Hlýtt - blautt - hvasst

Evrópureiknimiðstöðin reiknar tvisvar á dag 50 spár 15 daga fram í tímann og þuklar jafnframt á útkomunni og segir frá ef farið er nærri eða fram úr því sem mest hefur orðið í samskonar spám sem ná til síðustu 20 ára. Oft er ein og ein af spánum 50 með eitthvað útogsuðurveður - og telst það ekki til tíðinda.

En stundum gefur stór hluti spánna 50 til kynna að eitthvað óvenjulegt kunni að vera á seyði. - Líkur á því að svo sé raunverulega aukast eftir því sem styttra er í hið óvenjulega. Reynslu þarf til að geta notað þessar upplýsingar í daglegum veðurspám. Sú reynsla mun byggjast upp - og til munu þeir sem orðnir eru vanir menn. 

Nú ber svo við að vísar þriggja veðurþátta, hita, úrkomu og vindhraða, veifa allir fánum í spám sem gilda á laugardaginn kemur, 13.apríl.

Við skulum til fróðleiks líta á þessi kort - (þetta er ekki alveg nýjasta útgáfa - vegna viðloðandi tölvuvandræða á Veðurstofunni). 

w-blogg100419a

Hér er reynt að spá fyrir um hvort 24-stunda úrkomumagn er nærri metum. Tveir vísar eru sýndir - hér kallaðir útgildavísir (lituðu svæðin) og halavísir (heildregnar línur). Líkanið veit af því að úrkoma er að jafnaði minni hér á landi á þessum árstíma heldur en að haust- eða vetrarlagi - sömuleiðis veit það að úrkoma um landið vestanvert er meiri en t.d. norðaustanlands.

Hér verða vísarnir ekki skýrðir frekar, en þess þó getið að veðurfræðingum er sagt að hafa varann á ef útgildavísirinn fer yfir 0,9 - og sömuleiðis ef halavísirinn (nafnið vísar til hala tölfræðidreifingar) nálgast 2,0 - hér er hann yfir 2 á allstóru svæði - allt frá Reykjanesi í vestri og nær óslitið austur á Vatnajökul. Hæst fer vísirinn í 5,4 yfir hálendinu vestur af Vatnajökli - harla óvenjuleg tala - meira að segja í halavísum.  

En - líkan evrpópureiknimiðstöðvarinnar er ekki með full tök á landslagi - og þar að auki er ritstjóri hungurdiska nær reynslulítill í túlkun útgildaspáa af þessu tagi. Hvort kortið er að vara við einhverju sérstöku verður reynslan að skera úr um. 

Orðið „útgildavísir“ er þýðing á því erlenda, „extreme forecast index“, EFI, en „halavísir“ reynir að íslenska „shift of tail“, SOT. - Þýðingar þessar hafa ekki öðlast hefðarrétt (né annan) og aðrar (og vonandi betri) munu e.t.v. sýna sig síðar. 

w-blogg100419b

En hitavísar rísa einnig hátt á laugardaginn. Útgildavísirinn er ofan við 0,9 á allstóru svæði við innanverðan Breiðafjörð og í Húnavatnssýslum. Sömuleiðis á Grænlandssundi og fyrir norðan land. Hæstu gildi halavísisins eru hér úti af Vestfjörðum. Þó óvenjulega hlýtt verði er ólíklegt að hitamet verði slegin á landsvísu. Við skulum samt fylgjast vel með hitanum næstu daga. Hámarksdægurmet þess 13. er 15,7 stig sett í Fagradal í Vopnafirði árið 1938. Kominn tími á það - ekki satt - enda lægri tala en dægurmet dagana fyrir og eftir. 

w-blogg100419c

En vindvísar eru einnig háir - á myndinni yfir 0,9 vestan Langjökuls og Vatnajökuls. Bendir e.t.v. til þess að landsynningurinn muni búa til mjög öflugar fjallabylgjur. Hvort þeirra sér svo stað í raunveruleikanum vitum við ekki. 

Slæm landsynningsveður (á landsvísu) eru ekki algeng í apríl. Ekkert slíkt hefur enn komist á landsillviðralista ritstjóra hungurdiska - sem sér þó aftur til ársins 1912. Einhvern veginn hefur þannig viljað til að landið hefur sloppið - áttin frekar lagst í austur eða suður. Þetta er ábyggilega tilviljun frekar en regla. Mesti sólarhringsmeðalvindhraði landsynningsdags á landsvísu í apríl er ekki „nema“ 10,9 m/s. Það var 25.apríl 1955. Mikil skriðuföll urðu víða á landinu í þeim mánuði - en tengdust veðrinu 25.apríl ekki. 

Nú eru tíu dagar liðnir af apríl 2019. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er 3,2 stig, 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,5 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 12.hlýjasta sæti (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2014, meðalhiti þá +6,0 stig, en kaldastir voru þeir árið 2006, meðalhiti +0,1 stig. Sé litið til lengri tíma, 145 ára, voru dagarnir hlýjastir í Reykjavík 1926, meðalhiti þeirra þá var +6,6 stig, en kaldastir voru þeir 1886, meðalhiti -4,5 stig.

Meðalhiti fyrstu tíu daga aprílmánaðar nú er +2,0 stig á Akureyri, +1,6 stigum ofan meðallags 1961-1990, en í meðallagi síðustu tíu ára.

Hiti er undir meðallagi á flestum veðurstöðvum landsins, mest á sunnanverðu hálendinu, hæsta neikvæða vikið er við Hágöngur, -3,1 stig, en hiti er ofan 10-ára meðaltalsins á fáeinum stöðvum, mest +0,4 stig á Hornbjargsvita og í Grímsey.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 13 mm, og er það rúmur helmingur meðalúrkomu sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 4 mm og er það nærri þriðjungi meðalúrkomu.

Sólskinsstundir hafa mælst 52,4 í Reykjavík, um 10 umfram meðallag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband