Af árinu 1876

Árið 1876 var talið „meðalár að veðurgæðum“, og „slysfarir virðast og að hafa verið í minna lagi. Talið er, að drukknað hafi rúmlega 40 manns“ ... „nokkrir urðu og úti í illviðrum, ... enn nokkrir aðrir týndust á annan hátt“. Í landinu bjuggu þá um 71 þúsund manns. 

Vetur var umhleypingasamur og harðnaði þegar á leið - þó fyrri hluti sumars væri ekki tiltakanlega kaldur var hann illviðra- og umhleypingasamur. Undir miðjan ágúst batnaði tíð og var talin ágæt upp frá því til ársloka. 

Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig, þá 0,6 stig ofan meðallags „síðustu tíu ára“ og 3,3 stig í Stykkishólmi, einnig 0,6 stig hlýrra en meðallag næstu tíu ára á undan. Ekki var mælt á Akureyri, en ársmeðalhiti þar hefur verið áætlaður 3,1 stig (ekki svo óskaplega kalt). Í langtímasamanburði teljast janúar, október, nóvember og desember hlýir, en mars, apríl, júní og júlí kaldir. Apríl var sérlega kaldur, sá næstkaldasti frá upphafi mælinga. Það er aðeins apríl 1859 sem var áberandi kaldari. Meðalhiti hefur aðeins verið reiknaður fyrir 8 stöðvar - og áætlaður á einni til viðbótar (sjá viðhengi). Engin þessara stöðva er langt inni í landi. 

ar_1876t 

Hæsti hiti ársins mældist í Grímsey þann 18. ágúst, 26,2 stig. Varla þarf að taka fram að hér er um grunsamlega mælingu að ræða, en hiti var þó 20 stig á hefðbundnum mæli bæði kl.14 og 21. Hins vegar gerði óvenjulega hitabylgju um mestallt land í nokkra daga eftir miðjan ágúst. Lítillega var um þessa hitabylgju fjallað í pistli hungurdiska 21. ágúst 2018. Þar segir m.a.:

Þann 18. ágúst 1876 var talan 26°R lesin af mæli á Þverá í Laxárdal í Þingeyjarsýslu. Ekki er sérstök ástæða til að efast um mælinn sjálfan. Hann var mjög lengi í notkun á staðnum - vel fram á 20.öld. Sagt er að sól hafi ekki skinið á hann, en eins og margoft hefur komið fram hér að ofan nægir ekki að komið sé veg fyrir það sé mælirinn opinn fyrir beinni varmageislun frá heitum flötum. En 26°R eru 32,5°C. Hiti fór víða mjög hátt á landinu þessa daga, í meir en 20 stig bæði í Reykjavík (21,6 stig) og í Stykkishólmi (22,0 stig). Á Hvammi í Dölum fór hiti í að minnsta kosti 20°R (25,0°C). Í frétt Norðanfara (sjá hér að neðan) er sagt frá 30°R í forsælu í Kjós - [37,5°C - trúlega ruglingur á kvörðum]. Svo er sýnir bandaríska endurgreiningin þykktina 5610 metra yfir landinu þennan dag (18.ágúst). Endurgreining þessara ára er ekki góð, en staðfestir samt hitabylgjuástand yfir landinu í þrjá daga (16. til 18.). Varla er vafi á að um mjög óvenjulegan atburð er að ræða. 

Mesta frost ársins (á opinberri veðurstöð) mældist einnig í Grímsey, -19,4 stig þann 16.mars. Þann 20.apríl mældist frostið á sama stað -18,8 stig. 

ar_1876p 

Sérlega lágur loftþrýstingur var ríkjandi frá því seint í maí og fram undir miðjan ágúst og hefur meðalþrýstingur júlímánaðar líklega aldrei verið lægri hér á landi síðan mælingar hófust. Aftur á móti var þrýstingur með hærra móti í september. Hæsti þrýstingur sem mældist á árinu var 1038,4 hPa í Stykkishólmi þann 30.október og á Teigarhorni 30.apríl. Lægstur þrýstingur mældist 962,3 hPa í Stykkishólmi þann 1.febrúar. Þrýstibreytingar frá degi til dags voru með minnsta móti í september, nóvember og desember. 

Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1876 og vitnað í samtímablaðafréttir og fleira. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Sem fyrr má finna tölulegt yfirlit í viðhenginu. 

Sr. Valdimar Briem ritar yfirlit ársins í „Fréttir frá Íslandi“.

Veðuráttufar var fyrri hluta ársins fremur stirt, en síðari hluta ársins ágætt, svo að þá er á allt árið er litið, má telja það með meðalárum að veðurgœðum. Frá nýári og fram í miðjan febrúar var mjög hrakviðrasamt víða, einkum sunnanlands og vestan, og stundum ofsastormar. Mestir urðu stormar aðfaranótt hins 3. janúar, og ollu þeir víða syðra stórskemmdum á heyjum manna og róðrarskipum. Frá miðjum febrúar og fram í miðjan mars voru lengstum hreinviðri, en sjaldan frost mikil, og oftast nokkrir hagar. Þá gjörði um miðjan mánuðinn stórhríð nálega yfir allt land, með miklu frosti og fannkomu. Um þær mundir rak hafísinn að landinu, fyrst að útnesjum, en síðan inn á firði; hann hörfaði þó frá um hríð, en kom skjótt aftur og lagðist þá fyrir allt Norðurland og rak jafnvel langt suður með landinu austanverðu. Þar við stóð þangað til í öndverðum maímánuði; þá rak ísinn aftur til hafs. Meðan ísinn var landfastur, voru lengst af illviðri og hörkur, einkum nyrðra og eystra, og um sumarmál voru harðar norðankólgur um allt land. Sunnanlands voru lengi þurrkar miklir, og urðu sums staðar stórskemmdir af sandfoki, einkum á Rangárvöllum. Snemma í maí kom batinn loksins, og var þá mörgum orðið mál á honum. Um þær mundir urðu sums staðar skemmdir á jörðum í Húnavatnssýslu af vatnavöxtum og skriðum. Vorið var kalt víðast fram að sólstöðum enda var ís nærri; þá voru nokkrir hitadagar, en síðan brá aftur til kalsa, er stóð fram á mitt sumar. Síðari hluta júlímánaðar var víða kalsasamt og úrkomur tíðar. Upp frá því voru blíðviðri, hitar og þurrkar allt fram á haust. Haustið var eitt hið besta. Framan af vetri og allt til ársloka voru lengstum þíður, en nokkuð vindasamt.

Heyskapurinn varð í betra lagi. Grasvöxtur var í meðallagi á túnum, í lakara lagi á harðvelli utan túns, en bestur á mýrlendu engi. Töður hröktust sums staðar, þar sem snemma var tekið til sláttar, en að öðru leyti varð nýting á heyjum einhver hin besta í flestum sveitum allt til sláttuloka. Þó að grasvöxturinn eigi væri nema í meðallagi að öllu samtöldu, varð þó víða sökum nýtingarinnar afbragðsheyskapur. Kálgarða- og jarðeplagarðarœkt virðist hafa heppnast í góðu meðallagi.

Í öskusveitunum austanlands var gróður í besta lagi að mörgu leyti, en þó nokkuð á annan hátt en annars staðar. Tún spruttu þar víða ágætlega; vorkuldarnir virðast hafa gjört þar minna til meins en annars staðar, með því að askan niðri í rótinni hefur verið grasinu til skýlis, meðan það var að vaxa. Sumir hugðu, að í öskunni kynnu að vera einhver áburðarefni, með því að gras það, er upp úr öskunni spratt, þótti bæði frjótt og kostagott. Til þess að fá vissu um þetta, lét Eiríkur Magnússon, bókvörður í Cambridge, rannsaka öskuefnið á efnafrœðilegan hátt, og reyndist það þá, að í því var örlitið frjóvgunarefni, og ekkert það, er á svo stuttum tíma gæti veitt nokkra frjóvgun. Var því einsætt, að að öskunni varð eigi annað gagn en skjól fyrir grasrótina, en það gagn varð líka mikið, þar sem askan var eigi of mikil. Þetta kemur og vel heim við það, að tún eða það land, sem best var hreinsað, spratt best. Utantúns harðvelli spratt þar næst, en grasvöxtur var þar gisinn. Gisnast og lakast sprottið reyndist gras á mýrlendi, — sem annars staðar var best sprottið — en það virðist hafa komið af því, að sú jörð varð síst hreinsuð, og öskuskánin hefur verið þar of mikil. Askan hefur þetta ár töluvert rénað og borist burt, bæði af vindi og vatnsrennsli, en þó sjást enn sums staðar miklar menjar hennar. Á sumum jörðum, þeim er í eyði lögðust á Efra-Jökuldal, hefur aftur verið tekin upp byggð, en sumar eru enn óbyggðar og óbyggilegar.

(s32) Aflabrögð úr sjó voru víðast fremur góð, og sums staðar afbragðs góð. Í Faxaflóa, sem lengi var talinn ein aðalveiðistöð landsins, brást nú þar á mót fiskiafli því nær gjörsamlega allar vertíðir. Laxveiði í ám var góð um sumarið, einkum á Suðurlandi. Rekar urðu nokkrir með hafísnum fyrir norðan land um veturinn. Trjáreka er þó eigi getið.

(s38) Slysfarir virðast og að hafa verið í minna lagi. Talið er, að drukknað hafi rúmlega 40 manns, flestir í sjó. Af þeim drukknuðu 6 undir Jökli, 5 við Seltjarnarnes, 4 á Skerjafirði, 7 við Höfðaströnd. Þessir skipskaðar á sjó urðu mestir. Enn fremur fórst bátur með 6 mönnum í Þykkvabœjarvötnum í Holtasveit í Rangárvallasýslu. 2 hrópuðu til bana í Yxnadal, aðrir 2 í Vestmannaeyjum og 1 í Fljótshlíð (Páll Pálsson, alþingismanns frá Árkvörn). Nokkrir urðu og úti í illviðrum, einkum norðanlands og austan. Enn nokkrir aðrir týndust á annan hátt.

Ísafold tók tíðarfar ársins saman í pistli sem birtist 31.janúar 1877:

Fyrstu vikurnar af árinu var veðrátta rosasöm og úrkomumikil um Suðurland og fyrir vestan, en hin besta fyrir norðan og austan. En úr miðþorra brá til harðviðra og hríða, einkum fyrir norðan og austan, og stóð það að öðruhvoru það sem eftir var vetrar og fram yfir sumarmál. Seint á góu bar hafís allmikinn austan að landinu og færðist smám saman vestur með því að norðan, allt að Hornströndum. Hann var landfastur við útnes fram að fardögum. Vorið var hægviðrasamt, en fremur kalt. Fyrra hlut sumars gengu rosar og rigningar, en nálægt miðjum ágústmánuði skipti um til batnaðar, og muna menn eigi jafnhagstæða veðráttu og það sem eftir var sumars: lengst af logn og þurrviðri. Svipuð veðurblíða hélst framan af vetrinum, og kom varla eitt öðru hærra til ársloka. 

Janúar: Illviðratíð, einkum á Suður- og Vesturlandi. Mjög hlýtt norðaustanlands.

Þjóðólfur segir frá þann 6.janúar:

Aðfaranóttina hins 3.þ.m., gjörði hér hið mesta voðaveður á austan; það hefur ollið töluverðu og almennu tjóni hér um nesin, einkum að því sem enn er spurt, á Álftanesi; fjöldi báta og skipa hefur brotnað eða fokið á sjó út, svo og hjallar og hlöður. Hér i bænum brotnuðu drjúgum gluggar og jafnvel þök á húsum. Þó urðu hér fáar stórskemmdir. Eitt skip (frá Siemsen) lá á höfninni búið til burtfarar, og þótti furða er það lá kyrrt að morgni. Það lá utarlega, þar sem botn er öruggastur. Það er sorglegt, hve mikill fjöldi skipa tekur skaða, nálega af hverju einasta ofviðri, sem kemur hér yfir nesin; enda er jafn-eftirtektarvert, að nálega enginn á naust til að geyma í skip sín. — Veðrátta. Síðan fyrir jól hafa gengið sífelldir blotar og hrakviðri. Róðrar og aflabrögð engin.

Norðanfari birti þann 10.mars bréf úr Dalasýslu, ritað þann 13.janúar:

Haustið og fram til jóla var ágæt veðurátta, en með sólstöðum brá til umhleypinga og rosa. Aðfaranóttina hins 3. þ.m. var hér hið mesta sunnanveður, að því urðu meiri og minni heyskaðar um suðurhluta Dalasýslu, og sama er að frétta úr Mýra- og Hnappadalssýslum. — Bátar höfðu og brotnað við Hrútafjörð. — Ein kona varð úti í vetur á Fellsströnd.

Þjóðólfur segir frá þann 14.janúar:

Veðrátta helst hin sama. Nokkrir dugnaðarformenn hafa þessa daga brotist suður í Garðsjó og komið aftur með talsverðan fisk (stútung og ýsu); bíður því almenningur byrjar í góðri von um batnandi tíð.

Þjóðólfur segir víðar að þann 31.janúar:

Austanpóstur kom aftur 21.þ.m. Sama tíð virðist að hafa gengið síðan í haust um allan þennan landsfjórðung, mildur vetur, en rosasamur síðan með jólaföstu. Almenn tíðindi að norðan hin bestu, gæðatíð til lands, svo lömb hafa sumstaðar gengið úti til nýárs; góður fiskiafli allvíðast. Frá Vopnafirði var nýfrétt, að skip þeirra Örum & Wolffs, „Hjálmar“ hlaðið kjöti, rak þar upp og skemmdist. Að vestan. Um Ísafjarðardjúp hefur síðan fyrir jólin nokkrum bátum borist á; var einu frá Arnardal, og týndust tveir menn — formaðurinn hét Einar Magnússon. Á gamlárskvöld fórst bátur frá Hvítanesi í Ögurþingum; legði hann seint af stað frá Ísafirði um daginn, og hélt hein»leiðis, hét formaðurinn Guðbjartur Friðriksson, var hann og þrír hásetar hans allir vinnumenn Einars bónda og snikkara Hálfdánarsonar, bróður séra Helga í Reykjavík, og missti hann þannig alla vinnumenn sína auk varningsins. Einnig barst á báti í lendingu einni í Aðalvík; fórust þar tveir menn af fjórum. Báti hvolfdi og við Æðey, og týndist einn maður. Er svo «sagt, að þar við Djúpið hafi gengið hin voðalegasta veðrátta fyrir sjófarendur. [Slysin í Aðalvík og Æðey urðu fyrir áramót]. 

Febrúar: Illviðratíð fram í miðjan mánuð, en síðan hreinviðri.

Þjóðólfur segir af tíð þann 16.febrúar:

Nú um miðjan þ.m. hefur hin hryðjusama sunnanveðrátta breyst í norðanátt með björtu blíðviðri. Alls enginn aflabrögð spyrjast enn úr neinum veiðistöðum hér syðra. Jagtir Reykvíkinga og þilbátar eru nú sumpart komnir út eða í tilbúningi til hákarlaveiða. Menn, bréf og blöð, sem nú eru að koma að norðan segja sem fyrr hina bestu tíð hvervetna nyrðra og eystra. Fjárhöld góð vestur að Skagafjarðarsýslu, en þá tók við bráðapestin, er þar og sumstaðar í Húnavatnssýslu hefur enn gjört mörgum bónda stórkostlegasta fjártjón i vetur. Eldgos í Dyngjufjöllum hefur sést til skamms tíma, þó sást síðast aðeins mökkurinn. Á Reykjaheiði hafði og sést gosreykur mikill nýlega.

Ísafold segir þann 22.febrúar:

Tvo síðustu dagana af vikunni sem leið, 18. og 19. þ.m., var hér allsnarpur norðangarður, með 10—11° frosti á C, og er það mesta frost, sem komið hefir hér sunnanlands á þessum vetri. Dagana þar á undan var hreinviðri á norðan, með litlu frosti. Nú er aftur stilltara veður og frostminna, en sama átt.

Mikil eldvirkni var nyrðra árið áður (1875). Ísafold segir framhaldsfréttir þann 18.febrúar:

Svo segja síðustu fréttir að norðan, að enn muni eldur uppi bæði í Dyngjufjöllum og á Mývatnsöræfum. Er svo sagt, að því meira sem rjúki í Dyngjufjöllum, því minna sjáist til eldsins á Mývatnsöræfum, en aftur vaxi gosmökkurinn þar hvenær sem úr honum dregur í Dyngjufjöllum. Sendimaður sem er nýkominn með blöð að norðan, og lagði af stað frá Akureyri 2. þ.m. [febrúar], segir þá hafa verið kominn þangað mann austan úr Mývatnssveit, er sagði nýlega kominn upp allmikinn eld á nýjum stöðvum, á Reykjahlíðarheiði upp frá Kelduhverfi, 2—3 mílur norður frá eldinum í Mývatnsöræfum, í beinni línu þaðan. Lítur útfyrir að ein eldæð gangi sunnan úr Dyngjufjöllum, eitthvað norður úr öllu valdi.

Ísafold birti þann 25.apríl veðurskýrslu af Skógarströnd:

Skógarströnd 28/2 1876: Allan janúarmánuð var hin mesta umhleypinga- og rigningatíð, sú er menn muna. Ofviðri af suðri gjörði aðfaranætur hins 3. og 10., en af þeim veðrum urðu hér engir stórskaðar; en af rigningum hafa spillst hús og hey, holdafar á fénaði og þrif. Skrugguveður voru hér af suðri útsuðri frá 22. til 28. [janúar], og er það mjög fágætt hér. Aðfaranótt hins 3. og þann 31. féll loftþyngdarmælirinn ofan í 26"10' [967,2 hPa]. Mestur kuldi þann 20. -10°R. Meðalhiti -l,3°R og loftþyngd 27"6 [997,1 hPa]. Í febrúarmánuði hélst umhleypingatíðin áfram með vindstöðu frá landsuðri til vesturs og ýmist rigningum eða fönnum til hins 10.; síðan gjörði landsunnan góðviðri til hins 16.; þá brá til norðanáttar með talsverðum frostum og kófköföldum til Dala, og helst sú veðurátta enn. Mest hefir frostið orðið að kvöldi hins 19. [febrúar] 14°R. Meðaltalið um mánuðinn -3°R. og meðaltal loftþungans 27"9 [1001,5 hPa].

Mars: Hreinviðri suðvestanlands, en verri tíð á Norðausturlandi, sérstaklega eftir miðjan mánuð. Kalt.

Jónas Jónassen sagði um marsmánuð 1876 (í viðbót við marsyfirlit 1885): „Mars 1876 norðanveður með miklum kulda allan mánuðinn“.

Þann 25.apríl birti Ísafold bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett þann 10.mars:

Veturinn hefir verið hér einhver hinn hrakviðra- og stormasamasti er menn muna, en frosta- og snjólítill; sakir hrakviðranna búast menn hér eigi við góðum sauðfjárhöldum, því auk þess, hversu féð hrekst í þessum sífelldu rigningum og stormum, sækir og mjög á það lús og önnur óþrif, er valda bæði felli og ullarmissi. Gæftalaust hefir hér mátt heita allan veturinn, og hafa menn svo sem tvisvar á mánuði getað skotist á sjó fáeinar stundir í senn, þó hefir verið fiskilaust að mestu.

Þjóðólfur segir af hægri tíð þann 11.mars:

Síðan um miðjan febrúarmánuð hafa oftast gengið snjó- og froststilltir norðanvindar. Svipað tíðarfar, nefnilega hinn besti vetur, spyrst að úr öllum  héruðum landsins.

Ísafold segir þann 17.mars:

Síðan snemma í fyrra mánuði hefir gengið hér hreinviðrasöm norðurátt, með litlu frosti, þangað til hinn 14. þ.m., að frostið herti og gjörði hríð allmikla sem stóð í 3 daga. Mest frost 15° á C. (15.þ.m.). Ferðamaður að norðan, sem lagði af stað frá Akureyri 5. þ.m., eða 3 dögum síðar en pósturinn, hefir eftir Grímseyingum, sem voru nýkomnir í land, að menn hafi þar (í Grímsey) þóst sjá ýmis merki þess, að hafís mundi allnærri landi.

Norðanfari segir þann 18.:

Þessa viku hafa hér verið norðan harðviðurshríðar með talsverðri snjókomu og miklu frosti, mest 16—17 gr. á R.; enda er nú sagt að hafíshroði sé komin hér í fjarðarmynnið, og nokkrir jakar lengra inneftir firðinum. — Þá seinast var róið til fiskjar, hér yst á firðinum, var nokkur afli.

Þjóðólfur segir enn af tíð þann 27.mars:

Um miðjan þennan mánuð gjörði hér hart norðanveður-kast, svo að frostið hér í Reykjavík nam þrjá daga í senn 10—15°C. Af hinum fáu frostdögum vetrarins hefur það verið langmest hér á Suðurlandi. Allt þar til mun meðaltal hita og kulda síðan veturinn hófst, víða hér á landi hafa náð lítið hærra en 0°C. Nú um hríð hefur gengið góðviðri. Yfir höfuð hefur vetrartíðin verið hingað til í mildasta lagi um land allt, þó miklu meiri hrakviðri og stormar sunnanlands en norðan. Snjókomur nær engar. 

Norðanfari birti 20.apríl bréf af Suðurlandi, dagsett 30.mars - þar segir m.a.:

Þar til 3 vikur af þorra var lík veðurátta og áður var ritað; skipti þá um hana til þráviðris og austræninga með heiðríkjum og frosti nokkru, er mest varð seinustu þorradagana og 11° á þorrarælinn [19.febrúar]. Hinn 11. mars kom norðan kólga með gaddi og snjókomu nokkurri til fjalla, er hélst við til þess 16., var frosthæðin hinn 14.—16. mest 16°R [-20°C]. Með hinum 17. kom blíðviðri með hreinviðri og lognum að mestu, en frost á nóttum, er haldist hefir til þess í dag. - Aflaleysi má telja í kringum Faxaflóa, allt suður að Miðnesi, þar hefir aflast vel af þorski, eins í Grindavík og austan fjalls. Í Vestmannaeyjum aflast vel, bæði af þorski og einkum heilagfiski, hallærið var aldrei eins mikið og orð var á gjört í vetur. Undir Jökli fiskaðist vel í haust, en bæði þar og á Vestfjörðum, var aflalítið sökum storma.

Apríl: Vont tíðarfar og áfreðasamt, einkum norðanlands. Þurrkar til ama syðra. Mjög kalt.

Jónas Jónassen sagði um aprílmánuð 1876 (í viðbót við vikuyfirlit 27.apríl 1887): 

Apríl 1876: Norðanbál með hörkugaddi svo að segja allan aprílmánuð; 20. apríl var 1° hiti á nóttu; annars var meiri og minni gaddur á nóttu allan mánuðinn frá 1. (2-10° frost).

Norðanfari segir þann 20.apríl:

Um þessar mundir hafa verið hér harðviðri og snjókoma, og í morgun var frostið 15 gráður á R [-18,8°C]. 

Ísafold segir þann 25.apríl af tíð og síðan hafís:

Kring um Pálmasunnudaginn [9.apríl] stóð hér 6 daga norðangarður, með miklu frosti, 10—12°C. Síðan hefir áttin verið hin sama, stundum blítt, en oftar þó talsverður kuldi, og telja menn vafalaust, að hann standi af hafís. Sumardaginn fyrsta (20.þ.m.) var 6° frost.

Hafís segir Norðanfari 28. f.m. að frést hafi til „með öllu landi austan frá Langanesi vestur fyrir Grímsey, það augað eygði til hafs“. Aftur segir í bréfi frá Akureyri 6. þ.m., að Grímseyingar hafi þá verið nýkomnir þangað í kaupstaðarferð, og ekki vitað neitt til hafíss; og íslaust var þá fyrir Eyjafirði.

Maí: Hagstæð tíð fram eftir mánuðinum með miklum leysingum. Síðan kaldara.

Þjóðólfur segir frá þann 8.maí:

Veðrátt gengur enn köld og hryssingsleg, en þó frostlaus nú síðastliðinn vikutíma. Aflaleysið við allan Faxaflóa helst enn, svo að nálega er nú útséð um, að almenningur hafi nokkur veruleg not af þessari minnisstæðu vertíð. Fjöldi skipa hefur lítinn sem engan afla séð, en stærstu útvegsmenn munu hafa reitt kringum eitt hundrað til hlutar, en þeir eru svo fáir að þess gætir mjög lítið. Á Suðurnesjum, sumstaðar austanfjalls svo og austur með landinu, hefur aftur á móti víða meðalafli fengist; bestu hlutir á Eyrarbakka. Aflabrögð í öðrum héruðum, t.d. undir Jökli og við Ísafjarðardjúp hafa og orðið mjög endaslepp síðan á leið veturinn, en hvergi kringum land virðast þó venjulegar fiskigöngur að hafa brugðist venju fremur til nokkurra líka við vandræðin hér við Faxaflóa. Póstar komu í seinna lagi sökum illrar færðar, vestanpóstur kom 3.þ.m., en norðanpóstur hinn 5. Hafís girðir síðan snemma í fyrra mánuði þvert fyrir allt Norðurland milli Horns og Langaness, og var hann síðustu daga [apríl] víða kominn inn í fjarðarbotna. Þó er svo að sjá, sem hann sé enn ekki orðinn alveg fastur, heldur víðast hvar jakaís og lausgerður. Harðindi megn mega því heita komin eða fyrir dyrum nálega jafnt yfir allt. Af Vesturlandi kvarta bréfin einkum um heyskort, og nær sá skortur allt hingað á nes; þykja hey hafa reynst afarlétt, og víða gefist upp miklu fyrr en varði. Blöð hafa borist frá 20. f.m. (Norðlingur). Segja þau bæði hríðir og heyskort úr sumum sveitum síðan ísinn kom. Víða hlupu höfrungar inn á fjörðu undan ísnum, náðust 92 í Fjallahöfn í Kelduherfi. Hval rak 20 álna langan á Tjörnesi og 2 á Höfðaströnd. Menn voru og sumstaðar búnir að ná í nokkra veiði af sel og hákarli í sumum  veiðistöðum. Eitt vöruskip hafði komist inn á Skagaströnd undan ísnum, en önnur mega bíða, og er sagt að fleiri skip en eitt muni hafast við fyrir austan Langanes.

Ísafold segir af hafís og harðindum þann 10.maí:

Hafís var fyrir öllu Norðurlandi, þegar póstar voru á ferðinni, og síðan hefir frést,að hann nái austur og suður fyrir land, allt að Ingólfshöfða í Öræfum. Eru því allmikil harðindi að frétta að norðan, og eins að vestan; þar hefir vetur verið með harðara eða harðasta móti sumstaðar allan síðari hlutann.

Norðanfari birti þann 6.júní kafla úr bréfi úr Húnavatnssýslu dagsett 17.maí:

Þegar batinn kom 5. þ.m., varð það flóð i vatnsföllum, að slíkt muna ekki elstu menn, og olli það stórskemmdum á sumum stöðum, einkum í Vatnsdal og Langadal. Mesti og besti hlutinn af engjum í Þórormstungu í Vatnsdal, varð undir aurrennsli úr Tunguá, en um aðrar skemmdir þar í dal, er mér enn ekki kunnugt. Í Langadal bar Blanda svo mikið af sandi og grjóti á Æsustaðaengi, að það er talið eyðilagt með öllu og partur af túninu stórskemmdur. Einnig fór mikið af engjum á Auðólfsstöðum og Gunnsteinsstöðum og víða annarstaðar urðu nokkrar skemmdir. Á nokkrum stöðum urðu skriður að tjóni, einkum í Rugludal í Blöndudal og Leifsstöðum í Svartárdal, hvar þær eyðilögðu stóra parta af túnum. — Áður enn batinn kom, var mikið farið að bera á heyskorti, og margir kvarta nú yfir þróttleysi í fénaði, eins og alltítt er i ísavorum. 

Þann 3.júní segir Ísafold af sjóslysi þann 31.maí:

Hinn 31. [maí] týndist fjögramannafar, frá Hrólfsskála á Seltjarnarnesi á uppsiglingu af Sviði, með 5 mönnum á, í versta hrakviðrisstormi á austan.

Júní: Lengst af fremur köld tíð, hlýindi um sólstöður, síðan aftur kalt.

Þorleifur Jónsson veðurathugunarmaður í Hvammi í Dölum segir að 30.maí hafi verið snjókrapi með stormi af norðvestri og 2.júní að krapafjúksstórhríð hafi verið að kvöldi.

Ísafold segir af tíð og hafís þann 17.júní - þar var einnig sagt frá því að skip hafi snemma í maí rekist á ísjaka við Austfirði:

Veðráttu segja póstar bærilega víðast um land síðan í byrjun [maí], en þó kuldasamt; þá létti frostunum og harðindunum, sem staðið höfðu síðan í þorralok. Þó hefir nú um hríð aftur gengið á norðan stórviðrum með hreggi og miklu fjúki til fjalla. Af hafísnum vitum vér þetta sannast að segja, eftir bréfi að norðan frá áreiðanlegum manni: Hafþök úti fyrir öllu Norðurlandi, milli Horns og Langaness — þangað var ísinn kominn norður af Austfjörðum 15. f.m., nema á Reyðarfirði; en hvergi var hann alveg landfastur, en því nær við Sléttu og Langanes. Firðir og flóar víðast auðir að jafnaði; þó talsverður ís á Eyjafirði að öðru hvoru. — „Grána“ komst við illan leik inn þangað 26. [maí], lagði á tvær hættur milli lands og íss. Ekki voru fleiri skip komin þangað, né á aðrar hafnir nyrðra, nema 1 á Grafarós og hið þriðja á Skagaströnd.

Ísafold segir frá þann 29.júní:

Með sólstöðunum brá til hlýinda og hægviðra hér syðra, og sama er að frétta lengra að, bæði að norðan og vestan. — Hafísinn er líka sagður horfinn undan landi fyrir norðan allt austur að Eyjafirði; lengra hefir eigi til frést. — Aðfaranótt hins 22. þ.m. þóttust menn víða hér syðra verða varir við nokkur merki þess, að eldur mundi uppi einhverstaðar fyrir austan eða norðan, og mikið mistur var hér dagana á eftir. Hefir merkur og skilvís maður úr Hreppunum sagt oss frá, að þaðan hafi þennan morgun sést mökkur mikill eða bólstur í austri, því líkastur sem gos væri, og ekki trútt um, að öskufall sæist á grasi. Bæði þar og annarstaðar þar um sveitir höfðu heyrst dynkir eigi all-litlir um nóttina.

Þjóðólfur birti þann 6.júlí bréf úr bréfi úr Skagafirði, dagsett 27.júní:

Nú í 12 daga hafa gengið miklir hitar oft +30°R í sólunni og +10—14° á nóttinni. 

Norðanfari segir þann 1.júlí:

Veðurátta hefir verið góð síðan 16.[júní], og eru bærilegar horfur á grasvexti.

Júlí: Rigningasamt nyrðra, snjór til fjalla, lengst af kuldar.

Þann 9.september birti Ísafold bréf úr Berufirði, dagsett 5.júlí:

Veðráttan hefir mátt heita á sumri þessu allgóð; þó voru af og til kuldar og snjóveður fram yfir hvítasunnu [4.júní], síðan rigningar um hálfsmánaðartíma, þó var áköfust rigning 15. [júní]; þá króknaði viða fé, varð fyrir skriðuföllum og fórst í ám og þverlækjum. Síðan hafa verið þurrviðri og talsverðir hitar.

Þjóðólfur segir af tíð og fleiru þann 6.júlí:

Síðan um sólstöðurnar hefur veðráttan mátt heita all-hlý, en þó votviðrasöm hér syðra. Fyrir vestan og norðan voru sólstöðuvikurnar óvenjulega heitar. Hefur gróðri síðan daglega mjög farið fram. Eldur uppi. Í Árnessýslu fundust jarðskjálftar þ. 22.[júní] og þóttust menn úr Hreppunum sjá sem reykjarmökk nokkurn í norðri yfir fjöllunum, en frekari vissu vantar enn.

Þjóðólfur segir áfram af júlítíð í tveimur pistlum:

[14.] Veðrátta hefur nú um tíma gengið hagstæð, svo gróður litur ekki illa út. Fiskiafli við og við dálítill af þeim, sem stundað hafa; Laxveiði með betra eða besta móti hér í nærliggjandi fiskiám.

[25.] Veðrátta hefur nú í þrjár vikur verið hin lakasta, sífelldir stormar og hrakviðri. Fiskiafli lítill sem engi á bátum þilskipin koma nú nær tóm úr hverjum „túr“, og er hollur sá sem hlífir, meðan ekkert þeirra týnir tali í ótíð þessari, þau munu og flest hafa góðan útbúnað, sem hér er lífsskilyrði. Töður manna, mór og afli liggur bráðum allt undir skemmdum. Með landpóstum koma fá tíðindi í þetta sinn, grasár virðist muni verða í meðallagi, og sumstaðar, t.a.m í Múlasýslum, rétt gott. Veðrátta gengur lökust hér syðra, slysfarir fáar eða engar.

Ágúst: Blíðviðri, hitar og þurrkar - nema rétt í byrjun.

Ísafold birti þann 9.september bréf úr Vestmannaeyjum og af Skógarströnd, dagsett í ágúst:

Vestmannaeyjum 7.ágúst: Vorið og sumarið hefir verið mjög kalt og votviðrasamt, sjógæftir hafa og verið mjög stirðar og vorafli af sjó því sáralítill. 

Skógarströnd l6/8. Næstliðinn júlímánuð hefir tíðarfarið verið mjög kalsalegt og hreggviðrasamt, og voru aðeins örfáir hlýir dagar. Hjá þeim sem tóku snemma til sláttar, hröktust töður að mun, því ekki komu þerriflæsur fyrr en í enda mánaðarins, og það óskarpar nema einn dag. Tilgönguveður voru oftara að nafninu til, norðanhret 4 síðustu daga mánaðarins og stórfennti þá á fjöll. Meðaltal hitans varð þó 8,2°. Það sem af er þessum mánuði hefir veðráttan verið hlýrri, og í undanfarna 3 daga og í dag mjög hlý 16° í skugganum. Grasvöxtur er nálægt meðallagi og nú hafa allir getað hirt að ljánum, og mun heyafli verða talsverður, komi nú hagstæður kafli sem líkindi eru til. 

Þjóðólfur segir þann 14.ágúst:

Veðrátta síðan eftir miðjan [júlí] hefur farið æ batnandi. Grasvöxtur mun teljast allt að meðallagi á túnum, en betri á engjum hér syðra, en annars staðar á landinu mun grasár kallast gott; nýting viðunanleg til þessa. 

Þjóðólfur birtir þann 31.ágúst „fáein orð frá Skaftfellingi“ - tíð vetrar og vors þar eystra er gerð upp:

Veturinn var hér umhleypingasamur og rigningasamur framan af, og allt fram i síðustu viku þorra, en þá brá til norðanáttar, er síðan hélst fram yfir sumarmál. Var um þennan tíma stundum gott veður og stillt, en stundum ofsaveður af norðri með mikilli frostgrimmd og ógurlegu sandfoki, er kom úr hinum þurru leirum og aurum, er jökulvötnin láta eftir sig, þá er þau liggja niðri um vetur. Gjörði sandfok þetta stórskaða á túnum og engjum, og var allvíða varið miklum tíma og erfiði til að hreinsa tún í vor. Þótt veturinn væri harla snjóalítill, var hann engu að síður mjög óhagstæður í þessum sveitum, því sauðfé hraktist mjög í rigningunum og umhleypingunum. Fyrir og um miðjan vetur drapst mikill fjöldi fjár í bráðafári, og um sumarmálin tók það að stráfalla af allskyns „óáran“. Misstu margir bændur hér á Nesjum og enda víðar mikinn hlut af ærfé sínu og gemlingum. Nokkru eftir sumarmál breyttist tíðin til batnaðar, og hefur síðan verið hagstæð veðrátta yfir höfuð, enda er nú víðast vel sprottið, nema þar sem sandurinn kom of mikill í jörðina, en þó hefur hann rénað ótrúlega. Afli varð hér harla lítill í vetur og vor, enda var hafísinn, er kom um sumarmál og lá hér rúmar þrjár vikur, til fyrirstöðu öllum sjóróðrum, eftir það hann kom.

Ísafold segir þann 1.september:

Tíðarfar er sagt hið besta um allt land síðan á leið sumar, og hafa menn von um góðan heyskap, sumstaðar ágætan.  

September: Hagstæð tíð.

Norðanfari birti þann 20.september bréf að sunnan - þar er veðurlag síðari hluta sumars gert upp.

Júlímánuður mátti á Suðurlandi kallast frá þeim tíma kalsa- og hretafullur sem áður, til enda mánaðarins, og hinn 30. var norðankuldi með krapa til fjalla, svo þau urðu alhvít niður til miðs; fram að þeim 10. [ágúst] hélst lík veðrátta, þá brá til batnaðar, og hefir verið ágætt síðan og hver dagurinn öðrum betri. En nóttina hins 11. kom norðan stormur með frosti til fjalla, og snjóaði talsvert á þau; frá þeim degi batnaði algjörlega, og var hver dagurinn öðrum betri eftir því sem leið á mánuðinn með staðviðrum, heiðríkjum og hitum, var hitinn mestur 18. ágúst 17 gr. á R. inn í húsum, og aftur hinn 20.; þann dag var hitinn móti sólu 27° um morguninn. Í Kjós var hitinn talinn fyrstnefndan dag 30° í forsælu, og 20° í Ölfusi. Það sem af er [september], helst við hin sama veðrátta. Sláttur gengur með besta móti, grasvöxtur allgóður, og nýting á heyi ágæt. Sagt er að Austurvöllur í Reykjavik, hafi verið þrísleginn, og fengist af honum nálægt 30 hestum, mun þó völlurinn eigi full dagslátta; ...

Norðlingur birti þann 22.september fréttir að sunnan og austan - askan sem minnst er á er sú sem féll í gosinu mikla í Öskju árið áður (1875):

Eftir bréfi að sunnan 25.[ágúst]: Tíðarfar gott; óþurrkar framan af túnaslætti, svo töður bliknuðu talsvert hjá mörgum; síðast í júlí kom besti þurrkur með norðanstórviðri; sunnudaginn 30. júlí snjóaði á norðurfjöll, kom þá sumstaðar á Kaldadal hnésnjór og sunnan í Langahrygg kviðfannir. Það sem af er þessum mánuði hefir verið hagstæð tíð, þerridagar, en þykkt loft með nokkru regni með köflum, svo heynýting er einhver hin besta, grasvöxtur nálægt meðallagi á túnum, sumstaðar í betra lagi.

Að austan. Héðan er lítið að frétta, heyskapur hefir verið hinn æskilegasti í sumar, nýting hin besta, og gras venju fremur; öskunnar hefir ekki mikið gætt, svo ástandið hér má yfir höfuð kallast ágætt Fiskirí er nú ákaflega mikið því af síld hefir hér verið mikið, en það kemur ekki allstaðar að fullum notum því sumstaðar er orðið alveg saltlaust (t.d. á Eskifirði), svo menn geta ekki gjört annað við fiskinn en reyna að herða hann, en það er hæpið nú, því nú sýnist vera kominn úrfellisátt, enda hafa lengi gengið þurrkar. Í Héraði þykjast menn vissir um að mikill eldur sé uppi, líklega í Vatnajökli, því mikils hita og brennisteinsfýlu hafa menn þóst verða varir við þegar vindur stóð af þeirri átt.

Þjóðólfur segir af tíð og fleiru þann 26.september - dagsetur fréttina þann 23:

Síðan skipti um veðráttufar í síðastliðnum júlímánuði, hefur tíð verið hin besta og blíðasta um allt þetta land, og heyafli manna og nýting útheyja orðið víðast með besta móti, en þó langbest við votlendi og flæðilönd, sökum hinna stöðugu þurrviðra. Um Ölfus, Flóa og Landeyjar, og hinni fögru og vel ræktuðu Fljótshlið, eru óvenjulegar heybirgðir komnar í garð. Á Skúmstöðum í Landeyjum er sagt að hafi heyjast nálægt 2000 hestum. Líkt má segja úr þeim héruðum fyrir norðan, sem vér höfum haft spurnir af með kaupafólki, er nú er að hverfa heim. Aftur hefur harðvelli sumstaðar brugðist, svo og höfðu töður ekki óvíða skemmst af óþurrkunum hinn fyrri hluta þessa sumars. ... Eldgos. Reykir og eldglampar yfir austurjöklum hafa þóst sjást við og við síðan á leið sumarið, bæði úr Borgarfirði og úr suðursýslunum. Ætla menn það muni vera framhald Vatnajökulseldgosa.

Október: Hagstæð tíð en nokkuð vindasöm. Fremur hlýtt.

Ísafold segir þann 3.október:

Veðrátta hefir verið hin besta og hagstæðasta allan síðara hlut sumars um allt land, það er til hefir spurst, og eins það sem af er haustinu; núna síðustu dagana af september reglulegur hásumarhiti. Varla komið skúr úr lofti allan ágúst og september. Sakir afbragðsnýtingar mun heyafli víðast hvar hafa orðið með besta móti, og sumstaðar svo, að elstu menn muna eigi annan eins.

Þjóðólfur hrósar líka tíð í pistli þann 16.október:

Árferði og veðurátt hefur mátt heita framúrskarandi gott nálega jafnt í kringum allt Ísland síðan í 14. viku sumars [20.júlí].

Norðanfari birti þann 6.nóvember úr bréfi af Vestdalseyri (í Seyðisfirði), dagsettu 15.október:

Haustveðráttan hefir mátt heita hin besta, og jafnvel hver dagurinn öðrum betri.

Í sama blaði er ítarlegra bréf af Suðurlandi:

Sumar þetta er nú þegar á enda, má telja það eitthvert hið besta og hagkvæmasta yfirhöfuð, nema framan af á Suðurlandi, er lengi hefir komið á landi voru, er sjá má af þessa árs tíðaskrám landsins, heilbrigði almenn, veðurblíða, grasvöxtur, nýting og sjávarafli hefir fylgst hvervetna um landið, að undanteknu því síðastnefnda við Faxaflóa, er orðið hefir útundan með hann, að fráteknum hálfsmánaðar tíma sem og kringum miðjan septembermánuð, aflaðist þá dálítið, á Seltjarnarnesi af feitri ýsu og þyrskling. Háfsafli hefir verið mikill og á Vatnsleysuströnd fengist góður lýsisfengur úr honum. Sem áður er sagt, byrjaði  eigi sumarið, að veðráttunni til á Suðurlandi, fyrr enn eftir 12. ágúst, en síðan hefir veðurblíðan verið afbragðs góð, aldrei að kalla má komið deigur dropi úr lofti, sífelld logn, heiðríkjur og hitar, og hefir oft verið 8—10 gr. hiti á nóttunni, fram í miðjan þenna mánuð [október].

Þann 15.desember birti Ísafold bréf af Skógarströnd, dagsett 1.nóvember. Þar er lýst veðri í september og október:

Allan septembermánuð máttu heita sífeld blíðviðri, ýmist austanlandnyrðingar eða vestanútnyrðingar. Skúr kom varla úr lofti. Meðaltal hita 7°R. ... Frá 1. til 20. október voru mestmegnis austan og austnorðanáttir með stormum til sjóvar, en þægilegum þíðviðrum til lands, og var hitinn að öllum jafnaði 5°. Við hinn 20. brá til sunnanátta, og hélst hún svo að segja fram í lok mánaðarins. Meðaltal hita + 3°R.

Þann 29.nóvember segir Norðlingur af skipsköðum þann 27.október:

Þann 27. október fórust í ofviðri 2 bátar af Höfðaströnd við Skagafjörð, voru 3 menn á öðrum en 4 á hinum og drukknuðu þeir allir.

Þann 27.október segir Þorleifur í Hvammi af stórrigningu. Ókjör að nóttu og fyrri hluta dags með flóði í vötnum. 

Nóvember: Hagstæð tíð, unnið að jarðabótum syðra, áfreði sums staðar nyrðra. Hlýtt.

Þjóðólfur segir þann 7.nóvember frá strandi við Akranes:

Í síðasta blaði Þjóðólfs hafði oss gleymst að geta kornvöruskips, sem var nýkomið til félagsverslunar Akranesinga, og sem mjög kom sér vel. Þeir bræður Snæbjörn og Böðvar Þorvaldssynir (sem reka verslun þessa) hlóðu aftur skip þetta slátri, en er það var albúið fyrra laugardag [28.október], sleit það upp í sunnanroki og brotnaði. Farmur skipsins náðist meira og minna óskemmdur og var seldur fyrirfarandi daga við uppboð með sæmilegu verði.

Norðanfari birti þann 30.desember bréf úr Dalasýslu, dagsett 14.nóvember:

Héðan er að frétta almenna heilbrigði og hagsæld, tíðarfarið, síðan óþurrkunum með ágústmánaðar byrjun tók að linna, hefir verið ágætt allt til þessa dags, og jafnvel ómunanlega gott haust og það af er vetri. Heyafli varð almennt góður, því jörð spratt yfir það heila heldur vel; i töðum mun hafa hitnað allvíða, en úthey hirst ágæta vel, sumargagn af fénaði varð í góðu meðallagi.

Þjóðólfur segir þann 25.nóvember:

Með austan- og norðanpóstum bárust engin stórtíðindi, nema veðurblíða hvervetna og nálega alls staðar hin besta tíð til lands og sjóar — að fráleknu  aflaleysinu hér við flóann. — Einkum er sögð árgæska af Austurlandi. 

Desember: Góð tíð um mestallt land.

Norðanfari birti þann 30.desember bréf úr Húnavatnssýslu og Múlasýslu, bæði dagsett snemma í desember:

Úr bréfi úr Húnavatnsýslu, 8. desember 1876. Tíðarfarið hefir verið hið æskilegasta síðan í ágúst. Heyafli varð víðast með betra móti, en sláturfé reyndist fremur illa einkum á mör, og yfir höfuð var allt fé sjaldgæflega ullarlítið. Það er víst fágætt hér norðanlands, að jörð hafi verið eins lengi þíð og nú, því heita mátti að unnið yrði að torfverkum fram um 20. [nóvember], því þótt stöku sinnum hafi fryst og snjóað lítið eitt, þá hefir það ekki varað nema svo sem tvo daga í senn og þiðnað svo aftur.

Úr bréfi austan úr Múlasýslu, 7. desember. Það sem af vetri er, má heita frekar sumar en vetur, og autt enn uppi við fjöll. Aldrei komið nein stórviðri, og oftar stillingar en vindar. Fé því gengið sjálfala; samt eru flestir búnir að taka lömb, einkum þar sem fárhætt er. Bráðafárs hefir enn eigi orðið vart, að heita megi og þakka sumir það öskunni, eða gjörðu í fyrra. Beitilönd eru með loðnasta móti, því grasspretta var víðast í besta lagi í sumar. En hræddir eru menn um, að hey sé létt, og segja að kýr mjólki verr en í fyrra, af sömu gjöf.

Þjóðólfur segir af tíð þann 21.desember:

Tíðarfar er nú nokkuð vindasamt, en þó blítt og frostlaust og alveg fannkomulaust um allt Suðurland. Nokkra undanfarna daga hafa menn aflað töluvert hér um nesin, en nú um tíma hefir sjaldan gefið á sjó.

Ísafold segir af tíð í pistli þann 30.desember:

Veðrátta helst enn hin sama, óvenju blíð; aðeins dálítið frost síðan fyrir jólin og stundum fjúk til fjalla, en sjaldnast meir.

Jónas segir um jólaveðrið 1876 (í pistli í desember 1885): 

Jóladaginn: 1876 Logn, fagurt veður; hér svo að kalla snjólaust.

Lýkur hér að sinni yfirferð hungurdiska um veðurfar ársins 1876. Ýmsar tölulegar upplýsingar eru í viðhengi.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 13
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 1934
  • Frá upphafi: 2412598

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1687
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband