Hrunveðrið

Það var ekki aðeins bankakerfið sem fór á höfuðið í októberbyrjun árið 2008 heldur má segja að veðrið hafi gert það líka. Rétt tæp þrjú ár höfðu liðið frá því að kaldur mánuður hafði sýnt sig og tveir mánuðir ársins 2008 fram að því, maí og september voru sérlega hlýir. Auk þess gerði sérlega eftirminnilega hitabylgju um mánaðamótin júlí/ágúst - þegar hæsti hiti sem vitað er um mældist í Reykjavík, 25,7 stig á mönnuðu stöðinni, en 26,4 á þeirri sjálfvirku. Hiti á Þingvöllum mældist 29,7 stig, sá hæsti sem nokkru sinni hefur mælst á sjálfvirkri stöð á landinu.

September var þó óvenjublautur sunnanlands, úrkoma í Reykjavík nærri tvöfalt meðaltal. Minnistætt er úrhelli og hvassviðri þann 16. til 17. september þegar lægð, sem tengd var leifum fellibylsins Ike, fór hjá landinu. Um þetta veður má lesa í pistli á vef Veðurstofunnar.

En síðustu daga september kólnaði að mun þegar vindur snerist til norðurs. Þann 2. kom grunn, en vaxandi lægð með norðvestanvindstreng í háloftum vestan yfir Grænland og fór til austurs rétt við suðvesturströndina. Loftið var nægilega kalt til þess að áköf úrkoman féll sem snjór víða um landið sunnanvert. Morguninn eftir mældist snjódýpt í Reykjavík 9 cm. Það var sem náttúran tæki þátt í kuldanum sem var að slá sér inn í hjörtu flestra landsmanna. Voru stöku menn vissir um að „litla-ísöld“ hefði snúið snarlega aftur úr felum - og Hörmangarafélagið jafnvel líka. 

w-blogg051018b

Á kortinu má sjá lægðina litlu sem snjókomunni olli, einhverri þeirri mestu sem mælst hefur í höfuðborginni svo snemma hausts. Reyndar liðu ekki nema 5 ár þar til enn meiri snjór féll í borginni snemma í október. 

w-blogg051018a

Íslandskortið kl.21 fimmtudaginn 2.október sýnir snjókomu sem náði frá Snæfellsnesi í vestri austur í Mýrdal. Skyggni í Reykjavík var ekki nema 800 metrar - en vindur var hægur. Tölurnar sem standa ofarlega til hægri við hverja stöð sýna hita, -0,8 stig í Reykjavík. Við sjáum að á Grímsstöðum á Fjöllum var frostið -9,8 stig. Þessir dagar voru sannarlega kaldir, fjöldi dægurlágmarksmeta féll þar á meðal þrjú landsdægurlágmarksmet fyrir landið allt, og líka þrjú í byggðum. Þau standa enn. Mest mældist frostið þessa daga á Brúarjökli, -18,4 stig þann 2., og -17,4 stig mældust í Svartárkoti þann 3. - næstmesta frost í byggð svo snemma hausts. Frost fór í -8,6 stig á Akureyri - líka næstmesta frost svo snemma hausts þar á bæ. 

Þetta má segja okkur að kuldi getur gert illa vart við sig þó hlýindi séu almennt ríkjandi. 

En það hlýnaði fljótt aftur og mánudaginn þann 6., þann sem flestir tengja við fræga ræðu forsætisráðherra og neyðarlögin, var fremur hlýr landsynningur ríkjandi á landinu eins og kortið hér að neðan sýnir. 

w-blogg051018c

En kuldatíðin hafði ekki yfirgefið landið. Um og uppúr þeim 20. gengu sérlega djúpar lægðir hjá landinu með kulda, stormum og sjógangi. Hæð 500 hPa flatarins yfir Keflavík fór í sína næstlægstu októberstöðu  og 400 hPa-flöturinn í þá lægstu. Loftþrýstingur fór niður í 945,9 hPa á Gjögurflugvelli, það er sá fimmtilægsti í október frá upphafi mælinga á landinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 48
  • Sl. sólarhring: 1136
  • Sl. viku: 2719
  • Frá upphafi: 2426576

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 2423
  • Gestir í dag: 46
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband