15.8.2018 | 22:01
Af árinu 1924
Árið 1924 fylgdi tísku áranna á undan, hlýr vetur, kalt vor, kalt sumar. Vetri ætlaði aldrei að ljúka um landið norðaustanvert, það snjóaði talsvert þar seint í maí og aftur var tekið til við hríðarveður þegar september var stutt genginn. Sunnanlands og vestan skein sólin linnulítið um vorið og fram eftir sumri.
Fjórir mánuðir ársins voru hlýir á landsvísu, janúar, febrúar, nóvember og desember, en sex mánuðir kaldir mars til júní og síðan ágúst og september. Sá síðastnefndi kaldastur að tiltölu. Hiti í júlí og október var nærri langtímameðaltali. Það var ekki fyrr en 1966 að aftur birtist ár með sex köldum mánuðum hér á landi.
Hæsti hiti ársins mældist á Grænavatni í Mývatnssveit þann 28.júlí, 23,7 stig. Við trúum ekki tölunni 29,9 sem birtist á Eyrarbakka þann 25.júlí og ekki heldur 24,1 stigi sem mældust á Eyrarbakka 9.júní. Síðari talan gæti þó hlotið einhverja viðurkenningu síðar.
Lægsti hiti ársins mældist á Núpi í Dýrafirði 1.mars, -23,1 stig. Líklega er þessi mæling ekki rétt heldur, við skulum samt ekki afskrifa hana alveg. Hiti á þurra mælinum þá um morguninn var -18,3 stig. Þessa nótt mældist frostið á Suðureyri -15,2 stig, ekki algeng tala þar um slóðir. Næstmesta frost ársins mældist á Grænavatni þann 10.mars -20,5 stig.
Myndin sýnir hámarks- og lágmarkshita hvers dags í Reykjavík á árinu 1924. Fyrstu tvo mánuði ársins fór frost lítið niður fyrir -5 stig og fór upp fyrir frostmark flesta daga. Mesti frost ársins mældist í Reykjavík á hlaupársdaginn, -13,6 stig. Þetta er kaldasti hlaupársdagaur sem vitað er um í Reykjavík, og líklega á landinu öllu. Eftir þetta gekk á með kuldaköstum. Jú, hiti fór fáeina daga yfir 15 stig um sumarið, en harla lítið var um 10 stiga hita eftir að vika var liðin af september. En ekki voru frost þó mikil í Reykjavík um haustið.
Ritstjóri hungurdiska finnur 14 kalda daga á árinu í Reykjavík, að tiltölu var maílokakastið einna kaldast, frost var þá margar nætur - en sól skein glatt flesta daga. Árið á sérlega marga óvenjulega sólskinsdaga í Reykjavík, ritstjórinn telur 46 í sérflokki - þar af 20 sem enn eiga sólskinsdægurmet sem ekki hafa verið slegin. Apríl, maí, júní og september voru sólríkustu mánuðirnir að tiltölu.
Ritstjórinn telur sólarhringsúrkomu óvenjumikla fari hún yfir 6 prósent ársmeðalúrkomunnar. Tveir slíkir dagar komu á Hvanneyri, 14.október og 14.nóvember, og einn á Teigarhorni, 17.nóvember.
Lægsti loftþrýstingur ársins mældist í Grindavík að kvöldi 26.desember, 933,7 hPa. Hæstur mældist hann í Reykjavík, 22.apríl, 1036,9 hPa. Stormdagar voru allmargir, átta lenda á lista ritstjóra hungurdiska, 28. og 30.janúar (suðvestanveður), 3. og 4.febrúar (norðvestan- og vestanveður), 28.febrúar (norðaustanveður), 26.desember (suðaustanveður) og 29. og 30.desember (norðaustanveður).
Látum nú blaðafréttir og pistla veðurathugunarmanna segja okkur helstu tíðindi ársins. Stafsetning hefur víðast verið færð til nútímahorfs - og á stöku stað hafa textar verið styttir lítillega. Bókstafirnir FB eiga við svonefnda fréttastofu blaðamanna. Ritstjóra hungurdiska er ekki alveg ljóst hvað það fyrirtæki gerði, en það sendi pistla til blaðanna sem tóku þá oftast orðrétt upp. Því var oft nákvæmlega sama orðalag á veðurtengdum fréttum í öllum blöðunum - Morgunblaðið oftast hvað ítarlegast þó.
Vísir segir almennt frá árinu í pistli 2.janúar 1925.
Árið 1924 hefir orðið eitthvert hið mesta hagsældarár landi voru. Veðrátta var þó heldur ójöfn. Vetur góður víða um land ,en þó mikil harðindi i sumum sveitum nyrðra og eystra. Vor kalt og óvarlegt um grasvöxt allt fram á mitt sumar. En úr því varð ágæt veðrátta einkum sunnanlands og heyskapur góður. Norðanlands og austan var sumar mjög kalt, þokur og rigningar lengstum. Náðust ekki hey sums staðar fyrr en eftir fjallgöngur. Hirtu ýmsir í Þingeyjarsýslu 15.október.Varð heyfengur þó til nokkurrar hlítar um síðir. Veðrátta var síðan afbragðsgóð til jóla um land alt. Sjávarafli varð meiri en áður munu dæmi til vera. Var bátfiski en besta um alt land, en þó bar frá um afla þann er togarar fengu. Komu þeim best að notum ystu djúpmið fyrir Vestfjörðum, þar sem löngum hafa legið hafísar, en nú var íslaust. Veðrátta var hin hagfelldasta til fiskverkunar sunnanlands og vestan. Síldveiði brást flestum. Verð var mjög hátt.
Við látum hér líka fylgja merkilegt bréf sem Veðurstofunni barst frá Benedikt Jónssyni frá Auðnum og dagsett er 2.september 1924. Benedikt var fæddur 1846 og hafði þegar hér var komið gefið veðri og tíðarfari gaum í nærri 70 ár. Við tökum mark á slíkum manni.
Húsavík 2.september 1924. ... Annars er vert að geta þess, að hér nyrðra, að minnsta kosti í Þingeyjarsýslu, hefur nú í tvö ár verið alveg óvanalegt veðráttufar svo að enginn man slíkt. Eiginlega hvorki vetrar né sumur á norðlenskan hátt, þ.e. mildir, votir og áfrerasamir vetrar og köld og vot og sólarlaus sumur, enda austanátt ríkjandi lengst um. Hér nyrðra eru ýms náttúrufyrirbrigði alveg óvanaleg hin síðustu misseri. Sjór er óvanalega hlýr, og golfstraumskvíslin meiri og dýpri en menn vita dæmi til og pólísinn lengra frá en nútímamenn muna áður. Fiskagöngur hafa líka gerbreyst. Þorskur er allan vetur norðan við land, og er farinn að hrygna hér sem engin hér man áður.
Þorskveiði byrjaði hér í sumar mánuði fyrr en venja var, en síldin liggur svo djúpt í hinni djúpu golfstraumskvísl að hún næst ekki í reknet og enn síður herpinætur, enda lítil freisting fyrir hana að leita yfirborðsins sem sólskin aldrei hefir vermt, svo að líklega er hlýrra niður [í] golfstraumskvíslinni en á yfirborði.
Þrátt fyrir mildi tveggja síðastliðinna vetra hafa afleiðingar þeirra verið afar illar í landbúnaðarsveitum Þingeyjarsýslu. Allan síðastliðinn vetur voru rigningar við sjóinn, og jörð ýmist auð eða mjög snjólétt og sauðfé að kalla ekkert gefið, því fjörubeit var ágæt og notaðist vel. En 500 til 1000 fetum yfir sjó varð öll úrkoman að krapsnjó og glerharðri áfreðaskorpu sem olli algerðu hagleysi, svo að í hærri sveitum Þingeyjarsýslu var algerð hagleysa frá því í 1.viku nóvember og fram í maílok og jafnvel fram í júní. Og í júní rak niður fönn svo, að fé fennti í byggð og vorlömb hríðdrápust. Svo var vorið svo kalt og fúlt og óhagstætt að heyskapur varð ekki byrjaður fyrri en almennt en um 20.júlí og ekki teljandi hirt af heyjum fyrri en eftir höfuðdag.
Hér skiptir því algerlega í tvö horn: Við sjávarsíðuna má heita góðæri og uppgripaafli en uppi í dölum gengur hallæri næst. Þetta er svo einkennilegt ástand að vert er að gefa því gaum, en eðlileg afleiðing af veðráttufarinu er það. Allan þennan tveggja ára tíma hefir Austanátt ríkt hér svo að örsjaldan hefir blásið af öðrum áttum en frá norðnorðaustri til suðsuðausturs og örsjaldan mikil hvassviðri. ...
Með virðingu, Benedikt Jónsson. [Bréfasafn Veðurstofunnar: 1008]
Janúar: Umhleypingasamt. Hiti yfir meðallagi.
Jón Þorsteinsson á Möðruvöllum segir í athugasemd í skýrslu á nýársdagsmorgni: Ofsalegt VSV-stórviðri hálfa nóttina.
Vísir segir í frétt þann 2.:
Álfadansinn fórst fyrir á gamlárskveld, sökum stórviðris og rigningar. Álfadansinn verður haldinn á þrettánda, ef veður leyfir, ella næsta góðviðrisdag þar á eftir.
Hér má sjá þrýstirit frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum 10. og 11.janúar. Framan af degi gekk landsynningsstormur yfir landið suðvestanvert en lægði síðan. Náði vindur 10 vindstigum í Reykjavík um hádegið. Upp úr kl.18 tók loftvog að falla mjög ört og um kl.19 skall á fárviðri á Stórhöfða, en stóð ekki nema skamma stund. Við vitum ekki hvers konar veðurkerfi var hér um að ræða, en þess má þó sjá stað á þrýstiritum bæði í Grindavík og Reykjavík, en mun minna. Líklega hefur smár lægðarsveipur farið til vestnorðvesturs rétt við suðvesturströndina.
Dagur segir frá tíð þann 31.:
Tíðarfarið hefir verið heldur vanstillt það sem af er vetrinum og nokkuð úrfellasamt, en frost mjög væg. Jarðbönn hafa verið víða um Norður- og Austursýslur. Undanfarna daga hafa verið hlákur nokkrar öðru hvoru, en þess á milli útsynningsrosar hvassir með úrfellishryðjum.
Morgunblaðið segir símafréttir þann 24.:
Úr Stykkishólmi var símað 22.þ.m að afbragðs tíð hefði verið við Breiðafjörð sunnanverðan það sem af væri vetrinum. Hefði sauðfénaður og hross óvíða komið í hús og mjög lítið verið gefið. Útræði var sagt að væri þar ekkert, enda ekki gefið á sjó í langan tíma.
Úr Stykkishólmi var símað 23. jan. FB Asahláka hefir verið hér í dag og í gær, og er jörð orðin auð að kalla. Ofsarok hér í gær en ekki hafa neinar skemmdir orðið í því, svo kunnugt sé. Á sunnudaginn reru bátar hér og öfluðu dável einn þeirra fékk 500 af fiski. Mjög sjaldan hefir gefið hér undanfarið.
Frá Vík í Mýrdal var símað í gær: Óvenjumiklir vatnavextir eru í öllum ám hér nærlendis, og vatnsflóð hafa gert skemmdir á nokkrum bæjum í Mýrdal.
Sérlega illviðrasamt varð síðasta þriðjung janúarmánaðar og varð margskonar tjón. Morgunblaðið segir frá tjóni þessa daga:
[25.] Ofviðrið, sem geisaði hér yfir á aðfaranótt fimmtudagsins [24.] var svo ákaft að reykháfar fuku af húsum á nokkrum stöðum og járn rifnaði af þökum og girðingar brotnuðu. Annarsstaðar hefir ekki frést um neinar skemmdir, og fréttastofan hafði ekki nein slík skeyti fengið. [Veðurstofan segir að hugsanlega hafi vindhraði í Reykjavík náð 11 vindstigum um nóttina].
[26.] Bessastöðum 25.jan. FB Í ofsaveðrinu í fyrrinótt fauk hlaða með áföstu hesthúsi, 16 álna löng. Voru undirstöðuvegirnir steyptir en á þeim veggir úr járni og timbri, á sjöttu alin á hæð. Járnveggirnir voru ekki festir niður í steypuveggina og hefir hlaðan fokið rúmlega húslengdina, fallið síðan niður og brotnað í spón, nema hlöðuþakið, sem er nokkurn veginn heilt. Hlaðan hefir tekist hátt á loft því heyið í henni, sem tók upp á móts við veggjahæðina er að sjá ósnortið að henni og hefir lítið af því fokið. Hestur var í hesthúsinu og var hundinn á bás. Hefir kengurinn, sem hálsbandið var fest í, dregist út er húsið fauk, og stóð hesturinn eftir óskaddaður að því er séð verður. Aftur á móti drapst hrútur, sem var í húsinu.
Frá á Vík í Mýrdal er símað til FB 26. janúar: Í ofviðrinu hér á föstudagsnótt [föstudagur 25.] gerðust ákafir vextir í ám, þar á meðal Víkurá. Skemmdust tvær brýr á henni til mikilla muna. En hvergi hefir frést um, að hús hafi fokið hér nærlendis.
Myndin sýnir tvö þrýstirit sem ná til 28.janúar til 1.febrúar. Þessa daga fóru tvær mjög djúpar lægðir hjá og ollu slæmu veðri. Sú fyrri fór til norðurs skammt fyrir vestan land, dýpkaði þar mjög ört og olli fárviðri af suðvestri og vestri við Breiðafjörð og á Vestfjörðum að kvöldi 28. Síðari lægðin fór yfir landið að kvöldi og aðfaranótt þess 30. Vestan hennar var hægur vindur - náði reyndar aldrei norðanátt á Vestfjörðum og logn var um miðbik Norðurlands, en austanlands og suðaustan gerði fárviðri af suðvestri og vestri í kjölfar lægðarinnar. Syrpa þessi er í flokki hinna verri.
Enn verra veður gerði þann 28. og segir athugunarmaður á Suðureyri þann dag: Fellibylur 7:40 til 9:50 pm.
Morgunblaðið segir þann 30. fréttir úr Stykkishólmi:
Stykkishólmi 29.jan. FB Í gær um kl.2 síðdegis gerðist hér ofsaveður, sem stóð til kl.9 í gærkvöldi. Var það miklu meira en veðrið í síðustu viku. Í veðrinu fauk hlaða, sem Guðmundur læknir átti og fór hún í spón, en hey fauk ekki til muna, því netum varð komið á það. Ýmislegt lauslegt fauk einnig og girðingar löskuðust víða. Vélbáturinn Barði sem lagt hafði á stað fyrir nokkrum dögum til Reykjavíkur en snúið aftur, var farinn af stað héðan aftur í gærmorgun nokkru fyrir veðrið. Vita menn ekki hvernig honum hefir reitt af. Tveir bátar reru einnig héðan til fiskjar í gærmorgun en hvorugur er kominn aftur. Vona menn að þeir hafi komist til Bjarnareyja og legið þar af sér veðrið. Á Sandi reru margir bátar í gærmorgun, en gátu forðað sér í höfn áður en versta óveðrið skall á. Um skemmdir af óveðrinu í Sandi eða Ólafsvík hefir ekki frést, því síminn út á nesið hefir slitnað í gær og er ekki kominn í lag ennþá.
Og þann 31. segir blaðið:
Ísafirði 30.jan. FB Mesta stórviðri var hér um slóðir í fyrrakvöld og fyrrinótt. Hafa skemmdir orðið á bátum og húsum víðsvegar um Vestfirði. Þrír mótorbátar sukku, sinn á hverjum staðnum, Álftafirði, Ísafirði og Súgandafirði. Langmestar hafa skemmdirnar orðið í Súgandafirði. Þar fauk íbúðarhús með öllum innanstokksmunum í sjóinn, en fólk bjargaðist með naumindum niður í kjallarann. Samkomuhús Súgfirðinga fauk af grunni, en hefir eigi brotnað nema lítið. Fjós og heyhlaða fauk þar einnig, en gripir og tveir menn, sem þar voru inni, sluppu við meiðsli. Skaðinn, sem leitt hefir af stórviðrinu í Súgandafirði, er talinn nema 30-40 þúsund krónum.
Frekari fréttir af tjóni í þessu veðri bárust næstu daga. Morgunblaðið segir frá þann 1.febrúar:
Símað er til FB Í Innri-Fagradal í Dölum fauk tvílyft íbúðarhús af grunni í óveðrinu síðasta (sennilega á þriðjudagsnótt) [líklega var það að kvöldi mánudagsins 28.] Fólkið bjargaðist með naumindum óskaddað eða lítið skaddað úr húsinu. Á Eskifirði hafa orðið skaðar bæði á húsum og bryggjum af völdum óveðursins. [Það mun væntanlega hafa verið seinna veðrið, aðfaranótt þess 30.]
Og þann 2.febrúar eru enn fréttir af tjóni:
Stykkishólmi, 1.febr. FB: Hlutust slys og tjón af ofsarokinu 28.f.m. og frést hefir um hingað þessi: Á Skallabúðum í Eyrarsveit hrundi íbúðarhús úr steini. 17 ára gömul stúlka varð undir reykháfnum og beið bana af. Nokkur börn meiddust, en þó ekki hættulega. Á Bryggju í Eyrarsveit fauk fjárhús og hesthús út á sjó. Í Gröf i sömu sveit fauk hlaða að miklu leyti mikið af heyi tapaðist. Í Fagradal (Innri-Fagradal) á Skarðsströnd fauk hálft íbúðarhúsið af grunni. Fólkið gat flúið út um glugga því dyrnar höfðu skekkst svo mjög að þeim varð ekki lokið upp. Á sama bæ fauk skúr og hjallur og gereyðilögðust. Fólkið frá Fagradal hefir komið sér fyrir á nágrannabæjunum. Enn hefir ekkert frést af mótorbátnum Blika.
Þann 5.febrúar er vélbáturinn Bliki talinn af (Morgunblaðið) og sagt að 7 manna áhöfn hafi farist.
Þann 12.febrúar birtir Morgunblaðið frekari fréttir af þessu illskeytta veðri:
FB: Sífellt eru að berast fregnir utan af landi um skaða af ofviðrinu 23.-29. fyrra mánaðar. Á Bersastöðum í Dalasýslu, hjá Stefáni skáldi frá Hvítadal, fauk gaflinn af íbúðarhúsinu og ýmsar skemmdir urðu aðrar. Í Dufansdal í Arnarfirði hrakti 24 kindur í sjóinn, frá Eiríki bónda þar, og í Trostansfirði fauk heilt hey, sem stóð á bersvæði. Við Dýrafjörð hafa orðið afarmiklar skemmdir af ofviðrinu 28. f.m. Alls fuku þar 9 hlöður, og nemur heyskaðinn um 400 hestum. 14 skúrar og hjallar fuku, flestir á Þingeyri; þrír opnir bátar eyðilögðust og einn vélbátur. Þá fauk þak af íbúðarhúsi á Þingeyri. Mestan skaða allra mun Ólafur Ólafsson kennari hafa beðið; hann missti bæði skúr, hlöðu og hjall, og missti mikið af munum. Kirkjan á Sæbóli í Dýrafirði fauk í sama veðrinu. Í Önundarfirði fuku tvær heyhlöður hjá Hólmgeir Jenssyni dýralækni, og auk þess fóðurbirgðahlaða sveitarinnar.
Lögrétta bætir enn við tjónlistann í frétt þann 19.febrúar:
Kiðjabergi, 12.febrúar FB Tíðarfar hefir verið gott í vetur í ofanverðri Árnessýslu, nema helst í Biskupstungum; þar hafa lengi verið jarðbönn vegna snjóa. Í rokinu 28.janúar fuku hlöður á þremur bæjum í Grímsnesi, og kirkjan í Klausturhólum skemmdist nokkuð.
Hænir segir fréttir af illviðri eystra þann 31.janúar. Þetta veður gerði aðfaranótt þess 30. en veðrið vestra var verst að kvöldi 28.:
Afspyrnurok var hér um alt Austurland í fyrrinótt og olli skemmdum á sjó og landi. Þak fauk af íbúðarhúsi á Hánefsstöðum, hér í Seyðisfirði og nýtt hús sem var í smíðum á
Þórarinsstaðaeyrunum fauk allt af grunni og týndust viðirnir. Fiskiskúrar fuku og fleiri skemmdir urðu á húsum. Mótorskúta og mótorbátur slitnuðu upp frá legufærum og ráku á land og skemmdist báturinn mikið. Róðrarbát tók upp og brotnaði í spón. Þak fauk af húsi í Ekkjufellsseli í Fellum. Esjan" lamaði bryggju á Eskifirði. En einna harðast ætlaði að verða úti vélaskútan Aldan", sem var á leið hingað frá Skálum á Langanesi. Í byrjun ofsaroksins hafði hún komist inn á Brúnavík og lagst við 2 akkeri. En um miðja nótt magnaðist ofviðrið svo, að báðar akkerisfestarnar slitnuðu, og hún varð að halda til hafs, í úfinn sjó og svarta myrkur. Skipsbátinn tók út og allt það er lauslegt var á þilfari. Reyndi þar á hina þekktu þrautseigju og sjómennskudáð skipstjórans J. Kristjansens. En er veðrinu slotaði um miðjan dag í gær, var hægt að fara að sigla til lands aftur, og komst hún hingað inn um kl. 8 í gærkvöld. Með henni var sem farþegi Páll A. Pálsson, útgerðarstjóri. Var þetta stórviðri eitt með þeim gríðarlegustu sem menn hér muna. Auk þessa urðu skemmdir bæði á rafljósa og símaleiðslum.
Vísir segir þann 31. frá tjóni í Mýrdal í veðrinu aðfaranótt þ.30.:
Vík 30. jan. FB Í útsunnanveðrinu í nótt fuku að mestu tvær heyhlöður hér i Mýrdalnum. Skaði á heyi varð litill, Mjög viða rauf þök á húsum. Hér hefir verið afar umhleypingasamt, en snjólaust að kalla.
Morgunblaðið birtir þann 5. febrúar frétt dagsetta í Vík þann 4. Trúlega er hér um síðara veðrið að ræða:
Í rokinu í síðustu viku fauk heyhlaða á Söndum í Meðallandi og allmikið af heyi. Í sama veðrinu fauk önnur hlaða í Álftaverinu og hafa allmiklar skemmdir orðið þar í sveit.
Hænir rekur þann 2.febrúar frekari fréttir af ofviðrinu eystra þann 29. til 30.:
Þakið af íbúðarhúsi Vilhjálms Árnasonar á Hánefsstöðum fauk allt með sperrum niður að efsta lofti. Nálega helmingur af járni og viðum kemur að notum aftur. Skemmdir á Eskifirði urðu miklar í ofsaveðrinu um daginn. Járn fauk af húsum, þök af hlöðum, bryggjur brotnuðu og nálægt tuttugu smábátar brotnuðu í spón. Er tjónið talið 30-40 þúsund krónur.
Stórkostlegir skaðar í Austur-Skaftafellssýslu í ofsarokinu 29.-30. f.m. Yfir 30 hús fuku í Nesjum og Lóni. Í Lóni: 1 í Hraunkoti, 5 í Bæ, 2 í Byggðarholti, 1 í Hlíð, 3 í Krossalandi, 2 í Volaseli, 3 í Syðra-Firði og þak af íbúðarhúsinu, og í Efra-Firði fuku öll hús, sem á jörðinni voru, nema 1 hesthús. Í Nesjum: 3 í Bjarnanesi, 5 í Hólum, stór heyhlaða í Árnanesi, og þak af skúr á Höfn. Og á Horni ráku 7 hestar í sjóinn. Höfðu þeir verið suður á fjörunum, þar sem ofviðrið hefir orðið aö sandbyl. Einasta afdrep, sem þeir hafa getað flúið í, hefir verið framan undir fjörukambinum niður við brimgarðinn, sem ráðið hefir að lokum hinum hryllilega dauðdaga þeirra.
Vísir segir þann 9. enn frá tjóni í veðrinu eystra:
Á Reyðarfirði varð allmikið, tjón í ofviðrinu um daginn. Hús, sem Þorgeir Klausen á Eskifirði átti á Hrúteyrinni, fauk og nokkuð af tunnum og veiðarfærum týndust og skemmdust. Í Teigagerði fuku þök af 2 húsum, og á Sómastaðagerði og Hrauni, þök af hlöðum. Fjártjónið sem Austurland hefir beðið af þessu ofstopaveðri, skiptir mörgum tugum þúsunda. Á Djúpavogi fauk í rokinu mikla þak af fjárhúsi.
Febrúar: Nokkuð stormasamt, en snjólétt og ekki óhagstæð tíð til landsins. Hiti yfir meðallagi.
Að sögn Lögréttu þann 11. strandaði þýskur togari í Grindavík þann 7.
Vísir kvartar undan hálku þann 21.: Hálka hefir verið á götunum tvo undanfarna daga og þyrfti að bera sand á þær hið bráðasta.
Morgunblaðið segir frá veðri:
[20.] Í Ólafsvík og á Sandi er góður afli hvenær sem gefur. Á föstudaginn [15.] gerði þar ofsarok, en bátarnir komust þó allir til lands nema einn. Bjargaði botnvörpungur honum.
[26.] Vík, 25. febr. FB Í nálægum sveitum hefir þessi vetur verið ágætur, það sem af er; óvenjulítið gefið og besta von um góða afkomu. Hér hefir aðeins einusinni gefið á sjó, en lengi undanfarið hafa verið sífeldar ógæftir.
[28.] Frost allmikið hefir verið á Norðurlandi undanfarna daga, var sagt í símtali við Akureyri í gær. Aflalaust er þar nú með öllu.
Í lok mánaðarins gerði allmikið norðanáhlaup, kom þá lítilsháttar hafís upp að Vestfjörðum. Hann sást frá veðurathugunarstöðvum. Hlaupársdagurinn 29.febrúar er sá kaldasti sem vitað er um frá upphafi mælinga.
Núpur 29.febrúar. Hafís sést með berum augum. Sást líka frá Suðureyri. Sást þar líka fyrstu 3 daga marsmánaðar.
Mars: Hægviðrasöm og hagstæð tíð lengst af. Lengst af snjólétt. Hiti í tæpu meðallagi.
Benedikt í Staðarseli segir um marsveðráttuna: Tíð hefur verið óstöðug þennan mánuð og stormasöm, en snjór lítill, þótt snjóað hafi flesta sólarhringa. Seinni hluta mánaðarins hefur oft verið nokkuð autt með sjó fram þó alhvítt hafi verið þegar dregur til lands. Hagi hefur verið ágætur. ... Á jörðum sem liggja nokkuð til lands hefur víða verið meiri og minni jarðbönn síðan á jólaföstu. Sífelldir norðan hríðarbakkar hafa verið þennan mánuð og oft dimmt og hríðarfullt að sjá til hafs. Sjókröp.
Morgunblaðið 4.mars:
Seyðisfirði, 2.mars FB Afar mikið norðanveður hér á Austfjörðum föstudagsnóttina og laugardag [1.mars]. Vélbátur einn, sem Stefán Jakobsson átti, sökk í innsiglingunni til Fáskrúðsfjarðar, vegna þess hve mikið hafði hlaðið á hann af klaka. Menn björguðust. FB Símalínan til Seyðisfjarðar er verið hefir biluð undanfarna daga er nú komin í lag.
Enn segir Morgunblaðið frá ísingarvandræðum þann 6. í frétt frá Seyðisfirði þann 4. FB:
Vélskipið Rán" (hét áður Leó") héðan lenti í sjóhrakningum í óveðrinu fyrir helgina. Hlóðst á það klaki og hamlaði ferð þess. Á föstudagsmorguninn [29.] náði skipið Hornafjarðarós; var þá hörkuútfall og mikið rek af íshrafli út úr ósnum, svo að skipið gat ekki komist inn. Rak það upp að Hvanney og brotnaði þar og sökk, en menn allir björguðust. Vélskipið Óðinn" fór á veiðar á miðvikudaginn var og hefir síðan ekkert til þess spurst.
Og frekari fréttir voru í blaðinu daginn eftir (þann 7.):
Seyðisfirði, 5. mars. FB Vélbáturinn Rán" strandaði í hríðarbyl Hafði legið í Hvalsneskrók, en ísaðist svo mjög, að skipverjar þorðu ekki að halda kyrru fyrir lengur. Urðu þeir að höggva á akkerisfestarnar, því vindan var öll klökuð. Í nótt [væntanlega 5. mars] slitnuðu tveir bátar upp á legunni á Fáskrúðsfirði. Annar þeirra Garðar", hefir fundist, og er lítið skemmdur, en hinn, Skrúður er týndur. Friðrik Steinsson frá Eskifirði var á leið frá Noregi áleiðis hingað til lands á nýkeyptu gufuskipi, er veðrið skall á. Var hann kominn móts við Færeyjar, en tókst ekki finna þær. Eftir mikla hrakninga komst hann aftur til Noregs. Hafði hann misst áttavitann, og skipið var mjög illa leikið; allt brotið ofan þi1ja og mjög ísað.
Vestmannaeyjum 6. mars FB Austanhríð og aftakaveður var hér í gærkvöldi. Báturinn Björg" er talinn af. Í skeyti sem sent var nokkru síðar segir, að skipshöfnin á vélbátnum Björg hafi komist í enskan togara. Báturinn sökk í rúmsjó.
Þær gleðifréttir birtust svo í Morgunblaðinu þann 9. að Óðinn hafi komið til Djúpavogs þann 7., heilu og höldnu eftir að hafa hrakist til Færeyja í ofviðrinu.
Lögrétta segir þann 7. frá hrakningum:
Akureyri, 3. mars. FB. Vestanpósturinn héðan, Guðmundur Ólafsson, hefir á síðustu ferð sinni héðan vestur lent í miklum hrakningum. Fór hann frá Víðimýri um hádegisbilið á fimmtudaginn [28.febrúar], en seinnipart dagsins skall á blindhríð. Var hann þá staddur á Stóra-Vatnsskarði. Villtist hann suður Svartárdal og komst að Bollastöðum, sem er með fremstu bæjum í dalnum, seinni hluta föstudagsins, kalinn á andliti, höndum og fótum. Einn hestinn hafði hann frá sér í hríðinni, en hann sneri aftur og skilaði sér að Víðimýri. Guðmundur komst með hjálp að Blönduósi og liggur þar á sjúkrahúsinu. Pósturinn er allur vís og óskemmdur, og var sendur áfram frá Blönduósi vestur að Stað í morgun.
Þann 12.birti Morgunblaðið frétt frá Borðeyri:
Borðeyri 11.mars. FB Esjan kom hingað í kvöld. Var svo mikill lagnaðarís á legunni, að skipið varð að brjóta sig áfram á að giska 150 metra, og lagðist loks að svo sterkri skör, að farþegar gátu gengið frá borði.
Tíminn segir þann 15. frá skipsköðum:
Frönsk skúta strandaði í Öræfum nýlega. Einn skipverja dó af meiðslum en hinir björguðust. Um miðja þessa viku strandaði við Stafnestanga kútter Sigríður", eign dánarbús Th. Thorsteinssonar. Menn björguðust allir.
Vísir segir frá harðindum á Jökuldalsheiði þann 22.:
Í sveitum upp við hálendið hafa allmikil harðindi verið í vetur og orðið að gefa inni langan tíma. Í Jökuldalsheiði eru nær því allir orðnir heylausir fyrir sauðfénað. Af flestum bæjum er búið að koma fénu fyrir á haga og hey niðri í Jökuldal, og sagt að þeir sem eftir eru muni reka fénað þangað nú upp úr helginni. Um 6 bæi er að ræða í Heiðinni sem svo er ástatt fyrir. Heyfengur þar lítill í sumar.
Þann 27. segir Morgunblaðið frá misjöfnu vetrarfari:
Vetrarfar segir kunnugur maður að verið hafi mjög misjafnt í vetur, nálega allstaðar á landinu. Veðuráttan oftast nær góð, nema veðrasamt framan af þorranum, fyrir eða fyrir og um mánaðamótin janúar og febrúar, en gjaffellt þá og víða, og sumstaðar hart, sem kallað er, svo sem á Norðausturlandi, einkum í Þingeyjarsýslum, og þó sérstaklega í sumum sveitum Vesturlands. Sem dæmi um það, hvað veturinn hefir verið misjafn getur þessi maður um það, að t.d. í Norðurárdal í Mýrasýslu hefir verið nærfeld innistaða á öllum fénaði síðan um miðjan nóvember, en víðast hvar annarstaðar í Borgarfirði hefir veturinn verið léttur og jarðbert. Á sumum jörðum í Álftaneshreppi og Borgarhreppi hefir lítið verið gefið. Í Hvammssveit í Dalasýslu er gjafatíminn orðinn langur 18-20 vikur. Þar er landið allt svellrunnið og klambrað. Á Skarðsströnd eru aftur nægir hagar. Mjög er og snjólétt og ísalítið í Hörðudal og Miðdölum. Í Strandasýslu er víðast hvar haglaust eða haglítið og gjafatíminn orðinn þar langur. Svipað er og að segja um flestar sveitir í Ísafjarðarsýslum. Þó hefir verið nokkur jörð öðru hvoru í Nauteyrarhreppi og Reykjarfjarðarhreppi. Lökust er þó og lengst innstaða búin að vera í Jökulfjörðum, Bolungarvík og Skálavík, þar er gjafatíminn orðinn að sagt er, einar 2426 vikur.
Apríl: Fremur óhagstæð tíð, einkum þegar á leið. Fremur þurrt víðast hvar nema hríðar norðaustanlands. Hiti var undir meðallagi.
Ólafur á Lambavatni um apríl: Allan þennan mánuð má heita að hafi verið sífelldir þurrir kuldanæðingar.
Gríðarlegur snjór norðaustan- og austanlands - snjódýpt mældist 53 cm í Staðarseli þann 27. og 28. og 48 cm á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði þann 27. Snjódýpt 28 cm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 17.
Bændur í uppsveitum Árnessýslu bera sig vel í frétt Morgunblaðsins þann 15.:
Úr uppsveitum Árnessýslu eru blaðinu sagðar þær fréttir, út af því, er áður hefir verið sagt hér í blaðinu í fregnum frá FB um harðindi þar eystra, að enginn heyskortur sé meðal bænda þar, þó haglítið hafi verið og innistöðu tími langur þá muni bændur búa almennt vel með hey, og nú sé komin góð jörð.
Morgunblaðið segir frá veðri þann 23.:
Norðan kuldastormur var hér í gær. En frá Ísafirði var símað að þar hefði verið besta og blíðasta veður, og hver fleyta farið á sjó.
Morgunblaðið birtir þann 29.fregn að norðan:
Akureyri 28. apríl. FB Ennþá er alsnjóa ofan í sjó hér um slóðir og algert jarðbann. Víða eru þrotin hjá bændum hey handa sauðfénaði og hrossum og horfir til stórvandræða ef veðráttan breytist ekki bráðlega til batnaðar. Afli er enn þá ágætur á Pollinum og út með Eyjafirði.
Maí: Óhagstæð tíð einkum síðari hlutann. Sólríkt syðra. Kalt og fremur þurrt.
Snjóaði í sjó á Vestfjörðum 26. og 27. - sömuleiðis í Fljótum og efri byggðum í Þingeyjarsýslum, á Raufarhöfn og Þorvaldsstöðum. Alhvítt var á Eiðum 25. og 26. Flekkótt í Papey 29. Þann 7. mældist snjódýpt á Stórhöfða 25 cm og 12 cm daginn eftir. Þann 28. var þar flekkótt jörð.
Morgunblaðið segir enn fréttir að norðan þann 8.:
Akureyri 7. maí. FB Harðindi eru hér ennþá, en þó heldur að mildast. Er heyleysi yfirvofandi á sumum bæjum í Fljótum og Ólafsfirði, en annarsstaðar hér í sýslu er búist við að allt komist vel af. Sömuleiðis er talið víst, að afkoman verði góð í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. En í sumum sveitum í Norður-Þingeyjar- og Norður-Múlasýslu eru sagðar vandræðafréttir af tíðarfarinu og útlit afarslæmt.
Þann 22.maí birtir Morgunblaðið fréttir frá Kirkjubæjarklaustri dagsettar 11.maí:
Síðustu daga hefir verið þýðvindi hér um slóðir og óðum að grænka. Nægar heybirgðir eru hér yfirleitt og fénaður í mjög góðu standi.
Morgunblaðið segir þann 13.:
Kuldatíð hefir verið hér síðan fyrir páska [20.apríl] þar til nú brugðið hefir til þíðviðra. Er klaki svo mikill í jörð ennþá, að ekki hefir verið hægt að pæla upp kálgarða eða gera önnur verk, sem vanalega hefir verið lokið á þessum tíma.
Og daginn eftir segir blaðið:
Halldór Vilhjálmsson skólastjóri á Hvanneyri, kom hingað til bæjarins í gær. Lætur hann illa yfir tíðarfarinu þar í Borgarfirði, sem vonlegt er, ekkert farið að slá í rót," sauðfé allt á gjöf enn og mikið frost á hverri nóttu. Minnst hefir verið fjórar gráður á lágmarksmæli nú um langan tíma. En heybirgir eru menn þar um allar sveitir.
Og þann 23. er bjartsýnishljóð í blaðinu:
Í gær var reglulegt vorveður, milt, kyrrt, en sólskinslaust, gróandi í loftinu. Túnblettirnir í bænum urðu líka algrænir, og stúlkurnar á götunum berhálsaðar, sem áttu ekki of fallega kraga. Þær voru líka með allra fallegasta móti á Austurstræti, og var það ekki fyrir tilverknað andlitsfarða eða fnjósks og eigi handaverk snyrtikvenna á hárgreiðslustofum - það var vorið.
En lakari voru fréttirnar í Morgunblaðinu að norðan þann 27.:
Úr Eyjafirði var símað í gær til Morgunblaðsins, frá Krossum, að mjög illvígur harðindakafli stæði nú yfir fyrir norðan. Var þá, er símað var, norðan hríð með frosti. Og austangarður úti fyrir landi. Mjög miklum snjó hafði þó ekki kyngt niður, en kuldinn var sagður hættulegastur, því nú stendur yfir sauðburður. Heybirgðir manna eru sagðar gengnar mjög til þurrðar. Mest kveður þó að heyleysi í Ólafsfirði og Fljótum, og svo aftur þegar dregur austur fyrir Eyjafjörð. Einn hreppurinn í útsveitum Eyjafjarðar, sem sagður var stálsleginn með hey er Svarfaðardalur. Hafa hreppsmenn fargað ákaflega miklu af heyi. Þau orð voru látin falla, að ef ekki brigði til hins betra mjög bráðlega, væri voði framundan. En útlitið væri hið ískyggilegasta.
Og úr Skagafirði í Morgunblaðinu þann 28.:
Eftir símtali við Sauðárkrók í gær: Hríðarveður var þar sunnudaginn [25.maí] og mánudag og alsnjóa niður í sjó í gærmorgun. en var þó heldur að rofa til.
Júní: Tíð talin fremur óhagstæð. Mjög sólríkt suðvestanlands. Hiti var í tæpu meðallagi.
Ólafur á Lambavatni segir: Veðráttan í vor hefir verið svo þurr og köld að enginn man annað eins. Alhvítt á Grænavatni 15., 16. og 17. Páll Jónsson athugunarmaður þar segir: Kominn mikill snjór svo lambfé stóð víða í sveltu og varð slighætt. Gerði þetta áfelli mikið tjón víða um sýsluna, einna minnst í Mývatnssveit. Alhvítt varð á Raufarhöfn þann 29. og nær því í sjó á Þorvaldsstöðum.
Fréttir af veðurfarskenningum birtust í blöðum - líka 1924. Morgunblaðið segir þann 7.júní:
Marka má hafíslög norður af Íslandi á tíðarfarinu í Noregi árið áður?
Formaður fyrir veðurfræðistöð Tromsö, Krogness, hefir nýlega bent á að hann þykist geta gert sér grein fyrir því, hvort mikils íss sé að vænta við Austurströnd Grænlands og hér norður af Íslandi ár hvert. Hann þykist hafa komist að raun um, að sú regla gildi með eigi verulegum undantekningum, að þegar vorar vel í Noregi þá sé mikið um hafís kringum Svalbarð, en það sé samfara litlum hafís vestur undir Grænlandi. Byggir hann þessar ályktanir sínar á veðurfarinu síðustu 25 árin. Afbragstíð var í Noregi í fyrravor, og eftir þessari kenningu hans á því að vera mikill ís við Svalbarð, en lítill hér norðurundan í vor og sumar. Og hve mikið sem hæft er í þessari kenningu hans, þá hafa selfangarar, sem komið hafa að Norðurlandi í vor, sagt mjög lítinn ís norður í höfum, enda það eitt einkennilegt, að engar ísfregnir heyrðust, þrátt fyrir þá afspyrnu norðanátt, sem hér var lengi.
Vísir segir þann 13.júní: Fyrsti túnblettur var sleginn hér í bænum í gær, í garði Sveins Jónssonar, kaupmanns, bak við húsið nr.8 við Kirkjustræti. Grasið virtist fullsprottið og var farið að gulna við rótina.
Morgunblaðið birtir fréttir utan af landi.
[12.júní] Kiðjabergi 11. júní. FB Óvenjumiklir hitar hafa verið hér undanfarna daga og fer gróðri mikið fram allstaðar þar sem votlent er. En á þurrlendi hamlar vætuleysið tilfinnanlega öllum gróðri.
[17.júní] Af Rangárvöllum, 9.júní. FB Þrátt fyrir snjóleysi hefir veturinn og vorið orðið með því gjafaþyngsta sem hér gerist, nema á stöku bæjum, t.d. Næfurholti við Heklu var aðeins gefið 4 sinnum fullorðnu fé og á Reynifelli 10 sinnum. Skepnuhöld eru eigi að síður góð og sauðburður gengur ágætlega, þó tæplega geti talist sauðgróður ennþá. Ein eða tvær skúrir hafa komið hér í langan tíma og frost hefir verið á hverri nóttu fram að þessu. Vorvinna gengur erfiðlega vegna þurrksins og klakans. Í sumum görðum eru aðeins 4-5 þumlungar niður að klaka. Sandbyljir voru mjög miklir hér í vor. Á Reyðarvatni urðu sandskaflarnir á 4. alin á þykkt og tóku upp á glugga, og sömuleiðis Gunnarsholti. Verður óhjákvæmilegt að flytja þessa bæi báða, því ólífvænt er þar bæði fyrir menn og skepnur, einkum þegar hvasst er.
[19.júní] Vík í Mýrdal, miðvikudag [18.] Tíðin köld og gróður lítill, vantar regn og meiri hlýindi. Sauðburður hefir gengið vel og afkoma fénaðar allstaðar góð.
Hænir á Seyðisfirði segir 5.júlí:
Ökklasnjór varð á götunum á Siglufirði á sunnudagskvöldið var [29.júní]. Og í Eyjafirði gránaði niður undir neðstu bæi.
Júlí: Lengst af hæg tíð og hagstæð syðra, síðri norðaustanlands. Hiti var nærri meðallagi.
Vísir birtir þann 8. bréf dagsett þann 6. fyrir austan fjall:
Veðrátta var lengi köld í vor, og sífelldir þurrkar fram að þessu, að kalla má. Nú hefir verið afbragðs veðrafar til útivistar, sólfar mikið og veður hin fegurstu, en ekki að sama skapi gagnsæl, því að grasbrestur er einhver hinn mesti, sem lengi hefir verið hér um slóðir, bæði á túnum og útengi. Sláttur hlýtur því að byrja miklum mun siðar en vant er. Safamýri er graslaus og svo þurr, að hægt er að velta sér i henni allri án þess að vökna, að því er kunnugur maður segir, og er það nýlunda. Bestur stofn á grasi mun vera í Oddaflóðum á Rangárvöllum, en þangað er mjög torsótt til heyfanga og varla fært nema jötnum og múlösnum". eins og Gröndal segir í sögunni af Heljarslóðarorrustu. Síðustu dagana hafa farið allmiklir skúrir um sumar sveitir, einkum hinar efri. Fljótshlíð, Land, efri Rangárvöllu og Hreppa, en heitt skin annað kastíð; mætti því vera, að nú tæki að rætast betur úr um grasvöxtinn, en á horfðist.
Fréttir Morgunblaðsins um tíð úti á landi:
[6.júlí] Seyðisfirði 4.júlí. FB Vorið hefir verið hið erfiðasta til sveita. Er veðráttan óvenjuköld og mikill grasbrestur fyrirsjáanlegur.
[11.júlí] Undan Eyjafjöllum var símað í gær að þar hafi verið ofsarok mikið á austan og gert ýmsar skemmdir, einkum á kálgörðum.
[12.júlí] Þingeyri 11.júlí FB Mjög illt útlit með grassprettu hér. Tún eru afarslæm en útengi nokkru skárri. Bithagi er orðinn sæmilegur.
[18.júlí] Akureyri 16.júlí FB Túnasláttur er að byrja hér. Grasspretta er orðin í meðallagi.
Morgunblaðið birtir þann 16. tilkynningu frá Veðurstofunni:
Frá Veðurstofunni: Frá deginum í dag ætlar veðurstofan til reynslu að auka veðurspárnar, sem að þessu hafa aðeins snert vindátt og veðurhæð, og segja einnig fyrir um, hver líkindi séu fyrir úrkomu. En lýsing á veðurlaginu verður að miklu leyti felld niður að morgninum.
Þann 19. segir Morgunblaðið frá því að sláttur sé hafinn víðast hvar austan fjalls og sumstaðar á Norðurlandi.
Ágúst: Góð tíð syðra, en nokkuð úrkomusamt og óvenju þungbúið veður nyrðra. Hiti nærri meðallagi.
Vísir birti þann 6. frétt frá Akureyri sem dagsett er þann 5.:
Hér hefir verið hrakviðri undanfarna daga og í nótt sem leið snjóaði í fjöll.
Morgunblaðið segir þann 7.ágúst:
Morgunblaðið átti samtal við Siglufjörð í gær. Er þar kuldi mikill og alhvítt niður að sjó. Hefir engin síld aflast þessa viku, skipin legið inni, en bjuggust við að fara út á veiðar í gærkvöldi.
Morgunblaðið birti þann 20. fréttapistil frá Vestfjörðum:
Tíðarfar hefir verið það sem af er þessu ári hið ákjósanlegasta eins og annars staðar á landinu. Sífelldir þurrkar hafa verið þar síðan í vor snemma, og hefir þetta haft hina mestu þýðing fyrir fiskverkun. En hún er rekin í stórum stíl á Vestfjörðum. Mun aldrei hafa verið þurrkað eins mikið þar á sama tíma. Aftur á móti hafa þessir þurrkar eyðilagt grassprettu, og hafa því verið bændum þungir í skauti. Tún eru afarilla sprottin víðast - langt fyrir neðan meðallag. Af túni einu, sem fengust af í fyrra 200 hestar, fengust nú hundrað; af öðrum bletti, sem gaf 60 hesta í fyrra, fæst nú um 15-20. Og þessu líkt er það víðar.
Og þann 26.kom pistill úr Mýrdal í Morgunblaðinu:
Mýrdal í gær. (Eftir símtali) Heyskapur hefir gengið mjög vel síðustu viku, og eru flestir að losast úr túnum, sumir lausir. Grasvöxtur varð góður, mýrar ágætar, einkum Ósengið. Í norðanstorminum á dögunum fauk hey í Austur-Mýrdal og varð af nokkur skaði.
Allsnarpur jarðskjálftakippur fannst í Reykjavík að kvöldi 27.
September: Þokkaleg tíð syðra, en síðri fyrir norðan. Uppskera úr görðum allgóð. Kalt.
Ólafur á Lambavatni segir þann 26.september: Aftakaveður, ekki komið hér annað eins veður fleiri ár á þíða jörð og þann 29.: Sortabylur allan daginn og nóttina, annað eins veður hefir ekki komið hér í mörg ár um þennan tíma árs. Má búast við stór fjártjóni. Snjódýpt 45 cm á Suðureyri í Súgandafirði þann 29. Föl var á jörðu á bæði Eiðum og Nefbjarnarstöðum þann 8.
Vísir birtir þann 6. eftirfarandi frétt af borgarstjórnarfundi:
Borgarstjóri gat þess, að rafmagnsstjórn hefði ákveðið að setja upp regnmæli á Kolviðarhóli, því nauðsynlegt væri, vegna rafmagnsstöðvarinnar, að vita um úrkomu á þessu svæði, en veðurathugunarstöðin gæti engar upplýsingar gefið í þessu efni, og væri ekki fáanleg til að setja upp regnmæli á þessum stað.
Ekki er vitað til þess að mælingar hafi verið gerðar á Kolviðarhóli á þessum árum, en þremur árum síðar var farið að mæla úrkomu í Hveradölum og stóðu þær mælingar fram til ársins 1934. Á stríðsárunum var síðan mælt á Kolviðarhóli skamma hríð.
Talsverðir jarðskjálftar gengu á Reykjanesi, einkum þann 4., 5. og 6. Morgunblaðið segir frá tjóni í Krísuvík í pistli þann 11.:
Marteinn Þorbjörnsson, bóndi í Krísuvík, kom á skrifstofu Morgunblaðsins og bað þess getið, að ómögulegt væri að hýsa menn í bæjarhúsunum þar, því húsin væru öll skekkt og rambóneruð eftir jarðskjálftana, enda ekki hættulaust að hafast þar við, því enn sagði hann vera kippi og hræringar daglega þar syðra. Þeir, sem kynnu að fara þangað suður eftir, en haga þannig ferðum sínum, að þeir verða nætursakir þar syðra, verða því að hafa með sér tjald. Í gær sáust reykjar- eða gufumekkir héðan úr bænum á þeim slóðum þar syðra. Virtist annar reykurinn vera hérna megin við Sveifluháls, nálægt Trölladyngju, en hinn sunnanvert við hálsinn, í stefnu á Krísuvíkurhverina, sunnanvert við Kleifarvatn. Væntanlega getur Morgunblaðið skýrt nánar frá þessum fyrirbrigðum innan skamms.
Sú lýsing birtist í Morgunblaðinu þann 10. - en verður ekki rakin hér. Þar kom fram að aukið afl hafi færst í leirhveri á svæðinu og langar sprungur myndast. Skriður höfðu og fallið úr fjöllum. Tíminn segir þann 13.:
Við jarðskjálftann myndaðist í Krísuvík nýr leirhver, sem gýs leirstroku 3-4 faðma í loft upp fjórðu hverja sekúndu. Hveraskálin er um 30 ferfaðmar.
Morgunblaðið segir frá því þann 3. september að norskt selveiðiskip hafi aðfaranótt 2. slitnað upp frá austurgarði hafnarinnar í Reykjavík í roki en engin spell orðið.
Daginn eftir segir blaðið frá því að brugðið sé til þurrviðra og hlýinda fyrir norðan. Ekki stóð það þó lengi því þann 9. segir blaðið:
Akureyri 8.september FB Tíðarfarið hefir aftur breyst til hins verra, og féll snjór í nótt niður undir bæ. Reytingur er af síld í reknet.
Morgunblaðið segir fréttir af tíð og heyskap:
[14.september] Austan úr Mýrdal komu hingað í fyrrakvöld þeir Ólafur Halldórsson verslunarmaður í Vík og Ólafur Kjartansson kennari. Sögðu þeir mikið hey úti í Mýrdal þegar þeir fóru, því þurrklaust hafði verið frá því um höfuðdag. Einnig slæmt austan Mýrdalssands. En nú er þurrkur þar eystra, og lagast þá fyrir mönnum. Undir Eyjafjöllum og í útsveitum hafa þurrkar verið góðir, og hey náðust að jafnaði undan ljánum. Nokkur skaði varð undir Eyjafjöllum vegna heyfoks.
[20.september] Akureyri, 19.september FB Hér er mesta kuldatíð og mjög orðið vetrarlegt.
[21.] Kuldatíð hefir verið síðustu daga, og í Esjuna snjóaði í fyrrinótt.
Þann 28. segir Morgunblaðið frá skipströndum á Húsavík:
Akureyri 27. sept. FB Tvö mótorskip héðan Báruna" og Hvítanes" rak í nótt í land á Húsavík í norðanroki. Hvítanes" brotnaði svo mikið að vonlaust er um að skipinu verði bjargað, en Báran" er lítið skemmd. Hvítanes" var vátryggt fyrir 18 þúsund kr. Skipin voru á kolaveiðum. Mannskaði varð enginn.
Og þann 30.birtir blaðið frekari fréttir af hretinu:
Frá Sauðárkróki. Mesta hryssings- og kuldatíð nú undanfarna daga, þó ekki snjór í lágsveitum. Hey ekki úti að miklum mun í Skagafirði. Heyskapur yfirleitt í löku meðallagi, en ekki afleitur. Þó búist við mikilli fjártöku í haust, því óvenjulega mikið var sett þar á í fyrra. Afli hefir verið með meira móti þar á firðinum í allt sumar, en gæftir stopular. Göngum hefir verið frestað nokkuð þar nyrðra, en því miður ekki allstaðar jafnlengi og sumstaðar (í Húnavatnssýslu) alls ekki, svo búist er við slæmum heimtum,- ekki síst þar eð óveður hafa mikil verið á fjöllunum.
Frá Húsavík. Tíðin enn verri í Þingeyjarsýslu en í Skagafirði, og mikil hey úti ennþá, sumstaðar hartnær helmingur útheyskapar. Engir þurrkar þar síðan um höfuðdag. Snjólaust var þó í lágsveitum þar í gær, en hryssingsveður og aftaka brim. Ef heyin nást ekki inn sem úti eru, horfir víða til mestu vandræða.
Frá Siglufirði. Síldarafli er enn þar, er á sjó gefur, en nú er mikið brim og hefir verið ófært á sjó undanfarna daga. ... Í Fljótum er heyskaparafkoman sæmileg, hey hirt að mestu leyti.
Stórhríðarbylur var í gær á Vestfjörðum. Var símað frá Dýrafirði að þar sæist ekki milli húsa.
[Reykjavík] Vetrarlegt hefir verið hér undanfarna daga hefir jörð verið alhvít og fjöll eru nú hvít niður undir bæi. [Veðurstofan segir að alhvítt hafi verið 28. og 29. - en snjódýpt aðeins 1 cm].
Vísir segir þann 26. frá óvenjulegri stöðu Þingvallavatns:
Sakir mikilla þurrka og langvinnra, hefir lækkað svo í Þingvallavatni, að nema mun mörgum fetum á yfirborði vatnsins. Niður af Kárastöðum, þar sem er aðalbátalendingin þaðan, er nú tæplega lendandi fyrir grynningum. Vestur með Kárastaðaásnum eru uppsprettulindir, sem sjaldan eða aldrei hafa þornað í manna minnum, en nú er þar allt veltiþurrt og verður að sækja neysluvatn annað hvort austur í Öxará eða vestur í Móakotsá, út undir Heiðabæ.
Í illviðrinu í lok september varð einnig tjón á sjó. Morgunblaðið segir frá þann 5. í frétt frá Ísafirði þann 4.:
Mótorkútter Rask, eign Jóhanns J.. Eyfirðings & Co, hefir vantað í heila viku og er talið víst, að skipið hafi farist, sennilega í ofviðrinu á laugardagsnóttina var [27.] Skipshöfnin var 15 menn alls.
Og þann 9. október:
Aftakaveður hafa margir togararnir fengið undanfarið, þeir sem voru á veiðum fyrir Vesturlandi. Urðu margir þeirra að hleypa frá veiðum inn á hafnir, Svo mikið veður gerði, að t.d. Víðir missti út um 30 tunnur af lifur, og á Draupnir rak ís á einni svipstundu, svo að hann varð að hætta veiðum samstundis og hleypa hingað suður. Þetta norðanveður hefir mjög hamlað veiðum togaranna upp á síðkastið.
Tíminn segir líka frá óhappi á sjó í sama veðri í pistli þann 11.október:
Vélbáturinn Elín úr Hafnarfirði var á leið suður frá Siglufirði um síðustu mánaðamót. Hreppti stórviðri við Horn, tók út einn mann.
Október: Hagstæð tíð lengst af. Nokkuð úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi. Hiti nærri meðallagi.
Morgunblaðið segir frá góðri tíð norðanlands í pistli þann 28.október:
Öndvegistíð er nú á Norðurlandi. Í sumum sveitum nyrðra, er sagt, að heyskapur hafi orðið sæmilegur. þó óþurrkarnir væru mjög langvarandi í sumar, þá voru kuldarnir svo miklir, að heyin hröktust minna en menn áttu von á.
Nóvember: Nokkuð skakviðrasamt, en hlýtt lengst af. Sums staðar nokkur snjór síðari hlutann.
Mikil móða í lofti suma daga austanlands og jafnvel öskufall tengt eldsumbrotum í Öskju.
Morgunblaðið segir frá símslitum aðfaranótt 1.nóvember - trúlega vegna ísingar:
Símslit urðu í fyrrinótt á tveim stöðum. Brotnuðu 12 símastaurar á leiðinni frá Hólmum niður að sjó, og er því sambandslaust við Vestmannaeyjar. Einnig bilaði línan eitthvað á leiðinni til Hallgeirseyrar og Miðeyjar.
Og blaðið birtir stutta pistla um tíð:
[5.] Gæðatíð er sögð hafa verið undanfarið á Norðurlandi. Er t.d. snjólaust enn að heita má í Eyjafirði. En hér austur í sveitum kvað vera kominn óvenjulega mikill snjór um þetta leyti vetrar.
[11.] Afburða-góð tíð er nú um land allt, og hefir verið all-lengi. Er upp undir 10 stiga hiti á degi hverjum sumstaðar á landinu. Í sveitum norðanlands er nú víða unnið að jarðabótum, og er það mjög sjaldgæft á þessum tíma árs.
Þann 13. rak saltskip upp í Vestmannaeyjum. Morgunblaðið segir frá:
Vestmannaeyjum 14. nóv. FB Austanstormur og foráttubrim var hér í Eyjum í allan gærdag. Saltskipið Sonja", á að giska 1900 tonn að stærð, lá hér á innri höfninni. Rak það á land upp og gerði talsverðan usla í mótorbátaflotanum, slitnuðu margir þeirra upp og einn sökk. Skemmdust bátarnir furðu lítið. Skipið stendur á góðum stað og er álit manna, að það muni nást út, hafi það ekki laskast að mun, en enn er mönnum ókunnugt um hve miklar skemmdir er að ræða.
Vísir segir þann 26.: Ágætt skautasvell er nú á Tjörninni og má búast við þar verði fjölmennt i kvöld, ef veðrið verður gott.
Desember: Hlý og nokkuð stormasöm tíð.
Morgunblaðið segir úr Svarfaðardal þann 6.: Úr Svarfaðardal var símað í gær, að þar væri nú alauð jörð, og hefði verið ágætasta tíð undanfarna viku.
Morgunblaðið segir:
[10.] Illveður og stormar hamla nú mjög veiðum togaranna, liggur fjöldi þeirra inni á Vestfjörðum, aflalitlir, þeir sumir eru þó farnir héðan fyrir nokkru.
[21.] Akureyri 20.desember. FB Hér er nú veðurblíða, en alsnjóa.
Á annan í jólum gerði mikið veður. Veðrið tók sig síðan upp þann 29. og 30. en snerist á áttinni, úr austri í norðaustur. Gríðardjúp lægð var fyrir suðvestan land, þrýstingur í lægðarmiðju jafnvel undir 930 hPa (og hugsanlega enn lægri) að kvöldi þess 26. og aðfaranótt 27. Þann 29. kom önnur lægð úr suðri, ekki eins djúp og fór heldur austar en sú fyrri. Veður samfara síðari lægðinni varð verst á Vestfjörðum, fárviðri var talið á Höllustöðum í Reykhólasveit aðfaranótt gamlársdags. Líklegt er að sjávargangsskaðarnir fyrir vestan, norðan og austan hafi orðið með fyrri lægðinni, þeirri dýpri (þá var líka stórstreymt), en þó rétt hugsanlegt að þeir hafi norðanlands og á Vestfjörðum orðið með síðari lægðinni.
Morgunblaðið segir frá þann 28., 30. og 31.:
[28.] Aftaka landssunnanveður gerði hér að kvöldi annars dags jóla, með steypiregni og éljum á víxl. Hafði um daginn margt fólk farið héðan úr bænum suður að Vífilsstöðum til að hitta vini og kunningja, er þar dvelja. En svo mikið var veðrið, að milli 30 og 20 manns varð að gista á hælinu yfir nóttina. Treystust ekki bifreiðar að sækja það um kvöldið.
[30.] Vatnselgur mikill hefir verið hér í bænum síðustu daga. Og hefir vatn mikið komið upp í kjöllurum sumra húsa í bænum, svo að véldæla brunaliðsins hefir verið fengin til að dæla vatninu úr einstaka kjallara.
Skemmdir á fjárhúsum. Aftakaveður gerði upp í Borgarfirði, eins og hér, á annan í jólum. Urðu skemmdir á fjárhúsum í Haukatungu fauk þak af þeim öllum, og skemmdust einnig veggir nokkuð. Átti bóndinn í Haukatungu um 200 fjár í þaklausum húsum daginn eftir. Hefir hann nú fengið efni, járn og tré, og smiði frá Borganesi, til þess að bæta þetta. Hefir bóndinn orðið fyrir allmiklu tjóni.
[31.] Símslit hafa orðið allvíða í veðraham þeim sem verið hefir upp á siðkastið. Var í gær ekki hægt að ná talsambandi norður um lengra en til Borðeyrar. En ritsímasamband náðist alla leið til Seyðisfjarðar, en lélegt þó. Til Ísafjarðar var og sambandslaust; náðist ekki lengra en til Ögurs. Er síminn mjög kubbaður fyrir norðan, milli Blönduóss og Sauðárkróks, en einkum milli Sauðárkróks og Akureyrar. En enga menn var hægt að senda til viðgerða í gær, bylur var á Norðurlandi.
Í Kolbeinsstaðahreppi Hnappadalssýslu fuku hey á 3 bæjum í ofveðrinu 2. jóladag, á Kolbeinsstöðum, Tröð og Syðstu-Görðum. Bóndinn á Kolbeinsstöðum, Björn Kristjánsson, missti þriðjung allra heyja sinna. Í blaðinu í gær var skakkt sagt frá; Haukatunga, þar sem þökin fuku á í fjárhúsunum, var talin vera í Borgarfirði, en hún er í Kolbeinsstaðahreppi.
Hænir segir frá veðrinu annan jóladag í pistli þann 3.janúar 1925:
Ofsaflæði og slagveðursrigning var hér kvöldið annan í jólum og aðfaranótt hins þriðja fram undir morgun. Gekk sjór svo hátt á land, að langt er annars eins að minnast. Urðu skemmdir allmiklar á bryggjum hér norðan megin fjarðarins. Í bryggjuna framundan gömlu Framtíðinni og Liverpoolbryggjuna brotnuðu stór skörð og bryggja Hermanns Þorsteinssonar sópaðist burt með öllu. Tveir stórir vélbátar, er stóðu stafnrétt í fjörunni, komust á flot og kastaði flóðbylgjan þeim flötum á hliðarnar. Einnig brotnaði töluvert skarð í Vestdalseyrarbryggju og þar brotnuðu 2 smábátar.
Morgunblaðið segir 1.janúar 1925:
Jarðlítið er sagt vera austur í sveitum nú. Var símað frá Kiðjabergi í gær, að snjóað hefði svo undanförnu að fé hefði verið tekið á gjöf. Flóðbylgju mikla gerði á Ísafirði fyrir stuttu. Gekk sjór upp í hús og skemmdi m. a. salt í geymsluhúsum. [Ekki ljóst í hvoru veðrinu þetta var].
Og þann 6.janúar segir blaðið:
Í Ólafsfirði var sjávargangur mikill fyrir síðustu helgi og gróf uppsátur undan bátum svo þeir féllu. Fólk varð að flýja úr húsum þeim sem næst liggja sjónum. Verulegir skaðar urðu ekki. [Ekki ljóst hvaða dag sjávarflóðið varð].
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður ársins 1924. Að venju má finna ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 16
- Sl. sólarhring: 274
- Sl. viku: 2395
- Frá upphafi: 2434837
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 2122
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.