20.9.2018 | 20:36
Af árinu 1763
Virðist hafa verið nokkuð hagstætt ár þegar á heildina er litið. Ekki er getið um hafís. Framan af sumri var óþurrkasamt syðra, en þurrt nyrðra, en snerist síðan við. Allir íslendingar hafa nú full hús matar - sagði Eggert Ólafsson í bréfi þ.14.september.
Daglegar loftþrýstimælingar ársins hafa varðveist. Gallinn er sá að ekki er vitað með vissu hvar loftvogin var. Mælingarnar varðveittust með gögnum tengdum Eggerti Ólafssyni en alls ekki er víst að þær séu hans. Möguleiki er að þær séu úr fórum Guðlaugs Þorgeirssonar prests í Görðum á Álftanesi en hann var tengdur veðurathugunum Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar á sínum tíma og var með mælitæki. Loftvog þessi sýnir allt of háar tölur - séu þær franskar tommur, en of lágar séu tommurnar enskar eða danskar. Auk þess er næsta líklegt að ekki sé leiðrétt fyrir hita eða hæð ofan sjávarmáls. Að öðru leyti eru mælingarnar ekki ótrúlegar - breytileiki frá degi til dags er eðlilegur. Við grípum til þess örþrifaráðs að lækka allar tölur um 25 hPa (til að við ruglumst síður í ríminu).
Hér má sjá venjulegan vetraróróa þrýstingsins fyrstu þrjá mánuði ársins - þó eru alllangir rólegir kaflar bæði um miðjan janúar og fyrri hluta febrúar - ber vel saman við aðrar lýsingar. Sömuleiðis er þrýstingur hár um vorið (eins og algengast er) og aftur er hann hár síðari hluta september og fyrst í október - og vel er um veðráttuna þá talað. Aftur á móti er þrýstingur lágur í ágúst - þá var norðanátt ríkjandi og svalviðri nyrðra (að minnsta kosti).
Við förum nú í gegnum árið með aðstoð annála og annarra heimilda. Frásögnum annálanna hefur verið skipt upp eftir árstíðum - til að auðveldara sé að bera þá saman. Einnig er stafsetning víðast færð til nútímahorfs (nema í grein Espólíns sýslumanns um sjúkdóma).
Við látum heildaryfirlit Vatnsfjarðarannáls hefja leikinn - athugum að hann lýsir veðri vestanlands - blaðsíðutöl vísa í prentaða útgáfu Bókmenntafélasins (binda ekki þó getið hér - auðvelt á að vera að finna út úr því).
Vatnsfjarðarannáll yngsti: Vetur frá nýári allt til sumarmála rétt góður; sumarið, haustið og allt til nýárs í sama máta. ... Heyskapur ogso góður, og yfir allt var árferðið allt til ársins enda eitt með þeim bestu. (s342)
Vetur með orðum annála:
Grímsstaðaannáll [Breiðavík á Snæfellsnesi]: Vetur sá allrabesti frá nýja árinu til góuloka, svo enginn mundi eins eður svo góðan. Á þorranum rist torf og þakin hús. Íkast gerði í 2. viku góu, gerði svo snart aftur dáviðri til sumarmála. Eftir sumarmálin gerði kulda, komu síðan dáviðri. ... Skiptapi skeði inn til eyja fimmtudaginn næsta fyrir öskudag [10.febr.], af fiskiróðri í áhlaupagarði á norðan, áttu heima í Elliðaey. Formaðurinn hét Ólafur Ólafsson; þar var á og sonur hans og 2 eður 3 aðrir. (s650) ... Skiptapi varð á Suðurnesjum, slóst á það boði, tók út formanninn og aðra tvo, en 7 gátu bjargað sér til lands á skipinu, en hinir 3 deyðu. (s651) ...
Sauðlauksdalsannáll: Vetur ofanverður mikið góður og vorið með. ...
Höskuldsstaðaannáll: Veturinn var góður, einmánuður hvað bestur. (s515) ... Kalt um sumarmál. Vorið þó gott. ...
Íslands árbók: Öndvegisgóður vetur og bestu hlutir bæði syðra og í öllum verstöðvum.
Viðaukar Espihólsannáls (1): Vetur í Múlasýslu norðanverðri hinn harðasti.
Dagbækur Jóns Jónssonar (eldri) á Möðrufelli eru yfirleitt heldur læsilegri heldur en bækur sonar hans - en á móti kemur að þar er mikið af skammstöfunum (sem væntanlega er hægt að læra). Ritstjóri hungurdiska hefur reynt að rýna í vikuleg yfirlit Jóns um árið 1763 og reynir að draga þau saman - fyrst veturinn (fram að sumardeginum fyrsta):
Svo virðist sem janúar hafi lengst af verið staðviðrasamur, en nokkuð köld tíð og þegar á leið versnaði um beit. Fyrsti hluti febrúar var svipaður og þess getið að fimmtudaginn 10. hafi komið fyrsta hríð vetrarins [áhlaup það sem minnst var á í Grímsstaðaannál]. Afgangur febrúarmánaðar var nokkuð hríðasamur og svo fór að hestar höfðu vart snöp þegar á leið þennan kafla. En eftir 5. mars kom þíða og frá þeim 9. var talin næg jörð. Síðan hélst allgóð tíð um stund en varð stirðari þegar á leið mánuðinn. Einmánuður var ekki slæmur, en tíð samt heldur óstöðug, kaldir dagar komu. Eftir miðjan aprílmánuð talar Jón um andkalda tíð og frost - jafnvel grimm eftir þann 23.
Úr Djáknaannálum: §1. Öndvegis vetur til þess viku eftir kyndilmessu [kyndilmessa er 2.febrúar], gjörði þá norðanhríðir með miklum frostum. Kom bati í miðgóu með æskilegri veðráttu fram yfir sumarmál ...
Espólín: XLIX. Kap. Um veturinn í febrúar kom veður svo mikið, at löskuðust kirkjur norðanlands, reif hey en spillti skipum; í það mund fórust tvö skip í lendingu undir Eyjafjöllum, komust menn af nema tveir. Sá vetur var góður og öll þau misseri, bæði á sjó og landi; var afli mikill, en vætusamt, og nýttist illa fiskur.
Sigurjón Páll Ísaksson gaf út árið 2017 uppskrift sína af ferðadagbókum Eggerts og Bjarna og öðrum gögnum tengdum rannsóknum þeirra. Ótrúlegt eljuverk. Afritaði hann m.a. áðurnefnda veðurbók ársins 1763. Auk þrýstimælinganna er stutt dagleg veðurlýsing. Greinilega er verið að lýsa veðri á Suðvestur- eða Vesturlandi, léttskýjað er í norðanátt, en úrkoma í suðlægum áttum og svo framvegis.
Í janúar er mest um norðaustan- og austanátt, en þó er oft þítt. Austan- og norðaustanáttir eru einnig ríkjandi í febrúar, en heldur kaldari. Norðanofviðrið þann 10. og minnst hefur verið á hér að ofan náði til athugunarmanns og segir hann um vindhraðann: Extraordinare stærk blæst, noget sneefog, tyck luft og meget skarp frost - þetta má útleggja sem: Sérlega sterkur blástur, dálítill skafrenningur, þykkt loft og hart frost. Frostið var hart í viku - en linaði nokkuð þann 17. Í mars var frost og þíða á víxl - útsynningsveðráttu bregður fyrir dag og dag. Kalt var síðari hluta aprílmánaðar og þann 30. er getið um skafrenning.
Vor með orðum annála:
Grímsstaðaannáll: Votviðri um vorið frá krossmessu til Jónsmessu, kom varla eður aldrei þurr dagur. [Þá var oftast þurrt nyrðra segir Jón.]
Íslands árbók: Voraði einnig vel og gjörði góðan grasvöxt víðast um land. (s49)
Úr Djáknaannálum: kólnaði þá aftur með fjúki og frosti, sem hélst til uppstigningardags, komu þá sunnan góðviðri. Gjörði fjúk 11. júní svo næstu 2 daga var ei nautjörð. Sá snjór var á fjöllum til sólstaða, var þó vorið gott.
Jón segir maímánuð hafa verið kaldan og heldur óhagkvæman gróðri. Þann 14. segir hann t.d. um undangengna viku: Að sönnu gott veður, en þó andkæla, og þann 28.: Þurr og óhagkvæm gróðri. Júníbyrjun var hlý, en þurr og ei mjög gróðursæl. Um 10. kólnaði og var kalt næstu daga - þann 18. segir: ei gott gróðurveður þurrka sakir og loftkulda.
Sumar með orðum annála:
Grímsstaðaannáll: Grasár hið besta á túnum, engjar í meðallagi; gerði þá einlægt þerra eftir messudagana með norðanstormum og blástri, kom aldrei vott á jörðina fram yfir höfuðdag. Heyskapur í besta máta í flestum stöðum og nýttist vel, en brann þó af sumum harðbalatúnum. Þetta sumar voru frekari vætur fyrir norðan. ...
Sauðlauksdalsannáll: Grasvöxtur hinn besti og nýting líka þetta sumar. (s461)
Höskuldsstaðaannáll: Sumarið þokusamt norður undan með súldum. ... Heyskapur í betra lagi.
Viðaukar Espihólsannáls (1): Þess eftirkomandi vor einnig mjög stirt, svo allflestir (s222) urðu fyrir gripatjóni, en í sunnanverðri sýslunni féll mikið betur. Grasvöxtur í meðallag. Heynýting slæm. (s223)
Úr Djáknaannálum: Síðan gengu vætur framan af slætti, varð þó nýting góð og grasvöxtur fínn svo heyskapur varð í betra lagi og mikill á Vestfjörðum.
Upp úr miðjum júní gerði góðan kafla í Eyjafirði og segir Jón þann 25. að vikan hafi verið hlý og gróðursæl, og 2.júlí segir hann vikuna bæði hlýja og þurra. Þá skiptir aftur um og næstu viku segir hann vota, þokusvækjusama og ei hlýja og þar á eftir kemur bæði köld og votsöm vika. Í ágúst kvartar hann áfram undan óþerri og kælum þó ekki sé illviðrasamt. Um miðjan ágúst snjóaði í fjöll.
Í veðurdagbókinni áðurnefndu er ágústmánuður sólríkur lengst af og norðlægar áttir ríkjandi. Athugunarmaður segir mjög hlýtt þann 17. Næturfrost gerði þann 9. september.
Haust með orðum annála:
Grímsstaðaannáll: Haustið var gott með þurrviðrum í meira lagi, eftir sem að gera er á haustdag. Gerði frost og hörkur á jólaföstunni og það til jóla, hvar með fylgdu jarðleysur sumstaðar. (s653)
Höskuldsstaðaannáll: Haustið gott. Fjúkhríð um allraheilagramessu; fennti sumstaðar fé. (s515)
Úr Djáknaannálum: Haust gott til 30. október., þá gjörði mikið norðanveður með krapafjúki og hleypti svo í frosti; þar eftir góð veðrátta. Kom önnur hríð 10.desember og kafhaldasamt öðru hvörju þar til sú seinasta hríð kom á annan dag jóla og varaði árið út. (s 128). Verhlutir í betra lagi syðra og í öllum verstöðum. Góður afli norðanlands. Gekk smáfiskur inn á Húnafjörð. Fiskaðist á Innnesjum syðra fram á jólaföstu, þar eftir ekki vegna ógæfta. Fiskur nýttist illa og meltist. Á Fellsreka í Sléttahlíð bar upp vænan hval um haustið og tvítugan reiðarkálf á Bessastöðum í Hrútafirði 18. nóvember §3. Þann 30. október hraktist og fennti fé á Vatnsnesi í kafaldi. Þann 10. desember hraktist þar aftur fé og fennti hesta. (s 129).
Espólín: XLIX. Kap. Harðnaði þá veðrátt með nóvember en fiskiafli þá allgóður; gekk fjársýkin syðra, en bólusóttin vestur um land. (s 73).
Yfirlit Jóns eru mjög skammstöfuð í september, en þó má sjá að minnst er á kulda og votviðri þann 10. og þann 24. virðist talað um stillt og klárt veður. Fyrsta vika október sögð kulda, frosta- og fjúkasöm, en er tíð þæg, góð og gæftasöm allt fram til síðasta yfirlits mánaðarins þann 29. Svo virðist sem nóvember haf verið óstilltur fram undir þann 20., en þá tók við hægari kafli sem stóð fram til 9.desember. Úr því var mikill snjór í Eyjafirði og talað um dæmafáa fönn undir áramótin.
Veðurdagbókin áðurnefnda segir frá norðanátt mestallan desember, sérstaklega ríkjandi frá og með þeim 8. Þá er lengst af úrkomulítið syðra, sólskin og stöðug frost.
Espólín segir frá manna- og fénaðarsóttum þetta ár (við látum stafsetningu halda sér):
Bólnasóttin gekk vestr ok um land allt, ok þá all-mannskæd, ok meir en sú er næst var fyrir, þó bólubörn væri nú færri; varadi hún náliga lengr enn hver bóla önnur, þvíat alls sleit hana ekki nær því á fjórum árum. Fjársýkin gekk ok yfir mjök sunnanlands, sló út um saudkindr á herdakambi, kvidi eda nárum, ok var ei ætt þat er drapst, fyrir því skáru margir fé sitt heilbrigdt fyrir ótta sakir; var hún í því verri enn önnur sóttarkyn, at þó ein saudkind sýndist heil ordin, var hún jafnskjótt yfirfallin aptr, tvisvar eda þrisvar á sama vetri eda voru, en á sumrum var heldr hlé á; kom hún þó aptr jafnskjótt sem á haustadi eda vetradi, ok gekk svo hvert ár at ödru; vard eitt ár á milli á sumum bæum, svo at peníngr sýktist ei skadliga, en annat ár var hún þess þýngri; hafdi hún ýmisligt atferli á saudfé, kom út á sumum med þurrum kláda, vosum ok skurfum, þurfti þá at klippa ullina; en á ödru kom bleitusuddi um herdakambinn, ok svo hrygg ok sídur, í gegnum ullina, til þess er ullarkápan losnadi af hörundinu í einu, ok var eptir kvikan vot, var sú miklu verri ok hættuligri en hin; á sumum kom mest í fætrna med bjúg ok bólgu, svo klaufir leysti af, var þat verst vidreignar, ok varla ómaksverdt at draga þær kindr vid líf, er med þeim hætti sýktust, þó etid gæti. Þá voru enn nokkrar sem bólgu fengu í höfudit ok gróf úr augum, ok féllu af horn, bólgnudu varir ok túnga, ok þurfti þeim ei líf at ætla; má af slíku sjá hver bágindi ok skort á ull ok ödru bjargrædi menn á þá vid at vera. (s 71-72).
Eggert Ólafsson ritar úr Sauðlauksdal til Bjarna Pálssonar [Bréfin birtust í Andvara 1875]
Sauðlauksdal 14-9 1763: Árferðið er hér á landi það allra besta til lands og sjóar, þó nokkuð mismuni í sumum stöðum. Fiskiafli góður víðast hvar, og sumstaðar í mesta lagi, svo sem sunnanlands hefir drjúgum hver kotungur á Innesjum fengið (s186) lestar hlut, og sumir hafa fengið fjórar lestir. Hér fyrir Vesturlandi meiri þorska-fengur, en áður hefir verið í mörg ár, og steinbíts-afli rétt góður. Veturinn var hinn allra-besti, með fárra vikna frosti og snjóvi framanaf, en þar eftir, allt fram á jól, sífeldar þíður og þeyvindar, já stundum svo mikill lofthiti (hvað thermometrum sýndi), sem þá hlýtt er í mollum á sumardag [hér er verið að lýsa hausti 1762 - 1763 er hér að neðan].
Á liðnum jólum kom snjór nokkur og frerar, þó allt í meðallagi, og sjaldnast fullkomin vetrarfrost að kalla. Vorið og sumarið hefir gott verið; sumarið samt þurrkasamt síðan á leið, og þess vegna nýting hin allrabesta. Allir íslendingar hafa nú full hús matar. Guð gefi þeim vel með að fara! ... Æ tímgast hér maturtir og ýms aldini betur og betur. Mustarðslundur, 9 fóta hár kringum nýbyggt lysthús, með borði, bekkjum og ilmandi blómi, er hér á landi nýbyggð, sem jafnast kann við ditas sumra þar ytra.
Sauðlauksdal 1. desember 1763
Árferðið má það besta kalla bæði til lands og sjóar, og þó að haustið hafi gengið nokkuð svo óstöðug veðurátt, þá samt jafnan stillt og mild, og nú um þessa tíma hreinviðri, að segja frostlaust og auð jörð. Ætíð er hér heldur en ekki að aukast kálátið með bændum. Sýslumaður hefur nú í sínum nýupptekna jarðepla garði fengið yfir máta stórar Tar-tuplur [kartöflur], á rek við þær sem ég fékk hjá Prófasti síra Guðlaugi í fyrra haust; annars eru þær stóru fáar, og hinar færri og smærri við þann mun. Jafnari og betri eplatekja var hér heima í haust en nokkurn tíma fyrri, og kálfarnir [trúlega verið að tala um grænkál] nú jafn-stærri. Kál vex her allstaðar sæmilega, en næpur mjög misjafnt og vilja títt artast; en nú hefur mágur minn í haust fengið gott íslenskt næpna frjó, og mun það ei svo fara sem hitt framandi. Salviur hefir ég fengið til thes sem svari Vs pd. og eiga nú rætur að standa til ævintýris veturinn af. Mustarðurinn vex hér langhæstur af öllum kálgresum, sem skriptin segir: sá sem girti lysthúsið, og bróðir minn Jón mun til muna, varð 10 feta hár að íslensku máli og fræ fékkst af honum nokkuð. Pílarnir ganga meir og meir til þurrðar. Sanddrifið og hin auða jörð og sterkir stormar hygg og þeirra veiku lífi hafi að fullu riðið; samt, þá lifðu fjórir í sumar, hvort sem þeir-þola veturinn af. Blómkál hefur nú fyrst í sumar vaxið, svo að ávöxt gæfi til muna. það fræ er auðsjáanlega skemmt, blandað við meira hluta af ordinairu hvítkáls fræi. Blóm-hnúðurinn, sem vóx úr því íslenska blómkáli, varð svo stór sem gildur karlmannshnefi. Hvað komst það aldin langt í Reykjavík? því Madma Dahl sýndi mér af því í fyrra haust, en var smátt, og ég hygg væri blómkerfið sundur tekið; mun það vaxið hafa annarstaðar?
Yfirmáta mikill sjóargangur kom hér sunnudaginn næstan eftir allraheilagra messu [6.nóvember], var hér þá nokkuð hvass útsynningur, frostlaust og úrkomulaust með skýjarofum og sólskini þess á millum, en frysti lítið um kvöldið; víða tók skip út hér um pláss, og bændur tveir við Arnarfjörð misstu fé sitt allt. (s141)
Appendix: Það var á sunnudagsmorguninn, sem mikla flæðurin var og missti sýslumaður okkar þá sexæring vænan, og eitt fimm-manna-far. Daginn fyrir var enn meira stórviðri sunnan, lítið við útsuður og lamvirðus (I = lamviðurs) regn, en á Thermometro (hitamæli) nokkuð hlýrra. Barometrum (loftvogin) sökk þann dag um heilan þumlung [35 hPa], en steig aftur, þ.d. minna á sunnudaginn. Þetta ritar ég, ef þú vilt bera saman við veráttina þar suður frá, hellst ef orðið hefur af þessari flæði þar, hvort sem það hefur verið í sama mund sem hér um pláss.
Hér lýkur að sinni yfirferð hungurdiska um veður- og tíðarfar ársins 1763. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt meginhluta annálanna og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta Árbóka Espólíns.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 28
- Sl. sólarhring: 132
- Sl. viku: 2475
- Frá upphafi: 2434585
Annað
- Innlit í dag: 25
- Innlit sl. viku: 2199
- Gestir í dag: 25
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.