Fleiri háloftaskemmtiatriði (í gúrkutíð)

Það þarf ekki mikið til að gleðja okkur veðurnördin. (Skyldi einhver örvænting vera í okkur?) Við lítum á norðurhvelsháloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir snemma á fimmtudagsmorgun (4.júlí).

w-blogg010719a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af legu þeirra má ráða vindátt og vindstyrk. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Blái liturinn er horfinn af kortinu - slíkt gerist helst í júlí. Við viljum helst vera í gulum eða brúnum litum - þeir eru líklegir til hlýinda. Í júlí liggja mörkin á milli grænu og gulu litanna (þykkt = 5460 m) að meðaltali um Ísland þvert. 

Lægð á að koma að landinu annað kvöld (þriðjudag) - háloftalægðin sem hún fylgir er ekki mikil um sig - en er frekar köld í miðju og fer hratt yfir landið á fimmtudaginn (á kortinu við Suðvesturland). Á eftir fylgir síðan önnur minni, er við Grænland á kortinu og fer líklega fyrir sunnan land á föstudag - norðanátt síðan í kjölfarið. 

En lítum nú á atriði í fjarlægð. Tvö stór og mikil - og hlý, háþrýstisvæði sitja hvort sín megin Norðuríshafs. Annað yfir Alaska en hitt yfir Síberíu (gulu örvarnar benda). Almennt er þetta frekar óþægileg staða fyrir okkur því fyrirferðin í hlýindunum er svo mikil að kalda íshafsloftið hörfar undan - og einhvers staðar verður það að vera. Kannski hér - en kannski ekki. 

Spár virðast almennt sammála um að Alaskahæðin hreyfi sig ekki mikið - en ef trúa má spám á Síberíuhæðin að teygja sig til vesturs - og það svo (segir skemmtideildin) að hún nái alla leið til Íslands. Sé sú hugmynd rétt fáum við aldrei þessu vant sumarhlýtt háloftaloft úr norðaustri þegar líður á helgina - evrópureiknimiðstöðin nefnir allt að 5600 metra þykkt og meir en 12 stiga hita í 850 hPa-fletinum (frá Síberíu af öllum stöðum). 

Taka verður fram að þegar þetta er ritað verður þessi möguleiki enn að teljast til skemmtiatriða - og sömuleiðis verður að hafa í huga að leið loftsins liggur yfir hafsvæði sem er mjög fjandsamlegt öllum hlýindum - líklegt að neðstu loftlög verði alls ekki sérlega hlý. 

Bandaríska veðurstofan býður upp á svipaða sögu - en þó þannig að hlýindin að austan komist ekki alveg alla leið til okkar heldur sveigi þau af til suðurs áður en hingað er komið. 

Kannski verða horfurnar gjörbreyttar strax á morgun (jafnlíklegt). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1083
  • Sl. sólarhring: 1108
  • Sl. viku: 3473
  • Frá upphafi: 2426505

Annað

  • Innlit í dag: 969
  • Innlit sl. viku: 3125
  • Gestir í dag: 938
  • IP-tölur í dag: 869

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband