20.10.2018 | 15:26
Af árinu 1889
Árið 1889 var kærkomið eftir margra ára samfelld harðindi. Það byrjaði að vísu með nokkuð erfiðum snjóum og umhleypingum, en frost voru ekki mjög hörð. Það voraði mjög vel og sumarið var viðast hvar hagstætt. Áfelli gerði i september en tíð batnaði aftur. Síðustu tveir mánuðirnir voru aftur mjög umhleypingasamir, en frostvægir.
Það eru aðeins fyrstu tveir mánuðir ársins sem teljast kaldir, febrúar kaldari en janúar. Mars og apríl eru í hópi meðalmánaða hvað hita varðar, en maí, júní, júlí og ágúst allir hlýir. Auk þess var hlýtt í október og nóvember.
Ársmeðalhiti í Reykjavík var 4,2 stig, sá hæsti frá 1880 og í Stykkishólmi var hann 4,0 stig, sá hæsti frá 1856.
Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal 19.júní, 26,3 stig. Eins og oft hefur fram komið áður trúum við illa hæstu tölum úr Möðrudal frá þessum árum - líklega hefur hámarkið verið að minnsta kosti 2-3 stigum lægra, ágætt samt. Hiti fór í að minnsta kosti 24,2 stig á Raufarhöfn 2.júlí - við þekkjum mæliaðstæður þar illa. Hiti komst í 20,1 stig á Raufarhöfn þann 6. september, ekki alveg ótrúverðugt vegna þess að þá dagana var óvenjuhlýtt víða um land - þó ekki væri um met að ræða. Hiti komst í 21,1 stig á Núpufelli í Eyjafirði 13.maí - er það snemmt og stendur reyndar enn sem landsdægurhámark þess almanaksdags.
Mest frost á árinu mældist í Möðrudal þann 29.desember, -28,2 stig.
Myndin sýnir daglegan hita í Reykjavík 1889. Ekki var mikið um hörð frost á útmánuðum 1889, fáeinir dagar fyrir miðjan febrúar skera sig þó úr. Fyrir lok aprílmánaðar hlýnaði mjög og mátti heita hretalaust allt fram í miðjan september þegar mjög kalt var í nokkra daga, næturfrost fimm daga í röð í Reykjavík. Annað kuldakast gerði seint í október, en annars var lengst af fremur hlýtt þar til vel var liðið á nóvember.
Ritstjóri hungurdiska finnur aðeins þrjá kalda daga á árinu í Reykjavík - mikil viðbrigði frá árunum á undan. Það eru 9. og 10. febrúar og síðan 21. september. Í Stykkishólmi voru köldu dagarnir fjórir, allir í febrúar.
Einn dagur telst óvenjuhlýr í Reykjavík, 8.september og tveir í Stykkishólmi, 5. og 6.september.
Þrýstingur var lágur um hríð í desember - nokkuð vanalegt, lægsta tala á landinu mældist í Vestmannaeyjum þann 16., 951,1 hPa. Sömuleiðis var þrýstingur heldur lágur síðari hluta maí og framan af júní, en fremur hár í júlí, komst í 1030,9 hPa í Stykkishólmi þann 5. Sömuleiðis var þrýstingur á útmánuðum lengst af hár - og seint í febrúar gerði óvenjumikið háþrýstisvæði stuttan stans. Þá mældist þrýstingur á Akureyri 1050,4 hPa þegar mest var þann 25.
Ársúrkoman mældist ekki nema 617 mm í Reykjavík, sú minnsta á tíma samfelldra mælinga áranna 1885 til 1906. Þessi þurrkur er nokkuð grunsamlegur miðað við mælingar á öðrum stöðvum (sjá viðhengið) og gæti tengst athuganavandamálum.
Við lítum nú á fréttir ársins - oftast beint úr blöðum og tímaritum þessa tíma. Stafsetningu er hnikað til nútímahorfs (oftast) og pistlar stöku sinnum styttir. Við tökum ársyfirlitið að þessu sinni úr allítarlegum texta Frétta frá Íslandi. Í ritinu fylgir listi um slys og skaða sem við sleppum - enda er þeirra sem tengjast veðri flestra getið í einstökum blaðafréttum. Slysapistill Fréttanna hefst svona:
Sökum þess, að tíð var venjulega hagstæð þetta árið og sjaldan kom aftakaveður, urðu skipreikar og fémissur á sjó og landi með minnsta móti.
Síðan fylgir - að því er okkur þykir - langur listi um manntjón og slys af ýmsu tagi - orðalagið sýnir flestu betur að litið var á slysin sem eðlileg - rétt eins og stundum er um umferðarslys nútímans.
Fréttir frá Íslandi segja frá:
Þá er alls er gætt má þetta ár eflaust teljast eitt með hinum bestu, er komið hafa á síðara hlut þessarar aldar, bæði til lands og sjávar. Að vísu byrjaði árið með ákafri snjókomu og fannfergi því nær um land allt, einkum sunnan og vestan, og sást varla nokkurs staðar í dökkvan díl. Ófærð var svo mikil, að við sjálft lá, að póstferðir og aðrar samgöngur tepptust með öllu; en víða í sveitum voru þó blotar öðru hvoru, einkum norðan og austan, enda fannkoma þar minni að jafnaði og hagar allgóðir, frost jafnan lítil, því að útsynningar voru tíðastir. 21.janúar gerði hláku með 6-8°hita á R um land allt, er stóð 2 daga eða 3; tók þá mjög upp snjó í sveitum, en frysti jafnharðan upp aftur og dembdi niður snjó miklum um Suðurland og Vesturland.
Voru hagleysur fyrir allar skepnur fram á þorraþræl. Þá, 23.febrúar, gerði nokkra hláku og brá þegar bæði sunnan og vestan til stöðugra góðviðra, hlýinda með hitaskúrum, þótt stundum frysti dag og dag í bili. Var þess nú ekki langt að bíða, að snöp kæmi upp í sveitum (nema í Flóa, þar sem Ölfusá hafði farið yfir um veturinn) og enda til dala, og komu aldrei harðviðri eftir þetta og mátti vorið heita hið ákjósanlegasta. En á Austurlandi og útkjálkasveitum norðan og vestan héldust hagleysur nokkru lengur, þó að tíðin væri þar og fremur mild, eða fram í góulok, mest sökum sífelldra áfreða og skakviðra. Á Gvöndardag, 16. mars, gerði t.d. svo mikla ísing í Skaftafellssýslu, að menn þóttust eigi muna aðra slíka.
En með einmánaðarkomu skipti um í tvö horn og kom öndvegistíð einnig í þessar sveitir landsins; á Ströndum kom t.d. aldrei frost eftir 23.apríl. Mátti veturinn því heita góður yfir höfuð; frost voru jafnan lítil, einna mestur kuldi varð 16°R. Þó urðu innistöður fjár eigi alllitlar, þar sem lömbum og ám sumstaðar var gefið fullar 22 vikur alls á vetrinum, enda var almenningur víða á Austurlandi og útkjálkum landsins orðinn gjörsamlega heylaus, er batinn kom, og eigi annað sýnilegra, en að fellir hefði orðið. Sumstaðar á Mýrum og í Borgarfirði var mönnum ekki farið að lítast á blikuna þegar um nýársleytið og fækkuðu á fóðrum hjá sér. Í Suður-Múlasýslu sunnan Breiðdalsheiðar og í Skaftafellssýslu var allur þorri bænda alveg heylaus orðinn um og fyrir sumarmál og höfðu skorið af heyjum, t.d. Álftfirðingar, þegar í lok febrúarmánaðar, en fellir varð þó enginn, svo að orð sé á gerandi.
Vorið var hið besta um land allt, hitar miklir (15-20°R) og sífelldir sunnanvindar og blíðviðri með skúrum svo miklum og tíðum fram yfir messur, einkum á Vesturlandi og Austurlandi, að vandkvæði nokkur urðu á þurrkun eldiviðar, fiskjar og öðrum vorverkum fyrir þá sök. Um miðjan júlímánuð brá aftur til þurrviðra og hélst nú hér besta heyskapartíð um land allt fram í miðjan septembermánuð; gerði þá (17. september) enn snjóhret nokkurt með allmiklu frosti, er náði að kalla um land allt og stóð nokkra daga; snjóaði þá ofan í sjó, en tók bráðum upp aftur og komu nú blíðviðri með köflum og drjúgar rigningar, en snjó festi ekki í sveitum að kalla fyrr en um miðjan nóvembermánuð, en tíð fremur óstöðug, oftast suðvestan, hvassviðri stundum mikil og var ekki laust við að tjón hlytist af. Lömb voru víðast hvar ekki tekin á gjöf fyrr en um miðjan þenna mánuð og sumstaðar síðar; var snjór lítill til ársloka, einkum í vestursveitum norðanlands, þar sem oftar var alauð jörð í byggðum; en sunnanlands og vestan var veðrátta undir árslokin allt stirðari, sífelldir umhleypingar, fannkoma og bleytukaföld af útsuðri hvað ofan í samt.
Hafíss varð varla vart þetta árið. Í byrjun ársins sást aðeins lítils háttar hroði stöku sinnum fyrir Hornströndum og var á leið austur með landi, og sást frá Skildi við Siglufjörð snemma í febrúar og kom nokkru síðar við Melrakkasléttu og Langanes; en varð eigi landfastur og rak austur fyrir; bárust þá einstakir jakar að landi í Múlasýslum, en hurfu jafnharðan aftur, og varð hvergi íss vart eftir góulok.
Grasvöxtur varð því, eins og að líkindum lætur eftir tíðarfarinu, meðlangbesta móti víðast hvar, einkum á harðvelli og túnum, en mýrar voru einkum sunnanlands ekki sprottnar betur en í meðallagi. Sökum hlýindanna greri jörð svo fljótt og vel, að kýr voru hvervetna teknar af gjöf 3 vikum af sumri, enda þótt næg hey væri til; en sláttur byrjaði almennt í sveitum í 11. og 12. viku og sumstaðar fyrr (t. d. í Reykjavík og Ísafirði í 8. viku, og á Akureyri var 1/2 kýrfóður af töðu hirt 20. júní), enda bægði mönnum eigi grasleysi frá að byrja enn þá fyrr, heldur votviðri miklu fremur, er héldust fram yfir miðjan júlímánuð; stytti þá upp og héldust þurrkar öðru hvoru, út heyskapartímann, og varð nýting hin besta víðast hvar og hey mikil og góð. Garðrækt heppnaðist og allstaðar með besta móti.
Janúar: Snjóþyngsli og samgönguteppur, einkum um sunnan- og vestanvert landið. Hagleysur.
Þjóðólfur byrjar árið á því að segja frá fannkomu (þann 4.):
Tíðarfarið breyttist mjög eftir sólstöður. Fannkoma hefur verið óvanalega mikil síðan. Aðfaranótt sunnudagsins [30.desember 1888] kom allmikil hláka, en á sunnudagskveldið kom krapahríð, en síðan frost og fannkoma allmikil, svo að víða mun vera jarðlítið og jafnvel jarðlaust.
Enn segir blaðið frá fannkomu í pistli þann 11.janúar:
Tíðarfarið er þannig, að fannkomur halda áfram. Frost eru allmikil. Jarðlaust með öllu. Snjór er svo mikill, að ekki sést á dökkan díl, hvar sem til spyrst í Árnessýslu, Borgarfirði og hér í nærsveitunum. Maður kom i fyrra kveld austan úr Árnessýslu, og segir svo mikinn snjó á Hellisheiði, að eigi sé hægt að koma hesti yfir heiðina, en ófærð fyrir lausgangandi menn. Sleðafæri er nú gott hér í bænum um þessar mundir, enda ganga sleðar víðs vegar um bæinn. Mest aka menn grjóti úr holtunum ofan í bæinn. Reykvíkingar eru leiknir í því að kljúfa grjót og standa vafalaust framar öðrum landsmönnum í allri grjótvinnu.
Þann 29.janúar birti Þjóðólfur bréf úr Svínavatnshreppi, dagsett 5.janúar:
Nú er skipt um tíð; síðan fyrir jól mátt heita stöðugar hríðar og ofsaveður af suðvestri. Ófærð er svo mikil af fönn hér í sveit, að naumast mun vera farandi milli bæja. Allt fé inni síðan fyrir jól". Í Vatnsdal voru ýmsir farnir að taka inn útigangshross eftir nýjárið.
Þjóðviljinn á Ísafirði segir frá tíð í nokkrum stuttum pistlum:
[12.] Tíðarfar hefir frá nýári verið fremur óstöðugt og stirt, frost nokkurt, 47 stig á Reaumur, og nú síðustu dagana norðangarður.
[19.] Tíðarfar hefir verið stormasamt með köflum, en frostalítið og dyngt niður talsverðum snjó.
[26.] Tíðarfar hefir þessa viku verið óvanalega umhleypingasamt, stundum viðrað tvennu eða þrennu sama daginn, rigningu. krapakafaldi og frostfjúki með stormi.
Jónas Jónassen segir í Ísafold:
[19.] Fimmtudaginn h.17. var hér landnyrðingur (NA), hvass og dimmur að morgni en komið logn kl.2 e.m.; gjörði þá logndrífu, en um kveldið gekk hann til útsuðurs (SV) og kyngdi niður snjó allt kveldið; hefur síðan verið við þá átt með byljum við og við, svo hér er nú snjór með langmesta móti.
Bréf úr Skagafirði, dagsett 28.janúar birtist í Ísafold þann 20.febrúar:
Þennan mánuð hefir veðrátta fremur verið góð yfir höfuð. Frá 14.20. var jarðlítið sökum áfreða og svella, en 21. var hláka og blítt veður með 6° hita, og 22. mikil hláka með 7° hita. Síðan umhleypingar.
Og í sama blaði var bréf úr Eyjafirði dagsett 31.janúar:
Veðrátta hefir verið hér mjög rosasöm þennan mánuð. Oftast suðvestan-stormar með nokkru frosti; þó var hlákuveður 22.23. janúar. En ekkert tók upp til gagns, þótt hiti væri annan daginn, +7° á R.
Þann 8.febrúar birti Þjóðólfur bréf af Eyrarbakka, dagsett 29.janúar:
Allur þessi mánuður hefur verið mjög snjósamur, svo að sjaldan kvað hafa komið hér annar eins snjór. Í leysingunni, sem var hér um daginn, varð mjög mikið vatnsflóð og veldur Ölfusá því að miklu leyti; er hún öll ísi lögð, en hefur brotist upp úr farvegi sínum hjá Brúnastöðum i Hraungerðishreppi i Flóa og flýtur nú að miklu leyti yfir allan vestri hluta Flóans, nefnilega Sandvíkur-, Hraungerðis- og Stokkseyrarhreppa og vesturhlutann af Gaulverjahreppi. Margir bæir standa einmana upp úr vatninu og haldi frostið áfram, er að óttast, að ísinn hlaðist svo hátt, að tjón verði að; margir bæir í Flóanum standa svo lágt, að þeir eru líkt og smáþúfur upp úr. 24. þ.m. var svo mikið vatn í Hraunsá, sem er smálækur milli Stokkseyrar og Eyrarbakka, að flytja varð yfir hana, og lækir þeir, er renna niður hjá Loftsstöðum eru sagðir lítt færir. Fénaðarhöld eru sögð góð og bráðapestar hefur litið orðið vart.
Þjóðviljinn segir frá mannsköðum í janúar í pistli 23.mars:
Í Skagafirði drukknuðu 3 menn af báti i Kolbeinsárósi 24. janúar, og sama dag varð kvenmaður úti í Berserkjahrauni í Snæfellsnessýslu.
Þann 1.febrúar segir Þjóðólfur:
Sú var endaslepp hlákan, sem talað var um síðasta blaði; hún klykkti út með bleytuhríð og frosti á eftir; síðan hefur ýmist verið fannkoma með frosti eða spilliblotar, svo að nú er haglaust aftur.
Eystra var greinilega skárra. Ísafold birti þann 2.mars bréf úr Reyðarfirði dagsett 1.febrúar:
Allan janúar hefir tíðarfar verið hér gott, stöðug veðurátt með lítilli snjókomu og væg frost. Hér hefði því verið öndvegistíð til lands, hefði eigi gjört austan bleytusnjó viku eftir nýár. Síðan hefir jarðlaust mátt heita á flestum bæjum hér í Fjörðunum. Betra upp til Héraðs að sagt er. Mest frost í janúar hér við sjóinn -8°R.; mestur hiti 18.janúar + 8°R.
Febrúar: Áframhaldandi snjóþyngsli til góu, en síðan mjög hagstæð tíð.
Fram eftir mánuði lýsir Jónas Jónassen mikilli umhleypingatíð í Reykjavík, oftast útsynningi. En eftir þann 20. breytti til. Hér eru nokkrir pistlar hans úr Ísafold:
[23.] Allan miðvikudaginn [20.] var hér logn og dimmviðri (ofur-hægur austankaldi seint um kveldið); gekk svo með hægð til landsuðurs með hægu regni og hefir verið það síðan, svo snjóinn hefir tekið mjög mikið upp þessa tvo daga (21. og 22.,). Seint um kveldið h.22. fór að hvessa a austan-landsunnan (SA). Rignt mikið aðfaranótt h. 23.
[27.] Allan laugardaginn [23.] var hér suddarigning og logn; daginn eftir bjart veður, hægur á norðan; síðan logn tvo næstu dagana og bjartasta veður; síðari part hins 26. fór að gola á vestan-útnorðan og hvessti nokkuð kveldið nokkra stund, síðan hægur. Loftþyngdarmælirinn hefur vísað óvenjulega hátt h.24. og 25., og síðari daginn var hann kominn eins hátt og hægt er á mínum mæli og hefur þetta eigi borið við nema tvisvar áður, 6/3 1883 og 10/3 1887.
Bréf úr Strandasýslu, dagsett 11.febrúar birtist í Ísafold þann 20.:
Fannkomur miklar að staðaldri, mest af útsuðri. Hinn 7. þ.m. var þó norðanbylur, með 15° frosti á R. Snjór hefir fallið mikill en blotar hafa verið með köflum, svo ekki eru mjög mikil snjóþyngsli, en svellalög mikil og hagleysur. Búið að gefa lömbum inni 11 vikur, en roskið fé og hestar var óvíða tekið á fulla gjöf fyrr en um miðja jólaföstu og sumstaðar nokkru síðar.
Ísafold segir frá þann 20.:
Snjókynngi og hagleysur eru að frétta nú með póstum nær úr öllum landsfjórðungum, jafnt og stöðugt frá því um fyrir jól nær allstaðar, en sumstaðar, t.d. í Strandasýslu norðanverðri, síðan í nóvember snemma. Vestanpóstur, frá Ísafirði, lá úti á Þorskafjarðarheiði nú á suðurleið, og nokkrir samferðamenn hans, er kól alla meira eða minna, en hann ekki til stórskaða. Um heyskort heyrist þó ekki getið annarsstaðar en um Borgarfjörð og Mýrar. þar hefir hinn mikli hestasægur, sem ætlað er að lifa á útigangi nær eingöngu, orðið að takast á fulla gjöf víðast hvar um jól, auk fullorðinna sauða, sem einnig eru talsvert settir á útigang. Margir hafa aflað sér korns úr kaupstað til að drýgja heygjöfina, og er nú þess vegna orðið matvörulaust í Borgarnesi t.a m.; þar voru til 300 tunnur af korni á nýári. Á Borðeyri hafði einnig verið bæði keypt og pantað mikið af korni til skepnufóðurs.
Snæfellsnesi 12. febrúar: Tíðarfar hefir verið hið versta síðan fyrir jól, sífelldir útsynningar, enda er svo ákaft fannkyngi hér í sýslu, að hvergi sést til jarðar. Nú fyrstu dagana af febrúar hefir verið hörku-norðanveður með 12-14 stiga frosti.
Þann 22. segir Þjóðólfur:
Tíðarfar er að frétta af öllu landi líkt og hér hefur verið. Eilífir útsynningar og stundum viðrað tvennu og þrennu sama daginn, en hvarvetna frostalítið. Hlákan sem kom seint í janúar hefur náð yfir allt land. 25.f.m. er skrifað af Ströndum, að hnottar séu komnir upp sumstaðar fyrir hesta", en strax fennti og frysti ofan í. Hagar eru víðast mjög litlir, og þó þeir séu nokkrir, þá notast þeir eigi vel fyrir óstillingu veðursins.
Þjóðviljinn segir frá tíð framan af febrúar:
[2.] Sama frostvægðin, umhleypingarnir og snjókoman. Ógæftir miklar og því nær fiskilaust, þá róið er.
[9.] Sömu umhleypingarnir haldast enn, hlákubloti fyrri part vikunnar, en frost og norðanbylur síðari partinn.
Ísafold birti þann 2.mars bréf úr Skaftafellssýslu (miðri), dagsett 13.febrúar:
Veðrátta hefir verið mjög óstöðug það sem af er árinu. Veðurreyndin hefir verið útsynningur, en gengið þó öðru hverju til norðurs og landnorðurs, stundum með hörðu frosti, allt að 12°R. Tíðir blotar, sem staðið hafa aðeins eitt eða hálft dægur, hafa hleypt jörð í svell, svo að víðast tók algjörlega fyrir haga snemma í janúar. Hætt er við, að heybirgðir manna reynist ónógar, ef ekki koma hagar áður en langt um líður, þær voru víða mjög litlar í haust, einkum í Lóni, Mýrum og Suðursveit, því grasvöxtur brást svo fjarskalega, helst í Lóni, með því engjar skemmdust þar víða af sandfoki. Sumir í þessum sveitum fengu ekki nema hálfan heyskap að meðaltali, Í fjallbyggðinni eru innistöður orðnar venju fremur langar, jafnsnemma vetrar, enda eru nokkrir bændur þar þegar farnir að skera kýr og lömb, af ótta fyrir fóðurskort.
Þann 16.mars birtist bréf í Ísafold dagsett í Steingrímsfirði 21.febrúar:
Sumstaðar hér við Steingrímsfjörð er nú komin 14 vikna innistaða fyrir allar skepnur. Óvíða er samt heyskortur farinn að gjöra vart við sig. Hafís hefir sést við Strandir norðaustanvert og úti fyrir Djúpi, af Stigahlíð, og hroði við Austur-Strandirnar norðarlega, en ekki hefir hann gjört vart við sig hér á innflóanum enn; þó þyki veðuráttin benda til þess, að hann sje á hrakningi hér nærri og þá væntanlegur.
Tíð batnaði talsvert fyrir lok mánaðarins - en þó tók tíma að vinna á fönninni.
Í Ísafold þann 16.mars er bréf úr Skagafirði (miðjum), dagsett 25.febrúar:
Veðrátta hefir verið fremur óstöðug; oftast útsynningur, og vanalegast 36°R frost. Hæst var frost 9.-10. þ.m. 17°. Stundum hefir þiðnað (4., 12., 17.-18., 21.-23. þ.m.), en oft orðið til að auka áfreða aðeins, nema hin síðasta hláka var mikil og leysti svell og snjó algjört, en endaði með nokkurri snjókomu 24. þ.m. (í gær). Þó mun verða næg jörð, er frystir. Áður var jarðskarpt einkum vestan Vatna, við vesturfjöllin. Um heyskort eigi talað. Siglingar eru hér engar. Af Lady Bertha hefi ég frétt þetta: Hún var alveg óbrotin. O. Wathne hafði hana fyrst aftan í, en er kom hjá Þórðarhöfða, fór skrúfan að ganga, og hún að ganga með sínum eigin krafti. Þannig komu skipin á Siglufjörð. Meðan þau voru þar, kom suð-vestan hvessingur, og rak þá L. Bertha þar upp, og missti akkerið, er eigi fannst aftur, en Wathne lagði til hennar annað akkeri af Vaagen, og náði henni út aftur. [Hrakningar Berthu héldu áfram á Eyjafirði].
Einnig eru í sama blaði fréttir úr Fljótum þann 25.febrúar:
Óstillt tíðarfar yfir þorrann, en fannkomur eigi miklar og lítil frost, jafnaðarlegast 4-6 stig R, mest 12°. Hafíshroði sást um daginn hér úti fyrir, en lítill, og sjálfsagt rekinn töluvert í burtu aftur, því veðurstaðan var góð í tveggja daga hláku nú dagana að undanförnu. Ofsaveður aðfaranótt hins 23.f.m. (janúar), þvervestan, gerði allvíða skaða á húsum og skipum hér um pláss, með hringiðubyljum. Á Siglunesi t.d. fuku 2 för, annað til austurs og hitt til vesturs, bæði mikið til á hlið við sjálfan storminn; þar fuku alls 5 för, en brotnuðu meira og minna, öll úr vanalegum veðurumbúðum. Á Hraunum í Fljótum fauk skúrmyndað timburþak með pappa, af hlöðu, 22 álnir á lengd og 9 á breidd. Hafði það auðsjáanlega sogast í loft upp, og þyrlast þar í sundur, og sumt af því, er þyngst var (brot úr trjánum, er voru undir þakinu og það neglt í, og grjót, er á því var), kastast 60-70 faðma, en meiri hluti af borðviðnum hafði þó komið niður hér um bil 40 faðma frá tóftinni.
Ísafold birti þann 20.mars bréf dagsett í Suður- og Norður-Þingeyjarsýslum í febrúar:
Suður-Þingeyjarsýslu 25.febrúar: Í norðanátt, sem gjörði snemma í þ.m., sást til hafíshroða, en sem aftur algjörlega hvarf, og nú fréttist ekkert til hans. Hákarlsafli hefir verið dálítill nú um tíma hér á Skjálfanda, en alls engin aflabrögð önnur, enda eru þau ekki vanaleg hér um þennan tíma. Veturinn má fremur heita frostalítill og jarðsæld hér meðfram sjónum það sem af er, harðari að mun til dalanna.
Norður-Þingeyjarsýsla 13.febrúar: Veðrátta hefir verið fremur stirfin, en þó engar stórhríðar; mest frost á vetrinum var 10. þ. mán. (-16°R); og 3 dagana þar á undan, blotaði aftur hinn 12. (+ 3°R), en frysti dálítið um kvöldið. Í dag dágott veður og kali. Víðast að kalla jarðlaust, en engir fjarska snjóar til sveita, ef hláka kæmi. Hafíshroði kom að Austursléttu og Þistilfjarðarmynni í síðustu frostum (7.-10. þ. mán.). Ofurlítill jarðskjálftakippur aðfaranótt 1. þ.m.
Ísafold birti 10.apríl bréf úr Norður-Múlasýslu, dagsett 26.febrúar:
Tíð fremur stirð hjá oss þennan mánuð, þótt eigi hafa þó oft verið stórhríðir, og talsverð frost (-5 til 14 til 15° á R). þótt snjódýpt sé ekki mikil, þá hefir þó þennan mánuð verið jarðlaust að heita má bæði á Úthéraði, í Fjörðum og á Jökuldal, en aftur á móti hefir alltaf verið nokkur jörð víðast á Upphéraði og í Fljótsdal, sem batnaði stórum við blota, er kom 22. þ.m. og stóð í 2 daga, svo þar er nú ágæt jörð; en lakari á Úthéraði og á norðurfjörðunum. Þrátt fyrir það, þótt þorrinn hafi mátt heita heldur harður, og skepnur víða staðið á gjöf, munu heybirgðir víðast vera nokkrar, og sumstaðar góðar, enda voru nægar jarðir víðast fram til jóla. þó er farið að bóla á heyskorti í efri hluta Jökuldals. Í ofviðri nóttina milli 18. og 19. febrúar brotnaði stórt síldveiðahús á Fjarðarströnd á Seyðisfirði algjörlega niður. Í því voru margir bátar, að sögn frá 1020, og mölbrotnuðu flestir, svo að ónýtir urðu. Í því veðri eða öðru skammt á undan skekktist 1 eða 2 hús önnur.
Þjóðólfur segir 1.mars:
Tíðarfar hefur verið ágætt síðan Þjóðólfur kom út síðast. Föstudag og laugardag var besta hláka, sem vafalaust hefur náð yfir allt land. Hér er kominn besti hagi.
Mars: Hagstæð tíð víðast hvar, síst við norðausturströndina.
Ísafold birti þann 16. bréf úr Barðastrandarsýslu (sunnanverðri) dagsett 2.mars:
Næstliðinn mánuð hefir veðurátt verið mjög umhleypingasöm, oftast útsynningur með hörðum norðanköstum og áhlaupum, með 12 til 14 st. frosti; harðasta áhlaupið var hinn 7.[febrúar], er ísafjarðarpóstur lá úti á Þorskafjarðarheiði. En þessi uppþot hafa ekki staðið lengi, oft ekki nema sólarhring; stundum hafa komið blotar, sem sumstaðar hafa grynnt á gaddi, og komið upp jarðsnöp fyrir skepnur. Nú með mars hefir brugðið til stillu og blíðviðurs. Til hafíss hefir nýlega frést fyrir utan Ísafjarðardjúp, og inn á Súgandafjörð hafði hann rekið. Enginn kvartur er enn kominn hér um heyskort, og er haldið að flestir bændur hér um pláss muni geta gefið, þó hart verði, fram á einmánuð og enda til sumarmála; hafa þó verið innistöður hér fyrir allar skepnur frá því með jólaföstu.
Og í sama blaði er bréf af Snæfellsnesi, dagsett 7.mars:
Í hlákunni 20. til 23. f. mánaðar kom upp góð jörð í þeim sveitum, sem eru að norðanverðu við fjallgarðinn, svo sem Skógarströnd, Helgafellssveit, Eyrarsveit og Neshreppum. En sunnan fjalls (í Staðarsveit, Breiðuvík og Miklaholtshreppi) urðu alls engin not að henni, því þar var og er enn svo ákaft fannkyngi, að ekki bólar nema á hæstu holt; enda er þar allstaðar innistaða fyrir allar skepnur. Nú eru orðin mjög víða bjargar-laus heimili í Breiðavíkurhreppi; enda er hann hinn langverst staddi hreppur í sýslunni í öllu tilliti.
Enn er í sama blaði bréf úr Hrútafirði dagsett 9.mars:
Hagleysur haldast hér enn. Þá komu hér dálitlar snapir upp um 22. f.m., því þá var góð hláka í 2 daga. En það tók þegar fyrir þessar snapir aftur 23. s.m. því þá gjörði bleytu-kafald á þíða jörð. Síðan með góukomu [24.febrúar] hafa verið stillur og besta tíð.
Og úr Miðfirði þann 8.mars:
Í hinni ágætu hláku 21. til 23. f.m. kom mjög víða upp góð jörð; þó er enn alveg bjargarbann víða fyrir vestan Hrútafjörð, en um Miðfjörð er víðast næg jörð fyrir hross, um Vatnsnes fyrir allar skepnur, sömuleiðis um Víðidal utanverðan og Þing. Að ekki urðu meiri not að hlákunni stafar mikið af því, að í enda hennar (aðfaranótt sunnudags 24. febrúar) dreif niður lognsnjó mikinn og varð fyrir það víða óhreint á og svellalög jukust mjög, því fjarska-vatnselgur var undir. Síðan hafa haldist stillur og besta veður, og hafa færðir verið svo góðar síðan sem bestar mega verða að vetrardegi; það þarf um endilanga sýsluna aldrei að láta stíga af svelli nema faðm og faðm í senn.
Ísafold segir 13.mars:
Með vestanpósti, sem kom í gærkveldi, fréttist sama tíðarfar af Vesturlandi og hér. En lítið var um haga víðast, á flatlendi allt í svellum, þar á meðal um Borgarfjörð.
Og þann 16.segir blaðið:
Með norðanpósti, sem kom í fyrradag, fréttist gæðatíð úr flestum sveitum norðanlands síðan í þorralok. Hér var ágætishláka í gær og í fyrradag, enda var mikill snjór fyrir.
Þjóðólfur segir meinlitlar fréttir af verðri þann 15. og 22.mars:
[15.] Tíðarfar hefur verið líkt og að undanförnu. Frostalítið, en jarðleysur fyrir áfreða og svellalög. Hæg hláka hefur verið í gær og í nótt. Tíðarfar hefur verið samskonar og hér bæði fyrir vestan og norðan.
[22.] Tíðarfar hefur verið ágætt þessa viku og hagar góðir, hvar sem til fréttist, nema þar sem svellalög eru mjög mikil. Hvítá hefur síðan i vetur flætt úr farveg sínum og niður yfir Flóann. Í hlákunni um daginn [sennilega seint í febrúar] fékk hún að mestu eða öllu framrás í farvegnum.
Þjóðviljinn segir þann 23.mars frá góðri tíð:
Tíðarfar hefir verið mikið gott, einlægar stillur að kalla frá góubyrjun. Hafís enginn hér við norðvesturkjálkann, en Louvain" varð vart við ísinn 15 mílur undan Látrabjargi.
Þann 10.apríl eru ítarlegar tíðarfarsfréttir viða að í Ísafold - bréf flest dagsett í mars. Sömuleiðis segir lítillega af hafís:
Borgarfirði 1.apríl: Nú er allstaðar komin nóg jörð, eftir hina óvanalegu löngu hagleysur fyrir allar skepnur hér um Borgarfjörð og Mýrar. Síðan fyrir jól er sagt, að hér í sýslunni innan Skarðsheiðar hafi þangað til nú hvergi verið hagar að gagni nema á Borg og Gilsbakka og efstu bæjunum í Hvítársíðu.
Snæfellsnesi 31.mars: Veðrátta hefir verið hér hin besta síðan ég skrifaði síðast; sífelld hægviðri, og frost sjaldan meira en 3-5 stig, og stundum alveg frostlaust. Er allstaðar, þar sem grunnt var á, komin upp jörð, enda hefir oftar notið sólfars. Heyjabirgðir eru hér góðar, og eins í þeim hreppum, sem nú er alveg jarðbann í, þ.e. öllum þeim hreppum, sem liggja að sunnanverðu við fjallgarðinn; því þar telja sig allir hafa nóg hey til að gefa í innistöðu til sumarmála.
Bjargræðisástand er víðast hvar í betra lagi, þar sem menn hafa átt skipti við pöntunarfélag Dalamanna; því þótt ágóðinn væri ekki svo mikill við að skipta við það, þá urðu þó flestum notasælli skipti við það en við kaupmenn.
Dalasýslu 29.mars: Veðrátta stillt og góð, en hagleysur vegna klaka, en ekki snjóþyngsla, um meiri part Dalasýslu; flestir nokkuð heybirgir og fénaður almennt talinn í góðu standi, en búið að gefa í innistöðu lömbum frá því mánuð af vetri, en rosknu fé frá því um og fyrir jól. Hey hafa reynst fremur góð, því þótt gras væri hér um pláss fremur lítið, þá var nýtingin góð. Nú er að hlána og koma upp hagi.
Barðastrandasýslu sunnanverðri 25.mars: Veðrátta það sem af er þessum mánuði umhleypingasöm, en þó smátt í tíðinni, ýmist vestan og stundum norðvestan; aftur smá uppþot landnorðan með kóf-kafaldi, sem eigi hefir þó staðið nema 1-2 daga; smáblotar 1 eða 2, en heldur spillt jarðarfari en bætt, aukið sumstaðar gadd og klaka. Þótt enginn kvarti enn um heyleysi, munu fáir treysta til að geta gefið útigangspeningi lengur en til sumarmála innigjöf, sem nú er orðin býsna löng, frá því á jólaföstu Mest frost i þessum mánuði 8-12°R.
Barðastrandarsýslu vestanverðri 12.mars: Þorrinn umhleypingasamur. Ágæt sunnanhláka 21. og 22. febr. Hæst frost -15° á R 8. og 9. febr.; 10., 14. og 15. voru -12°R. Fyrri vikur góu tvær blíðasta veðrátta; aldrei hærra frost en -6° R. (25. febr.). Hagar hafa verið ágætir, síðan batinn kom í síðustu viku þorra og þangað til nú þessa daga, að fénaður kemst illa um jörðina til dala og nær varla niður fyrir fönn, er drifið hefir niður nú þessa dagana, en sem tekur fljótt upp aftur, haldist sólfar á daginn. Skepnuhöld ágæt að öllu leyti.
Ísafirði 22. mars: Síðan um miðjan febrúar hefir hér verið besta tíð, oftast logn með litlu frosti. Hæst frost 15. febr. -13°R. á nóttu. Hagar víðast hvar litlir, en jörðin svelluð; þó heyrist enn óvíða kvartað um heyskort.
Strandasýslu sunnanverðri 31. mars: Veðrátta hefir verið góð allan þennan mánuð. Oftast frostlítið og stillt veður. Illviðralaust. Þó hafa hagleysur haldist hér allt til þessa, víðast hvar; lítilfjörlegar snapir voru þó á einstaka stað seinni hluta góunnar, fyrir hesta. Hláka nú í 2 undanfarna daga, því kominn upp dálítill hagi hér alstaðar, þó þarf enn að gefa öllum skepnum nokkuð með. Víða er orðið heylítið, en hvergi heylaust, svo frést hafi.
Húnavatnssýslu miðri 25. mars: Ágæt tíð alla góuna. Heybirgðir tíðar hjá almenningi. Skepnuhöld hin bestu, og skepnur í besta lagi eftir því sem verið hefir nokkur undanfarin ár, enda nú með líflegasta móti yfir mönnum, og enginn heyrist nú hugsa til Vesturheimsferða.
Skagafirði 18. mars: Veðrátta síðan 25.febrúar nær stöðugt stillt og góð, og frost lítið, -5° til 7° vanalegast, jörð nóg. Hina síðustu viku hláka.
Eyjafirði 22. mars (tímabilið frá 1. febrúar til 22. mars): Veðrátta hefir mátt heita góð þetta tímabil; reyndar nokkuð rosasamt og mikill mismunur á hita og kulda. Mestur hiti 22. febr. +7°R., minnstur hiti 10. febrúar -18°R. Í hlákunni 22. febrúar tók mjög mikið upp og er því óvanalega snjólítið hér í sveit nú. Heybirgðir góðar. Skepnuhöld ágæt.
Norður-Þingeyjarsýslu 9. mars (tímabilið frá 14.febr. til 9. mars): Fremur stillt og góð tíð. Gjörði bestu hláku að kvöldi hins 21.febr., er hélst til 23. um miðjan dag; kom þá víðast upp góð jörð. þannig endaði þorrinn vel, enda var hann lakasti kaflinn það sem af er vetrinum, og þó voru engar stórhríðar.
Hafís. Fréttaritari Ísafoldar í Norður-Þingeyjarsýslu skrifar 9. [mars]: Í sunnan-stinningsbyr aðfaranætur 15.-17. febrúar sigldi hafíshroðinn, er kom í Þistilfjarðarmynnið, til hafs, og hefir ekki sést síðan. Urðu að eins eftir sullgarðar í fjörunni, er nú munu víðast farnir.
Af Eyjafirði er skrifað 22. [mars]: Til hafíss sást reyndar fyrir nokkru af Skildi, fjalli við Siglufjörð, en nú er hann horfinn úr þeirri sýn aftur.
Ísafirði 22. mars Ekki sáu hvalveiðabátarnir norsku, Isafold og Reykjavík, sem voru úti fyrir skemmstu, neitt til hafíss 3 mílur norður af Ströndum.
Og enn birtir Ísafold 24.apríl bréf að austan, dagsett í mars.
Norðurmúlasýslu 24.mars: Víðast hagbann hér um slóðir síðan á jólum; þó hefir tíðarfar verið heldur milt, eftir því sem hér gjörist, mest frost 13°R að morgni 18. þ.m. Hey eru víðast nóg hér í Norðurmúlasýslu og í Suðurmúlasýslu suður að Breiðdalsheiði. Eftir það minni, og, ef sögumenn segja satt, þá alveg heylaust í Berufirði, Hamarsfirði og Álftafirði.
Suðurmúlasýslu 24.mars: Jarðbann um alla sýsluna ennþá. Snjórinn er þó ekki mjög mikill í norðurhluta sýslunnar, en hann liggur svo jafnt yfir; sagður meiri syðst í sýslunni. Margir eru að verða heylausir. Það hefir það dálítið bætt úr fóðurskortinum hér í fjörðunum, að veiðst hefir talsvert af síld í lagnet. Má nú heita, að menn almennt gefi skepnum síld með öðru fóðri.Veðráttan hefir að öðru leyti það sem af er þessum mánuði, verið fremur mild og stillt, oftast austanátt eða vestanátt.
Hafís hefir lengi sést norðaustur í hafi út af Vopnafirði og Héraðsflóa, en eigi að mun orðið landfastur enn. Þetta er skrifað úr Norður-Múlasýslu 24. [mars].
Þjóðólfur birti bréf úr Suður-Múlasýslu (sunnanverðri) þann 27.mars. Þar segir m.a.:
[V]íðast hvar alveg haglaust, gólfgengi yfir allt sökum tíðra spilliblota, er hver á fætur öðrum hafa komið síðan um þrettánda; heyföng manna voru með minnsta móti undan sumrinu, og hagbannir hafa ómunalega lengi haldist hér og jafnvel helst þar, sem útigangur hefur verið álitinn óbrigðull. ... Þó hagleysur hafi verið, hefur veðrátta verið frostvæg og veðurhæg og hefur það talsvert bætt úr skák sumstaðar með að geta notað sáralitlar snapir. Korn hafa menn mikið brúkað handa gripum og brúka meðan hrekkur, en það er nú á þrotum á Djúpavogi, en daglega þangað von á vöruskipi. ... Við hafís hefur enn ekki orðið vart hér, enda væri óskandi, að sá óþokkagestur heimsækti ekki Múlasýslur 9. árið í röð, því nóg hefur Norður- og Austurland fengið að kenna á honum að undanförnu.
Apríl: Áfreðar austanlands, en annars var tíð góð.
Þjóðólfur segir frá tíð í stuttum pistlum:
[12.] Tíðarfar hið sama og að undanförnu. Að norðan og vestan að frétta sömu tíð og hér; víðast næg jörð, en þó haglitið eða jafnvel haglaust á stöku stað, einkum til fjalla og fram til dala.
[20.] Fyrri part vikunnar besta hláka, en gerði síðan hret 17. og 18.
]26.] Veturinn endaði með hláku og sumarið byrjaði í gær með blíðviðri og sunnanátt.
Ísafold birti þann 24.apríl bréf úr Skaftafellssýslu miðri, dagsett 13.apríl:
Veðurátta mjög óstöðug alla góuna og víðast nær því jarðlaust. 16. mars gjörði svo mikla ísingu, að menn þykjast ekki muna slíka; var hin mesta hætta að hleypa skepnum út úr húsi, enda hröpuðu þá víða sauðkindur og meiddust eða drápust. Með einmánuði gjörði góðan bata, og síðan hefir veður verið spakt og stöðugt, en nokkuð kalt. Hagar nú orðnir allgóðir. Heybirgðir litlar; flestir munu þó komast af, ef vorið verður bærilegt.
Þjóðviljinn á Ísafirði er einnig ánægður með tíðina:
[9.] Sama einmunatíðin helst enn á degi hverjum.
[24.] Páskahretið sem margir höfðu vænst eftir varð eigi nema lítilfjörleg hrina 2-3 daga og á annan dag páska [22.apríl] var aftur komin blíðviðristíð.
Þann 24. segir Jónas Jónassen frá dálitlu hreti í Reykjavík:
Hinn 21. [páskadag] var hér hvasst á norðan og lygndi um kveldið; daginn eftir austanveður, bálhvass er á leið daginn með ofanhríð, svo hér var jörð alhvít; síðan logndrífa h. 23, dimmur mjög allan daginn.
Þann 11.maí birti Ísafold bréf frá fréttariturum víða um land. Bréfin eru flest dagsett í apríl:
Snæfellsnesi 21. apríl (páskadag): Veðrátta hin ágætasta síðan ég skrifaði síðast, sunnanhægviðri og þíður, 5-6 stiga hiti og þaðan af meiri, og er nú allstaðar komin nóg jörð, nema á lægstu flóum, t.a.m. í Staðarsveit og Breiðuvík. Á skírdag [18.apríl] gerði þó kafald talsvert, með landnorðanvindi og 4 stiga frosti. Hefir síðan haldist sama hvassviðri, en kafaldslaust.
Barðastrandarsýslu sunnanverðri 20. apríl: Veðrátta góð í mars, kom þíðviðri og leysing síðast í mánuðinum, svo allstaðar kom upp nóg hagbeit; einlægt smátt í tíðinni og góðviðrasamt allan þennan vetur, þótt uppgangssamt hafi verið á honum með hey sökum útsynningsfanna og blota um og fyrir hann miðjan.
Barðastrandarsýslu vestanverðri 25.apríl: Síðan ég skrifaði síðast (12. mars) hefir yfir höfuð verið hin mesta blíðviðristíð, sjaldan snjóað til muna, og þá eigi nema fáa daga í bili, frost mjög lítið, en oftar nokkur hiti, hæstur 6. þ. m. +8° eftir hádegi. Sunnanrigningu allmikla gjörði í vikunni fyrir páskana. Um páskana var nokkur kuldi, þó eigi meira en -5°R fyrst um morgna. Sökum hinna góðu umskipta til bata með góunni verða nú allir hér vel birgir með hey, og verði veðrið gott, líklega nokkrar fyrningar hjá flestum á heyjajörðum. 5.maí: Mesta blíðviðri þessa síðustu daga á landi, en alltaf heldur órólegt til sjávar. Hiti þessa dagana hefir verið allt að 11°R og í dag hæst 13°, er ögn farið að sjást litkast í túnum (grænka).
Strandasýslu sunnanverðri 25. apríl: Veðrátta fremur góð. Frá 12.-18. þ.m. var hláka, og tók þá mikið upp, svo snjólítið er orðið hér neðra, en gaddur mikill til fjalla enn. Um páskana var norðanátt og talsvert frost, á annan í páskum -10° á R. Nú er komin sunnanátt aftur. Að tíðarfari hefir þessi vetur mátt heita góður, að fráteknum kaflanum frá 19.desember til þorraloka; þann tíma var ákaflega úrkomusamt. Gjafatími hefir verið langur, því nú eru 22 vikur síðan byrjað var að gefa fé (lömbum), og ekki búið að sleppa enn. Flestir hafa haft hey til þessa. Fáeinir menn eru þó heylausir orðnir fyrir fé.
Húnavatnssýslu 26. apríl: Veturinn endaði í gær, eins og hann byrjaði, með stöðugum stillum og hagstæðustu tíð; og að veðráttunni til get ég ekki annað en talið hann einhvern hinn blíðasta vetur, er ég man. Allan guðslangan veturinn hefir aldrei komið svo svört hríð, að ekki væri alratandi í byggð.
Skagafirði 16.apríl: Tíðarfar mjög stillt og æskilegt að heita má frá því um góubyrjun. Mjög lítið frost, næg jörð og lítill snjór. Dag og dag óstillt og stirt veður.
Norður-Þingeyjarsýslu 31. mars: Góan var stórillindalítil, en einnig spör á gæðum, tíð fremur óstöðug, stundum skakviðri úr ýmsum áttum. Mest frost 17.20. (hæst: -15°R.), en þá voru stillur. Með Einmánaðarkomu (26.mars) brá þegar í góðviðri: sunnangolur og þítt, stundum kali á nóttum (mestur hiti 29. +7°R). Jörð víst víðast komin upp nú handa skepnum.
Þjóðólfur birti 10.maí bréf úr Eyjafirði dagsett 20.apríl:
Seint i mars gerði góða hláku og leysti nálega allan snjó af láglendi; síðan hefur mátt heita öndvegistíð, og í skjóli mót sólu er farið að votta fyrir gróðri. Íslaust er að öllum líkindum úti fyrir, því að hákarlaskip, sem kom inn í fyrradag, hafði ekki orðið vart við neinn ís, og eftir þeim sjógangi að dæma, sem verið hefði úti fyrir, fullyrti formaðurinn, að ís mundi ekki í nánd.
Þjóðviljinn segir þann 13.maí að jarðskjálfta hafi orðið vart á Rangárvöllum á föstudaginn langa [19.apríl].
Maí: Hlýtt í veðri og mikil blíðviðri en úrkoma tafði þurrkun fiskjar.
Jónas Jónassen segir þann 11. svipaðir eru aðrir pistlar hans í þessum mánuði:
Undanfarna daga hefur verið hin æskilegasta sumarblíða dag sem nótt, nokkur úrkoma með sólskini þess á milli, við austur eða land-suður.
Þjóðólfur segir þann 17.maí:
Tíðarfar hefur í mörg ár eigi verið jafnblítt og gott um þennan tíma, sem nú; jörð óðum að gróa, og gróður kominn víst eins mikill og um Jónsmessu í fyrra, ef ekki meiri.
Ísafold segir þann 22.maí:
Tíðarfar er alveg frábært og hefir verið í vor hvar sem til spyrst hér um land. Gróður er kominn óvenju mikill hér sunnanlands, jafnvel um úthaga. Farið að grænka upp á heiðum sumstaðar. Maður, sem kom austan úr Meðallandi hingað í suðurkaupstaðina fyrir l viku, sagði þar jörð komna alla í blóma. Heyleysi var þar orðið almennt,en þá skipti svo um, að það mátti fara að beita öllum skepnum.
Þann 5.júní birti Ísafold tvö bréf úr Skaftafellssýslum, dagsett í maí:
Austur-Skaftafellssýslu 20. maí: Veðrátta frá 4. apríl til 23. oftast köld og þurr, vestanstæður. Frá 23. apríl til þessa tíma oftast suðaustan regn. Besta grasveður; enda eru skepnur farnar að lifna, og hafa nógan gróður.
Vestur-Skaftafellssýslu 26. maí: Tíðin er um þessar mundir hin ákjósanlegasta. Jörð er nú sprottin eins og hún hefir best verið um þetta leyti, sem ég man eftir. Grasvöxtur hefir tekið óvanalegum þroska næstliðna viku. það er því í augum uppi að sláttur verður snemmbær hér um slóðir ef þessu fer fram. Vetrarharðindin héldust stöðugt fram að einmánuði; úr því fór heldur að draga til bötnunar. Sunnudaginn fyrsta í sumri var orðið örísa. Stöðugur óþerrir hefir gengið (og gengur enn) síðan páska. Töðin liggja því óhirt, og er komið að því að tún séu farin að spillast undan þeim. Fiskur er farinn mikið að spillast vegna þerrileysis.
Í Ísafold þann 26.júní er bréf úr Skagafirði dagsett 29.maí:
Veðráttan hefir verið ágæt í allt vor; stillt og blítt veður stöðugt síðan um þorralok. Gróður er kominn mikill, og meiri en oft mánuði til 6 vikum síðar. Hafís hefir ekki sést á firðinum. Menn fyrna almennt hey og skepnuhöld eru hin bestu; féð mjög fallegt.
Júní: Nokkuð votviðrasamt, en hlýtt og blítt veður.
Ísafold birtir þann 26. bréf utan af landi dagsett fyrr í mánuðinum:
Barðastrandarsýslu (vestanverðri) 18.júní. Síðan um kveldið 25. [maí] hefir yfir höfuð verið vætutíð, og oftast fremur óstöðugt veður. en þó sjaldan stórkostleg rigning né miklir stormar, og alltaf hlýtt, allt að 12° hiti R um hádegi oft og tíðum. Kring um uppstigningardaginn [30.maí] krapa, og snjóaði á fjöll, en tók óðar upp aftur, og i gærkveldi og nótt var mikil rigning. Gróðrarveður hefir verið hið besta þennan tíma, en alltaf slæmar gæftir til sjávar. Tún eru víða orðin vel slæg, einkum kring um bæi og önnur hús, og má án efa taka í lang-fyrsta lagi til sláttar. Engjar og úthagar er og orðið töluvert sprottið; jafnvel uppi á fjöllum er allt orðið skrúðgrænt. Sauðburður hefir yfir höfuð gengið ágætlega, enda þótt nokkur lömb færust á sumum bæjum í uppstigningardagskastinu, og allar skepnur eru nú í besta standi. Kýr þegar komnar i hér um bil fulla hásumarsnyt; beitt út fyrir hér um bil mánuði eða meira.
Ísafirði 17.júní: Hér er besta tíð, grasvöxtur sýnist ætla að verða ágætur. Fiskiafli á opnum skipum með minnsta móti síðan á páskum, og engin síld fengist í beitu. Hákarlsafli góður, á 4. hundrað tunnur á skipi mest, og allgóður þorskafli á þilskipum.
Strandasýslu (sunnanverðri). 10.júní: Tíðarfarið er ágætlega gott, og hefir verið svo í allt vor. Ég man ekki til, að nokkurn tíma hafi komið frost síðan 23. apríl. Mjög vætusamt hefir verið nú um tíma og gróðrarveður ágætt, enda lítur ágætlega út með grasvöxt. það mun langt síðan, að tún hafa verið jafnvel sprottin hér um slóðir, eins og þau eru nú. Það mun óhætt að fullyrða, að það séu aðeins gömlu mennirnir", sem muna eftir jafngóðu vori sem þetta hefir verið.
Húnavatnssýslu (vestanvestanverðri) 10. júní: Nú eru tún orðin betur sprottin en i júlíbyrjun árin að undanförnu frá 1884 að telja og úthagi eins, en hér hafa líka verið að heita hefir mátt óvanalega miklar úrkomur; öll fénaðarhöld hafa orðið með langbesta móti; við fáum unnvörpum tvílembt og fæðir vel.
Jónas Jónassen lýsir umhleypingum um miðjan mánuði í pistli þann 19.:
Hinn 15. var hér hæg norðanátt, bjart veður; daginn eftir landsynningur og öskurok um tíma með mikilli rigningu eftir miðjan dag; síðan sunnan-útsynningur með nokkrum hroða í sjónum og hvass á milli skúra, Síðustu dagana hefur loftþyngdamælir farið síhækkandi og er nú kominn á gott veður.
Þjóðólfur segir þann 21.:
Hin sama framúrskarandi veðrátta helst stöðugt, bæði hér og annars staðar, sem til hefur spurst, en rigningar töluverðar.
Ísafold segir þann 26. að megnustu óþurrkar gangi um Suðurland.
Þann 17.júlí birti Ísafold tvö fréttabréf, dagsett í júní:
Suðurmúlasýslu 24. júní: Hér brá til algjörðs bata á sumardaginn fyrsta. Þá hófst hér sunnanátt, sem hefir staðið síðan. Fyrst rigndi í 17 daga samfleytt, síðan dálítið minna, og nú í liðuga viku hefir verið blíðasta tíð, enda er gróður með langálitlegasta móti, og skepnuhöld góð.
Skaptafellssýslu (miðri) 30. júní: Tíðarfarið hefir oftast verið stillt, en votviðrasamt, og því eru menn almennt í vandræðum með eldivið. Grasið sprettur ágætlega; og fé hefir farið vel úr ullu, og sauðburður gengið vel. Skipið, sem strandaði á Hornafirði 14. maí, var með öllu tilheyrandi selt við uppboð 31.s.m.
Og þann 20.birti Ísafold bréf úr Norður-Þingeyjarsýslu, dagsett 30.júní (athugið að 24°R eru 30°C - því trúum við tæplega):
Besta veðrátt sífellt frá því ég skrifaði síðast (15. maí), og getur tæplega heitið að einn dagur hafi komið öðrum hærri á þessu sumri, sem af er, þó gjörði lognmollusnjó í legg (uppstigningardagskast) í þíðu (+3°R.) 31.maí., en leysti þegar næsta dag með sólbráð og hita (+11°R). Gjörði aftur ofurlítinn kuldasteyting (hvítasunnuhret) 7.-8. júním. (+2° til 3°R.). Síðan indælasta tíð, oft með dembuskúrum (oftast á hverjum degi +12 til 18°.; nokkrum sinnum allt að +24°R.). Jörð hefir gróið einstaklega vel, sem von er, í jafnhagkvæmri tíð, en þó tún ekki sem von hefði verið, og er það að kenna langvarandi harðindum mörg undanfarin vor, og seinum slætti, er ræktuð jörð þolir verr en óræktuð. Slátt hófu nokkrir í síðustu viku (um 25.júní), og hefir slíkt ekki átt sér stað í fjölmörg sumur.
Júlí: Nokkuð votviðrasamt fram í miðjan mánuð, en síðan þurrt og blítt veður.
Þjóðólfur segir í stuttum fréttum:
[9.] Nú er votviðrunum linnt, að minnsta kosti í bráðina; síðustu 3 daga hefur verið sólskin og fagurt veður.
[19.] Tíðarfar er ágætt að frétta allstaðar af landinu, og hagstætt fyrir heyskap, sem allstaðar hefur byrjað með langfyrsta móti, víða 10 vikur af sumri.
[22.] Tíðarfar hið ákjósanlegasta um land allt, nema óþerrasamt á Suður- og Vesturlandi, en nú fyrir nokkru breytt til þurrka. Grasvöxtur prýðisgóður, og um miðjan júlí var alhirt taða á 4 bæjum í Húnavatnssýslu.
Jónas Jónasson segir þann 10.:
Undanfarna daga má heita að hafi verið fegursta sumarblíða; oftast blæjalogn og heiðríkja.
Ísafold birti þann 20. tvö bréf að vestan:
Snæfellsnesi, 18.júlí. Veðrátta hefir verið hin hagstæðasta hér í allt vor, hvað grasvöxt áhrærir; - því votviðrasamt hefir jafnan verið seinni partinn; enda er grasvöxtur orðinn hér í besta lagi, bæði á túnum og úthaga. Eru menn nú almennt nýfarnir að slá; en mundu löngu fyrr hafa byrjað slátt, hefði ekki votviðrin tafið vorverkin fram á þennan tíma. En óþægilegastir hafa þó óþerrarnir orðið fyrir þá, sem þurft hafa að verka saltfisk.
Barðastrandarsýslu (vestanverðri.) 12.júlí. Rigningatíð stöðug, nema dag og dag, en hlýindi mikil, hæstur hiti 17°R. 7. og 9. þ.m.
Þann 23.ágúst birti Þjóðólfur frétt úr Úr Suður-Múlasýslu dagsetta 31.júlí: tíðarfar ágætt og varla komið dropi úr lofti síðan i miðjum júní".
Ágúst: Besta tíð.
Þann 1.ágúst gerði mikið þrumuveður í Eyjafirði, Norðurljósið segir frá þann 13.:
Um mánaðamótin síðustu voru hér votviðri fáeina daga. Rigndi þá stundum ákaft, en oftast stóðu skúrirnir skamma stund í einu. Fyrsta ágúst var mesta blíðviðri fyrri hluta dags, en seint um daginn gjörði helli-rigningu með skruggum og eldingum svo miklum að elstu menn segjast ekki muna eftir slíku. Skruggurnar héldust fram á nótt. Einn maður í Eyjafirði taldi 70 skruggur á fáum klukkutímum.
Ísafold segir þann 3.:
Tíðarfar er enn jafn fágætt að blíðu og að undanförnu í sumar, víðast sem til spyrst hér um land. Önnur eins árgæska hefir varla komið fram undir hálfa öld. Nýkominn maður að norðan segir vera farið að slá þar tún í annað sinn sumstaðar.
Þann 28. birtir Ísafold bréf af Snæfellsnesi, dagsett þann 10.ágúst:
Tíðarfar hefir verið hið besta síðan ég skrifaði síðast (18.júlí), jafnast þurrkar og hægviðri, en náttfall á nóttunni. Heyskapur er því allstaðar orðinn í besta lagi, bæði að vöxtum og gæðum, og mundi verða hér enn betri heyskapur en í fyrra, ef þessi tíð héldist fram undir réttir. Allt fyrir þessa góðu tíð hefir fiskiafli í kringum Jökulinn verið mjög lítill nú um tíma, nema í Ólafsvík hefir að öðru hvoru orðið fiskvart.
Og bréf um gæðatíð halda áfram að birtast í Ísafold þann 31.ágúst (við lítum á tvö þeirra):
Skagafirði 16. ágúst (fréttir um tímabilið síðan 29. maí): Veðrátta hefir stöðugt verið blíð og stillt, nema dag og dag í bili. Hafís hefir aldrei sést á firðinum. Grasvöxtur hefir verið í betra lagi, og á harðvelli víða mjög góður; í mýrum verri, þar eð framan af sumrinu voru oft rigningar. Nýting á heyjum hingað til mjög góð, einkum í júlí. Sláttur var byrjaður með fyrra móti, og horfur með með heyskap góðar. Fiskiafli er og hefir verið á firðinum í sumar í meðallagi.
Barðastrandarsýslu (sunnanverðri.) 19. ágúst: Hin besta tíð og hagkvæmasta veðrátt til heyskapar það af er slætti; hann var byrjaður hér um pláss í tólftu viku sumars; var óþerrasamt framan af túnaslætti; voru því sumstaðar teknar töður djarft inn, og hitnaði vel mikið í þeim sumstaðar; kom þá þerrikafli, og hefir síðan skipst um svo haganlega þerrir og óþerrir, að hey hafa náðst inn öll með bestu verkun. Náttúrlegur sumarhiti hefir nú verið, og oft um og yfir 20°R móti sól, og nokkra daga i þessum mánuði mest 28°. Grasvöxtur á túnum með besta móti, og eins á vallendisengjum; á votum engjum aftur miður en í meðallagi; en vegna hinnar góðu tíðar lítur allstaðar vel út með heyskap.
Þann 20.ágúst setur Nielsen athugunarmaður á Eyrarbakka eftirfarandi athugasemd í veðurskýrsluna:
Voldsom Regnbyge kl.4 Eftermidddagen. Sluttede med store hagl. I Löbet af 1/2 Time faldt en Nedbör af 17 millimeter. - Udmærket smukt Vejerlig de 4 efterfölgende Dage.
Í lauslegri þýðingu: Gríðarlega skúr gerði kl.4 síðdegis. Lauk með stóru hagli. Á hálfri klukkustund féll 17 mm úrkoma. Sérlega fagurt veður næstu fjóra næstu daga á eftir. [Reyndar var þá býsnakalt á nóttum - þó ekki frysi á Eyrarbakka].
Og Þjóðólfur þann 28.ágúst:
Heyskapur er orðinn ómunalega góður, enda muna elstu menn eigi annað eins árgæskusumar og nú er.
Tvö bréf að vestan eru í Ísafold þann 7.september:
Patreksfirði 29. ágúst. Veðrátta hefir, það sem liðið er af slættinum, verið hin ákjósanlegasta, að heita má sífelld blíðviðri, deyfa eða smágerð rigning við og við, en þurrkur allt af í milli, hitar í meira lagi, allt að 12, 13, 14 og 15°R. í skugga um hádegi. Í dag er þó fremur kalt, 5° hiti um hádegi, enda hvasst norðvestan, með allmikilli rigningu undir hádegi, og brim æði-mikið til sjávar. Annars hafa vindar verið allt að þessu jafnaðarlega hægir, oft logn. Grasvöxtur í besta lagi allvíðast á túnum og þurrlendum engjum, og nýting ágæt allt til þessa. Lítur því út fyrir, að heyskapur verði almennt í mesta og besta lagi, haldist líkt tíðarfar og verið hefir.
Arnarfirði, 1.september: Tíðin hefir verið mjög góð og hagstæð í sumar, og hefir því heyskapur gengið með besta móti, þar sem mannafla enn hefir ekki vantað. En Arnfirðingar leggja meiri stund á sjóinn en landið, og þess vegna eru hér víða fáir við heyskap. Sumir eru nú að hætta heyskap, til þess að byrja haustróðra. Voraflinn varð fremur lítill, og var það mest beituleysi að kenna. Á Bíldudalsvognum hefir árlega fengist töluvert af síld í beitu, en nú í vor brást síldaraflinn því nær alveg.
September: Hríðargusa nyrðra og vestra eftir miðjan mánuð, en annars var tíðarfar hagstætt.
Þjóðólfur birti þann 13. bréf úr Vestur-Skaftafellssýslu, dagsett 6.september:
Tíðin fram að höfuðdegi hin ákjósanlegasta, en nú síðustu daga talsverð úrkoma, svo að vatn er víða farið að spilla slægjum. Heyafli manna með mesta móti, en margir halda, að heyin séu létt, eftir málnytugæðum að dæma og því, hve jörð fölnar fljótt, því gras er nú mikið farið að deyja. Matjurtagarðar hafa heppnast með besta móti,einkum jarðepli.
Jónas Jónassen segir þann 11.:
Síðari hluta laugardagsins [7.] var hér hæg sunnanátt, rétt logn, með mikilli rigningu; gekk svo seint um kvöldið til austurs, dimmur og hvass; h.8. var hér logn og mikið mistur í lofti og mikill hiti, kl.9 um morguninn var 17 stiga hiti; austanvari að kveldi: gekk svo til norðurs h.9. nokkuð hvass, síðan til austurs-landnorðurs nokkuð hvass en bjartasta veður. Í dag, 11., hvass á landnorðan að morgni og bjart sólskin.
Þann 18. segir Jónas:
Alla undanfarna daga hefir oftast verið sunnanlandsunnanátt með mikilli vætu, og má eigi heita að neinn þurr dagur hafi komið nú um tíma; aðfaranótt h.17. var hér við sjóinn við það frost, og þann dag var hér besta veður að morgni, en fór þegar að hvessa á landsunnan, með óhemju rigninga-skúrum og siðar um kveldið gekk hann til útsuðurs með versta útliti, og gjörði ofsaveður af útsuðri aðfaranótt h.18., og gekk svo í vestur með miklum hroða til sjávarins.
Þjóðólfur segir þann 13.:
Um síðustu mánaðamót og framan af þessum mánuði voru hér talsverðar vætur, þangað til um síðustu helgi 8. þ.m.; áttu þá margir úti mikið af heyjum; þessa viku hefur verið þurrkur, en hvassviðri oftast nær á norðan og austan.
Ísafold birti 5.október bréf úr Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu - bæði dagsett í september:
Norður- Þingeyjarsýslu, 15.september: (Tímabilið síðan 1. júlí). Veðráttufar sífellt haldist hið sama góða að heita má; i júlí oft + 16 til 20°R og sama í ágúst, er byrjaði með +22°R. 13. júlí voru þrumur með dembuskúrum, og reyndar voru oftar skúrir, en oftast hitar á meðan og milli; 2., 14. og 15. ágúst. voru enn þrumur. Næstsíðustu viku var og stundum skúrasamt af norðri, en ekki kalt (+4 til l0°R) , eftir því sem áður hefir verið að venjast hin sumrin; nú aftur síðustu vikuna hitar og sunnangóðviðri, með +14 til 17°R á hverjum degi. Heyskapur hefir orðið hinn besti og notalegasti, því að hvert strá hefir náðst eftir hendinni liðlangt sumarið, og sprettan ágæt.
Norðurmúlasýslu, 14. september 1889: Sama ágætistíðin hefir haldist allt sumarið; veðurblíðan og nýtingin verið einstök. Nýting á heyi hefir orðið ágætlega góð í öllu
Héraði, því að þar hafa stöðugir þurrkar verið allan heyskapartímann. Í Fjörðum minni þurrkar, en úrkomur litlar og hey því ekki hrakist, heldur náðst með allgóðri nýtingu
víðast hvar. Heyskapur bráðum úti, og munu heyföng almennt orðin með langmesta móti.
Þjóðólfur birti þann 4.október bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett 16. september (hér stytt):
Þrumur gengu hér óvanalega miklar fyrstu dagana af ágúst í sumar. Bláa móðu lagði hér niður yfir nokkra daga í þessum mánuði (5. og 7.) og sumir þóttust heyra bresti fram til fjalla, en engin líkindi hafa menn önnur en tilgátur eftir þessu fyrir því, að eldur muni uppi vera.
Ísafold birti þann 2.október tvö bréf að vestan dagsett í september:
Barðastrandarsýslu vestanverðri 18.september: Frá 25. ágúst til 6. þ.m. eða um 1/2 mánuð var vætukafli, en þó oftast hæg úrkoma, aðeins stöku dag mikil rigning, en órólegt til sjávarins, einkum síðari vikuna, sjaldan miklir stormar og nær því ávallt hlýtt, 10, 11, 12 og 13°R um hádegi oftast. 8. þ.m. var hæg norðanátt, með 14°hita um hádegi, en mjög mikið mistur, sólin blóðrauð. Næstu 2 daga, 9. og 10., var ofsarok á norðan og fremur kalt, 47° hiti, en síðan lygndi og hlýnaði hinn 11.; 11° þann dag. Daginn eftir (12.) var logn og sólskin með 14° hita um hádegi. Hinn 13. gekk aftur til vætu og 14. var sunnanrok og stórrigning lengst af, hin mesta á sumrinu, síðan sláttur byrjaði, en þó hlýtt; 11° um hádegi. 15.-17. skúrir, 2 fyrri dagana sunnan, í gær vestan, með 8 og 9° hita fyrri dagana, en 27° í gær. Í fyrri nótt fraus dálítið, því þá var loft létt. Í dag er norðvestan þerrir, nokkurt sólfar, ofurlítið frost í morgun, en nú (kl. 10 f.m.) 3° hiti; kl.11-2 kafald, snjóaði í fjöll. ... Hjá sumum bændum á Rauðasandi fauk nokkuð af heyi norðanrokdagana; þar er mjög veðrasamt í þeirri átt.
Ísafirði 22. september: Tíðin hefir verið ágæt til lands og sjávar í sumar. Nýting og grasvöxtur í besta máta og heyafli því með betra móti, enda þó hann sé hér sumstaðar
hafður í hjávinnu; 18. og 19. þ.m. snjóaði hér vestra niður í sjó og var hvass af útnorðri; í nótt fyrst frost að mun.
Þjóðviljinn á Ísafirði 21.september:
Norðanhret gerði hér l7. þ.m., og snjóaði ofan í miðjar fjallahlíðar, en lítt festi snjó á láglendi; í gær var aftur komið besta veður.
Þjóðólfur segir af tíð þann 20. og 27.:
[20.] Tíðarfar er orðið haustlegt í meira lagi. Fyrri hluta þessarar viku rigningar, síðustu daga norðangarður með snjógangi til fjalla.
[27.] Heyskap var hætt víðast viku fyrr en vant er, með því að hann byrjaði löngu fyrr en venjulegt er. Heyfengur manna varð með langmesta móti, og hey víðast vel verkuð. Tíðarfar var hart mjög fyrir norðan fyrir og eftir síðustu helgi; frost mikið og snjókoma allt niður i byggð. Hefur því að öllum líkindum illa gengist i fjallgöngum, sem þá stóðu yfir víðast norðanlands.
Ísafold segir frá þann 28.september:
Norðanlands gerði hret eigi alllítið 18. þ.m. Snjóaði til sjávar nóttina eftir, með talsverðu frosti. Héldust kuldar og hvassviðri fram yfir helgina næstu á eftir. Náði hret þetta einnig yfir Suður- og Vesturland, en varð minna af.
Þjóðólfur birtir þann 25.október bréf úr Norður-Múlasýslu, dagsett 3.október:
Norðurmúlasýslu, 3. október: Í síðari hluta [september] kom hér óveðrakafli og snjóaði svo, að við lá að yrðu fjárskaðar, en nú er komin sama blíðan aftur, sem verið hefur lengst af i sumar. Heyskapur í betra lagi hjá flestum og í allra besta lagi hjá sumum. Nýting var ágæt. Grasvöxturinn var viða ágætur, þar sem votlent var; þar sem þurrlent var, aðeins i meðallagi og sumstaðar tæplega það. Fé er í vænsta lagi.
Október: Úrkomusamt í upphafi og enda. Yfirleitt hagstæð tíð.
Ísafold birti þann 16. bréf úr Standasýslu sunnanverðri, dagsett þann 7.október:
Enn helst hin sama veðurblíða, sem verið hefir í allt sumar. Þó gjörði hér dálítið kafaldshret um réttirnar. Hinn 23. f.m. snjóaði hér ofan í byggð, talsvert til fjalla. Áfelli þetta mun samt engan skaða hafa gjört. Elstu menn muna ekki aðra eins veðurblíðu sem nú, jafnlengi, síðan á góu í vetur. Grasvöxtur var hér góður í sumar; einkum voru tún og harðvelli allt ýtarlega vel sprottið. Nýting var æskilega góð. Heyfengur manna mun því mega teljast með langbesta móti eftir fólksástæðum.
Jónas Jónassen lýsir veðri og jarðskjálftum í pistli þann 16.:
Hið besta veður undanfarna daga, svo að kalla logn og sólskin daglega. Klukkan laust fyrir 4 sunnudagsmorguninn (13.) byrjuðu jarðskjálftar hér, kom þá snarpur kippur og hélst þetta við og við með smáhristingi þar til kl. undir það 5 um morguninn að mjög mikill skjálfti kom, síðan smákippir þar til kl. 12 1/2 e.h. (rúmlega) að ákafur skjálfti kom, svo allt lék sem á þræði hér í bænum; var hér logn og fagurt, bjart veður allan þann dag (13.).
Ísafold segir einnig frá tíð og landskjálftum í sama blaði (þ.16.):
Veðrátta er enn hin ákjósanlegasta hér sunnanlands, og líklega eins í öðrum landsfjórðungum. Af hretinu, sem gerði í fyrra mánuði nyrðra, hefir langmest orðið í Þingeyjarsýslu austan Ljósavatnsskarðs; þar gengu kafaldshríðar talsverðar frá 18. til 29. f.m. og var alsnjóa til sjávar; leysti þó upp á eftir.
Landskjálftar. [L]andskjálftar eigi all-litlir [urðu] hér í Reykjavík og nærsveitunum sunnudag 13. þ.m., meiri en komið hafa hér í 20 ár að minnsta kosti. Sumir vilja halda, að landskjálftarnir haustið 1868 hafi verið eins miklir, en aðrir fortaka það. Mestur var kippurinn, sem kom hálfri stundu eftir hádegi. Söngur hætti í dómkirkjunni allrasnöggvast, og hér um bil þriðjungur kirkjusafnaðarins flýði út. Var það skömmu áður en prestur sté í stól (síra Þórhallur Bjarnarson). Messugjörðinni var samt haldið áfram. Sprungur komu í grunnmúra á nokkrum húsum, en aðrar skemmdir urðu eigi. Smávegis féll niður af hillum o.s.frv. Á póstskipinu, sem lá á höfninni, varð vel vart við hristinginn: skipið riðaði til og heyrðist hrikta í akkerisfestum. Viðlíka miklir eða engu minni höfðu landskjálftar þessir orðið suður um Álftanes, Hafnarfjörð, Vatnsleysuströnd og Krísuvík, en minna þegar lengra kom fram á Reykjanes. Vitinn á Beykjanesi skemmdist ekki neitt. En á Vatnsleysuströnd sprungu grunnar undir húsum, steinhús klofnaði á Sjónarhól og eldhús hrundi á Hvassahrauni. Á þeim bæ þorði heimilisfólk ekki að haldast við í húsum nóttina eftir, heldur bjó um sig í tjaldi út á túni. Sagt er og að fjós hafi hrunið í Krísuvík. Á Akranesi og Hvalfjarðarströnd hafði orðið vart við landsskjálfta þessa lítils háttar, en í Kjós, á Kjalarnesi og Mosfellssveit varð mikið af þeim nokkuð, þó heldur minna en í Reykjavík. Um Flóa og Ölfus hafði þeirra orðið vart lítils háttar, en í efri hreppum Árnessýslu alls eigi. Á seglskipi, sem var á ferð fyrir Reykjanes á sunnudaginn, á leið hingað frá Norvegi Ragnheiði, skipstj. Bönnelykke varð talsvert vart við hristinginn kl. 12; skipið kipptist við, eins og það hefði rekið sig á, og brakaði í hverju tré. Nóttina eftir, aðfaranótt mánudags 14. þ.m., varð og vart við hreyfingu hér í bænum 2-3 sinnum, og eins syðra, suður á Vatnsleysuströnd, mest kl. 3 hér um bil.
Þjóðólfur segir þann 8. nóvember úr Húnavatnssýslu, dagsett 18.október:
Alltaf er sama veðurblíðan. Yfir höfuð var þetta sumar hið allra besta og varla hægt að hugsa sér betra sumar hér norðanlands.
Ísafold birti 2.nóvember bréf utan af landi (lítillega stytt hér):
Barðastrandarsýslu sunnanverðri. 20.október.: Hin sama veðurblíða, sem var næstliðið vor og sumar, helst enn þá. Haustið úrfellalítið, en þó ekki kalt eða frostasamt; oft stillur og þurrviðri; og þó norðan-íkast hafi komið hefur ekki verið nema froststirðningur, 1 til 2 stig á R. Norðan-íkast kom í september, fyrir réttirnar, og í því fannkoma á fjöll og sumstaðar til sjávar, með miklu hvassviðri af norðri. Allan þann snjó tók upp aftur eftir viku, í hinu mikla sunnanveðri hinn 25. sama mánaðar. Enn gerði íkast af norðri 8.þ.m.; snjóaði þá lítils háttar hér á fjöll og var hvassviðri mikið; eins í uppþotinu núna þann 17. var hvassviðri mikið, en frostlaust. Heysöfn almennings hafa orðið í þessu plássi í betra lagi og sumstaðar ágæt að vöxtum og verkun, og árferðið yfir höfuð svo gott, að elstu menn segjast ekki muna betra á þessari öld. En þrátt fyrir þetta góðæri er ekki betri horfur á með bjargræðisástand upp á veturinn en var í fyrra og stundum að undanförnu í þessu plássi. Eru til þess ýmsar orsakir. þeirra er fyrst og fremst hin mikla fjársala úr sveitum hér til kaupmanna og pöntunarfélags, og þó að sauðfé sé nú að vænleik hið besta til frálags, eru mörg heimili, sem ekki hafa þess not til fæðis til vetrarins, heldur fer allt þetta fé til kaupmanna, til að minnka kaupstaðarskuldir, ...
Snæfellsnessýslu 27. október: Tíðarfar hið besta hér seinni part sumarsins, þó sérstaklega ómunalega góð tíð allan þennan mánuð allt fram að 23.; þá brá til mjög mikilla rigninga, er þó hvergi urðu til stóróhagræðis.
Þann 30. segir Jónas:
Laugardaginn [26.] var hvass útsynningur síðari part dags, með haglhryðjum, og sama veður næsta dag, með brimhroða; h.28. gekk veður til austurs, bjartur upp yfir og hægur; daginn eftir austanveður, hvass, með slettingsbyl fyrri part dags og síðan óhemju rigningu síðari partinn, hvass, en lygndi síðar um kveldið. Snemma að morgni h.29. var jörð hér í fyrsta sinn alhvít af snjó. Í nótt (aðfaranótt h.30.) hefir stirðnað og fallið föl; en með morgninum hægur á landnorðan, bjartur.
Nóvember: Óstöðug, hvassviðrasöm tíð.
Þann 4. gerði ökklasnjó í hægum vindi í Reykjavík að sögn Jónasar Jónassen.
Norðurljósið segir frá þann 19.:
Ofsaveður var hér í Eyjafirði og í nálægum sveitum 7. þ.m. Urðu talsverðir skaðar á húsum og heyjum. Í Hraukbæ í Kræklingahlíð fuku að sögn 80-90 hestar af heyi.
Ísafold birti þann 30. bréf utan af landi:
Barðastrandarsýslu sunnanverðri 11. nóvember: Hin sama góðæristíð helst enn; þó má heita heldur umhleypingasamt síðan veturinn byrjaði, en oftast þíða eða lítill froststirðningur, fannkoma engin í byggð og nú marautt þar, en talsverður snjór er kominn á fjöll, og umbrotaófærð var fyrir skömmu kominn á Þorskafjarðarheiði. Stórviðrasamt hefir líka verið og ógæftir til sjávarins; sunnanveðrið, sem kom á að kvöldi hins 6. þ.m., var hér með mestu veðrum af þeirri átt. Það mátti heita aftakaveður um nóttina og fram eftir degi þ.7., enda urðu misferli á skipum og bátum víðast, er til hefir spurst. Unnu þar líka að óvenju mikið stórflóð og sjávargangur. Brotnuðu eða skemmdust margir bátar í Vestureyjum og á Reykjanesi og víðar. Vöruskip frá kaupm. Gram fór þá úr Stykkishólmi með það kjöt sem hann átti þar til framsiglingar, en átti að fara vestur á Flatey að taka þar kjöt Björns kaupmanns, hreppti veðrið að kvöldi hins 6., og komst ekki inn á höfnina, lagðist fyrir utan Flatey og notaði öll sín legufæri, sem þó ekki dugði um nóttina, fyrr en þeir hjuggu siglutréð með reiða fyrir borð, og var það síðan róið inn á höfnina, og sent eftir sýslumanni að láta hann álíta, hvort strand skuli metast eða ekki.
Strandasýslu sunnanverðri 16. nóvember: Tíðin fremur stirð núna, síðan fyrir mánaðamótin (okt. og nóv.). Sífelldar úrkomur, ýmist rigning eða útsunnankuldi. Stundum hafa
rigningarnar verið með mesta móti, eftir því sem hér gerist, t.d. 14. þ.m., og í dag; hinn 7. þ.m. var hér ákaflegt suðvestanrok.
Snæfellsnesi, 18.nóvember: Veðrátta hefir verið hin óstöðugasta síðan ég skrifaði seinast, sífelldir útsynningar, ýmist með áköfu kafaldi eða rigningu, og alla jafna mátt heita
lítt fært veður til allra starfa; þess vegna mjög gæftalaust við sjó. Fönn hefir oft kyngt svo mikilli, að ófærir hafa orðið fjallvegir, og enda orðið hart um jörð á einstöku bæ stundum; en nú í gær og dag hefir leyst svo mikið, að varla sést fönn til fjalla. Allur fénaður hefir hrakist mjög að holdum við þessi illviðri.
Þjóðviljinn segir þann 20. frá mannskaða á Snæfjallaströnd (frásögnin er stytt hér):
Miðvikudaginn 13. þ.m. vildi það stórslys til, að sex menn drukknuðu í lendingu á Snæfjallaströnd með þeim atvikum, er nú skal greina: Þriðjudaginn 12. þ.m. lagði héðan þiljubáturinn Olavia", eign H.A. Clausens verzlunar, með saltflutning norður á Snæfjallaströnd. Skipstjóri var Þorleifur Jóhannsson ... Lögðu þeir skipinu fyrir framan Sandeyri að áliðnum degi, og var veður all-ískyggilegt; fóru þeir i land á Sandeyri um kvöldið, en á meðan þeir dvöldu i landi, ágerðist veðrið, svo að þeir Þorleifur fengu léðan bát og 2 menn á Sandeyri, ... til þess að komast fram í skipið. Aðfaranóttina miðvikudagsins versnaði veðrið enn meir, og á miðvikudaginn var aftaka garður af suðvestri með hafróti og brimi', mun þá hafa slitnað önnur festin, er skipið lá við, og hafa skipverjar þá líklega orðið hræddir um, að skipið myndi slita upp; en hvað sem valdið hefir, tóku þeir það óhapparáð, að halda út í einsýna ófæru, að ætla sér í land á bátnum ; komust þeir svo miðja leið, eða uns þeir áttu á að giska 100 faðma í land. en þá reis brimhroði, og hvolfdi bátnum á einu vetfangi. Drukknuðu þeir þar allir sex, en fjöldi manns stóð á landi, og fékk ekki að gert fyrir ósjó og veðri. ... Er slys þetta því sorglegra, sem öllum hefði verið vel borgið, ef þeir hefðu ekki yfirgefið skipið, því að það lá kyrrt og óskaddað fyrir annarri festinni á fimmtudagsmorguninn, er veðrinu slotaði í svip, svo að komist varð út í það.
Þjóðólfur birti þann 25.pistil úr Vestmannaeyjum dagsettan 16.nóvember:
Hér hafa nú gengið endalaus skakviðri og úrkoma mikil síðan 23.október og til þessa dags.
Þó Jónas Jónassen fylgdist vel með loftvoginni tekur hann oft fram að varlegt sé að treysta henni um of. Hann segir frá þann 20.:
Undanfarna daga hefur oftast verið útsynningur rokhvass með köflum; stundum hefur veður hlaupið til austurs en að vörmu spori aftur í útsuður; h.16. var rokhvass landsynningur með rigningu; yfir höfuð hefur veðurátt nú um tíma verið mjög ókyrr; til sjáfarins megnasta brimrót. Sunnudagskveldið [17.] stóð loftþyngdarmælir vel og fór sí-hækkandi og útlit var fyrir, að veður mundi verða gott mánudaginn, en svo varð eigi, því þá rauk hann á suðvestan (útsunnan) með ofsaveður: eitt dæmi þess, að valt er fyrir sjómenn að treysta loftþyngdarmæli.
Þjóðviljinn segir frá tíð þann 20.nóvember:
Síðan um veturnætur hafa stöðugt gengið sífelldir umhleypingar hér vestra og verið mesta voðatíð til sjávarins, því þá sjaldan er sýnst hefir ætla að stilla ofurlítið til hefir hann verið rokinn á aftur allt í einu. Jörð hefir þó haldist til þessa fyrir fénað því að þó að stundum hafi verið allt að því knésnjór að kveldi, hefir aftur verið auð jörð að morgni og frostleysuveður jafnan.
Þann 20.desember birti Þjóðólfur bréf úr Eyjafirði, dagsett 20.nóvember:
Alltaf helst sama öndvegistíð, hlýindaveðrátta dag eftir dag, en óvanalega óstillt og stormasöm nú lengi, oftast vestan og suðvestanstormar. Stundum eru hlýindarigningar
eins og á vordag, enda hefir sést spretta upp i görðum aftur og jafnvel nýútsprungnar sóleyjar. Allar sveitir hér kringum Eyjafjörð mega heita alauðar.
Ísafold birti þann 8.janúar 1890 bréf úr Reykjarfirði á Ströndum, dagsett 24.nóvember:
Tíðin hefir verið hin besta í haust, þó heldur veðrasamt, og síðastliðna viku var ekki róið á Gjögri sökum storma. Í haust hefir þar aflast vel; en flest vill verða til baga og nú í haust hafa menn beðið mikið fjártjón af því, að ekki fékkst salt í Kúvíkum (Reykjarfirði); því vegna óþurrka og uppfestuleysis hefir fiskurinn mikið skemmst. Hefðu menn getað saltað fisk sinn til verslunar, þá hefði hagur almennings stórum batnað.
Þjóðviljinn segir frá sjóslysi í pistli þann 30.:
Skipstrand og manntjón. 26.þ.m., hinn eina góðviðrisdag, sem hér hefir komið langa lengi, lagði héðan skipið Holger", eign H.A. Clausens verzlunar, 101,29 smálestir, skipstjóri H.P.N. Ibsen; skipið var fermt 650 skipspundum af fiski, en átti að koma við á Flateyri, til þess að fá þar fullan farm. Sigldi skipið léttan suðaustan byr út Djúpið, en að áliðnum degi er skipið var komið út fyrir Stigahlið, á móts við Skálavik, gerði hafvestan rok, svo að skipstjóri af réð að snúa aftur; en af náttmyrkrinu. veðrinu og straumnum. Kom skipið of nærri Stigahlið, og mölbrotnaði þar við svo nefndan Gullskriðubala, milli Hvassaleitis og Krossavikur, utarlega á Stigahlíð. Þetta var snemma morguns (kl. 8 f.h.) 27. nóv. Á skipinu voru 7 menn, að skipstjóra meðtöldum, og - eftir þeim óljósu fregnum sem enn eru fengnar björguðust 5 skipverjar á land á mastrinu, en skipstjórinn og unglingsdrengur, er honum var áhangandi fórust með skipinu; er mælt að þeir sem á land komust, hafi heyrt hjálparóp skipstjórans; en, eins og nærri má geta, hafi hver nóg með að bjarga sjálfum sér i brimrótinu og ósköpunum, sem á gengu. Kl.78 að kvöldi 27.nóv, kom stýrimaðurinn og 2 skipverjar aðrir í Bolungarvík,mjög [þrekaðir], og einn þeirra mjög meiddur á fótum; gegnir það stórri furðu, hvernig þeir ókunnugir og sjóblautir hafa getað klöngrast fram með hlíðinni til byggða jafn mikil hættuleið og forvaðar, sem þar eru. Tveir þeirra, sem í land komust, voru svo illa útleiknir, að þeir gátu ekki fylgst með hinum; og þó að gerð væri leit af fleiri mönnum aðfaranóttina 28. nóv. fundust þeir ekki, svo að líkindi eru til, að þeir hafi orðið til einhvers staðar á hlíðinni. Lík skipstjóra Ibsens fannst i fiskhrúgu í flæðarmálinu. Töluvert af fiski og ýmsum skipsmunum hafði rekið á land við Gullskriðubala, ...
Þann 7.desember segir af tíð - og skriðuhlaupum í bréfi úr Rangárvallasýslu dagsettu 30.nóvember:
Sumarið var hér, eins og annarsstaðar, ágætt að veðurblíðu og heyafli hjá flestum með besta móti. Betra haust muna tæplega gamlir menn, en síðan veturinn kom, hefir verið mjög óstöðug veðrátta, stórrigningar og snjógangur á víxl; nóttina milli hins 14. og 15. þ.m., og svo um daginn hinn 15. rigndi hér ákaflega mikið, og varð mjög mikið tjón af því í Fljótshlíð (Inn-Hlíðinni) af skriðum, er hlupu ofan úr hlíðunum niður á tún og engjar. Níu jarðir alls hafa orðið fyrir þessum skriðuhlaupum, og hafa skemmst meira og minna á túni og engjum; en þó hefir mest að þeim kveðið á Eyvindarmúla og Múlakoti.
Þjóðólfur segir einnig fréttir af skriðuhlaupunum þann 6.desember:
Fljótshlíð, nóvember Um innanverða Fljótshlíð varð skriðuhlaup mikið 15.þ.m. og nóttina þar á undan; um 30 skriður féllu alls, smáar og stórar, allar á tún og engjar; mestar urðu skemmdir i Fljótsdal og Múlakoti; rigning var þá ákaflega mikil. Markárfljót varð svo mikið, að engin eyri var upp úr á milli Eyjafjalla og Fljótshlíðar, og er það þó nálægt mílu [7 km rúmir] á breidd, og þegar neðar dró, voru allir 4 aðalfarvegir þess fullir landa á milli, sem eru sjálft fljótið, Álarnir, Affallið og Þverá, sem fellur út með Fljótshlið.
Þann 24.janúar segir Þjóðólfur frá mannsköðum í hríðarveðri 23.nóvember:
Stórkostlegir mannskaðar og fjárskaðar hafa orðið í Þingeyjar- og Múlasýslum í nóvember. Um það er oss skrifað úr Þingeyjarsýslu 30. [desember]: Laugardaginn 23. nóvember gekk að með austanbyl og var ofsaveður og fannkoma þegar á leið daginn; gekk svo til norðurs um nóttina með miklu frosti og birti ekki upp fyrr en lítið eitt á mánudaginn. Þá urðu úti 6 menn hér í norðursýslunum, og þá urðu einnig fjárskaðar í því veðri. Varð einn maður úti á Skriðuhálsi (skammt frá Húsavík), annar milli Hólsfjalla og Axarfjarðar, þriðji á Langanesi, fjórði og fimmti á Sléttu skammt frá Raufarhöfn og sjötti maðurinn skammt frá Sleðbrjót í Norðurmúlasýslu; voru 2 menn með honum, en komust af. Víða fennti þá fé og hrakti til bana, 2-10 kindur á bæ, en ekki hefur heyrst getið um stórskaða, nema 60 fjár fórst á Snartarstöðum og Brekku í Núpasveit, 40 á Flutningsfelli og 25 á Ytra-Álandi í Þistilfirði.
Desember: Óstöðug, hvassviðrasöm tíð, snjólítið fram undir jól, en síðan mikill snjór.
Þann 6. segir Þjóðólfur: Tíðarfar er milt mjög, stöðug þíðviðri, en talsverð rigning stundum, jörð er alauð.
Ísafold birti þann 24. bréf úr Strandasýslu sunnanverðri, dagsett 11.desember:
Fyrstu dagana af þessum mánuði var besta tíð, hláka og hlýindi. En nú hefir snjókoma nokkur verið í þrjá daga, svo yfirfærð er slæm. Lömb voru hér almennt tekin á gjöf um 24.f.m. Hagi er nægilegur enn, svo rosknu fé er lítið sem ekkert gefið enn. Mun samt hafa verðið hárað (eins og það er kallað hér) nú síðustu dagana.
Þann 13. segir Þjóðólfur:
Tíðarfar óstöðugt mjög, annan daginn fannkoma með 10 stiga frosti (1l.þ.m.), hinn daginn hláka með hellirigningu (12.þ.m.). Skipstrand. 8.þ.m. var hér ofsaveður; sleit þá upp hér á höfninni og strandaði skip frá Flatey, Marine, sem ætlaði til Noregs, en hafði lengi beðið hér byrjar. Menn allir komust lífs af. [Þjóviljinn á Ísafirði segir 4.febrúar að strandið hafi orðið þann 6.desember].
Þjóðviljinn segir 4.febrúar:
[M]aður varð úti milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysu 12. desember.
Jónas segir þann 14.desember:
Síðari hluta miðvikudags [11.] gjörði austan-landnyrðing með blindbyl og gekk svo aðfaranótt h. 12. í landsuður með mikilli rigningu og var bráðhvass um tíma þann dag, en lygndi alveg um kveldið og fór að frysta. Hinn 13 var hér bjart veður, hægur á útsunnan þar til að hann gekk til landsuðurs um kveldið, hvass með regni og sama veður, en í morgun (14.) bráðhvass á sunnan með húðarrigningu og koldimmur.
Í Ísafold þann 24. er frétt frá Eyrarbakka, dagsett þann 16.:
Í gærkvöldi og í nótt var hér ofsaveður, rokstormur og haglhríðir á útsunnan, svo að hús léku á reiðiskjálfi. Sjórinn gekk upp yfir sjógarðinn, og gjörði talsverðar skemmdir á honum fyrir Háeyrarlandi. Tré (fram að 20 al. álengd), sem rak í veðrinu, flutti sjórinn upp yfir sjógarðinn.
Þann 25.janúar birti Ísafold bréf úr Norður-Múlasýslu, dagsett 19.desember - og í sama blaði segir frá foktjóni á Seyðisfirði:
Veðurátta helst einlægt mjög mild, ekki stór áfelli komið, lítið snjóað og snjóinn tekið jafnóðum upp aftur, enda stöðugt sunnanátt, þótt einstöku sinnum hafi hvarflað til norðurs. En óstöðugt og umhleypingasamt hefir verið einkum í Fjörðum, enda er það ætíð svo í góðum vetrum.
Húsatjón. Hinn 17. [desember] um morguninn í fullbirtingu kom bylur, sem braut og skemmdi meira og minna að minnsta kosti 9 hús á Búðareyri og Fjarðarströnd í Seyðisfirði. Húsin öll norsk, og flest síldveiðahús, sem ekki var búið í. Tvö húsin sópuðust í sjóinn með öllu, í öðru síldarnætur, en hinu tunnur. Eitt húsið var 80 álna langt, og reif þakið af meiri hluta þess og annan endann niður að grunni, og fór allt í sjó. Ofsaveður var allan daginn, stóð vindur út fjörðinn, og mun því bæði tunnur og timbur hafa mest rekið til hafs.
Jónas lýsir mikilli umhleypingatíð í Ísafold síðari hluta mánaðarins:
[18.desember] Laugardaginn {14,] var hvasst sunnanveður með regni, en gekk til útsuðurs síðari part dags, kol-dimmur, næsta dag bráðhvass á landsunnan, mjög dimmur og gjörði ofsarok rétt fyrir hádegið; gekk þá þrumuveður og rétt á eftir lygndi um tíma en eftir miðjan dag rauk hann aftur og gjörði aftaka-rok á suðsuðvestan og hélst það veður alla aðfaranótt mánudagsins; lygndi mikið er á leið daginn og var logn um tíma, en gekk svo til austurs um kveldið, með blindbyl; næsta dag eftir í útsuðrið með éljum. Í morgun (18.) bjartur, hægur.
[21.] Eftir hádegi h.18. var slettingsbylur af austri og um kveldið hæg rigning; daginn eftir rétt að kalla logn, all-bjartur, gekk til landnorðurs nokkuð hvass seint um kvöldið og aðfaranótt h. 20. til norðurs, þó hægur og bjart veður; gekk til austurs, hægur.
[24.] Hinn 21. var ofanfjúk, hægur á austan um miðjan dag, gekk svo til landsuðurs um kveldið; varð síðan hvass á austan með regni að morgni h.22. og slettings-bylur og koldimmur allt fram að miðjum degi, er hann gekk til útsuðurs með éljum; fór svo aftur í austrið með húðarigning allt fram að hádegi h.23., er hann allt í einu rauk á útsunnan með éljum, en lygndi síðari part dags.
[28.] Allan þriðjudaginn [aðfangadag jóla] var útsynningur með dimmum éljum; daginn eftir logn og ofanhríð; gekk í útsuðrið aftur með éljum, svo logn en dimmur þar til hann gekk til norðurs upp úr logni skömmu eftir hádegið h. 27. Í morgun (28.) bjartur norðan, þó eigi hvass. Hér er nú talsverður snjór á jörðu.
[4.1. 1890] Hinn 29. var hér landnyrðingur, hvass að morgni, síðan austanbylur og gekk í þíðu síðast um kvöldið, gekk svo til landsuðurs hægur h.30., en í útsuðrið með éljum eftir hádegið, logn um kveldið og logn og bjartasta veður síðasta dag ársins.
Þann 24.janúar segir Þjóðólfur frá bruna á Hjaltabakka í Húnavatnssýslu (stytt hér):
Á Þorláksmessu 23.desember síðastliðinn brann bærinn á Hjaltabakka í Húnavatnssýslu; atvikaðist það þannig, að fyrst kviknaði í ofnröri; var eldurinn að vísu slökktur í því innan skamms, en með því að landsunnan ofviðri var hið mesta, litlu eða engu minna en í fyrra þennan dag, höfðu eldneistarnir úr rörinu borist út um þök bæjarhúsanna, og áður enn menn varði, var eldurinn kominn svo í dyraloftið, að ómögulegt var við neitt að ráða, enda var bæði liðfátt fyrir og lítt stætt fyrir veðri. Allur bærinn brann til kaldra kola og voru öll hús fallin niður liðugum klukkutíma eftir, að vart varð við eldinn.
Þjóðólfur birti 31.janúar bréf af Snæfjallaströnd dagsett 30.desember:
Tíðarfar mjög umhleypingasamt og þar af leiðandi gæftaleysi til sjávar. Afli hafði verið góður siðast þegar róið var í Hnífsdal og Bolungarvík, en hér á ströndinni hefur ekki verið róið síðan snemma á jólaföstu. Aftur á móti er hér óvenjulega snjólitið.
Austri birtir 31.október 1893 yfirlit um veðráttufar á Austurlandi 1889 (lítillega stytt hér):
1889. Janúar. Snjókomur litlar, en allstaðar litlir hagar vegna áfrera. Þó voru veður kyrrlát svo hagsnapir notuðust vel.
Febrúar. Voðalegt ástand í suðurhreppum S-Múlasýslu og í Austurskaftafellssýslu. Skorið nú frá heyjum í Álftafirði". Haglaust er á Úthéraði utan Rangá og Eyvindará.
Mars. Hlákudagar engir, en fáa daga sólbráð nær mánaðarlokum. Litlir snjóar og litlir hagar vegna hlákuleysis. Mýramenn ráku fé til útigangs austur í Nes. Hafís í Héraðsflóa, og suður á firði.
Apríl. Þ.14. voru komin verslunarskip á Reyðarfjörð, Djúpavog og á Seyðisfjörð.
Maí. Kominn sauðgróður 23. og þá sáð á uppsveitum fræi og kartöflum. Þann 12. voru 6 verslunarskip komin á Seyðisfjörð. Í mánaðarlok nautgróður.
Júní. Snjóaði þá [undir mánaðamót] á Snæfellstinda. Þann 4. Einlægt besta tíð, ekkert frost komið síðan nóttina fyrir 23. apríl".
Júlí. Veðurátt oftast suðlæg og suðvestlæg. Heyskapur byrjaði nær hálfum mánuði fyrr enn venja er orðin til. Þó fór ekki grasvexti vel fram þennan mánuð, vegna of þurrar veðuráttu".
Ágúst. Hélufall [aðfaranótt 19.] Heitir dagar 15. og 16. Þann 23.snjóaði fyrst á tinda. Þann 21. voru töður víða óhirtar í suðurfjörðum. Áttin var oftast suðaustlæg, og þá vot og hlý.
September. Þrísvar frost, fyrsta sinni [þann] 23. frá 23. apríl. Heyskapartími nú 11 vikur, í stað 810 venjulega. Mikil heyföng. Ágætur garðyrkjuafli. Hér komu upp úr 120 ferföðmum 8 tunnur af kartöflum, og úr 55 ferföðmum 5 tunnur af gulrófum.
Október. Frost ekki nema þrisvar. Regntíð mikil suður í sveitum. Seint í mánuði óþurrkað hey í Álftafirði, Starmýri og Þvottá, sem í september var slegið, og þá flutt á þerriland.
Nóvember. Frostdagar aðeins 8. Alloft regn og rosar. Tvisvar snjóhreyta í byggð. Þ.24. dimmviðri með snjó.
Desember. 15 daga var veður frjósandi. Svellstorkur í byggðum á Upphéraði í lok mánaðar, en mikið betra út á sveitum.
Lýkur hér að sinni að segja af veðri og tíð á árinu 1889. Í viðhenginu eru ýmsar tölulegar upplýsingar, meðalhiti, úrkoma og fleira.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:36 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 16
- Sl. sólarhring: 274
- Sl. viku: 2395
- Frá upphafi: 2434837
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 2122
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Takk fyrir þessa frábæru pistla af árinu. Sannarega fróðlegt og hollt fyrir okkur nútímafólkið að lesa um mörg harðindaárin á fyrri öldum þó árið 1889 hafi verið kærkomið eins og þú segir amk töluvert skárra en ósköpin sem undan voru.
Hjlti Þórðarson (IP-tala skráð) 20.10.2018 kl. 20:15
Bestu þakkir fyrir góðar undirtektir Hjalti
Trausti Jónsson, 21.10.2018 kl. 02:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.