Hlýindi

Undanfarna þrjá daga hefur verið mjög hlýtt á landinu, gærdagurinn (fimmtudagur 3.janúar) og dagurinn í dag (föstudagur 4.) eru meðal allra hlýjustu janúardaga sem vitað er um á landsvísu. Meðalhiti í byggð var báða dagana yfir 8 stig - og hefur ekki orðið jafn hár áður sé miðað við sjálfvirka stöðvakerfið - en munur á fyrri hæstu gildum og hitanum nú þó varla marktækur. Meðaltal mönnuðu stöðvanna hefur þrisvar verið svipaður og nú síðustu 70 árin, 4.janúar 2006 og 9. og 10.janúar 1973. Meðalhámarkshiti nú var 10,7 stig (þ.3.) og 10,3 stig (þ.4.). Hann var líka 10,7 stig þann 25.janúar 2010. Meðallágmarkshiti nú var í dag (þ.4.) 5,4 stig, var sjónarmun hærri 22.janúar 2011, en ívið hærri dagana ofurhlýju í janúar 1973, (9. og 10.) og sömuleiðis 14.janúar 1992. 

Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í janúar eru 19,6 stig sem mældust á Dalatanga þann 15. árið 2000. Hæsti hiti sem frést hefur af í þessari syrpu nú eru 15,8 stig sem mældust í Héðinsfirði í gær (þ.3.) - en sú stöð hefur ekki enn fengið fullt „heilbrigðisvottorð“ - kannski er mælingin alveg í lagi. Hámarkshiti fór í 15,7 stig á Sauðanesvita í gær (þ.3) og telst það nýtt dægurhámark fyrir landið - eldra met var orðið gamalt, 15,2 stig sem mældust á Dalatanga 1956. 

Fjöldi af janúarstöðvametum hefur fallið. Á Hvanneyri fór hiti í 12,3 stig - það hæsta sem þar hefur mælst í janúar (sjálfvirkt og mannað). Hiti fór í 10,9 stig í Stykkishólmi - ein hærri tala, 11,0 stig, er til þaðan í janúar - orðin mjög forn, frá 1871 - við þurfum að fletta upp frumhandriti til að staðfesta hana. Í viðhenginu er listi yfir ný mánaðarhitamet einstakra stöðva.

Ógrynni af dægurhitametum stöðva féll í gær og dag. 

Slæðingur féll af sólarhringslágmarkshitametum janúarmánaðar á stöðvunum - það er að segja ekki hinu venjulega lágmarki heldur að lágmarkshiti sólarhringsins var nú hærri en áður hefur mælst í janúar - en við látum vera að fjalla um þau að sinni. 

Í Reykjavík féllu met einstakra athugunartíma, kl.3 aðfaranótt þess 3. mældist hiti í Reykjavík 9,4 stig - og hefur ekki mælst svo hár áður í janúar á þeim tíma sólarhrings, met var einnig sett kl.9, en þá mældist hiti í Reykjavík 9,7 stig. Met var ekki sett kl.6, hæsti hiti sem mælst hefur í janúar á þeim tíma stendur enn, 9,4 stig sem mældust þann 7. árið 1964.  

En svo er spurningin hvað hlýindi endast - helgin á að verða talsvert kaldari en þessir þrír síðustu dagar - hlýindin haldast að vísu fram eftir laugardagsmorgni austanlands - þannig að þessi „hitabylgja“ gæti enn skilað metum. Síðan á að hlýna verulega um stund á þriðjudag og/eða miðvikudag - kannski með metafréttum - en eftir það þarf væntanlega að bíða eitthvað eftir stórtíðindum af háum hita. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1427
  • Frá upphafi: 2407550

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1262
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband