Skæð lægð

Eins og þegar mun hafa heyrst um í fréttum er lægð nú í óðavexti fyrir sunnan land. Svo virðist sem landið sleppi að vísu við versta veðrið sem henni fylgir, en samt er allur varinn góður og ýmislegt að varast. Við látum að venju Veðurstofuna um að fylgjast með þróuninni og að gefa út þær aðvaranir sem nauðsynlegar eru. Hungurdiskar gera ekki sérstakar veðurspár - munum það. 

w-blogg210319a

Fyrst er hér gervihnattamynd, gripin síðdegis í dag (fimmtudag 21.mars). Þetta er hitamynd, því ljósari sem liturinn er því kaldari eru ský og yfirborð. Skýjakerfið fyrir sunnan land sýnir afskaplega dæmigerðan svip ört dýpkandi lægðar. Þar er hlýja „færibandið“ fyrir suðaustan og austan lægðarmiðjuna, þar streymir hlýtt og rakt loft bæði upp á við og til norðurs. Þurra rifan er rétt sunnan og austan lægðarmiðjunnar. Þar er mikið niðurstreymi lofts að ofan - þurrkur einkennir niðurstreymi - veðrahvörfin dragast niður og auðveldar sá niðurdráttur snúninginn í kringum lægðina. Mikil blikubreiða er norðan og vestan lægðar - breiðir þar úr sér og þrýstir veðrahvörfunum upp þegar uppstreymið rekst á þau. Ákafi uppstreymisins er svo mikill að það breiðir úr sér til allra átta - mest í hreyfistefnu háloftavinda - lauslega orðað má segja að þeir fari við það fram úr sér og loft staflast upp í norðurjaðri kerfisins upp við veðrahvörf og býr við það til skýjaband - klósiga- eða blikureipi. Slíkum „þverklósigum“ getur fylgt umtalsverð ókyrrð í flugi - hossast þar sjálfsagt einhverjar flugvélar á leið hátt yfir Íslandi í dag.

w-blogg210319b

Eins og áður sagði er lægðin í óðadýpkun - auk þess að vera á hraðferð. Á undan henni fellur loftvog því mjög ört. Kortið hér að ofan sýnir sjávarmálsþrýsting kl.9 í fyrramálið (föstudag) - heildregnar línur - gögn frá evrópureiknimiðstöðinni. Litir sýna 3 stunda þrýstibreytingu. Á hvíta svæðinu við Austurland hefur þrýstingur fallið um meir en 16 hPa frá því kl.6 (séu líkanreikningar réttir). Þeir sem rýna í kortið geta séð töluna -20,2 hPa - rétt við Dalatanga. Hvort við komum til með að sjá þessa tölu í raun í fyrramálið vitum við ekki enn, en hún er stór og ógnandi. 

Mesta þrýstifall sem skráð er á bækur hér á landi er -29,5 hPa á 3 klst. Það var á Hólum í Hornafirði 13.febrúar 1959. Mesta ris á 3 tímum er skráð á Dalatanga 25.janúar 1949, 33,0 hPa. 

Eins og í flestum (ekki alveg öllum) lægðum af þessu tagi er vindur mestur sunnan og austan við lægðarmiðjuna - jafnvel norðaustan við, en heldur slakari vestan við. Fari lægði þessa braut - utan við ströndina - er líklegt að við sleppum við það versta. 

w-blogg210319c

Þriðja myndin sýnir stöðuna kl.18 síðdegis á morgun - það er harmonie-líkan Veðurstofunnar sem reiknar. Lægðin er þá að sögn 949 hPa í miðju og fjarlægist ört. Mikið hvassviðri er sums staðar á Austfjörðum og austan til á Suðausturlandi. Sömuleiðis virðist vera mjög hvasst víða á Norðausturlandi. Töluverð úrkoma fylgir - snjór fyrst, en síðan ætti að bleyta í á láglendi á Austurlandi, óvissara með hitann þegar kemur norður á Norðurland. Rétt að reikna með illviðri - sérstaklega á fjallvegum.

Lægðir sem þessar tengjast oft eldri lægðum vestan við með eins konar úrkomubandi - eða linda. Sunnan lindans er vindur hvass, en í í honum getur verið drjúgmikil úrkoma. Líkanið spáir hér töluverðri úrkomu suðvestanlands síðdegis á morgun - og vindi líka um það bil sem hann styttir upp. Stóra spurningin er hvort þessi spá rætist. Það skiptir mjög miklu máli hvort úrkoman er blaut eða þurr. Sé hún mjög blaut gerist svosem ekki mikið á láglendi (en hríð á heiðum) - en sé hún nægilega þurr til þess að geta skafið þegar vindstrengurinn kemur inn undir lok hennar getur skapast leiðindaástand á leiðum kringum höfuðborgina - og hugsanlega um stund í bænum líka. Ekkert vitum við þó enn með vissu hvort svo fer. Það er háð fjölmörgum smáatriðum í spánni.

w-blogg210319d

Hér má sjá vindaspá harmonie-líkansins sem gildir kl.16 síðdegis á morgun (föstudag). Við sjáum vindstrenginn greinilega - og hversu norðurmörk hans eru skörp. Hér er hægur vindur norðan við - en örstutt yfir í um 20 m/s. Þurr snjór þyrlast mjög mikið í 20 m/s, en mjög blautur síður. Vindstrengurinn er hér á leið til norðausturs - en linast smám saman. Vindstrengir sem þessir bönuðu mörgum sjómanninum á vertíð á árum áður, eru sérlega skæðir opnum bátum og erfitt var að sjá þá fyrir. 

En mikil óvissa er um öll smáatriði í spá sem þessari - og við getum enn vonað að vel fari með og flestir landsmenn sitji í furðugóðu veðri.

w-blogg210319e

Síðasta myndin sýnir þversnið sem gildir kl.17 síðdegis á morgun. Heildregnu línurnar sýna mættishita (höfum ekki áhyggjur af honum í þetta sinn), vindörvar sýna vindátt og vindstefnu á hefðbundinn hátt, en litir vindhraðann sérstaklega. Lóðrétti ásinn sýnir hæð (ritaða sem þrýsting - minnkandi upp á við), en lárétti ásinn er lína sem dregin er norður með vesturströndinni eins og sjá má á smákortinu í efra hægra horni myndarinnar. Til hægðarauka hafa vestfjarðaföll verið merkt með V á myndinni - þau stingast upp í um 900 hPa hæð og Snæfellsnes er merkt með bókstafnum S. Það sem við sjáum er að norðaustanhvassiðrið nær inn á norðanverða Vestfirði, en vestanhvassviðri stingur sér inn á sunnanverðan Faxaflóa. Við sjáum vel hversu snörp vindaskilin eru - grænn litur norðan við (innan við 8 m/s) fer yfir í rauðan (meir en 26 m/s) á örstuttu bili. Hér sjáum við líka að bæði norðaustanáttin á Vestfjörðum og vestanáttin á Reykjanesi eru grunn fyrirbrigði - ná ekki nema upp í 2000 til 2500 metra hæð yfir sjávarmáli. Þetta eru svonefndar lágrastir. 

En þeir sem eitthvað eiga undir veðri fylgjast auðvitað með spám Veðurstofunnar eða annarra ábyrgra aðila - hungurdiskar eru ekki slíkur og upplýsingar hér eru ekki uppfærðar þegar nýjar spár berast. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband