Af árinu 1900

Árferði árið 1900 þótti nokkuð gott á sínum tíma, en það þætti kalt á okkar tímum. Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig, 3,4 stig í Stykkishólmi og 2,8 á Akureyri. Sé miðað við tíma frá upphafi mælinga teljast janúar, júní og ágúst hlýir, en febrúar, mars og október kaldir - júní hlýjastur að tiltölu. Mánaðameðalhita einstakra veðurstöðva má sjá í viðhenginu. 

Hæsti hiti ársins mældist á Stóra-Núpi 14.júní, 23,3 stig. Hámarksmælir var ekki á staðnum og ekki ótrúlegt að hámarkið hafi verið hærra, lausafregnir í blöðum geta hærri hita í uppsveitum Suðurlands á sama tíma. Þess má líka geta að hiti komst í 19,0 stig austur á Kóreksstöðum 13.september. 

Mest frost á árinu mældist í Möðrudal 13.nóvember og 20.desember -22,2 stig, ekki sérlega mikið. Frost komst í -12,5 stig á Gilsbakka 1.maí - þá sömu nótt fór frost í Reykjavík í -5,8 stig. 

ar_1900t

Ritstjóri hungurdiska veiðir 5 mjög kalda daga á árinu í Reykjavík, fjóra í röð, 15. til 18.mars og síðan 1.maí sem áður var á minnst. Dagarnir, 15.,16. og 17.mars teljast einnig mjög kaldir í Stykkishólmi - og einnig 30.apríl, 3.október og 11.nóvember. 

Þrír mjög hlýir dagar fundust í Reykjavík á árinu, 14., 17. og 27.júní. Í Stykkishólmi telst 27.ágúst mjög hlýr. 

Úrkoma var sérlega lítil í febrúar og mars - norðaustanlands voru þó engar mælingar. Óvenjuúrkomusamt var um landið vestan- og suðvestanvert í júlí, september og nóvember. 

ar_1900p

Þrýstingur var óvenjuhár í mars, í Reykjavík virðist hann vera sá þriðjihæsti í þeim mánuði frá upphafi mælinga. Hæsti þrýstingur ársins var þó ekki í námunda við nein met, mældist 1043,6 hPa í Stykkishólmi 6.febrúar. Þrýstiórói var mikill í janúar og september - en aftur á móti óvenjulítill í febrúar. Illviðrið mikla 20.september sker sig úr. 

ar_1900-09-20-p_rvk

Myndin sýnir þrýstirit úr Reykjavík dagana 19. til 21. september. Tölurnar sem blaðið sýnir eru mm kvikasilfurs, en sé ferillinn borinn saman við aflestur loftvogarinnar kemur í ljós að hann er stilltur „of hátt“. Til allar hamingju má segja, því annars hefði síritinn ekki náð neðstu stöðu þrýstingsins, kvarðinn nær niður í 957 hPe, en þrýstingurinn fór niður í 953 eins og sjá má, það var rétt fyrir kl.3 um nóttina - sé klukkan rétt. Þrýstifallið var gríðarlegt um kvöldið, um 20 hPa milli kl.21 og 24. Tjóns er getið í Reykjavík í sunnan- og suðaustanáttinni á undan lægðinni - en gæti samt hafa orðið víðar. Úrkomumælingar voru því miður gisnar - en skriðuföll sem urðu á Vestfjörðum benda til mikillar úrkomu. 

Mælingarnar í Stykkishólmi sýna lægstan þrýsting kl.8 um morguninn, 952,9 hPa, svipað og lægst var í Reykjavík um nóttina. Þetta er lægsti þrýstingur sem vitað er um að mælst hafi hér á landi í september. Næsta víst má telja að stöðvanet nútímans hefði skilað talsvert lægri tölum. Miðað við ritann frá Reykjavík er trúlegt að þrýstingur hafi verið farinn að rísa í Stykkishólmi kl.8, auk þess sem þar var svo hvasst að sjálf lægðarmiðjan hefur verið norðan við og talsvert dýpri. Munur á þrýstingi í Stykkishólmi og Reykjavík kl.8 var 11,8 hPa sem er óvenjulegt, en ekki þó nærri meti. 

Þrýstingur varð lægstur á Akureyri á hádegi að sögn veðurathugunarmanns, 953,6 hPa - þá var þar suðvestanfárviðri. Þar er hugsanlegt að fallvindar hafi dregið loftvogina (aukalega) niður eins og gerðist þar í fárviðrinu 5.mars 1969. Á Akureyri féll hiti meðan á veðrinu stóð og mælingin kl.14 (3,4 stig) var töluvert lægri en kl.8 (8,5 stig) og kl.21 (7,1 stig). Ýtir það undir grun um að kaldir fallvindar hafi komið við sögu í Eyjafirði - þó ekki sé það víst. Í bréfi úr Dýrafirði er sagt að loftvog hafi þar farið niður á 71 (illlæsilegt reyndar í skönnun á blaðinu). Þar mun átt við 71 cm = 710 mm = 946,6 hPa, ekki svo ótrúlegt, en mikil tilviljun væri það hafi þessi loftvog verið rétt stillt. 

Í blaðatextunum hér að neðan er greint frá tjóni í þessu mikla veðri en um það má einnig lesa í síðasta bindi ritverksins „Skaðaveður“ [1897-1900] sem Halldór Pálsson tók saman á sínum tíma og kom út 1968, og í grein sem ritstjóri hungurdiska ritaði í 2. tölublað 20. árgangs tímaritsins „Veðrið“ 1977 og finna má á netinu. 

Við látum nú fréttir blaða lýsa veðri ársins. Stafsetning hefur víðast hvar verið færð til nútímaorfs en orðalag heldur sér. 

Bjarni Jónsson (frá Vogi) segir frá árinu í Skírni undir fyrirsögninni „Hagir landsmanna“. 

Eftir nýárið var veturinn víðast hvar góður, þó var febrúar heldur harður í Austur-Skaftafellssýslu. Rétt eftir sumarmálin kom hret með snjóburði og nokkru frosti. En engir skaðar urðu þó, er teljandi sé, þvi að heybirgðir voru nægar. En er kom fram í síðari hluta maímánaðar og júnímánuð, þá var tíð góð og grasvöxtur mátti heita góður. Upp frá þessum tíma var tíð góð og hagstæð norðanlands til höfuðdags, en sunnanlands var heldur votviðrasamt. Eftir höfuðdag brá til óþurrka og hélst þangað til í septembermánuði. Þó varð heyskapur góður norðanlands, en lakari fyrir sunnan, einkum í Rangárvallasýslu og Skaftafells. Um veturnætur gerði kast nokkurt og síðan umhleypinga fram að jólaföstu. En úr því var öndvegistíð til ársloka.

Skipskaðar urðu margir og manntjón eigi lítið þetta ár. — Flutningaskip eitt, Ingólfur að nafni, átti að flytja vörur úr Hafnarfirði til Stokkseyrar. Fékk það hrakning mikinn í þrjár vikur. Skemmdist mjög reiði og áhöfn öll og varð að fleygja miklu af salti fyrir borð. Hinn 15. mars strandaði fiskiskipið Sleipnir í Njarðvík og brotnaði gat á það, en varð þó gert við það. Um sama leyti strandaði fiskiskip að vestan á Hraunsnesi. Seint í mars strandaði þýskt botnvörpuskip á Steinsmýrarfjörum í Meðallandi. Menn björguðust allir. Í miðjum apríl strandaði kaupskip í Þykkvabænum. Átti það að fara til Ólafs kaupmanns Árnasonar á Stokkseyri, en varð að hverfa þar frá sökum brims. Hásetar drukknuðu allir, en skipstjóri og stýrimaður komust lífs af en meiddust þó. Fiskiskúta frá Ísafirði, eign Ásgeirs Ásgeirssonar, strandaði i Keflavik undir Látrabjargi snemma i maí. Í sama veðrinu fórst Fálkinn, fiskiskip Geirs kaupmanns Zoéga. Voru á því 16 menn og drukknuðu allir. Síðast í maí kom gufuskipið Moss með timburfarm frá Mandal í Noregi. Brann það með öllum farmi á. höfninni í Reykjavík. Hinn 11. júní strandaði frönsk fiskiskúta á Miðnesi.

Tuttugasta september gerði skaðaveður víða um land. Í því veðri drukknuðu í Arnarfirði 18 menn, en 15 úr Selárdalnum. Þilbátur fórst úr Siglufirði á leið til Akureyrar með 5 mönnum. Þrjú skip sleit upp á Ísafirði og eitt í Patreksfirði og skemmdust. Kaupfar frá Ísafirði hreppti veðrið á Önundarfirði, en komst þó til Ísafjarðar með rifin segl og brotnar rár. Á Akureyri rak 15 þilskip á land og brotnuðu öll nokkuð og báta rak upp á Oddeyri og braut í spón. Þrjú fiskiskip úr Færeyjum rak upp á Seyðisfirði, en hið fjórða varð að höggva möstrin. Af einu skipinu týndust skipstjóri og stýrimaður. Fjárflutningaskip úr Eyjafirði hreppti veðrið á leiðinni og varð að loka öllum hlerum. Kafnaði þar yfir 2000 fjár. Gufubáturinn Oddur af Eyrarbakka rakst á, sker á Skerjafirði seint í október, en þó mátti gera við hann, svo að hann var talinn haffær.

Janúar: Hagstæð tíð. Nokkur snjór um tíma vestanlands. Úrkomusamt syðra. Fremur hlýtt.

Austri segir frá janúartíð í fáum línum:

[8.] Tíðarfarið hefir frá nýári verið fremur milt og nokkur þíða.
[18.] Tíðarfar alltaf milt og blotar góðir.
[27.] Tíðarfar er alltaf fremur milt, en nýlega gerði hér krapasletting, svo töluvert versnaði um jörð.
[31.] Tíðarfarið hið blíðasta á degi hverjum.

Þjóðólfur segir þann 26. frá Ísafirði í pistli sem dagsettur er þann 15.:

Með norðan-hríðarbyl og hörkufrosti gekk nýja árið í garð, eins og gamla árið kvaddi, en 5. þ.m. sneri til hæglátrar suðvestanveðráttu og leysinga, og hefur sú tíð haldist síðan, nema frost og stillur fáa daga.

Þjóðólfur þann 26.janúar:

Tíðarfar hefur verið allumhleypingasamt það sem af er árinu og snjókoma allmikil til sveita en frost að kalla engin.

Þjóðviljinn ungi segir frá Ísafirði þann 26.janúar:

Tíðarfar fremur óstöðugt, og snjókomur nokkrar öðru hvoru, en all-oftast frostalaus eða frostlin veðrátta.

Febrúar: Mjög hagstæð tíð, þó var snjóþungt norðaustanlands um tíma. Fremur kalt.

Jónas segir lýsir veðri í febrúar:

[3.] Hefir verið stillt og gott veður alla vikuna; síðustu dagana logn. 

[17.] Fyrri vikuna bjart og fagurt veður; við norðanátt með talsverðu frosti; oft logn. Alla síðari vikuna verið við norðanátt; bjart og fagurt veður daglega

[3.mars]: Var við norður fyrri vikuna; síðustu dagana gengið meir til austurs; rokhvass hér aðfararnótt h.22. Gekk meir til landsuðurs þ.25. með þíðu. Má heita að hafi verið logn með degi hverjum síðari vikuna. Loftvog venjulega hátt og hreyfist ekki enn.

Austri segir af tíð eystra þann 9. og 17.febrúar:

[9.] Tíðarfar er nú mjög hart, hríðar og frost töluverð á degi hverjum. 

[17.] Tíðarfarið hefir verið mjög stirt nú undanfarandi, hríðar og snjókoma nær því á hverjum degi, svo hér í Fjörðum og Héraði er fallinn víðast mikill snjór, svo víða er orðið mjög jarðlítið, og kemur sér nú vel hinn góði heyafli, er víðast var hér austan og norðan lands í sumar. 

Heldur hefur batnað eystra í lok mánaðarins. Austri birtir þann 1.mars - en dagsetur 28.febrúar: „Tíðarfarið er að batna, sólskin nú á hverjum degi“. 

Þjóðviljinn segir að vestan í febrúar:

[6.] Tíðarfar enn einatt mjög óstöðugt, ýmist norðan hret, eða suðvestan rosar, nema stillviðri um undan genginn vikutíma.

[16.] Tíðarfar enn mjög óstöðugt. 11.þ.m. hleypti á norðan-garði, með mikilli fannkomu, en þó fremur vægu frosti, og helst sá garður enn.

Ísafold birti 24.mars bréf frá Patreksfirði, dagsett 16.febrúar:

Tíðarfar gott að heita má það sem af er vetrinum, frosta- og snjóalítið allt fram að miðjum vetri, en umhleypingar og stormasamt. Með þorrakomu gjörði staðviðri með hægu frosti, sem hélst fullan hálfan mánuð. Nú rúma viku norðanátt með talsverðu frosti; en lítil fannkoma.

Mars: Hægviðrasöm og fremur hagstæð tíð lengst af að slepptu áhlaupi rétt fyrir miðjan mánuð. Fremur kalt.

Ísafold birti þann 4.apríl bréf úr Skagafirði og Norður-Þingeyjarsýslu, dagsett snemma í mars:

Skagafirði 6. mars. Tíðin góð frá byrjun þessa árs. Nú háa tíð einlægar stillur; snjólítið hér í byggðarlagi, snjómeira til dala og í útkjálkum
sýslunnar.

Norður-Þingeyjarsýslu (Núpasveit) 10.mars. Tíðin hefir verið mjög góð hér í sveitum fram að þessum tíma og nú meira en hálfan mánuð hefir verið bjartviðri bæði nótt og dag; aldrei komið föl á jörð.

Þjóðólfur segir af tíð þann 9.mars:

Veðurátta hefur verið hin besta hér á Suðurlandi yfirleitt síðan um nýár, og sama er að frétta að vestan og austan. Úr Suður-Þingeyjarsýslu (Aðaldal) er ritað 19. [febrúar], að þá hafi sífelldar norðanhríðar gengið næstliðinn hálfan mánuð, svo að ómögulegt hafi verið að beita fénaði sakir illviðurs. Í Eyjafjarðar- Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum er vel látið af tíðarfarinu.

Ísafold þann 10.mars:

Einhver blíðasti vetur er þetta, sem elstu menn muna eftir hvarvetna á landinu, sem til fréttist. Hægviðri og snjóleysur að staðaldri. Margra stiga hiti um þessar mundir dag eftir dag.

Austri segir þann 10.:

Veðrátta hefir nú verið hlý, sólskin og þíða á hverjum degi, og tekur nú snjó óðum upp, enda er hér af miklu að taka.

Þjóðviljinn segir þann 10.:

Tíðarfar gott um undanfarinn hálfs mánaðar tíma; oftast logn og frostleysur. — Í dag suðvestan hvassviðri.

Jónas lýsir veðri í mars:

[10.] Framan af vikunni logn og fegursta veður; gekk svo til suðausturs og í útsuður nokkuð hvass á suðvestan h.8. en lygndi fljótt. Kominn aftur í landsuður með regni í dag h.9.

[21.] Útsynningur alla undanfarna daga, hvass oftast með hafróti, þar til hann gekk til norðurs að kvöldi hins 14. bálhvass með miklum kulda og blindhríð, en loftvog mjög há. Í dag hægur á norðan, mjög kaldur.

[24.] Norðangarðurinn hætti aðfaranótt h. 19.; hefir síðan mátt heita veðurhægð og fagurt veður. Loftvog óvenjulega hátt og stöðug.

Ísafold birti 4.apríl bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett 15.mars:

Allan febrúar var mesta veðurblíða, oftast norðanátt með hreinviðri og hægu frosti, brimlausum eða brimlitlum sjó, yfir höfuð ómunatíð um þann tíma árs.

Þjóðviljinn ungi segir þann 30.apríl frá skipskaða þann 15.mars:

Skipströnd. 15. marsmánaðar strandaði á Hraunsnesi, milli Lónakots og Hvassahrauns, fiskiskúta frá Patreksfirði, eign verslunarfélags þess, er verslun rekur þar og á Breiðafirði. — Skipstjóri var Edílon Grímsson, og átti skipið að fara með vörur til Ólafavíkur, en hreppti á suðurleiðinni aftaka-norðanveður, svo að seglin rifnuðu, og við ekkert varð ráðið; ætlaði skipstjóri að komast inn til Reykjavíkur, en varð of nærri landi i hríðinni, og varð því að hleypa til grunns. — Skipverjar björguðust á kaðli í land, mjög þrekaðir orðnir af kulda og vosbúð. — Skipið brotnaði litlu síðar í spón. Sama dag rak „Sleipnir", eitt af fiskiskipum Tryggva bankastjóra Gunnarssonar, á land í Njarðvík, og laskaðist að mun, en þó ekki meira, en svo, að við það varð gert.

Þjóðólfur þann 16.:

Veðurátta er nú tekin að spillast; allmikið frost og fannkoma í gær; en síðan um nýár hefur mátt heita öndvegistíð hér á Suðurlandi.

Þann 19. segir Austri:

Á Vestdalseyri hljóp áin nú í stórhríðinni, eins og svo þrásinnis áður, í gegn um og yfir stíflugarðinn og flaut yfir Eyrina og inn í mörg hús, svo fólkið hefir orðið að flýja úr þeim. Er það furða að bæjarstjórn kaupstaðarins skeyti ekki um það ár eftir ár, að gjöra stíflugarðinn fyrir ána svo öruggan, að áin gjöri ekki Eyrarbúum þetta stórtjón vetur eftir vetur. Ýmsir Eyrarbúar stóðu við það í stórhríðinni í 2—3 daga að moka ána fram, virðist oss sjálfsagt að bæjarstjórnin borgi þessum mönnum ríflega fyrir erfiði þeirra.

Tíðarfarið hefir allan síðari hluta liðinnar viku verið hið grimmasta, stórhríð og hvassviðri með miklu frosti á degi hverjum. svo nú er aftur kominn mikill snjór og jarðlaust með öllu. Er hætt við að hafísinn hafi nálgast landið í þessum norðan garði.

Þann 27. segir Austri að tíðarfar hafi verið ágætt síðustu dagana.

Þjóðviljinn segir þann 30. frá tjóni sem varð í vestanveðri þann 11.mars og óvenjumiklum trjáreka:

Trjáreki óvanalega mikill hefur verið í vetur á öllum Hornströndum, og sama er að frétta af Austfjörðum. Bændur á Ströndum hafa ekki getað bjargað undan sjó nærri því öllum við, er borist hefur að landi, og muna elstu menn ekki annan eins reka. —

Í aftaka vestan roki 11. þ.m. urðu all-miklar skemmdir á húsum og bátum í Seyðisfirði hér við Djúpið. Kirkjan á Eyri færðist töluvert til á grunni sínum og skekktist öll og gliðnaði. Á Eyri fauk og geymsluhús úr timbri, er Guðmundur óðalsbóndi Bárðarson átti, tók veðrið það upp, og slengdi því niður af hól, er það stóð á, og braut það allt. Í húsinu voru geymdar ýmsar vörur og munir, náðist það flest, en meira og minna skemmt. Á Folafæti fuku tveir bátar, og brotnuðu i spón, feykti þeim upp fyrir brattan sjóarbakka og upp á háls fyrir ofan bæinn.

Apríl: Fremur kalt og nokkuð umhleypingasamt.

Þjóðólfur birti þann 11.apríl bréf úr Árnessýslu dagsett þann 4.:

Veðurátta er hin ákjósanlegasta, sífelldar blíður og stillur. Jörð alauð fyrir löngu, og hvarvetna besta útlit fyrir nægar heybirgðir, fénaðarhöld góð.

Ísafold birti þann 28.bréf úr Skagafirði, dagsett þann 6.apríl:

Tíðarfar fremur gott. Þótt talsvert hafi snjóað i kuldaskotum, er komið hafa, þá hefir verið gott á milli og jökull hér ekki mikill á jörð, eftir því sem vér eigum að venjast. Við lok f.m. komst frostið upp i 15°R, og er það langmest, er verið hefir á vetrinum. Nú þessa daga einnig andkalt mjög, þótt logn sé og sólskin; það er eins og kuldastraumarnir njóti sin betur en verið hefir, líklega bæði í lofti og lög, og er ég því hræddur um, að eitthvað lakara sé í aðsigi, þótt ís sé óvanalega langt undan, eftir því sem fréttir af skipaferðum segja.

Jónas segir þann 21.apríl:

Hefir að undanförnu verið austanlandnorðan og við norðan til djúpa, oftast bjart veður síðustu dagana útsynningur með éljum, svo jörð hefur við og við orðið alhvít. Vart var við landskjálfta kl. 3 3/4 að morgni h. 7., all-snöggur kippur og smáhræringar nokkuru síðar.

Ísafold segir þann 18.apríl:

Haldi viðlíka hagstæð tíð áfram hér það sem eftir er síðasta ársins á öldinni, eins og það sem af er, þá má segja að hún skilji mjög vel við oss að því leyti til. Því vægari vetur en sá, er nú kveður oss, í dag, muna ekki elstu menn; það er líklega blíðasti veturinn á allri öldinni. Svo segir Páll Melsteð, maður nær níræður og manna gagnfróðastur á það, er hún hefir látið fram við oss koma. Hefir hvorttveggja farið saman, snjóleysi og frostvægð.

Þjóðviljinn ungi segir þann 30.apríl:

Fram yfir miðjan þ.m. héldust norðanstormar öðru hvoru, en þó oftast fremur frostvæg veðrátta. — Þann 17. brá til vestanáttar, og hafa síðan haldist hlýviðri all-oftast, nema norðan hret síðan 28.þ.m., með 6—7 stiga frosti.

Maí: Fremur kalt og hretasamt framan af, en síðan betra.

Þjóðviljinn ungi birti þann 21.maí bréf úr Aðalvík, dagsett þann 1.:

Veðrátta hefur í vetur verið hin besta, er menn muna hér nyrðra; fannkomur ómunanlega litlar og frost sömuleiðis, svo að gott útlit er með heybirgðir bænda, ef vorið verður ekki því barðara. Seinustu dagana af apríl var hér frost og fjúk. — ís hefur ekki sést hér, síðan í vetur 18. nóv., er hafíshroða rak hér inn á Víkina, en rak strax út daginn eftir.

Austri lýsir maítíðinni í stuttum pistlum:

[4.] Seyðisfirði 3.maí: Tíðarfarið ákaflega illt, stórhríð að heita mátti í gær. 

[9.] Seyðisfirði 8.maí: Tíðarfarið mjög ískyggilegt, ýmist austan snjókrapableytur eða norðaustan kuldastormar.

[29.] Tíðarfar nú sumarlegt og gróðrarveður, sólskin og skúrir skiptast á.

Jónas segir þann 5.maí:

Fyrri vikuna var veðurhægð, sunnanátt, dimmur, gekk við og við til útsuðurs með mikilli rigningu (27.), svo til norðurs 28. 29. 30. með kulda. 1.maí landnorðan hvass með snjóbyl og kyngdi niður kálfasnjó aðfaranótt h.2, bráðhvass af norðaustri; Í dag norðanrok - ólátaveður hið mesta.

Þann 7.maí segir Þjóðviljinn ungi:

Tíðarfarið hefur verið í meira lagi vetrarlegt nú um hríð, óslitinn norðangarður, með frosti og fannkomu, í freka viku, og tók loks aftur að glaðna til í fyrradag.

Ísafold birtir þann 19.maí tvö bréf úr Skaftafellssýslu, dagsett fyrr í mánuðinum:

Austur-Skaftafellssýslu, 8.maí. Veðrátta hefir verið fremur köld síðan 29. f.m. Þá um kvöldið gjörði austanbyl, er við hélst um nóttina og 2 daga á eftir. 3. maí var mjög hvasst land-norðanveður, og fauk þá mikið af eldivið og áburði af túnum. Skepnuhöld eru yfirleitt góð, og heybirgðir góðar. Nokkuð hefir aflast af fiski og hákarli í Suðursveit, Mýrum, Nesjum og Lóni.

Meðallandi, 11.maí. Veturinn telst til að hafa verið með hinum betri. Snjókomur litlar, en hret og stormar tíðir. Frost hafa sjaldan verið mikil. Á jóladaginn, heldur en annan jóla, voru 15 stig á R. Í marsmánuði urðu frostin með meira móti, 15-17 stig dagana 16-18. mars og 14 stig 19. s.m.; eftir það dró úr frostunum. Síðan sumarið byrjaði hefir tíðin verið mjög stirð, þar til nú fyrir 2-3 dögum er komin stillt veðurátta, en hlýindalítil. Hinn 1. þ.m. var hér um slóðir blindbylur, með ofsa-austanstormi og snjógangi. Stöku kindur urða úti í byl þessum, er drápust. Þrátt fyrir það þótt jörð hafi oftar verið snjóalítil og auðbær, hefir þó jafnaðarlega verið gefið meira og minna á sléttlendinu. Til fjalla hefir það sjálfsagt verið minna, utan á einstöku nyrstu bæjum.

Þann 23.maí birti Þjóðólfur bréf úr Skagafirði og Vestur-Skaftafellssýslu frá því fyrr í mánuðinum, í síðarnefnda bréfinu er minnst á fyrri góðviðravetur:

Skagafirði, 9.maí. Allan næstliðinn vetur var hér einmunatíð. 29. f.m. gekk í norðangarð með frosti, en úrkomulaust hér í sveitinni. Hríð sagt hafa verið á útsveitum. Í dag er kominn sunnan-þíðvindur og blíða. Vorfuglarnir syngja svo unaðslega hérna á mýrunum, svo að nú vonum vér, að vorið sé komið og grundirnar grói.

Vestur- Skaftafellssýslu (Meðallandi) 12.maí. Veturinn hefur verið mikið snjóalítill, má segja snjókomulaus hér nálægt sjó, aftur hefur snjór komið til fjalla, helst fjærst byggð eða á nyrstu bæjum; hafa sumir orðið að gefa þar lengi. Hér hefur líka víðast hvar verið gefið meira og minna, valda því umhleypingar, sem hrakið hafa hold af fénaði. Um jólin var frostíhlaup 15 gr. R. Aftur í mars mikil frost, þ. 16. -15°, 17. -16°, 18. -17° og 19. -14°. Þrátt fyrir það, þótt vetur þessi megi teljast góður, man ég þó marga betri. Veturinn 1839-40 mikið góður og mildur, 1840-41 enn mildari og betri,. 1841- 42 ágætis-vetur, 1844-45 sérlega góður, 1846-47 hinn besti, sem ég man; þá var veturinn 1855-56 ágætisvetur. Alla þessa álít ég betri en þennan nýliðna vetur. Það eru fleiri vetrar, sem ég man góða, til dæmis 1879-80. Síðan sumarið kom, hefur tíðin verið köld og stirð. 1.maí myrkviðrisbylur, kafald og stormur. Nú tvo daga hefur verið stillt veður, en heldur hlýindalítið. Lítið hefur aflast hér í Meðallandi.

Bréf dagsett í Rangárvallasýslu 14.maí birtist í Ísafold þann 30.:

Tíðarfar var hér síðastliðinn vetur mjög gott, oftast auð jörð og lítil frost; núna um mánaðamótin (apríl-maí) gerði hér allsnarpt norðanveður, með snjó og frosti, og stóð yfir þrjá daga; en eigi gerði veður þetta neinn skaða hér; síðan hefir verið ágæt tíð. 

Ísafold segir frá þann 30.maí (lítillega stytt hér):

Veturinn 1900 í Skagafirði. Þeir, sem orðnir eru gamlir og hafa alið aldur sinn í Skagafirði, muna eflaust eftir mörgum góðum vetrum í hinu nafnkennda veðursældar- og „göngu“-plássi, en fáa hljóta þeir að muna, sem taka mikið fram hinum síðasta vetri, sem almennt er talinn hér mjög góður. ... Mest varð frostið á vetrinum -20°C. sunnudagsmorguninn 18.mars. Mest og blíðust hláka 11.janúar. Verst hríð 29.desember (- 9°). Jörð var næg allan veturinn, nema nokkurra daga í desember og janúar, og flest hross hefðu getað gengið af líknarlaust. Þau voru yfirleitt með lang-feitasta móti á sumarmálum.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð í pistlum þann 21. og 28.maí:

[21.] Síðan norðanhretinu slotaði 5. þ.m. hefur haldist lygn og mild veðrátta, svo að sólinni hefur þegar mikið áunnist að bræða fönnina, sem dyngdi niður i hretinu.

[28.] Síðastliðna viku hefur haldist hér köld norðvestanátt, og öðru hvoru jafn vel hreytt snjó úr lofti; mild tíð þó 3-4 síðustu daga. Hafísinn er sá vondi þursi, er vorkuldunum veldur, því að hann hefur legið hér skammt undan landi. 21.-22. þ.m. rak íshroða inn á Önundarfjörð og Dýrafjörð, og Súgandafjörður sagður fullur af ís. Djúpið er aftur á móti íslaust enn, með því að vindur hefur blásið á móti honum úr Jökulfjörðum.

Þjóðólfur segir 1.júní:

Tjón af ofviðrinu um næstliðin mánaðamót hefur að því er frétt er utan af landi eigi orðið voðalegt neinsstaðar. Af fiskiskipunum héðan vantar þó eitt: „Falken" (eign G. Zoéga kaupmanns); það hefur ekkert spurst til þess síðan fyrir ofviðrið, og er því miður hætt við, að það hafi farist. Á því voru alls 16 manna.

Júní: Hagstæð tíð. Hlýtt syðra og á Norðausturlandi, kaldara vestanlands.

Austri lýsir tíð eystra í júnípistlum:

[9.] Tíðarfarið hið indælasta á hverjum degi, sólskin og hitar og gróðrarskúrir.

[19.] Tíðarfarið er nú hið inndælasta á degi hverjum, en þokur miklar úti fyrir og tafa þær tafið skipin að mun.

[29.] Tíðarfar fremur kalt og þokur miklar. Grasspretta allgóð, bæði hér í Fjörðum og upp í Héraði.

Þjóðviljinn ungi lýsir tíð í júní:

[6.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur haldist hér suðvestanveðrátta og fremur mild tíð all-oftast. — Stöku daga hafa þó verið kalsar og rigningar.

[14.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur verið fagurt og bjart veður, hlýindi allmikil 7.-8. þ.m., en síðan svalur norðankaldi, og þó lygnt aðra stundina.

[21.] Tíð hefur nú um hríð verið einkar mild og hagstæð til lands og sjóar, svo að grassprettu fer nú óðum fram í hlýindunum, þó að hægt færi framan af vorinu.

[30.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur haldist sama blíðviðristíðin, sem fyrr í þessum mánuði, en jörð þó tekið fremur litlum gróðri, vegna sífelldra þurrka. Í þessari
viku hefur þó verið þokumugga öðru hvoru.

Þjóðólfur segir þann 29.:

Veðurblíða óvenjulega mikil og hitar hafa verið mestallan júnímánuð, oftast 12-18°C í skugganum. Í uppsveitum Árnessýslu voru t.d. 21°R. (=26°C) í skugganum 13.þ.m., og er það mjög sjaldgæfur hiti um þetta leyti árs, og verður örsjaldan jafnheitt í júlímánuði, sem þó er að jafnaði heitasti mánuðurinn hér.

Júlí: Votviðrasamt á Suður- og Vesturlandi, en betri tíð norðaustanlands. Hiti í meðallagi. Kosið var til Alþingis í september árið 1900 [kjördagar misjafnir eftir sýslum] og blöð um sumarið nokkuð bólgin af málum þeim tengdum - lítið rúm fyrir tíðarfarsfréttir.  

Austri segir frá tíð í stuttum pistlum:

[7.] Tíðarfar fremur kalt og þokusamt hér í fjörðum svo grassprettu fer nú litið fram.

[16.] Tíðarfarið alltaf fremur kalt hér í Fjörðum, stöðug norðaustanátt og þokur og fer því grassprettu lítið áfram; sólskinsveður 3 síðustu dagana.

[24.] Tíðarfarið er enn mjög óstöðugt og oftast votviðrasamt, þó voru 2 góðir þurrkdagar síðast í fyrri viku.

[31.] Tíðarfarið aftur mjög og rosasamt.

Framan af fór betur með tíð vestur á Fjörðum - Þjóðviljinn ungi segir frá tíð þar.

[13.] Sífelldir þurrkar og blíðviðri hafa haldist hér vestra. uns 10. þ.m. gerði votviðri i tvo daga. Grasspretta mun almennt hafa orðið í lakara lagi hér vestanlands, einkum á harðvelli, vegna þurrkanna; en að líkindum taka nú tún og engi nokkurum bata enn, ef til votviðra sneri.

[20.] Síðan nm miðjan þ.m. hafa haldist votviðri all-oftast, en tíð verið fremur hlý, svo að tún og engi hafa víða tekið nokkrum bata.

[26.] Tíðarfar hefur síðasta vikutíma verið rigningasamt með köflum, en þó heiðskírt veður og þerrar dag og dag í bili.

Jónas segir þann 14.júlí: „Undanfarna tíð fegursta sumarveður með óvanalegum hlýindum og staðviðri“. 

Ágúst: Heldur votviðrasamt á Suður- og Vesturlandi. Fremur hlýtt.

Ísafold segir þann 4.ágúst: Bagalegir óþurrkar um túnasláttinn, en töður þó náðst yfirleitt þessa vikuna, og sumstaðar fyrr. Nú lagstur í rigningar aftur. 

Þjóðviljinn ungi segir frá breytilegri tíð í ágúst:

[13.] Tíðarfar. Hér hefur haldist siðfelld veðurblíða, og all-oftast hitar miklir, en rigningar sjaldan.

[22.] Tíðarfar hefur nú um hríð verið dimmt og votviðrasamt annað veifið, eins og við var að búast, eftir þurrviðrin, sem gengið hafa.

[31.] Eftir útkomu síðasta nr. blaðs þessa gerði all-hagstæðan þerrir-kafla í tæpan vikutíma, en með höfuðdeginum (29. þ.m.) brá þó aftur til rigninga og rosa.

Austri segir af góðri tíð eystra í pistlum þann 20. og 25.:

[20.] Tíðarfar hefir mátt heita gott undanfarið og hitar oftast allmiklir.

[25.] Tíðarfarið hið indælasta nú á degi hverjum.

September: Úrkomusamt um mikinn hluta landsins. Fremur hlýtt. Þann 20.gerði gríðarlegt illviðri sem olli miklu tjóni á sjó og landi. 

Framan af var þótti nokkuð hagstæð tíð eystra, en syðra gengu votviðri. Austri segir þann 17.:

Tíðarfarið er alltaf hið blíðasta og hagstæðasta, svo nýting á heyi hefir hér eystra orðið hin ágætasta og heyafli því í góðu lagi.

Ísafold birti þann 15. bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett þann 5.:

Tíðarfar má kalla að hafi verið hér í sumar fremur stirt, Sífelldir óþurrkar og því mjög erfitt að fást við heyskap. Sem betur fer, hefir þó eigi frést, að skaði hefði orðið, að hvað menn hefðu hirt illa, eins og víða átti sér stað í fyrra. Því miður veit ég eigi til, að neinn hafi reynt að búa til sæthey, sem væri þó án efa mjög áríðandi fyrir menn að reyna, og ekki hvað síst, þegar svona erfitt er að þurrka hey ár eftir ár.

En Ísafold kvartar þann 12.: 

Tíðarfar mjög óhagstætt um þessar mundir, sífelld votviðri. Mikið úti af heyjum víðast hér um Suðurland.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð þann 11. og 19.september:

[11.] Eftir norðan-snjóhretið 31. f.m., er slotaði fyrri hluta dags 1. þ.m., gerði allhagstæða tíð vikuna, sem leið.

[19.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur tíð verið mjög rigninga- og rosasöm, og snjór öðru hvoru fallið á fjöllum.

Við látum Ísafold hefja langa tölu um illviðrið mikla þann 20. og tjón í því. Hungurdiskar hafa áður minnst á lægðina sem veðrinu olli og hvers eðlis hún var - auk þess sem ritstjórinn ritaði um hana grein í tímaritið Veðrið fyrir um 40 árum. Ef til vill mun þetta veður enn koma við sögu í síðari pistli. En Ísafold segir þann 22.:

Dæmafár illviðrabálkur hefir nú gengið, líklega um land allt, frá því um höfuðdag. Fráleitt náðst nokkur tugga í garð og illstætt að vinnu úti við oft og tíðum. Ferðalög ill á sjó og landi, þar með ekki síst fjallgöngur. Einkum hafa þó illviðrin keyrt fram úr hófi þessa vikuna. Ofsarok dag eftir dag, á útsunnan, sem mjög er hætt við að valdið hafi slysum á sjó, frekari en til hefir spurst. Skemmdir á skipum, fiskiskútum, urðu hér í fyrra kvöld, er rokið stóð sem hæst. Eitt sökk meira að segja alveg hér á höfninni, svo að ekki sér nema á siglutoppana um fjöru. Það hét Solid, fúin botnvörpunga-ausa Magnúsar Blöndahl, þ.e. notuð aðeins til að sækja „tröllafisk“ hér út í flóann. Það rakst áður eitthvað á To Venner, og skemmdi það skip dálítið. Þá rákust tvö skip á í Hafnarfirði, Palmen og Himalaya. Palmen skemmdist dálítið, en Himalaya meira. Loks laskaðist eitt skip inni í Geldinganesi: Egill, eign Jóh. Jósefssonar smiðs.

Athugasemd H.Schöth athugunarmanns á Akureyri í september 1900:

Natten fra 19 til 20 stærkt Barometerfald. Orkan fra Sydvest den 20. Efter den engelske Orlogsmands Maaling havde den en Styrke af 133 gr. Orkanen gjorde megen Skade paa Söe og Land, ved at vælte Huse og kaste Skibene paa Land. Lavest Barometar kl. cirka 12 f.m. 713.

Í lauslegri þýðingu: Loftvog féll ört nóttina á milli 19. og 20. Fárviðri af suðvestri þann 20. Eftir mælingu breska herskipsins var afl þess 133 gr. Fárviðrið olli miklum skaða á sjó og landi með því að velta húsum kasta skipum á land. Lægsta loftvogarstaða um kl.12 á hádegi, 713 mm (950,6 hPa - óleiðrétt). 

Austri segir frá þann 22.

Aðfaranóttina þess 20. september féll loftvogin hér á Seyðisfirði ofan fyrir storm, enda kom þá þegar um morguninn hér eitt af þessum voðalegu ofveðrum, er hér eru því miður eigi sjaldgæf, er fór vaxandi er á daginn leið og hélst við með ofsabyljum, er eigi mátti heita stætt í, langt fram á aðfaranótt þ.21.september. Rétt á undan þessu voðalega ofviðri höfðu nokkrar færeyskar fiskiskútur leitað hér hafnar, og fóru þær allar 4, er lágu hér á höfn á rek undan veðrinu, er mun hafa staðið af suðvestri og hrakti skúturnar 3 upp að norðurlandinu.

Ein þeirra, að nafni „Fearless," skipstjóri Jóhann Mortensen frá Trangisvaag á Færeyjum, tók grunn fram af Vestdalseyri utanverðri og hrukku þá atkerisfestarnar þegar í sundur og réðu þá skipverjar ekkert við skipið, þó þeir reyndu til að lægja sjóinn með því að bera i hann bæði steinolíu og lýsi, en brimið gekk yfir skipið og alveg upp í siglutopp. Loks afréðu skipverjar að setja bát með trossu frá skipinu upp á líf og dauða í brimgarðinn og halda honum til lands. En hefðu eigi nokkrir hugaðir menn í landi vaðið út í brimgarðinn undir hendur og dregið bátinn í land með eigin lífshættu, þá hefði báturinn líklega eigi náð þar lendingu, og mennirnir allir 5 farist eða meiðst undir bátnum. Svo var kaðall sá, er kom með bátnum frá skipinu festur og strengdur, og á honum fór svo af handafli hinn röski skipstjóri með björgunarhring í gegn um brimið og hvarf hann nokkrum sinnum í því, en hélt sér karlmannlega og komst með heilu með björgunarhringinn og taug aðra úr skipinu í land; er í land kom var annar kaðall bundinn í björgunarhringinn, er síðan var festur með lykkju um kaðalinn er í land lá úr skipinu, svo að draga mátti hringinn eftir kaðlinum bæði af skipinu og úr landi og á þennan hátt voru allir mennirnir sem eftir voru, hver af öðrum, dregnir í land í gegn um brimið; en sumir þeirra voru svo þjakaðir, að þeir varla gátu gengið. Var skipverjum síðan hjúkrað sem best varð, og léð föt eftir þörfum á Vestdalseyri.

Annað færeyskt fiskiskip rak upp á Grýtáreyri innst í Dvergasteinslandi og er þar fjöruborð mjög stórgrýtt og brim ákaflega mikið. Það skip hét „ Reyndin frída", skipstjóri Daniel Jespersen. Þá skipið kenndi grunns og hjó ákaflega mikið í brimgarðinum, óttuðust skipverjar, að það mundi þá og þegar liðast í sundur og réðu það því af að fara allir 13 í skipsbátinn, en bundu sig þó flestir fyrst á kaðal en báturinn var ofhlaðinn og hvolfdi og sökk í brimgarðinum, en huguðum mönnum, er i landi voru tókst með lífsháska að ná, í kaðalinn og draga skipverja 11 í land en skipstjóra og einn hásetanna skolaði burtu í brimgarðinum, og hafa þeir líklega eigi getað fest sig við kaðalinn. Þeir eru báðir ófundnir enn. Þriðja færeyska skipið, að nafni „Vinurinn“, skipstjóri Jakób Nikulaisen, rak í land á Hánefstaðaeyri, en þar var mannbjörg og skip og farmur í ábyrgð.

Fjórða skipið „Energí," skipstjóri Luid, varð að höggva frá sér rá og reiða út undan Vestdalseyri, til þess eigi að reka í land og var það síðan daginn eftir dregið inná höfnina, og verður líklega síðar sett í það mastur og reiði úr öðru hvoru hinu strandaða skipi, „Fearless" eða „Reyndin frída" er bæði verða víst dæmd ósjófær.

Annað tjón varð eigi hér að ofviðri þessu nema að 4 bátar, er á landi stóðu, fuku og brotnuðu í spón, og hákarlabáturinn „Trausti", er lá rétt utan við Vestdalseyrina, fylltist af sjó og sökk.

Hin nýja kirkja, er verið var að reisa á Bakkagerði í Borgarfirði, fauk í ofviðrinu og þakið af Good-Templarhúsinu, er þar var líka verið að byggja.

Þjóðviljinn ungi segir frá þann 29.:

Í aftaka-norðvestanrokinu 20. september síðastliðinn fauk baðstofa á Tindi í Tungusveit í Strandasýslu. í sama veðri reif og bæ í Byrgisvík í sömu sýslu. Heyskemmdir er og að frétta sumstaðar að, bátabrot í Borgarnesi, og víðar, og fleiri smáskemmdir. Votviðrasama tíð er nú hvaðanæva að frétta í þ.m., og víða mjög mikið enn úti af heyjum hér vestanlands, einkum fyrir sunnan heiðar, enda hafa margir haldið til með heyskapinn í lengra lagi, enda þótt viða væri all-mikið hey komið inn, áður en til óþerranna brá.

Voðafréttir - 17 menn drukknaðir. Það má nú því miður telja sannfrétt, að 4-5 skiptapar hafi orðið úr Arnarfirði vestanverðum 20. þ.m. Drukknuðu þá 15 menn úr Selárdal, og 2 menn úr Fífustaðadal, og er mælt, að við mannskaða þenna hafi 9 orðið ekkjur. Um nöfn þeirra manna, er drukknuðu, hafa enn eigi borist greinilegar fréttir, og verður því að skýra nákvæmar frá þessum sorglegu slysförum síðar.

Skemmdir og slys. Í aftaka suðvestanroki, er skall hér á 20. þ.m., hafa orðið all-miklar skemmdir á sumum stöðum, og er þó enn óvíða til spurt. — Hér á höfninni (Pollinum) rak 3 skip upp í fjöruna, og skemmdust tvö þeirra að mun; var eitt þeirra jagtin „Anne Sophie", eign Filippusar skipherra Arnasonar á Ísafirði, sem missti undan sér kjölinn, og brotnaði nokkuð að öðru leyti, svo að hana hálf-fyllti af sjó. Í annan stað tókst og svo ílla til, er gufuskipið „Saga", sem lá við bryggjuna í Neðstakaupstaðnum, ætlaði að færa sig frá bryggjunni, að það festi skrúfuna í atkerisstreng skipsins „Solid", og rak svo bæði skipin upp í fjöruna. Var „Solid" ný komið hingað frá Súgandafirði, og átti ólosað nær 300 skpd. af þurrum saltfiski til verslunar A. Ásgeirssouar, en brotnaði nú í fjörunni, og fylltist að mestu af sjó. Á hinn bóginn náðist gufuskipið „Saga" aftur óskemmt fram. Mælt er, að hvorki „Solid", né farmur þess, hafi verið í sjóábyrgð, og er þetta því ærinn skaði fyrir eigendurna, nema skaðabætur fáist hjá eigendum eða útgerðarmönnum gufuskipsins „Saga", svo sem heyrst hefur, að forstjóri A. Asgeirssonar verzlunar hafi farið fram á.

Í þessu sama veðri fauk og hjallur í Neðri-Arnardal, og þök rauf sumstaðar af húsum, að meira eða minna leyti. — Bátur fauk í Botni í Mjóafirði, og annar á Bjarnastöðum i Ísafirði, og brotnuðu báðir i spón. Þá vildi og það slys til í veðri þessu, að Gestur bóndi Guðmundsson í Neðri-Arnardal, er var á sjó með syni sínum, Guðmundi, slasaðist
stórkostlega í lendingunni. Tókst þeim feðgum, þrátt fyrir veðrið, að ná lendingu á Súðavikurhlið, rétt hjá svo nefndum Höfnum; en rétt er þeir voru ný-lentir reið ólag að bátnum, og varð Gestur undir honum, lærbrotnaði, og meiddist að öðru leyti mjög mikið, en varð þó að liggja þarna, uns Guðm. sonur hans gat útvegað mannhjálp, til að koma honum í hús, og lá hann svo i verbúð um nóttina, mjög þungt haldinn; en daginn eftir, er veðrinu slotaði, var hann svo fluttur á spítalann hér á Ísafirði.

Aurskriður — skemmdir. Hinar afskaplegu rigningar, sem gengið hafa í þ.m., hafa valdið afar-miklum skemmdum hér á Eyrarhlíð, einkum á svæðinu frá kaupstaðnum og alla leið út á Langhól, víða skriða við skriðu að kalla. Vegurinn á þessu svæði hefur og víða eyðilagst.

Þjóðólfur segir þann 28.september:

Manntjón. Í ofviðrinu aðfaranóttina 21. þ.m. fórst flutningabátur Boilleau baróns á Hvítárvöllum á heimleið úr Borgarnesi; hafði báturinn slitnað aftan úr gufubátnum m/b „Hvítá", en því ekki verið veitt nógu fljótt eftirtekt, en ofviðri mikið á, svo að ekki heyrðist þótt kallað væri. Fórust þar 2 menn, er á bátnum voru. Báturinn var hlaðinn ýmsum vörum um 1000 kr virði.

Í Þjóðviljanum unga þann 11.nóvember kemur fram að fram að það var þann 20. að flutningabáturinn fórst. Þar kemur einnig fram að „Svifferjan“ yfir Héraðsvötn í Skagafirði hafi eyðilagst gjörsamlega og að uppskipunarbátur hafi brotnað á Sauðárkrók, heyskemmdir hafi orðið á stöku stað í Skagafirði „o.fl“.  

Kosningin i Strandasýslu fórst fyrir 20. þ.m. sakir óveðurs og óvíst, hvort hún fer fram fyrr en að vori. Enginn var þar í boði nema Guðjón Guðlaugsson, en hann komst ekki á kjörfundinn og enginn kjósandi kom þar að sögn. Var alófært veður þennan kjörfundardag þar nyrðra og urðu víða skaðar á heyjum og húsum. Sumstaðar í Skagafirði fuku bæjarhús. Á Reykjum á Reykjaströnd stóð ekkert eftir nema baðstofan.

Stefnir á Akureyri segir frá veðrinu þar nyrðra í fréttum þann 28.september:

Ofsaveður skall yfir Norður- og Austurland 20. þ.m. Loftvogin hafði fallið kvöldinu fyrir og hélt áfram að falla um nóttina og fram að miðjum degi. Með aftureldingunni á fimmtudaginn hvessti allmikið og óx veðrið, er fram á morgun kom. Þegar leið að hádegi gjörði slíkt ofsaveður á vestan með rigningu, að menn muna hér eigi annað eins, var veðrið víða svo mikið að frískum karlmönnum þótti naumast út fært, og konum alls eigi. Undir rökkur slotaði veðrinu og stillti til.

Afleiðingarnar. Á Akureyri urðu stórskaðar að þessu veðri. Á höfninni lágu l3 þilskip (fiski- og hákarlaskip) og voru þau öll mannlaus, nema skip þeirra Kristjánssona, sem menn fóru í um morguninn til að gefa út festar skipsins. Það eina skip hélst við á höfninni i storminum, þótt það hrekti allmikið, en hin öll ráku upp í sandinn sunnan á Oddeyrinni. En á upprekstrinum rákust þau mjög hvort á annað og brotnuðu við það meira og minna, helst ofansjávar. Siglutré brotnuðu í sumum og 4 eða 5 misstu bugspjót sín. Allt fyrir þetta mun mega gjöra við öll þessi skip og kostnaðurinn við aðgjörð sumra þeirra eigi mikill. Síðan hefir kappsamlega verið unnið að því að losa skipin af grynnslum og eru þau nú flest komin á flot og verða sett á land. Tvö sauðaskip Zöllners lágu hér á höfninni, en þau héldu sér við með gufuafli lengst af. Breska herskipið „Bellona“ lá hér og slitnaði upp og missti akkerið, en lenti þó ekki á Eyrinni en var á róli aftur og fram fyrir framan Eyrina meðan veðrið var sem mest, í 4 eða 5 daga voru Bretar svo að slæða og kafa eftir akkerinu og náðu því loks. Eitt geymsluhús fauk í bænum og margt af rúðum brotnaði, skúrar fuku fra dyrum, og sumum húsum lá við að skekkjast eða skekktust, líkhús nýja spítalans kvað hafa raskast af grunni eða skekkst að meira eða minna leyti. Uppskipunarbátum á höfninni hvolfdi sumum eða sökkti. Regnið og sjórokið blandaðist saman í einn rjúkandi vatnsmökk svo nálega engin aðgreining sást lofts og lagar, þar við bættist og allskonar skran, sem var eins og fjaðrafok í háa lofti, — tunnur, keröld, kútar, járndunkar, fullar steinolíuámur, sundruð fordyri, borðviður, bjóð, hattar, húfur og sjóbrækur - svo varla greindi á milli, og var ekki hættulaust fyrir menn eða málleysingja að vera áveðurs úti í því sorpkasti, enda eru sögð auðsæ vegsummerki byljarins hér út með firðinum austanverðum, eins og reyndar víðar, þar kváðu liggja fjallháir brimþvældir garðar af heyi og allskonar kynstrum ofan við fjöruborðið, sem fokið hefir á vestursíðunni og skolast yfir um.

Slys og mannskaðar. Hús fauk í Rauðuvík í Arnarneshreppi. Slasaðist af því kona og biðu bana tvö börn Jóns Jónssonar smiðs, sem þar bjó, en var ekki heima, er þessi atburður gerðist. Fleira fólk er sagt að hafi verið í þessu húsi, er allt meiddist meira eða minna, allir innanstokksmunir glötuðust allt að fötunum, sem fólkið stóð í. Sveinn bóndi í Arnarnesi varð fyrir stiga í veðrinu og meiddist mikið. Lítið þilskip, eign J.Björnssonar á Svalbarðseyri og Jóh. Davíðssonar í Hrísey, rak í land í Hrísey og brotnaði þar í spón, drukknaði þar Páli Jónsson kallaður Rangvellingur, sem var einn í skipinu. Annað lítið þilskip, „Kári“, kom af Siglufirði deginum fyrir veðrið hingað inn á fjörðinn og lá undan Svarfaðardal, sleit upp í veðrinu og dreif á grunn við Hríseyjarhala, týndust þar 4 eða 5 menn af Siglufirði. Tvær stúlkur er sagt að hafi handleggsbrotnað í Hjaltadal í Fnjóskadal. Heymissir og skemmdir á þökum torfhúsa urðu mikil víða í sveitum. Sumir misstu heil heyin í Glæsibæjarhreppi, og þar mun skaðinn líka hafa orðið einna mestur. Torfþökum fletti víða af heyjum, hlöðum, úthýsum og bæjum, svo mikla vinnu þarf til að endurbæta þetta. Eldiviðarhlaðar hrundu og fuku til skemmda á mörgum stöðum. Þá skemmdust víða og skekktist timburhús til sveita, svo sem kirkjan í Stærra-Árskógi og kirkjan á Möðruvöllum í Hörgárdal, leikhúsið þar og kirkjan í Kaupangi og er enn tæplega fegnar allar fregnir af stórviðri þessu.

Á ferð í ofviðrinu voru sumir á hesti, þegar hvassast var. Bóndi af Staðarbyggð skýrir svo frá: „Ég fór ofan á Akureyri snemma um morguninn og ætlaði heim fyrir miðjan dag, þegar ég var ferðbúinn var ofsaveðrið skollið yfir, beið ég því fram undir nón, þá virtist mér heldur slota og lagði af stað, en þá var veðrið svo, að hestinn hrakti með mig út af veginum hvað eftir annað, en af fótunum fór hann eigi, enda er hann með sterkustu hestum í minni sveit, ég fór með hálfum hug yfir Vaðlana, því vatnsrokið ætlaði að æra hestinn; þótt leiðin, sem ég fór, væri eigi lengri en tæp míla, var hesturinn því nær uppgefinn, þegar ég kom heim“. Annar ferðamaður segir svo frá: „Við vorum tveir á ferð ofan Öxnadal í mesta ofviðrinu, og áttum því undan veðrinu að halda, hrakti okkur hvað eftir annað út af veginum og lausu hestana hrakti stundum á reiðskjóta vora, og hestur samferðamanns míns missti nokkrum sinnum fótanna.

Ísafold segir frá ofviðrinu þann 29.:

Ekki er nærri fullfrétt enn um tjón það, er manndrápsveðrið mikla 20. þ.m. hefir valdið víða um land, og hafa ekki verið síður brögð að því norðanlands en sunnan, að því er frést hefir, einkum á Eyjafirði. Þar höfðu þilskip mörg á höfninni, fiskiskútur, rakist á og laskast stórum, jafnvel orðið að strandi sum; en opna báta rak upp á Oddeyri og fóru sumir í spón. Hús fuku þar einnig, geymsluhús, eða skemmdust til muna. Þá fuku og heyhlöður þar um héraðið, og eins í Skagafirði, og þak af peningshúsum; sömuleiðis hey í görðum og því fremur úti á víðavangi, þar sem til var. Skrifað er í bréfi af Akureyri 23. þ.m.: Öl1 seglskip á höfninni rak á land, 15 að tölu, og brotnuðu meira og minna; skaðinn skiptir mörgum þúsundum kr. Bellona (herskipið enska), Angelus og Constantin héngu við illan leik. Ö11 hús léku sem á þræði. Bellona misti akkeri og 45 faðma langa festi; hefir nú leitað að því í tvo daga, en ekki fundið. Síldarhús hér utar í firðinum, 12 álna breitt og 20 álna langt, færðist fram af grunninum um 1 alin; og 1000 síldartunnur fuku á sjó út. Á sama stað fauk lítið íbúðarhús, er i var kona með 2 börnum, er lemstruðust til bana, en konan komst lífs af við illan leik, handleggsbrotin. Skip, sem var á leið hingað af Siglufirði, fórst með öllum mönnum, 10 að tölu. Bátur, sem konsúll J. Havsteen átti, og 10 menn þurfti til að setja, fauk í loftinu um 30 faðma. Rúður brotnuðu. Mörg hús skekktust svo, að ekki varð lokað hurðum. Bændur misstu hey sín, sumir á annað hundrað hesta. Grjót og spýtnarusl, torf og því um líkt kom í háa-lofti, og stórmeiddi fólk, sem var að bjarga heyjum sínum og skipum. Blautur sandurinn þyrlaðist í háa-loft og fór í vitin á fólki. Þeir, sem úti vorn staddir, gátu ekki með nokkuru móti staðið, heldur urðu að fleygja sér flatir niður. Hús láku svo, að slíks eru engin dæmi. Reykháfar hrundu í húsum m.fl.

Bjarki á Seyðisfirði segir þann 29. frá ofviðrinu (hér er því sleppt að mestu sem fram er komið hér að ofan):

Ofsaveðrið í vikunni sem leið hefur náð yfir stórt svæði. „Ceres“ varð fyrir því suður við Orkneyjar, „Hólar“ úti fyrir Langanesi og sagði skipstjórinn, að hann hefði aldrei fengið annan eins storm hér við land. „Uller“, sem nýkominn er hér inn, fékk storminn hér úti fyrir Austurlandinu og hrakti undan því norður í Íshaf. „Mjölnir“ var þegar veðrið skall á undir Árskógsströnd - inni á Eyjafirði og lá þar þangað til því slotaði. En ekki hefur stormurinn verið vægari þar í Eyjafirðinum en hér eystra. Hákarlaskip frá Siglufirði, sem var að sækja kartöflur o.fl. inn á Akureyri, fórst á Eyjafirðinum með fjórum mönnum. Einnig er skrifað að bátur færist þar með þrem mönnum, en ekki tilgreint hvaðan hann væri. 

Úr Þingeyjarsýslu er skrifað, að þar urðu víða heyskaðar og á Stóruvöllum í Bárðardal fauk þak af steinhúsi.

Bjarki segir 22. október frekari fréttir af foki:

Í Svarfaðardalnum fuku tvær kirkjur, á Urðum og Upsum, og brotnuðu í spón, en hin þriðja, á Völlum, stórskemmdist. Þinghúsið á Saurbæ í Eyjafirði fauk og mölbrotnaði. Í Skagafirði fuku tveir bæir: Reykir á Reykjaströnd, svo baðstofan stóð ein eftir, og Hólakot. Einnig fauk brúin af Jökulsá í Vesturárdal og brotnaði öll. Á Árskógsströnd í Eyjafirði fauk hús og biðu þar tvö börn bana. 

Þann 6. október segir Bjarki af skipum sem lentu í veðrinu:

Fjárskipið „Bear" missir um 2000 fjár. Skosk blöð segja svo frá hrakför þessa skips sem fór með féð af Svalbarðseyri: „Gufuskipið Bear frá Glasgow, sem áður var góssflutningaskip, en nú flytur fé frá Íslandi til Liverpool, kom til Stornoway í gærkvöld (þ.25.sept.) og sagðist hafa orðið fyrir ofsaveðri skömmu eftir að það hélt af stað frá Íslandi. Stýrið brotnaði, skipið hrökklaðist milli holskeflanna og rak þrjá daga nærri stjórnlaust fyrir sjó og veðri. Öllu fénu á efsta þilfari og miklum hluta fjárins á öðru þilfari varð að kasta fyrir borð. Til bjargar skipi og mönnum varð að loka öllum uppgöngum á þilfarinu og urðu þær ekki opnaðar í 4 daga. Í vélarrúminu var 4 feta vatn, eldarnir slokknuðu undir kötlunum og undir þiljum var sömuleiðis 4 feta vatn. Tveir sjóir sem fóru yfir skipið voru sérstaklega risavaxnir; þeir gusuðust niður um járnristarnar og komu ofan á kyndarana þar sem þeir voru að kynda, rifu burt stóarhlerana og skoluðu kolunum og öskunni ofan i undirlest. Af 2600 fjár, sem skipið flutti frá Íslandi, er talið af yfir 2000 hafi farist, með því að fjöldi kafnaði dagana sem öll göt varð að byrgja, en meira hlut var þó varpað fyrir borð til þess að fólkið kæmist að því, sem gera þurfti á skipinu. Skipið laskaðist töluvert og tveir skipsbátar liðuðust sundur. Potter skipstjóri segist aldrei hafa hreppt svo ólman storm í þau 20 ár, sem hann hefur farið um vesturhluta Atlantshafs. Hugsanlegt er að þetta hafi verið halinn á fellibyl þeim, sem lagði Galveston í rústir. Líklegt er að skipið hefði farist hefðu ekki skipstjóri þess og stýrimaður verið jafn vanir og ágætir sjómenn. Af farmi síðara skipsins, yfir hálfa þriðju þúsund, dóu einar tvær kindur. Það sagði Steinþór steinhöggvari sem sjálfur var með skipinu.

Þann 3.nóvember gerði Ísafold upp drukknanir í Arnarfirði í illviðrinu 20.september:

Þeir voru 18 alls, sem drukknuðu þann dag, frá nokkurum heimilum í Arnarfjarðardölum, á 4 bátum. Þar af voru 5 vinnumenn síra Lárusar Benediktssonar í Selárdal og 5 landsetar hans. Það eru 6—7 býli í Selárdalnum önnur en sjálft prestssetrið, en fólkstala í dalnum alls 50—60 á undan slysinu, með 20 fullorðnum karlmönnum. Af þessum 20 lifðu einir 5 eftir, en 15 drukknuðu. ... Veðrið skall á þar í Arnarfirði ekki fyrr en kl.8 um morguninn, miklu seinna en annarstaðar, t.d. á Breiðafirði; um morguninn hafði verið  hægviðri, en þykkur og dimmur. 

Þjóðviljinn ungi birti þann 11.október bréf úr Dýrafirði, dagsett 27.september:

Síðan daginn fyrir kjörfundinn sæla á Ísafirði [kosið var þar 1.september], hefur mátt heita versta ótíð. og verður lengi uppi í sögu okkar Vestfirðinga hvorttveggja, kjörfundurinn og veðráttan, sem honum fylgdi. Það voru dagarnir 3.-8. september, sem veður var all-gott, og voru þá allir við heyskap, því tún urðu mjög seinunnin í sumar, vegna þurrkanna, og litið komið af útheyi hjá mörgum; en það, sem slegið var framan af september, hefur aldrei náðst inn, því með 9. brá til sífelldra votviðra, svo að menn hafa ekkert getað unnið að haustverkum, ekki dyttað að húskofa, eða neinu; en út yfir tók ofsaveðrið 20.september, eitt hið mesta veður, sem komið getur, af vestan-útnorðri. Um morguninn var ekki mjög hvasst, en loftið þrungið, og fullt af votviðri, sem verið hafði að undanförnu; um daginn var loftvogin komin ofan 71, og fyrir hádegi komið það afspyrnurok, að hvert hús lék á reiðiskjálfi. Sjórinn varð svo ógurlegur, að verra mun ekki eiga sér stað, og að því skapi var regnið; allt fauk, og brotnaði, sem laust var. — Flutningagufuskipið „Alpha" var nýlega affermt, og lá við Höfða-oddann að utanverðu; það hafði gufuvélina í fullum krafti, og rak þó undan ósköpunum, alla leið inn undir Ketilseyri, og var nærri komið upp í Höfða-oddann, þegar það rak inn fyrir. Bryggju tók þar, og rak inn á Lambadalshlið. Ferju flatbotnaða, mjög stóra, rak frá Höfðaoddanum á hvolfi inn í Lambadal, og voru þó að sögn um 1500 pd. af járni í henni, þegar hún fór, sem allt er i sjónum, og fleira fór þar til stórskemmda, svo að skaðinn skiptir víst þúsundum í allt og allt. — En síðan þetta mikla veður reið af, hefur veður oftast verið gott, þurrt, með frosti á nóttu, og snjóað á fjöll.

Þann 9. nóvember segir Þjóðviljinn ungi frekari fréttir af skriðuföllum í illviðrinu:

Í áhlaupsveðrinu 20. september síðastliðinn féll skriða á engjar og beitilönd jarðanna: Hestur, Efrihús og Neðrihús í Önundarfirði, og olli þar talsverðum skemmdum. 15 kindur urðu og fyrir skriðunni, og drápust 9 þeirra, sem voru eign bóndans á Hesti.

Ísafold segir þann 29.september:

Mikil ótíð helst enn hér sunnanlands, að undanteknum 2-3 dögum núna í vikunni með þerriflæsu, sem kom að töluverðum notum sumstaðar, en litlum í sumum sveitum, meðfram vegna kulda: frost á nóttu o.s.frv. Sama að frétta af Vestfjörðum og úr vestursýslunum norðanlands. En í austursýslunum nyrðra frá Eyjafirði og í Múlasýslum hefir verið öndvegistíð fram um miðjan þennan mánuð að minnsta kosti, að því er frést hefir, hlýir sunnanvindar fyrir norðan með allgóðum þerri. Heyskapur gengið þar mætavel.

Október: Nokkuð hagstæð tíð. Fremur kalt.

Þjóðviljinn ungi segir októbertíð: 

[11.] Frá byrjun þ.m. hefur haldist all-hvöss norðanátt, all-oftast með frosti og fjúki, nema stillt veðrátta nokkra daga um síðustu helgi, og síðan rosa-tíð.

[23.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur tíð verið óstöðug og stormasöm all-oftast.

[30.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur tíð verið óstöðug, nema stillt norðanátt og frost frá 26. þ.m.

Ísafold segir frá tíð í tveimur pistlum í október:

[13.] Eftir að hinum miklu stormum og rigningum létti nú um mánaðamótin, hófust kuldar og hreinviðri, er snúist hafa nú síðasta sólarhringinn upp í kafaldsfjúk með talsverðu frosti.

[27.] Veturinn byrjar í dag á fögru hreinviðri og heiðskíru, með dálitlu frosti. En stormar og hrakviðristíð síðustu vikurnar af sumrinu.

Austri segir frá tíð þann 29.október:

Tíðarfar má heita að hafa verið allgott síðustu viku og hvorki snjókoma eða frost til muna, svo að allstaðar hér eystra mun enn vera gott til jarðar.

Nóvember: Nokkuð umhleypingasamt, en hiti í meðallagi.

Þjóðólfur segir frá þann 9.:

Í ofsaveðrinu aðfaranóttina 2. þ.m. brotnuðu 4 uppskipunarbátar á Eyrarbakka og bryggja hjá P. Nielsen verslunarstjóra skemmdist. Gekk sjórinn í stórum öldum upp á Breiðumýri millum Eyrarbakka og Óseyrarness. Þó slapp vegurinn þar á mýrinni við skemmdir í þetta sinn. Ölfusá gekk langt upp á land í Ölfusi utanverðu, og hefur annað eins flóð ekki komið þar næstliðin 35 ár. Þó varð ekki mikið tjón að flóðinu.

Frekari fréttir eru af sama veðri í Þjóðólfi þann 30. nóvember:

Fjárskaðar allmiklir urðu sumstaðar hér sunnanlands í ofsaveðrinu 2. þ.m. Meðal annars missti Sæmundur bóndi í Stakkavík í Selvogi um 60 fullorðið fjár í sjóinn, flæddi þar á skeri. Hjá Grími bónda Eiríkssyni í Gröf í Grímsnesi fórust rúm 40 lömb, er hröktu þar í ós einn. Átti hann um helming þeirra sjálfur, en hinn helminginn Guðjón bóndi Finnsson á Reykjanesi þar í sveit. Í Kjós urðu og fjárskaðar (í Hækingsdal  og víðar).

Austri segir um nóvembertíð þar eystra:

[7.] Tíðarfar er nú hið ágætasta á degi hverjum, og auð jörð upp í mið fjöll. Ofviðri gjörði hér nokkurt 2. þ.m. og fauk þá töluvert af þakinu á íshúsi Garðarsfélagsins inn á Fjarðarselsmýrum.

[10.] Stórhríð og ofsaveður af norðaustri hefir gengið hér tvo síðustu dagana. Mest var veðrið í fyrrinótt tók þá út nokkra báta og mikið af bryggju Gránufélagsins brotnaði i brimi því og stórflóði er gjörði um nóttina. Með því þetta vor bleytuhríð í fyrstu, mun hér nú nær jarðlaust. 

[19.] Tíðarfar hefir nú í rúma viku verið hið blíðasta, svo að töluverð jörð er þegar komin upp. Í dag er hláka og ofsastormur. Fjárskaðar hafa orðið töluverðir í hríðinni um daginn, bæði í Héraði og Fjörðum. En vonandi er að eitthvað af fénu náist úr fönninni, ef þessi hláka helst lengi.

[24.] Tíðarfar hefir þessa dagana verið hér mjög óstillt, rosi og rigningar miklar á hverjum degi.

Austri segir frá í pistli þann 10.desember:

Með póstum heyrðist nú víða að um meiri og minni fjárskaða, sem orðið hafa víðsvegar um land í stórhríðinni fyrrihluta f.m., og játa það margír, að þeir fjárskaðar hefðu víða getað orðið miklu minni, ef menn hefðu nógu snemma gætt að hinu miklu falli loftþyngdarmælisins. Verður það eigi of oft brýnt fyrir mönnum, að reyna að eignast þann kostagrip á heimili sín og gæta áminningar hans í tíma við öll tækifæri.

Bjarki á Seyðisfirði segir þann 14.:

Í veðrinu fyrir helgina [veðrið 8. til 10. nóvember] urðu hér talsverðar skemmdir, bryggjur brotnuðu bæði hjá Thostrup og Imsland og á Vestdalseyri og nokkrir bátar skemmdust.

Og þann 20.:

Fjárskaðar hafa orðið nokkrir á Héraði í hríðarbylnum 9. þ.m. og þar eftir. Fé var óvíða heima við, því jörð var auð fyrir. Sumstaðar vantaði fjölda fjár en síðari fréttir segja að margt af því hafi fundist, komið fyrir á næstu bæjum, og er því óvíst enn, hversu mikill skaðinn er.

Bjarki birti þann 20. bréf úr Vopnafirði, dagsett þann 16.:

Hér er nær haglaust víðast í sveitinni. Ekki urðu hér fjárskaðar í veðrinu um síðastliðna helgi nema á Hámundarstöðum. Bændurnir þar misstu um 50 fjár og annar þeirra (Sveinbjörn) bát; það er góð viðbót við bæjarbrunann. Bátur fórst hér í veðrinu, frá Skerjavík, með tveim mönnum 9.þ.m. 

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð og tjóni í nóvember í nokkrum pistlum:

[9.] Fyrsta þ.m. gerði suðvestan slagveður og rigningar og hefur tíð síðan verið óstöðug og rosasöm og blindbylur í gær. 

{17.] Norðankafaldsbylnum er hófst 8.þ.m. slotaði 11 og hefur veðráttan síðan verið frostlin, en dyngt niður kynstrum af snjó. 

[29.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefur tíð verið mjög óstöðug, sífelldir stormar að heita má, ýmist suðvestan stormar og rigningar, eða norðanveður.

Í Þjóðviljanum unga þann 29. segir frá tveimur sjóslysum, öðru við Gjögur í Standasýslu þann 8. október og drukknuðu tveir, og 1. nóvember varð skipskaði þremur að bana í Grindavík. Ekki er ljóst hvort veður kom við sögu í þessum óhöppum. En svo segir:

Í áhlaupsveðrinu 8. nóv. síðastliðinn urðu fjárskaðar á stöku stað fyrir sunnan heiðar. Á Múlahlíð í Gilsfirði fórust 3 hestar, og 1 í Saurbænum, en 3 vantaði frá Ásgarði i Hvammssveit. sem talið er, að fennt muni hafa. Hjá búnaðarskólastjóra Torfa Bjarnasyni í Ólafsdal fennti 30 fjár til dauða, og viðar mun fé hafa farist þar syðra, þó að enn sé ekki greinilega til spurt. Kvenmaður varð úti á Ólafsdalshlíð 8. nóvember, milli Ólafsdals og Stórholts í Saurbæ. 

Í blaðinu er einnig listi yfir þá sem fórust í Arnarfirði þann 20.september. Þar segir að lokum:

Af 20 fullorðnum karlmönnum, er í Selárdalnum voru, hafa því 15 farist við mannskaða þennan, en 10 hafa orðið ekkjur, og 17 börn föðurlaus.

Ísafold segir þann 24.nóvember:

Veðrátta mjög vanstillt, stormar miklir og rigningar. Líkt að heyra langt að með póstum. Norðanhríðin snarpa og skyndilega í öndverðum þessum mánuði hefir valdið fjársköðum víða, meiri og minni.

Desember: Hægviðrasamt lengst af. Talsverður snjór um stóran hluta landsins um miðjan mánuð. Hiti í meðallagi, en þó kalt inn til landsins fyrir norðan.

Ísafold birti þann 15. bréf úr Strandasýslu og Hrútafirði:

Strandasýslu miðri 5.desember. Þetta ár, sem nú er komið á síðasta mánuð, hefir, þegar á allt er litið, mátt heita hagsældarár fyrir þetta byggðarlag. Veturinn í fyrra vetur var einn af þeim mildustu og bestu. Vorið að vísu kalt framan af; en hey voru alstaðar nóg, og skepnuhöld urðu því almennt mjög góð. Í maímánuði snemma gerði eitt hið eftirminnilegasta hret, miklu eftirminnilegra og lærdómsríkara en öll fannfergjan og hagleysan árið áður, því að í þessu hreti var harðneskjan, kafaldið og veðurhæðin svo mikil í rúma viku, að ekki var nokkurt viðlit að láta nokkurra skepnu út fyrir húsdyr. Hefði því verið almennt heyleysi, eins og árið áður og oft endranær, þá hefði orðið voðalegasti skepnufellir og hretið ógleymanlegt. En af því að svo vel hittist á, að allir höfðu nóg hey, og gátu gefið skepnunum inni, eins og á þorra, þá man nú varla nokkur maður eftir þessu hreti. En lærdómsríkt er það eigi að siður, að slíkt hret skyldi koma í 7. viku sumars, því „það sem hefir skeð, getur skeð“. Heyskapur varð með betra móti og nýting hin besta á töðum og all-góð á útheyi, þó votviðrasamt væri seinni part sumarsins. Haustið var mjög stórviðra- og úrkomusamt, þó út yfir tæki 20. september. Var því mjög illt að vinna að haustverkum, og gæftir stopular, en fiskiafli allgóður, þá er gaf. Í sumar var mokfiski um tíma.

Hrútafirði 10. desember. Sumarið var fremur hægstætt hvað heyskap snertir. Grasvöxtur góður bæði á túnum og engjum. Óþurrkar voru framan af slættinum, en seint í júlímánuði hrá til þurrka og héldust þeir svo, að hey náðust góð og óhrakin til ágústmánaðarloka. - Eftir það voru stöðug votviðri, þar til dagana 23.-29. sept. Þá daga var oftast sólskin á daginn, en frost mikið á nóttum. Voru þá mikil hey úti, sem náðust þá daga, sumt allvel þurrt. Yfirleitt mun heyskapur vera heldur góður, að minnsta kosti að vöxtum. Haustið heldur slæmt fram í nóvembermánuð, ýmist snjógangur með frosti eða rigningar og stormar. Hinn 8. f.m. síðdegis rak mjög skyndilega á snarpan norðanbyl, er hélst daginn eftir. Sauðfé var farið að liggja inni og náðist alstaðar í hús hér i byggðarlaginu, en hér i sveit fennti nokkur hross (á einum bæ 4), og er slíkt mjög fátítt hér. Síðan hefir verið góð tíð, svo ekki er teljandi, að farið sé að gefa fé enn.

Þjóviljinn ungi segir þann 12.:

Eftir sífellda storma í samfleyttan hálfan mánuð, stillti loks til 1. þ.m., og hélst síðan stillt og frostlin veðrátta, uns 8. þ.m. gerði norðanhvassviðri, með fannkomu og fjúki.

Þjóðólfur segir þann 14.:

Veðurátta hefur verið hin blíðasta nú langa hríð, eða að kalla má í allt haust. Hvergi hér í nærsveitunum farið að gefa fullorðnu fé eða útigangshrossum og víða í uppsveitum Árnessýslu (t. d. Biskupstungum og Hreppum) ekki farið að taka lömb enn á gjöf.

Ísafold segir þann 15.:

Veðrátta er og hefir verið mjög mild þessa jólaföstu. Jafnvel blíða dag eftir dag. Sama segja nýkomnir póstar þar sem þeir vita til.

Austri segir þann 31.:

Að morgni hins 21. þ.m. reru sjómenn héðan úr Seyðisfirði í allgóðu sjóveðri, en er á daginn leið tók að hvessa af norðvestri og setti upp geysimikla öldu; náðu þó allir bátar hingað inn í fjörðinn um kvöldið, nema tveir er lengst munu hafa róið; var Árni Pálsson Axfjörð formaður fyrir öðrum þeim bát, en Finnur Einarsson fyrir hinum. Finnur Einarsson hafði um nóttina náð með illan leik inn til Mjóafjarðar og kom svo hingað að kvöldi þess 23.; en til Árna hefir ekkert spurst, og mun nú öll von úti um að hann hafi nokkurstaðar náð landi.

Bjarki getur þess þann 31. að skipið Egill hafi komið í fyrrinótt og fengið vont báðar leiðir. „Á norðurleið hrakti hann vesturfyrir Eyjafjörð og var kominn á land nálægt Haganesvík. Þá varð að kasta út 36 tunnum af kjöti til þess að koma skipinu út“. Síðan segir af veðri:

Veðrið hefur verið stirt undanfarandi viku; á jólanótt nær ófært krapaveður, á föstudaginn [28.] stórrigning og stormur og á laugardaginn krapahríð, en frá því í gærmorgun er alheiðskírt og dálítið frost.

Þjóðviljinn ungi segir um tíð vestra í pistlum:

[22.] Tíðarfar er einatt mjög óstöðugt og stormasamt, aðeins stöku dagur í bili, er á sjó verður farið.

[31.] [Tíð hefur] verið afar-stormasöm, sífelldir norðannæðingar. með allt að 10 stiga frosti (Reaumur), uns hláku gerði á aðfangadag, og á jóladaginn, en síðan hefur haldist frostlin og stillt veðrátta.

Ísafold segir þann 29. að jólin hafi verið hvít í Reykjavík, frostvægð mikil og veður spök. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um tíðarfar og veður ársins 1900. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 61
  • Sl. sólarhring: 310
  • Sl. viku: 2440
  • Frá upphafi: 2434882

Annað

  • Innlit í dag: 57
  • Innlit sl. viku: 2167
  • Gestir í dag: 55
  • IP-tölur í dag: 53

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband