Órólegra

Þó fremur lágur loftþrýstingur hafi verið ríkjandi upp á síðkastið hafa kröftugar lægðir samt ekki mikið verið að angra okkur. Aðalátök veðrakerfa norðurhvels hafa átt sér stað annars staðar. Nú virðist einhver breyting verða á - í bili að minnsta kosti. Kuldapollurinn mikli, Stóri-Boli, virðist ætla að bylta sér nokkuð og hreinsa til við Atlantshaf - nær fullum vetrarstyrk á sínum heimaslóðum í Norður-Kanada, kannski í síðasta sinn í vetur. 

w-blogg170319i-a

Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum gildir um hádegi á þriðjudag, 19.mars. Þá er hreinsun í fullum gangi - vestanáttin nær um kortið þvert frá Kanada í vestri, til Skandinavíu í austri. Enn er ekki mjög kalt við Ísland, hiti ofan frostmarks á láglendi. 

Aðalkuldinn er vestan Grænlands, þar er frostið í 850 hPa-fletinum meira en -35 stig, um 30 stigum kaldara en hér við land. Við sjáum að jafnþrýstilínur liggja þvert á jafnhitalínur milli Labrador og Grænlands - þar er kalt loft greinilega í sókn, en samt ekki mjög afgerandi. Norðar stíflar Grænland framrás kuldans - að mestu. Spár eru ekki alveg sammála um það hversu mikið af kalda loftinu sleppur yfir jökulinn - og í átt til Íslands. Kannski við fáum að sjá heiðarlegan útsynning þegar kemur fram undir miðja viku? 

Fyrir utan þá óvissu sem felst í möguleikum kalda loftsins af Grænlandi er töluverð óvissa samfara inngjöf á hlýju lofti úr suðri - það kemur á móts við kuldann úr vestri. Við sjáum dálitla lægð við suðurjaðar kortsins. Sem stendur gera spár ráð fyrir því að hún fari hratt til norðausturs um Færeyjar og til Noregs - gæti orðið skæð þar - og létt á útsynningi hér á landi um leið og hún rennur hjá.

Síðar í vikunni er annarri lægð spáð svipaða leið. Sumar reiknirunur gera ráð fyrir mikilli dýpkun hennar - en aðrar ekki. Við sleppum því að velta okkur upp úr slíku þar til nær dregur - oftast eru spár afskaplega ótryggar þegar þær eru að fást við meir en 3 til 4 daga - ekki síst í stöðu sem þessari.

Eins og oft hefur verið rætt um hér á hungurdiskum að undanförnu hefur reyndin jafnan orðið sú í vetur að linari spár hafa frekar ræst en þær harðari - vonandi heldur sú staða áfram sem lengst. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 233
  • Sl. sólarhring: 558
  • Sl. viku: 2595
  • Frá upphafi: 2410897

Annað

  • Innlit í dag: 195
  • Innlit sl. viku: 2278
  • Gestir í dag: 190
  • IP-tölur í dag: 184

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband