Af norðurhvelsstöðu

Við lítum eins og oft áður á stöðu veðrakerfa á norðurhveli. Veldi vetrarins er í hámarki um þetta leyti árs. Upp úr þessu fer vorið að hefja framrás sína í syðstu hlutum tempraðra beltisins, en enn um hríð getur kólnað meira á heimskautaslóðum áður en vorið nær undirtökum þar líka. Enn er langt til vors hér á landi þó „vermisteinninn“ fari að „koma í jörðina“ eftir eina til tvær vikur - það gerist þegar sól er komin nægilega hátt á loft til þess að þeir geislar hennar sem berast gegnum ís og snjó fara að bræða hann að neðan. 

w-blogg130219a

Kortið gildir síðdegis á morgun, fimmtudaginn 14.febrúar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd í litum. Því meiri sem hún er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs.

Það eru að venju fáein atriði sem augu ritstjórans beinast að (kannski ekki endilega þau merkilegustu). Í fyrsta lagi er meginkuldinn að þessu sinni í einum meginkuldapolli frekar en tveimur. Sá er mjög öflugur og liggur við norðurskautið. Þar eru bæði þykkt og hæð nærri lægstu gildum. Þykktin er minni en 4740 metrar og hæðin minni en 4680 metrar. Við sjáum að jafnhæðarlinur og þykkt fylgjast vel að þar sem kaldast er. Þessi kuldapollur er hreinlega barmafullur af köldu lofti frá sjávarmáli upp í veðrahvörf. Við gefum honum lýsandi nafn - og köllum hann „Hroll“. Trúlega skiptir hann sér upp eftir nokkra daga - í þá venjulegu, sem við höfum kallað Stóra-Bola (ameríkumegin) og Síberíu-Blesa (asíumegin). Sem stendur ógnar Hrollur okkur ekki. 

Annað atriði sem athygli vekur er að sá hefðbundni háloftahryggur sem kenndur er við Klettafjöll er veikur - hann er þar en talsvert veigaminni en oftast er. Það þýðir að vesturströnd Bandaríkjanna og Kanada er tiltölulega óvarin fyrir kulda, snjó - eða kalsaúrkomu og kalda loftið hefur að undanförnu runnið suður með Kaliforníuströndum - og spár gera ráð fyrir því að slíkt ástand haldi eitthvað áfram.

Bylgjur vestanvindabeltisins eru mjög grófgerðar, kaldur fleygur rennir sér suður allt á móts við Kanaríeyjar og gæti valdið þar leiðindum. Á móti er óvenjuhlýtt loft á leið til norðurs og norðausturs um vestanverða Evrópu - einskonar vetrarhitabylgja. Þó ekki sé óvenjukalt í Austur-Evrópu er kalt þar suður af - við austanvert Miðjarðarhaf og snjóar væntanlega víða í fjöll á þeim slóðum næstu daga. 

Hjá okkur virðist sem meginlægðabrautin sé austan við land þegar kortið gildir - við í svölu, en ekki mjög köldu lofti. En bylgjan við Nýfundnaland á að koma til okkar á laugardag - spár segja nú að hún valdi hláku um stund - síðan má á kortinu sjá aðra bylgju vestur í Manitóba - hún á líka að ganga greiðlega til austurs og valda annarri hláku - á þriðjudag. - Allt of langt í það til að vit sé um að ræða. 

Varla þó hægt að segja annað en vel hafi farið með veður hér á landi að undanförnu - í öllum aðalatriðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Gaman að fá þetta enda gott kuldaskeið framundan ;-)

Valdimar Samúelsson, 13.2.2019 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.11.): 11
  • Sl. sólarhring: 363
  • Sl. viku: 2525
  • Frá upphafi: 2411445

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 2164
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband