Öfugsniði

Stundum er veðurlagi þannig háttað að hann blæs úr norðaustri á Suðurlandi meðan suðvestanátt er í háloftum. Þetta er kallað hornriði - mjög gott orð, en ritstjóra hungurdiska finnst einhvern veginn að hornriðinn sé ekki eitthvað sem nær til augnabliks í tíma heldur lýsi fremur veðurlagi heils dags eða jafnvel nokkurra daga, viku eða meira. Því notar hann frekar annað orð í pistli dagsins og talar um öfugsniða, sem er frekar hrá þýðing á erlendu hugtaki, „reverse shear“. Oft hefur verið fjallað um öfugsniða á hungurdiskum - og verður vonandi gert mun oftar. 

w-blogg031118a

Þetta er hitamynd tekin yfir landinu klukkan rúmlega 21 í kvöld, föstudaginn 2.nóvember. Við sjáum að léttskýjað er um landið vestanvert - þar er ákveðin norðaustanátt sem við sjáum af bjartviðrinu og fláka- og bólstraskýjaböndum sem um síðir myndast í þurrum aflandsvindinum vestan við land. 

Sunnar er mikil blikubreiða sem hringar sig í kringum leifar fellibylsins Oscars suður í hafi. Norðaustanáttin nær inn undir skýjabreiðuna - en er austlægari fyrir sunnan landið. Meginlægðin hefur að mestu náð að hringa sig - mynda sammiðja hringrás í gegnum allt veðrahvolfið - og sést sá hringur alveg neðst á myndinni. Í skýjabreiðunni - í 5 km hæð og ofar er hins vegar suðvestanátt - alveg öfug við þá átt sem ríkir við jörð. Vant auga sér þetta reyndar af lagi skýjajaðarsins - lægðasveigja við Suðvesturland breytist í hæðarsveigju yfir landinu. Við borð liggur að sérstök lægð sé að myndast - og á raunar að gera það fyrir austan land síðdegis á morgun - slitin frá meginlægðinni í suðri.

w-blogg031118b

Myndin sýnir spá um vind (og hita) í 500 hPa-fletinum kl.3 í nótt. Sjá má hringrás Oscars neðst - en nokkuð ákveðin suðvestanátt er yfir Íslandi og hátt í 15 stiga munur á hita þar sem hann er mestur og minnstur yfir landinu. 

Þetta er fremur erfið spástaða - þó reiknilíkön nútímans nái allgóðum tökum á henni. Ástæðan er sú að stundum snjóar (eða rignir) á Suðurlandi í þessu veðurlagi - þó áttin sé norðaustlæg. Allt er það á mörkunum að þessu sinni - líkönin veðja heldur gegn því - en samt kæmi ekki á óvart þó eitthvað falli þar úr lofti - því meiri líkur eftir því sem austar dregur, líklega snjór frekar en regn. Úrkoma gæti fallið - en ekki náð til jarðar. Slík útgerð er nokkuð dýr - uppgufun kostar varma - og hiti undir skýjabreiðu af þessu tagi getur því orðið furðulágur - jafnvel í nokkrum vindi. 

Þetta er alltaf athyglisvert veðurlag - en munið að hungurdiskar gera ekki veðurspár - aðeins er fjallað um þær. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 88
  • Sl. sólarhring: 234
  • Sl. viku: 1053
  • Frá upphafi: 2420937

Annað

  • Innlit í dag: 81
  • Innlit sl. viku: 930
  • Gestir í dag: 80
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband