofan hafa ætíð notað aðferðir sem byggja á athugunum á föstum athugunartímum (kannski sú danska sé hætt því - ekki er ritstjórinn alveg viss). Þessum aðferðum hefur verið lítillega breytt í tímans rás en þær hafa gefist vel, og til þess að gera auðvelt er að samræma þó breytingar eigi sér stað, t.d. í athugunartímum. Á stöðvum þar sem athuganir eru gerðar á þriggja stunda fresti allan sólarhringinn er mánaðarmeðaltalið einfaldlega meðaltal allra athugana mánaðarins. Þannig hefur meðalhiti í Reykjavík verið reiknaður allt frá 1949 að telja. Árin á undan - allt frá stofnun Veðurstofunnar var meðalhitinn reiknaður út frá mælingum með sírita sem kvarðaður var með samanburði við athuganir á hverjum degi. Eftir hver mánaðamót var mánaðameðaltal hita á 12 föstum tímum sólarhrings og mánaðameðaltalið var þá meðaltal þeirra 12 talna. Sáralítill munur er á meðaltali 8 og 12 athugana á sólarhring - og líka 24 athugana. 

Þessi danska hefð var þó aldrei alveg alþjóðleg. Aðrar aðferðir voru notaðar, bæði kom fyrir að meðaltöl náðu alls ekki til næturhitans (og veldur því að oft þarf að gera allstórar leiðréttingar eigi þau meðaltöl að vera sambærileg við þau sem nú eru reiknuð). Víða er meðaltal reiknað með því að taka einfaldlega meðaltal meðaldægurhámarkshita og lágmarkshita sólarhringsins. Við samanburð kemur í ljós að litlu munar á aðferðum dönsku hefðarinnar og hámarks- og lágmarksmeðaltalsins. 

Af einhverjum ástæðum tók alþjóðaveðurfræðistofnunin upp á því fyrir fáeinum áratugum að mæla sérstaklega með hámarks- og lágmarkshitaaðferðinni (við kennum hana hér eftir við stofnunina (WMO)). Eitthvað mun hafa verið um að veðurstofur féllu frá eldri aðferðum og tóku upp þá sem mælt var með - það er miður - finnst ritstjóra hungurdiska. 

Fyrir 1949 var nokkuð hringl í gangi hér á landi (og víðar) með það hvernig sólarhringhámörk og lágmörk voru skráð (aflestrarhættir misjafnir). Það þýðir að mánaðameðaltöl hámarks- og lágmarks eru ekki alveg sambærileg hér á landi fyrir og eftir þann tíma. Hver stöð þarf sérmeðhöndlun í slíkum samanburði. Í Reykjavík virðist þó ekki vera ástæða til stórra vandræða þessa vegna. Meðalhitavandamál í Reykjavík tengjast fyrst og fremst flutningum stöðvarinnar. 

En við skulum nú bera saman þessar tvær reiknireglur - danskættuðu aðferðina (sem við kennum þó við Veðurstofu Íslands) og aðferð WMO. Fyrri mynd dagsins nær aðeins aftur til 1949.

w-blogg040819a

Hér má sjá júlíhita í Reykjavík - nokkuð línukraðak. Bláu súlurnar sýna hitann reiknaðan með aðferð Veðurstofunnar, rauðu krossarnir hita sömu mánuði með aðferð WMO. Við sjáum að hefði Veðurstofan notað síðarnefndu aðferðina hefði meðalhiti júlí 2019 reiknast 13,8 stig, en ekki 13,4 eins og hann þó var. Þetta er út af fyrir sig í lagi - hefðum við alla tíð (aftur á 19.öld) notað sömu aðferð - svo virðist alla vega í fljótu bragði. Á myndinni má líka sjá 10-ára keðjumeðaltöl, græn og bleik lína. Svo virðist sem græna línan (WMO-meðaltöl) fjarlægist smám saman þá bleiku (VÍ). Ef við reiknum leitnina (athugið samt að hún er merkingarlaus hér - t.d. vegna hlýskeiðsins á undan - sem við sleppum). Samkvæmt VÍ-meðaltölunum reiknast hlýnunin 1,7 stig á öld, en 2,1 stig beitum við aðferð WMO. 

Síðari myndin sýnir hvernig þessi munur aðferðanna hefur þróast. Vegna þess að nú er okkur sama um meðaltölin sjálf - við höfum aðeins áhuga á mismun aðferðanna - getum við farið alveg aftur til 1920 - þegar byrjað var að mæla hámarks- og lágmarkshita í Reykjavík á svipaðan hátt og nú - og byrjað var að reikna mánaðarmeðalhita nærri því eins og nú er gert.

w-blogg040819b

Þessi niðurstaða kemur nokkuð á óvart - (eitthvað er einkennilegt við annað hvort meðaltalið í júlí 1928 og athuga má það nánar), en annars virðist sem munur á aðferðunum tveimur aukist nokkurn veginn jafnt og þétt í gegnum tíðina. Þetta hleypir að þeirri óþægilegu hugsun að hefði Veðurstofan alla tíð notað aðferð WMO (enginn hefði gert athugasemd við það) væri meðalhiti júlímánaðar síðustu 10 ára um 0,4 stigum hærri en hefðbundnir reikningar segja okkur - reikningar sem við erum viss um að eru réttari. 

Hvort þessi niðurstaða á aðeins við um júlímánuð - og aðeins Reykjavík skal alveg ósagt látið. Ekki skal heldur fimbulfambað hér um ástæður þessa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 20
  • Sl. sólarhring: 221
  • Sl. viku: 2318
  • Frá upphafi: 2413982

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 2133
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband