Kalt - eða kannski hlýtt?

Eitthvað skiptar skoðanir munu vera um það hvort tíðarfar ársins 2018 hafi til þessa verið hlýtt eða kalt. Reyndar er það svo að niðurstaðan fer nokkuð eftir því við hvað er miðað. Hér fjöllum við aðallega um stöðuna í Reykjavík - minnumst þó á fleiri staði í lokin. Í Reykjavík er niðurstaða sú að sé eingöngu miðað við síðustu 20 ár falla fyrstu 9 mánuðir ársins á kaldasta þriðjung hitadreifingar - og geta þar með kallast kaldir. Sé hins vegar miðað við tímann frá upphafi samfelldra hitamælingar lendir sama tímabil í efsta þriðjungi hitadreifingar - og árið 2018 það sem af er telst því vera hlýtt.

Lítum nánar á þetta á mynd.

w-blogg250918

Lóðrétti ársins táknar meðalhita fyrstu 9 mánaða ársins í Reykjavík. Sá lárétti sýnir hins vegar lengd viðmiðunartímabils - lengsta tímabilið (147 ár) er lengst til vinstri, en síðustu tíu ár lengst til hægri. 

Rauði ferillinn sýnir hvernig þriðjungamörk hitadreifingarinnar liggja eftir því hversu langt tímabil er undir. Sé meðalhiti fyrstu 9 mánaða ársins ofan rauðu línunnar teljast þeir hafa verið hlýir, liggi hitinn á milli rauðu og bláu línanna telst hitinn í meðallagi, en lendi hann undir bláu línunni hefur verið kalt. 

Það vekur auðvitað eftirtekt að bæði bláa og rauða línan hækka mjög eftir því sem styttra tímabil er undir. Þetta er afleiðing hinnar miklu almennu hlýnunar sem átt hefur sér stað síðustu 150 árin - og sérstaklega síðustu 20 ár. Þeir sem halda því fram að veðurfar hafi ekkert breyst hljóta að nota þau viðmið - því við getum auðvitað fengið veruleg kuldaköst í framtíðinni - einhvers réttlætis verða þau að njóta. Þeir sem aftur á móti halda því fram að varanlegar breytingar hafi átt sér stað vilja gjarnan miða við síðustu 20 til 30 ár (flestir hljóta að samsinna því að 10 ár séu of stuttur tími). 

Sé miðað við síðustu 20 ár er hiti fyrstu 9 mánaða ársins í ár lágur - það hefur verið kalt - við erum þó ekki langt inni í kalda þriðjungnum. Sé hins vegar miðað við síðustu 30 ár hefur hiti verið í meðallagi - og á lengri viðmiðunartímabilum reyndar rétt að sleikja mörk meðalflokksins og þess hlýja. Förum við aftur til þarsíðustu aldamóta lenda þessir níu mánuðir hins vegar í hlýja flokknum - og enn greinilegar ef við miðum við allt tímabilið frá upphafi mælinga. 

Nú ætlar ritstjóri hungurdiska ekki að fara að fullyrða neitt um það hvers konar viðmið er eðlilegt. - Honum þykir þó að í umræðum um veðurfarsbreytingar sé eðlilegt að miða við sem lengst tímabil - hlýindi síðustu áratuga eru einstök á mælitímanum. Hjá einstaklingum sem eru að lifa sínu lífi - og eru að reyna að aðlaga athafnir sínar að veðurfari er hins vegar alls ekki óeðlilegt að miða við mun styttri tíma. Þeir yngstu geta jafnvel gripið til tíu eða tuttugu ára, þeir eldri e.t.v. 30 eða 40. 

Ritstjóri hungurdiska lifir langtímalífi í veðurfarinu - honum finnst árið í ár falla vel í flokk hlýrra ára - þó það sé alls ekki í hópi þeirra allrahlýjustu um landið vestanvert. 

Við sjáum á myndinni að sé farið 50 til 80 ár aftur í tímann eru línurnar á myndinni frekar flatar. Sé t.d. litið á 70-ára viðmiðið teljast fyrstu 9 mánuðir ársins í meðalflokki í Reykjavík - rétt neðan hlýju markalínunnar - en samt allmörg sæti (8) neðan hennar því mjög litlu munar á hita sama tíma margra ára. Á Akureyri eru fyrstu 9 mánuðir ársins langt inni í hlýindunum, í 12. sæti, 11 sætum ofan marka. Austur á Dalatanga stendur árið enn betur, er það fjórðahlýjasta hingað til á síðustu 70 árum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband