Djúp lægð á norðurslóðum

Nú er óvenjudjúp lægð á ferð á norðurslóðum - á morgun við Franz-Jósefsland. Þá á miðjuþrýstingur að vera neðan við 970 hPa, jafnvel neðan við 965 hPa. Því hefur í alvöru verið haldið fram að sumarlægðir hafi dýpkað í norðurhöfum á síðustu árum vegna (hnattrænnar) hlýnunar og víst er að við höfum fengið að sjá furðumargar slíkar á undanförnum árum - fleiri en áður var. Eitthvað munu þó skoðanir skiptar um málið - þrátt fyrir allt voru athuganir á árum áður mjög strjálar á þessum slóðum og hugsanlegt að ámóta tíðnihámörk leynist í fortíðinni. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að kveða úr um það hvað rétt er í þeim efnum - en finnst sjálfum ástand undanfarinna ára eitthvað óvenjulegt. 

w-blogg060618a

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum á norðurslóðum á morgun, fimmtudag 7.júní - eins og líkan bandarísku veðurstofunnar segir fyrir um. Evrópureiknimiðstöðin er efnislega alveg sammála nema hvað þar er lægðin lítillega dýpri en hér er sýnt. Lægðin er á leið norður og á að fara yfir norðurskautið á föstudagskvöld - en hefur þá grynnst nokkuð og vafið um sig köldu lofti. 

w-blogg060618b

Lægðin er líka mjög öflug í háloftunum, minna en 5100 metrar upp í 500 hPa-flötinn í lægðarmiðju. Litirnir sýna þykktina. Ekki fer mikið fyrir eiginlegum vetri á þessu korti - en það er samt svo að mikill kuldi fylgir bláa litnum hvar sem hann lætur sjá sig. Mikið kuldakast er þannig nyrst í Noregi, hálka á fjallvegum og krapi neðar. 

Háloftalægðin hreyfist hratt yfir norðurskautið og fer síðan í einhverja slaufu norður af Kanada. Mikil óvissa er síðan með framtíð hennar. Evrópureiknimiðstöðin hefur undanfarna daga ýmist lokað hana af með miklum og hlýjum hæðarhrygg sem æða á norður Kanada eftir helgina - eða sleppt henni lausri til suðausturs yfir Grænland. Hvort gerist - eða eitthvað allt annað kemur varla í ljós fyrr en eftir 4 til 5 daga. Þangað til sitjum við væntanlega í aðgerðalitlu veðri - einhver tilbrigði þó frá degi til dags. Líklega fer hægt kólnandi þegar á heildina er litið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 441
  • Sl. sólarhring: 455
  • Sl. viku: 2120
  • Frá upphafi: 2467794

Annað

  • Innlit í dag: 408
  • Innlit sl. viku: 1945
  • Gestir í dag: 384
  • IP-tölur í dag: 375

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband