Hæsti hiti ársins á athugunartíma

Sú ábending kom fram í spurningatíma á fjasbókarsíðu hungurdiska að hæsti hiti ársins í Reykjavík til þessa á hefðbundnum athugunartíma væri ekki nema 12,7 stig (þó hámarkið sé 14,3 stig) - og að sú ágæta mæling væri frá því í apríl. Þetta er auðvitað óvenjulegt - og reyndar það lægsta sem sést hefur fyrri hluta sumars (árs) frá því að farið var að athuga 8 sinnum á sólarhring í Reykjavík 1941. En þrjú dæmi eru um að 13,1 stig séu hámark á athugunartíma fyrri hluta árs (1961, 1977 og 1978).

Þetta er að sjálfsögðu nokkuð spennandi staða þannig að við skulum athuga við hvaða tölur er verið að keppa afgang ársins. Hver er lægsti hæsti hiti á athugunartíma árs í Reykjavík frá 1941? 

Auðvelt er að svara því - 15,4 stig og árið var 1973. Hámarkshiti það ár mældist 15,6 stig.

Fram kom í pistli hungurdiska fyrir nokkrum dögum að hámarkshiti í Reykjavík fyrstu sex mánuði ársins hefði sex sinnum verið lægri heldur en nú frá því að samfelldar hámarksmælingar byrjuðu í borginni 1920. Það hefur einu sinni gerst að hámarkshiti júlímánaðar í borginni hefur verið lægri heldur en 14,3 stigin sem enn eru hámark ársins 2018. Það var 1983, þegar hámarkshiti í júlí var 13,8 stig. 

Á þessu tímabili hefur hámarkshiti ársins í Reykjavík aðeins einu sinni verið lægri en 15 stig. Það var 1921 þegar hiti í Reykjavík fór aldrei upp fyrir 14,7 stig. Okkur vantar nú 0,4 stig til að jafna þá tölu. Hvenær skyldi sé dagur birtast úr djúpinu?

Í framhaldinu kom upp spurning um hæsta sólarhringslágmarkshita ársins til þessa í Reykjavík. Hann er ekki nema 8,8 stig. Staðan var svipuð 1978 - en þá mældist lágmarkshiti aðfaranótt 5.júlí 9,1 stig. Nú keppum við við 1931. Þá fór lágmarkshitinn fyrst upp fyrir 8,8 stig þann 8.júlí og 1922 ekki fyrr en þann 16. 

Hæsti lágmarkshiti ársins hefur alltaf verið ofan við 10 stig síðan samfelldar mælingar á honum byrjuðu í Reykjavík 1920, en lægstur 10,1 stig 1967. Hann var 10,2 stig 1922, 1979 og 1983. Dæmi eru um lægri tölur frá því á 19.öld. 

Fremur sjaldgæft er að hæsta lágmark ársins í Reykjavík komi snemma sumars. Það hefur gerst 13 sinnum síðustu 98 árin að hæsta lágmarki hefur verið náð fyrir 6.júlí - en 85 sinnum síðar á sumrinu. Einu sinni kom hæsta lágmarkið í maí, það var 1988, aðeins þrisvar hefur það lent í júní, en 46 sinnum í júlí, 41 sinni í ágúst, 6 sinnum í september og einu sinni í október (1959). Nokkrum sinnum hefur það orðið jafnhátt fleiri en einn dag - hér er fyrsta skiptið talið en hin ekki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 582
  • Sl. sólarhring: 737
  • Sl. viku: 2377
  • Frá upphafi: 2413397

Annað

  • Innlit í dag: 546
  • Innlit sl. viku: 2146
  • Gestir í dag: 539
  • IP-tölur í dag: 526

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband